Leita í fréttum mbl.is

Ég er ekki hér, ég er ekki hér.

Ég er alveg rosalega þakklát fyrir að hafa verið með gesti og því misst af Össuri í Mannamáli því vísast hefði ég horft ef ekkert annað betra hefði verið í boði.

Ég er komin með svo rosalegt antípat á þessum illa séðu ráðherrum sem neyða návist sinni upp á okkur í gegnum sjónvarp og hafa ekkert að segja nema sama gamla sönginn: "Vér erum að bjarga ykkur gott fólk og svo ætlum við að byggja ykkur upp."

Við ykkur segi ég einn ganginn enn: Ekki bjarga mér og ekki byggja mig upp.  Plís, byggið ykkur sumarbústað eða eitthvað.

Ég get ekki hlustað á fleiri viðtöl við ráðherra þessarar ríkisstjórnar þar sem þeir slá sig til riddara fyrir ekki neitt í þessum hildarleik sem skekur þjóðfélagið.

Só Össur þó þú hafir látið bóka að Davíð sé ekki á ábyrgð Samfylkingarinnar?

Davíð er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvort sem þér líkar það betur eða verr og það er ekkert sem þú getur gert kallinn til að firra þig þeirri ábyrgð nema að slíta þessu samstarfi, nú eða horfa á eftir Seðlabankastjóra út um útidyr bankans í síðasta sinn.

Þetta er eins og að standa fyrir framan einhvern og síendurtaka: "ég er ekki hér, ég er ekki hér".  Það er hægt að segja svoleiðis þangað til maður er kominn með tungubólgu en ekkert breytir þeirri staðreynd að maður stendur þar sem maður stendur og hvergi andskotans annars staðar.

Össur er svona grínari.  Ég sá það á Borgarafundinum hvernig hann sló öllu upp í létt sniðugheit í stað þess að sýna fólki að hann áttaði sig á alvöru málsins.

Hann reyndi að gera sig að krúttvöndli, tókst það kannski en mér var ekki skemmt.

Og munið þið manninn á fundinum sem hann ætlaði að steðja með upp í Seðló til að láta Davíð segja af sér?  Enn eitt kjaftæðið raupið og fyrirhornreddingingar af því hann var kjaftstopp á fundinum.

Ég er svo þreytt á þessu liði sem heldur áfram að birtast manni bissí í vinnunni þrátt fyrir að það sé varla kjaftur á landinu sem vill hafa það við störf.

Stundum verð ég skelfingu lostin og það þyrmir yfir mig.

Hvað ef öll fyrirhöfn almennings við að segja skoðun sína eftir bankahrunið, mótmælafundir, borgarafundir, bloggskrif og allt hvað það heitir, skilar engu.  NADA?

Að almenningur lognist út af örþreyttur og laskaður eftir skelfinguna sem hefur lostið okkur í hausinn og gefst upp á að mótmæla, andæfa, segja skoðun sína, vera vakandi?

Þá verður þetta málamyndalýðræði við líði áfram, flokkarnir halda áfram að skipa vina sína hér og svo þar og svo allsstaðar og allir eru of þreyttir til að veita viðnám.

En svo hressist ég öll við aftur því ég hef orðið vitni að vakningu meðal fólks, allskonar fólks.

Einhversstaðr fengum við nóg og það sem meira er við sjáum þetta kjánalega leikrit sem verið er að leika fyrir okkur á hverjum degi.

Ég að minnsta kosti sé í gegnum það og ef það væri ekki að gera barnabörnin mín skuldug upp á haus áratugi fram í tímann - ja þá myndi ég brosa illkvittnislega út í annað.

En það geri ég ekki.

Því mér er allt annað en hlátur í hug.

Burt með allan ballettinn.

Komasho.

Allir á Borgarafundinn í Háskólabíói annað kvöld.

Við erum rétt að byrja.

Nema hvað?

Og Össur karlinn er í besta falli jólasveinn - meðal jólasveina.


mbl.is Bókunin frá Össuri komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Össur er nú alltaf í leika leikrit og reyna að vera fyndinn, er orðin mega þreytt á honum.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.12.2008 kl. 23:33

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

" ... ekki byggja mig upp.  Plís, byggið ykkur sumarbústað eða eitthvað!"

 Hahahaha .... þetta eru ummæli ársins mín kæra.

Össur er samt ágætur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.12.2008 kl. 23:48

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er að mestu búin að gefast upp á að horfa á þessa svokölluðu umræðu- og viðræðuþætti, mér finnst alltaf vera staglast á því sama og allir tala í hring og benda hver á annan, ekki ég, ekki ég, ekki ég, hann, hann, hann, og hún og hin, í síbylju.

