Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Vöruskipti; Er það málið?

Kannski er hægt að lifa án peninga. 

Ég hef t.d. lesið um manninn með milljóndollaraseðilinn, hann gat það.

Forstjórar stórs og forríks fyrirtækis sem ég vann fyrir, fyrir margt löngu höfðu lægri laun en skúran en höfðu tvo bíla hvor og allir reikningar voru borgaðir af firmanu.  Lyftu ekki upp buddu þeir tveir.

Samt held ég að það sé ekki þetta sem átt er við hérna í fréttinni.

En ég er með HU-mynd (Jenný Una notar þetta mikið).

Hafið þið heyrt um fólkið sem lifir á ljósinu?

Nehei, voðalega vitið þið lítið.

Ég veit um fólk í Austurríki sem borðar aldrei og drekkur aldrei.

Þekki mann sem reyndi að taka þátt en hann var ekki nógu heilagur (enda skíthæll) og nærri dó.

Kannski er þetta eitthvað sem ég ætti að snúa mér að.

Lifa á orku sólarinnar eða tunglsins, það er í alvörunni fólk sem sveltir sig á bæði mat og drykk eins og að drekka vatn (flott orðað hjá mér úje).

(Ég skrifaði eftirfarandi hér á bloggið um daginn sem sýnir enn frekar hvað ég er misheppnuð með samlíkingar.  "Þeir sitja meðan stætt er".  Ég veit það, þarf að leita mér lækninga).

En...

Að alvöru máls.  Ég efast um að hægt væri að fara í vöruskipti á Íslandi og við þá hætt að nota handónýta krónuna.

Við erum svo góðu vön.

Maður þarf t.d. að redda eftirfarandi fyrir sunnudagssteikina.

Lambalæri, kartöflum, rósakáli, efni í sósu og salati.

Hverju gæti maður skipt út fyrir það?

Eyrnapinnum kannski?  Húsgagnaolíu (á tvær flöskur) eða Champellssúpum sem ég hef viðað að mér eins og ég sé á leið í meiriháttar einangrun?

Veit ekkert um svona.  En ég er þó svo gömul að ég man alveg þegar eggin voru skömmtuð fyrir jólin.  Það situr enn í mér.  Egg eru mér heilög vara.

Súmí.


mbl.is Er hægt að lifa án peninga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1.999.865!

Halló, ég er að ná tveggja milljóna heimsóknartölunni og það er nærri farið framhjá mér.

Hver verður gestur nr. 2.000.000?

Verðlaun?

Ekki að ræða það bara ánægjan af að vera gestur á minni síðu.

Komasho segja Nennu sinni númer hvað þið eruð.


Þolmörkin sprungin

Nú ætla Japanir að leyfa innflutning á íslensku hvalkjöti.

Takk kærlega eða þannig.

En af því íslensk stjórnvöld virðast hafa það efst á sínum gátlista að gera okkur að óvinsælustu þjóð í heimi þá förum endilega í að veiða hvalkjöt.  Bara drífum í því.  Mig langar til að sjá hversu langt niður á vinsældarlistanum hægt er að komast.

En frá hvaladrápi og að allt öðru.

Ég verð ég að taka ofan og hneigja mig djúpt fyrir Agli Helga og Silfrinu hans. 

Allt þetta stórmerkilega fólk sem hann kemur með á færibandi.  Fólk sem talar tæpitungulaust og veit um hvað það er að fjalla.  Það er talað á mannamáli og ég er svei mér þá farin að skilja eitt og annað sem áður hefur verið mér hulið.  Eins og vílingar og dílingar með hlutabréf.

Ég nota oft stór orð þegar mér misbýður eitthvað en núna er svo komið að mér dettur ekkert lýsingarorð í hug sem lýsir tilfinningum mínum eftir nýjasta Silfrið.

Spillingin sem er að koma upp á yfirborðið er svo ótrúleg og að mig skortir hreinlega orð.

Bankarnir, sjávarútvegurinn, lífeyrissjóðirnir, verkalýðsforystan, ríkisstjórnin, krosstengslin í pólitík versus fjármálageiranum, hvar sem borið er niður.

Og af því ég þjáist af orðaskorti þá fer ég á lagerinn minn og tek eitt gatslitið og margnotað. 