Ég fyllist samt ekki vonleysi, Jenný mín, því ég hef fulla trú á að unga fólkið í landinu muni ekki sætta sig við þetta ástand til lengdar, þó svo stundum finnist manni að sumt af því sé rétt búið að taka snuðið út úr sér, en hvað, börnin vaxa og þroskast - en svo er líka margt af því rosalega ákveðið, skeleggt, hugmynda- og úrræðagott - ég hef enga trú á að við þurfum að örvænta um framtíð landsins og fólksins sem það byggir.

Það á eftir að verða bylting hér - hugarfarsleg bylting, ég held ekki að það þurfi mikil eða blóðug átök til að breyta hlutunum, ef viljinn er einbeittur, og þann vilja sýnist mér margt ungt fólk hafa. Sófakynslóðin er nefnilega að vakna til lífsins, standa upp og sýna að henni stendur ekki á sama. Það er það jákvæða sem kemur út úr hruninu, blöðrunni sem hlaut að springa fyrr eða síðar eins og blásið var í hana, - þó erfiðir tímar séu framundan fyrir okkur öll - eða flest, einhverjum tekst örugglega að skjóta sínu undan, eins og endranær, en kannski aðeins færri.

Og ósköp er þetta orðin mikil langloka hjá mér - Jóni Bö hefði ekki fundist þetta flott.

Greta Björg Úlfsdóttir, 7.12.2008 kl. 23:57

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir góða hvatningu Jenný.

Það er alltaf von á meðan ömmurnar byrsta sig.  ÉG hef ekki ennþá rekist á þá kralrembu sem þorir í reiða ömmu.  Allavega ekki hér fyrir austan.

Ég held að fólk finni ekki ennþá til samkenndar sem þjóð.  Það þarf svo mikið til þess, eins og eldgos eða hörmuleg snjóflóð.  Þeir sem telja sig hafa sitt á þurru finna ekki til samkenndar með þeim sem eru að missa vinnuna eða húsnæði sitt.  "Þetta er "þeim" að kenna, ég skulda ekki, ég á sparifé eða lífeyri eða ég er í öruggri vinnu, hjá Alco eða hinu opinbera".  "Þetta er liðið í Reykjavík eða jeppaliðið eða þau voru alltaf í útlöndum eða ......" 

Og á meðan það er ekki samstaða þá eru ráðaöflin hætt að pukrast.  Fyrst sagði Vilhjálmur að útlendingarnir ættu að eiga bankana og fólk sagði "Haaaa".  Núna er þetta þannig að einhver formaður skilanefndar segir að þeir eigi þá í raun en stjórnvöld eigi bara eftir að raungera það.  Þá segja lífeyrissjóðirnir við viljum vera mem o.s.frv.   En enginn spyr okkur, við  eigum bara að taka á okkur endurfjármögnunina í gegnum skattana og verri lífskjör.  Stjórnvöld nenna ekki lengur að fela að björgun fyrirtækja fellst í afskrift skulda þeirra á kostnað almennings en sömu aðilar eða leppar þeirra halda áfram rekstri þeirra. 

Svona mætti lengi telja en á vissum tímapunkti mun fólk fá nóg.  Þegar "hinn þögli meirihluti" sér að keisarinn er ekki nakinn eins og flesta grunaði, heldur í gömmlu spillingarfötum sínum,  nýbúinn að selja ríki sitt fyrir aðgang að kokkteilboðum í útlandinu, þá verður uppreisn og ég vona að reiðar ömmur og mömmur leiði hana.  Baslið  verður þess virði ef eitthvað vitrænt kemur útúr því.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 8.12.2008 kl. 00:21

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Össur hefur hefur alltaf getað kynnt undir mína reiði

Ég er með spurningu fyrir verkalýðsforystuna á morgun.....ef ég fæ að spyrja

Sigrún Jónsdóttir, 8.12.2008 kl. 00:25

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

´"Málamyndalýðræði" mætti til dæmis bæta með því að beina reiðinni í einhvern farveg. Stærsta stjórnarandstöðuflokknum mistókst að kokka eitthvað annað en hugtakavaðal á auka flokksráðsfundi. Tóku ekki einu sinni afstöðu til gjaldmiðilsins sem er meginorsök vandans, sem við stöndum frammi fyrir. "Feðraveldið" í flokknum segir lýðnum hvaða skoðun hann á að hafa á Evrópusambandinu.

Það er víst of hættulegt að láta hinn almenna flokksmann að kjósa um stefnu flokksins í þessum málaflokki. Svo vilja þeir þvæla þjóðinni í gegnum tvöfalda atkvæðagreiðslu, hvort eigi að sækja um og samning sem kæmi út úr viðræðum. Lýðræðisástin gæti því byrjað á heimavelli í þessu máli og öðrum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 8.12.2008 kl. 01:00

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Burt með spillingarliðið.    ( það vantar svona broskarl sem er mótmælandi með skilti Burt með spillingarliðið!!) (eða burt með stjórnina)

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.12.2008 kl. 01:11

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Gunnlaugur: Þvæla þjóðinni í gegnum tvöfalda atkvæðagreiðslu? Er tvöföld atkvæðagreiðsla eitthvað mikið meira mál en einföld?