AFSAKIÐ Á MEÐAN ÉG ÆLI LIFUR OG LUNGUM!

Gætum við fjandinn hafi það sagt nei takk við björgunarleiðangri ríkisstjórnarinnar og fengið að kjósa á næsta ári, mér er í raun sama hvenær? 

Ég treysti ekki ríkisstjórninni, ég treysti afar fáum stjórnmálamönnum, ég treysti ekki neinum af þeim sem sátu í gróðærisboðinu og sitja enn við veisluborðið.

Þetta fólk verður að taka út sína timburmenn.

Þetta gengur ekki lengur. 

Kapíss?

Hér er Silfrið, ætti að vera skylduáhorf.


mbl.is Grænt ljós á íslenskt hvalkjöt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í alvörunni amma

 jólakrans

Ég er kuldaskræfa.  Segi og skrifa.

Meira að segja lét ég mig hafa það að sitja heima hérna á árum áður þegar kveikt var á jólatrénu á Austurvelli.  Ég sem er svo mikill sökker fyrir jólatrjám.

En manneskjunni er ekki eðlilegt að vera kalt.   Það stríðir gegn öllum lögmálum, ég sver það.

Ég held hins vegar að Jenný Una fari með foreldrum sínum og bróður á þessa uppákomu í dag.

Annars er fyrsti í aðventu og ég á bara eftir að skreyta jólatréð - ég er að fíflast með ykkur.

Ég ákvað í morgun þegar ég var vakin af lítilli stúlku að ég skyldi ekki hugsa, skrifa eða tala um kreppu í dag.

Ég mun standa við það alveg þangað til að það hentar mér ekki lengur.

En aftur að djamminu.

Jenný Una sagði við mig áðan:

Amma: Grýla er ekki til nema í söngbókinni minni.

Ég: Það er alveg rétt hún er sögupersóna.

Jenný Una: Hún étur börn í þykustunni og líka jólakötturinn í útarpinu.

Amman: Já en það er bara í þykjustunni.

Jenný Una: Já ég veita.  En kistur éta mýsir og mýstir éta firrildi í alvörunni amma.

Þar hafið þið það.  Smá dýrafræði í boði Jennýjar Unu.


mbl.is Grýla prýðir Óslóartréð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er gömul og á leiðinni í bótox

 jólaljós

Hér er smá jólafærsla börnin mín södd og sæl.

Í dag hef ég haft hana nöfnu mína hjá mér og við vorum að jólast hérna heima.

Það kom að því að ég hafði þvegið eldhúsgluggann, straujað jólagardínur og sett ljós í glugga.

Svo fór þessi kona sem hér skrifar upp á stól til að hengja upp gardínurnar.

Jenný Una: Amma villtu passa þig mann getur dettið af stólum og þá getir þú deyjið.

Amman: Nei, nei, ég passa mig elskan og svo er ég ekkert að fara að deyja.

Jenný Una: Jú þú ert gömul þá deyrðu ef þú ferð upp á stól.

Amman: Ég er ekki gömul Jenný mín.

Jenný Una ákveðin: Jú ömmur eru gamlar.  Passaðuðig.

Og síðar í rúminu þar sem amman sagði sögur og sú stutta vildi ekki fara að sofa.

Jenný Una: Amma, ekki fara fram, ér hrædd.

Amman: Við hvað ertu hrædd?

Jenný Una: Það er vondur maður í glugganum.

Amman: Hvaða vitleysa barn, ég sé engan mann.

Jenný Una (hneyksluð): Hann er ósýnilegur manneskja.

Svona er lífið hér á kærleiks.

Amman er farin í bótox.

 


"Þú gleymir engu Jenný Anna"

18_step6

Ég hef löngum haldið því fram að ég sé ekki langrækin kona.

Það er auðvitað sjálfsupphafning sem á að ekki nema að litlum hluta rétt á sér.  Ég er ekki öðruvísi en margir, ég á það til að sjá sjálfa mig í fullkomnunarljóma þegar þannig liggur á mér.  Fjárinn sjálfur.

En.. ég get alveg fyrirgefið, kannski af því að ég get oftast séð minn hlut í því sem úrskeiðis fer.

Minn heittelskaði heldur því hins vegar fram að ég sé með minni fílsins í mörgum af okkar átökum í gegnum tíðina. 

Hann segir: "Jenný Anna þú gleymir engu".

Kjaftæðið í manninum. 

Hann talar meira að segja um lífshættuleg sprengjusvæði sem ekki megi fara inn á án þess að allt verði brjálað.  Líka hvað varðar fleiri ára gamlar uppákomur.

Get ég gert að því þó ég muni stað, stund, fötin sem ég var í, kvöldmatinn, fréttirnar í sjónvarpinu, daginn áður og daginn eftir að mér finnst hann hafa gert á hluta minn?

Alveg: Síðast þegar við vorum með hreindýrakássu, þá bjuggum við á Laugaveginum og þú gleymdir að fara út með ruslið og ég nærri hálsbraut mig við að gera það sjálf, var á háhæluðu skónum sem ég keypti í Sóandsó og stutta svarta pilsinu og fjandans lærin á mér frusu.  En hvað ætlaðir þú annars að spyrja um?

Þetta er engin andskotans langrækni, þetta er sagnfræðiáhugi undirritaðrar.  Nema hvað?

Að minnsta kosti er mér ekki illa við nokkra mannveru á þessari jörð þó viðkomandi hafi gert eitthvað á hluta minn.

Það er sennilega vegna þess að í flestum vondum uppákomum hef ég alveg átt helminginn eða því sem næst.  Þannig er það í lífinu. 

En öðru máli gildir um þá sem halda um stjórntaumana.  Þá skiptir engu hvað viðkomandi heitir, í hvaða flokki hann er eða hvort hann er gamall félagi, vinur eða hvort ég hef hitt persónuna.

Þar eru aðrar kröfur í gangi.

Sú staðreynd að við erum að horfa á íslenskt þjóðfélag liðast í sundur, okkur er að verða ljós spillingin, vinavæðingin, græðgin og valdaflippið kallar á að við munum hver gerði hvað, hver sagði hvað og hver tók ákvörðun um að gera eða gera ekki.

Þar ætla ég að leyfa mér að vera langrækin, minnugri en fjandinn sjálfur og bálill fram í rauðan dauðan.

Vegna þess að í þetta skiptið gerði ég ekkert til að framkalla það sem yfir mig dynur.

Ekki flatskjár keyptur, ekki jeppi eða aðrar lúxusdrossíur, engin ofurlaun og ekki þotu að sjá í mínum garði.  Alveg satt, ég er afskaplega nægjusöm kona í neyslulegum skilningi.

Svo ætla ég að koma því hér á framfæri einu sinni enn að þeir sem vinna hjá opinberum fyrirtækjum, fyrirtækjum sem almenningur á eiga ekki að vera með krónu yfir milljón á mánuði og enginn með hærri laun en forsætisráðherra sem stjórnar fjandans revíunni.

Skilið svo bílunum gott fólk.  Venjulegt fólk kaupir sín farartæki sjálft og þannig á það að vera.

Niðurstaða þessarar færslu: Langrækni og gott minni er beinlínis nauðsynlegt á krepputímum.

Farin að rífa upp jólatré með rótum.

 


Af hverju valdi ég ekki Galapagoseyjar?

Aðgerðir kynntar eftir hlegi segir ríkisstjórnin.

Kannski kortéri fyrir þjóðfund?

Tek undir með Heiðu, látum okkur ekki vanta á þjóðfundinn.

Og ef ég heyri einu sinni enn ráðamenn og aðrar silkihúfur segja...

"Ég skil vel reiði almennings en"

( mér dettur ekki í hug að lyfta upp mínum hlupkennda rassi af mínum valdastól til að bregðast við þessari reiði, ónei, en ég skil hana ofboðslega vel... meiri aularnir).

Þá enda ég í rúminu og það til langdvalar.

Annars ætla ég að horfa á sjónvarpið.

Er alveg í því sko að refsa mér fyrir að hafa fæðst hérna.  Sjónvarpsdagskrá RÚV gerir mér hluti.

Af hverju valdi ég ekki Galapagoseyjar til að fæðast á?

Segi svona.

Elska ykkur í milljón.

Örlítið seinna


mbl.is Aðgerðir kynntar eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónunjósnir eru mannréttindabrot

Þegar ég var að alast upp stunduðu sumir íhaldsmenn nokkuð öfluga skrásetningu hér í borg til að fylgjast með hvar kommarnir ættu heima.  Þessar upplýsingar virtust líka fyrirliggjandi hjá Ameríska sendiráðinu, amk. komust sumir að því fullkeyptu þegar þeir ætluðu að fá sér vegabréfsáritun til fyrirheitna landsins.

Stundum kom það fyrir að hús voru skráð "rauð" af misgángingi og lenti "venjulegt" fólk í því að fá ekki ferðaleyfi.

Þetta er löngu liðið, ætla ég að minnsta kosti að vona.

En mér hefur alltaf fundist stutt í að lögregluríkið sýni tennurnar.

Við munum meðferðina á Falun Gong hér um árið.  Það er ekkert venjulegt þjóðfélag sem lætur hafa sig út í að fangelsa eða hefta ferðafrelsi fólks sem aldrei hefur sýnt af sér ofbeldi.

Nú munu óeinkennisklæddir lögreglumenn vera að taka myndir af fólki á mótmælafundunum á Austurvelli.

Lögreglustjóri Stefán Eiríksson hvorki játar því né neitar eins og venja er.

Það hlýtur að vera ári hentugt að geta skýlt sér á bak við þögnina.  Þar er hægt að sýsla ýmislegt miður fallegt á bak við hana.

Það er verið að hvetja fólk til að fela andlit sitt á þessum fundum til að nást ekki á mynd hjá yfirvaldinu.

Ég segi nei, að sjálfsögðu fer almenningur ekki að haga sér eins og það að mótmæla sé eitthvað myrkraverk.

Varla geta þeir handtekið fleiri þúsund manns?

Eða hvað?

FRÉTTIN Í DV

 


Mjólkurpeningar?

Mér er kallt.  Að utan sem innan.

Ekki nema von á þessum síðustu og bestu.

En...

Í dag ætla ég að passa Hrafn Óla á meðan mamma hans fer í próf.

Ég ætla að kveikja á kertum og reyna að fá í mig jólastemmingu.

Það eru bara 26 dagar til jóla.  Ekki í lagi hvað tíminn flýgur áfram.

Svo var ég að pæla í Davíð Oddssyni.  Já mér er kalt á sálinni, ég sagði það.

Finnst engum þarna í valdabatteríinu neitt athugavert við að hann þegi yfir því í heila viku að peningarnir frá IMF séu komnir inn á reikning hjá Seðlabanka.

Það er ekki eins og þetta séu mjólkurpeningar heimilisins.  Þetta eru milljarðar.

Ég er hætt að botna í nokkrum hlut.

Þetta lagar.

 


...og ég gaf frá mér undarlegt dýrahljóð

Nú ætla ég að klæmast smá sjálfri mér til skemmtunar.

Nei, segi svona, hef ekki alveg smekk fyrir því.

Sko, Rachel Johnson hefur hlotið verðlaunin fyrir lélegustu kynlífslýsinguna í bók þetta árið.

Setningin sem gerði útslagið var: „og ég gaf frá mér undarlegt dýrahljóð“. 

Annars man ég eftir nokkrum góðum sem ég hef safnað í hausinn á mér í gegnum árin.

"Þau veinuðu bæði af frygð samtímis svo hljómaði um allt hverfið".

"Húð hennar emjaði af nautn".

"Þau smullu saman með hávaða ofan á rúmið á hótelherberginu".

"Tungur þeirra eltu hvor aðra yfir lendur líkamans langa stund".

Ég dey.

Annars er ég á því að það sé erfitt að skrifa spennandi kynlífslýsingar.

Af hverju spyrð þú dúllan mín?

Sko, ég reyni að útskýra, unaðurinn felst í alvörunni, ekki uppskrúfaðri uppröðun á orðum.

Ég er alki, kommon ekki skoðaði ég sölubæklinga ÁTVR þegar mig langaði í glas.  Hefði ekki dugað við þorstanum mikla sem aldrei varð svalað.

Sama gildir um falleg föt.  Glætan að þú skoðir vörulista til að fullnægja lönguninni.

Ónei, þú steðjar í búð og verslar fyrir þúsundir.

Kynlíf á ekki að lesa um.

Eða...?


mbl.is Verðlaunuð fyrir vonda kynlífslýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 10
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 2987141

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.