Ég veit ekki betur en að slík atkvæðagreiðsla hafi farið vandræðalaust fram í Sviss um daginn - reyndar kusu Svisslendingar ekki bara tvöfalt heldur margfalt, það er að segja fimmfalt, eftir þessu hér að dæma, þó að atriði 4 og 5 virðist hafa vakið mesta athygli utanlands, alla vega á Íslandi. En þeir eru náttúrulega alvanir þjóðaratkvæðagreiðslum, öfugt við okkur, sem fáum örsjaldan að kjósa í slíkum.

Meginorsök vandans er ekki gjaldmiðillinn, heldur mennirnir sem réðu ferðinni í fjármálum landsins, þeir menn (konur þar með taldar) sem ekki er að sjá að hafi haft til að bera nokkra einustu framtíðarsýn, ef þeir hafa haft hana hafa þeir þá tekið snarlega fyrir augun þegar þeir sáu blikur á lofti. Sparaðu þér að tala um hugtakavaðal ef þér gengur ekki betur en þetta að greina aðalatriðin frá þeim minni. Þó ég viðurkenni reyndar að krónan er þung í vöfum og eflaust væri betra fyrir okkur að taka upp annað hvort evru eða norska krónu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 8.12.2008 kl. 01:29

9 identicon

Eitt sem mér finnst svoldið gleymast hjá þeim sem tala þannig að henda beri krónunni í ruslið strax því þeir sjái hið gullna evru hliðið, er að það er ekki hægt að skipta út næstum ónýtum gjaldmiðli og hagkerfi fyrir evru eða annan gjaldmiðil, fyrst þarf að gera gengi krónuna nógu traust og koma á góðu jafnvægi í hagkerfinu og efnahagslífi landsins. Þetta er hlutur sem mörg austur evrópuríki eru að glíma við í dag þ.a.e.s þau gengu í esb með alltof veikann gjaldmiðil og efnahagskerfi í rúst sem hefur leitt til þess að vegna þess hve veikur gjaldmiðill þeirra var þegar þau gengu inn að þau fá ekki að taka upp evruna fyrr en þau eru búin að gera sinn gjaldmiðil traustan og koma á efnahagslegu jafnvægi. Heldur fólk virkilega að ísland fái einhverja sér meðferð frekar en þau lönd.

Bjarni Hallsson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 03:44

10 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Össur hefur aldrei átt neitt upp á pallborðið hjá mér svo sendi ég bara góðar kveðjur héðan úr sveitinni.

Ía Jóhannsdóttir, 8.12.2008 kl. 09:08

11 identicon

Það sem er sameiginlegt með Össuri og öðrum ráðherrum Samfylkingarinnar er að þau dauðsjá eftir að hafa sængað með Sjálfstæðisflokknum.  Þau eru öll farin að hljóma eins og bra bra á Tjörninni.  Heimta bara meira brauð.  Hefðu betur átt að sleppa hamborgaranum og bíða eftir steikinni.  Eða gætt sér á steikinni á meðan hún bauðst.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 09:19

12 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Hef verið að reyna að manna mig upp í að hlusta á hann á vefnum- en held ég sleppi því - Það er ekki lengur einu sinni hægt að hlæja að Samfylkingarráðherrunum.

María Kristjánsdóttir, 8.12.2008 kl. 09:59

13 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég nenni bara ekki að hlusta á hann.

Kristín Katla Árnadóttir, 8.12.2008 kl. 12:00

14 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

María, hér er mynd af einum sem alltaf vekur hlátur. Mbk, G

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, skýrir aðgerðaáætlun í efnahagsmálum á auka flokksráðsfundi VG.<br><em>mbl.is/Ómar</em>

Gunnlaugur B Ólafsson, 8.12.2008 kl. 12:03

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þér Jenný mín eins og svo oft áður. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 12:05

16 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Gunnlaugur, að minnsta kosti vekur hann hlátur en ekki grát, eins og ríkisstjórnin gerir núna.

Það er bara gott að geta hlegið stundum að flokksleiðtoganum, það sýnir bara að hann er mannlegur eins og við hin. Ólíkt stjórnarliðinu + Seðlabankastjóra, sem öll koma fram eins og þau séu ósnertanleg og hverfa nánast sjónum í mekkinum sem þau þyrla upp í kringum sig af innantómu orðagjálfri.

Greta Björg Úlfsdóttir, 8.12.2008 kl. 12:12

17 identicon

Flott færsla .

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband