Leita í fréttum mbl.is

Ekki barnaverndarnefndum að kenna

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að taka þátt í bloggæðinu sem ríður yfir vegna þessarar nöturlegu staðreyndar að um 20 fíklar hafi látist frá börnum sínum frá áramótum.

Ég er nefnilega ansi hrædd um að þetta mál nái hæstu hæðum í umfjöllun í fréttum og fjölmiðlaumræðu í einhverja daga og lognist svo út af, eins og oft vill gerast.

Ég las líka í einhverju blaðinu í dag að vanræksla væri mikil á börnum.

Eru engin almennileg úrræði til?

Ég er á þeirri skoðun að forgangsröðunin í þjóðfélaginu sé röng.

Það er ekki hægt að beina spjótum að barnaverndarnefndum þó það sé freistandi, hvað varðar illa meðferð á börnum almennt. Þó auðvitað megi gagnrýna þær og krefja þær ábyrgðar á þeim málum sem til hennar berast.

Það eru ekki barnaverndarnefndir í þessu landi sem bera ábyrgð á börnunum okkar frá degi til dags og guði sé lof fyrir það.

Ég veit af fyrirhuguðu skólaferðalagi um 40 barna núna fljótlega.  8 foreldrar ætla að fara með, þrátt fyrir að löngu sé búið að láta vita og allur tími í heiminum til að gera ráðstafanir.

Fáir sjá eitthvað athugavert við þetta, þ.e. að geta ekki tekið sér frí í einn dag til að fara með börnum sínum í smá ferðalag.

Ég veit ekki hvað best er að gera í málefnum þessara blessaðra barna sem missa foreldra sína í ótímabæran dauða vegna fíkniefna.  En ég veit að það er hægt að breyta forgangsröðuninni svona almennt.

Börn þurfa ekki plasmaskjái, græjur og rándýr leikföng til að verða hamingjusöm.  Þau þurfa nálægð og natni, fjandinn hafi það.

Ég held að fólk þurfi að fara að hugsa hlutina upp á nýtt. 

Hefur fólk almennt ekki tekið til sín útkomuna úr könnuninni í fyrra varðandi einmannaleika og skort á fullorðinstengslum barnanna okkar?

Hvernig væri að skoða aðeins hvort það megi ekki breyta áherslum?

Og jú auðvitað þarf fólk að vinna.  Spurningin er hversu mikið af veraldlegum gæðum við þurfum að raða í kringum okkur í hamingjuleitinni.

Arg.


mbl.is Um 20 fíklar látist frá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulla Dan

Gæti ekki verið meira sammála þér.

Vona að þú eigir góðan dag.

Hulla Dan, 21.5.2008 kl. 16:20

2 Smámynd: Tiger

Ég er svo óendanlega sammála þér með þetta Jenný; "Börn þurfa ekki plasmaskjái, græjur og rándýr leikföng til að verða hamingjusöm.  Þau þurfa nálægð og natni, fjandinn hafi það." ...

Það þarf svo lítið til að gleðja og gera barn hamingjusamt - og það gerist ekki með peningum eða hlutum heldur með faðmlagi og ljúfleika, fallegum orðum og væntumþykju.  Sannarlega þarf fólk að hugsa sinn gang, forgangsraða með börnin sín fremst í huga og gera eitthvað sem stuðlar að hamingju þeirra - ekki fullnægja afþreygjingarþörf þeirra með hlutum.

Skelfilegt til þess að hugsa hve margir lenda í grimmum höndum fíkniefnadjöfulsins - og skelfilegt að hugsa til þeirra sem heima sitja og bíða í von og óvon um hvort foreldri eða ættingi kemur heim eða ekki. En fíklarnir þurfa sannarlega líka á umhyggju og ástúð að halda, ekki bara reglum, boðum og bönnum.

Tiger, 21.5.2008 kl. 16:23

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Það er svo gaman að þér Jenný, þegar þú segir: Don´t get me started, þá veit ég að það er of seint!!!  .. Fræinu er sáð og springur út í bloggfærslu hjá þér.

Við vorum einmitt að ræða svona hluti ,,á kaffistofunni" t.d. með vetrarfrí og foreldra. Ef að foreldrar eru búnir að ákveða eitthvað t.d. að fara í viku til Kanarí eða í skíðaferð með saumaklúbbnum, virðist ekkert því til fyrirstöðu að taka frí. EN að biðja um frí til að vera í viku heima með börnunum það þykir alveg ómögulegt. Hvað þá að fara í dagsferð með börnunum í sveitina.

Skuldbindingin við að eiga börn er heilmikil, það veit ég búin að fara í þúsundmilljón fótboltaferðir, skíðaferðir o.s.frv. með þessum þremur sem ég á. Auðvitað röfluðum við sem mættum alltaf yfir foreldrunum sem aldrei létu sjá sig og virtust ekki hafa tíma til að sjá börnin sín keppa eitt einasta skipti! .. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að allir geti komið alltaf, því að það er auðvitað misjafnlega mikið að gera hjá fólki og stundum alltof mikið af uppákomum hjá börnunum til að geta sinnt þeim öllum.

EN einmitt lífsgæðin ættu að felast í að gera hlutina saman með börnunum og það tel ég hafa verið mín lífsgæði. Nú er ég farin að mæta á ömmu-og afadaga í leikskólanum og svo foreldradaga hjá stjúpsyninum þegar ég ,,má".. Að vísu finnst mér það ógeðslega gaman svo ég tel það ekki eftir mér.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 21.5.2008 kl. 16:25

4 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég man eftir viðtali fyrir mörgum árum síðan við félagsmálafulltrúa í RVÍK....hún sagði þar, okkar stærsti vandi er ekki áfengi eða fíkniefnavandi foreldra , heldur sinnuleysi.....skjólstæðingar okkar eyða of litlum tíma með börnum sínum og margir vita hreinlega ekki hverjar þarfir barna eru...börnin eru vel flest fædd og klædd en svo vantar allt hitt....

Ég hef oft furðað mig á því að þegar fólk fær sér hund, þá er rokið á rándýr námskeið til að ala upp dýrið svo það hagi sér en svo er allt annað upp á teningum þegar barneignir eru annars vegar..... 

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 21.5.2008 kl. 16:28

5 identicon

8 foreldrar ? hvar eru hinir ?

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 16:33

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Það færi betur ef allir foreldrar hugsuðu eins og þú mín kæra.  En því miður virðist það ekki vera svo á ýmsum bæjum.  Ég vil heldur ekki trúa að barnavernanefnd sé svo blind að hún taki ekki eftir sprautum og öðrum ólyfjan í íbúðum þegar komið er í eftirlistferðir, en svo virðist hafa verið í þessu tilviki.

Það sem svíður sárast í þessu máli eru blessuð börnin, hvers eiga þau að gjalda? 

Ía Jóhannsdóttir, 21.5.2008 kl. 16:35

7 Smámynd: halkatla

mér líður svo illa yfir þessu með fíklana :(

og börnin

varðandi skólaferðalögin er ég beggja blands, þegar ég var 8-9 ára fór ég í lúðrasveitarferð og mamma var ein af foreldrunum sem kom með, og útaf henni gat ég ekki sofið niðri í íþróttahúsinu þarsem við gistum en þar var mesta fjörið, krakkarnir sem voru með foreldrana í eftirdragi þurftu að sofa á efri hæðinni

(en þú hefur 100% rétt fyrir þér, ég er bara enn ekki búin að komast yfir þetta, hehehe)

halkatla, 21.5.2008 kl. 16:35

8 identicon

Hér er er klárlega verið að rugla saman tveimur algerlega óskyldum hlutum, almennu sinnuleysi foreldra og raunverulegu hlutverki barnaverndakerfissins.

Ef rök þín ganga upp Jenný, þá ættum við að geta lagt barnavernd bara niður og látið þau boð út ganga að foreldrar skuli nú gjöra svo vel og fara að axla bara sína ábyrgð.

En málið er miklu alvarlegra en það fyrir þessa ólánsömu drengi. Og ekki bara fyrir þá heldur fyrir mörg önnur börn sem eiga ekki einu sinni nokkurn talsmann fyrir sig eins og þessir tveir virðast þó hafa.

Barnaverndarkerfinu er ætlað að taka á hinum óhjákvæmilegu fylgifiskum mannkynsins, ofbeldi og vanrækslu gagnvart varnalausum börnum sem hafa hvorki vit né þroska til að bera hönd yfir höfuð sér. Það er mikil einföldun að halda að starfsmenn barnaverndar séu svo heilagir af því að þeir réðu sig í þetta erfiða starf að þeir séu ófærir um vafasöm vinnubrögð.

Einmitt af því að alla daga eru starfsmenn þessa kerfis að fást við brotna einstaklinga og óþroskuð börn þá eru líkur á því að óvönduð vinnubrögð geti viðgengist, því fæstir sem þurfa að hafa samskipti við þetta yfirvald eru í aðstöðu til að taka hart á því þegar á þeim er brotið þar.

Ég vil hvetja alla til að loka ekki augunum fyrir hugsanlegum vanda, líkt og gert var gagnvart Breiðarvíkurdrengjunum. Breiðarvíkursamtökin ákvaðu það einmitt á aðalfundi um síðustu helgi að víkka út markmið sín og hvetja alla þá sem er umhugað um barnaverndarmál, bæði fyrr og síðar, að gerast aðilar. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið þó okkur finnist að það eigi að vera svo að þessi mál séu í besta mögulega farvegi í dag.

Í kjölfar máls háskólakennarans sem var ákærður núna nýlega fyrir kynferðislega misnotkun þá sagði Bragi Guðbrandsson forstjóri barnaverndarstofu að sú stofnun myndi gera könnun á vinnubrögðum barnaverndanefnda. Þeir höfðu fengið svo margar ábendingar um það að það mál hefði þvælst í kerfinu í óeðlilega mörg ár og í gegnum óeðlilega marga aðila áður en einhver tók af skarið í því að taka á því og kanna ofan í kjölinn.

Það eru alltaf einhverjar líkur á því að illa sé staðið að þessum málum í dag og víða gæti pottur verið brotinn þó það þurfi ekki að vera yfir heildina. Mynduð þið ekki vilja vita af því ef svo er?

Eða viljið þið lifa í ykkar eigin raunveruleika þar sem þetta væri of óþægilegur veruleiki til að vita af?

KK (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 17:22

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

KK: Ég hef kannski ekki verið nógu skýr.  Ég geri ekki lítið úr ábyrð nefndanna. 

Takk fyrir frábært innlegg.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2008 kl. 18:20

10 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég vona að ég hafi ekki misskilist....ég er alls ekki að gera lítið úr vanda fíkniefnaneytenda og þeirra barna..ég hef því miður heyrt af mörgum svona tilfellum, þetta er líka innann minnar fjölskyldu en barnaverndaryfirvöld eru ekki bara að glíma við þann vanda heldur líka sinnuleysi og vanrækslu

Vil benda á gott viðtal í 24 stundum í dag..við Anni Haugen. 

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 21.5.2008 kl. 18:30

11 Smámynd: Andrea

Rétt að það er ekki hægt að "kenna" barnarverndum um ástandið EN við skulum hafa það alveg á hreinu að barnarverndarnefnd ber ábyrgð og MIKLA ábyrgð í þessu máli ef systir konunnar sem lést er að segja satt og rétt frá og ég hef enga ástæðu til að efast um það.
Þetta dæmi er sko ekkert einsdæmi

Við skulum hafa það á hreinu að þetta batterí sem kallast Velferðarsvið af einhverjum dularfullum ástæðum hefur það hlutverk að sjá til þess að VELFERÐ okkar sé borgið og barnarverndarnefnd á að sjá um VELFERÐ barnanna í landinu.

Ég hika ekki við að gefa skít í þetta fólk sem nú situr í nefndinni og vill sjá það snáfa til að segja af sér eins og skot!! Siðan á það að eyða restinni af ævinni í að skammast sín ofan í tær

Andrea, 21.5.2008 kl. 19:26

12 Smámynd: Andrea

PS: Tek heilshugar undir með KK hérna! Frábært innlegg.
Og Jenný þú segir "það má ekki beina spjótunum að barnaverndarnefnd þó það sé freistandi"

Það er einmitt algjörlega bráðnauðsynlegt að beina spjótunum þangað hversu sem fólki kann að finnast það óþægilegt!

Andrea, 21.5.2008 kl. 19:29

13 Smámynd: Andrea

Þú verður að afsaka lætin í mér en ég er bara yfir mig hneyksluð á þessari færslu þinni.
Að mínu mati alveg ótrúlega mikil kóun með fólki sem gefur sig út fyrir að vera fært um að vera talsmenn barna og baráttufólk fyrir öryggi þeirra

Andrea, 21.5.2008 kl. 19:33

14 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Andrea ég lagaði færsluna aðeins til, einfaldlega vegna þess að hún getur misskilist.

Ég er ekki að leggja dóm á þetta mál sem er í umræðunni. Finnst nógu margir kallast á um það.  Það er skelfilega sorglegt og ég ætla rétt að vonast til að vinnferlarnir hjá nefndinni verði skoðaðir.

Það sem ég var að meina með skrifum mínum um nefndirnar átti við um síðari þátt færslunnar.  Þ.e. varðandi almennt sinnuleysi í garð barna í þessu landi.

 Og teldu upp að 10, það er ég að reyna að gera.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2008 kl. 20:08

15 Smámynd: Andrea

"Það eru ekki barnaverndarnefndir í þessu landi sem bera ábyrgð á börnunum okkar frá degi til dags og guði sé lof fyrir það"

Jú, það eru einmitt barnaverndarnefndir sem bera ábyrgð á börnum. Þær þurfa bara ekki að skipta sér af nema hjá þeim börnum þar sem vitað er að hlutirnir eru ekki í lagi.


Andrea, 21.5.2008 kl. 20:11

16 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Nefndin ber ábyrgð á þeim börnum sem hún hefur undir eftirliti.  Varla öllum börnum almennt.  Amk. kannast ég ekki við að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi borið ábyrgð á mínum börnum. 

Skv. barnalögum er sú borgaralega skylda á herðum hvers manns um að tilkynna til barnaverndar um leið og vitað er um illa meðferð á barni.  Það er lítið gert af því, einfaldega vegna þess að þegar flestum illa við að skipta sér af.  Foreldrarétturinn er sterkur og virðingin fyrir honum algjör.  Það er gömul saga.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2008 kl. 20:16

17 Smámynd: Andrea

Jenný þú tengir við frétt þar sem sagt er frá því að 20 mæður hafi dáið á sl ári frá börnum sínum vegna eiturlyfjaneyslu. Og fyrirsögnin og hluti innhalds pistilsins var að við mættum ekki kenna barnarverndarnefnd um hvernig fór!

Getum við amk ekki verið sammála um að öll þau börn hljóti að hafa verið og eru líklega enn á ábyrgð barnaverndarnefndar?

Tilkynningaskyldunni í þessu tilfelli var ekkert ábótavant

Auk þess er ég ekki í minnsta vafa á því að þessar ungu mæður sem hafa dáið á árinu voru flestar orðnar fíklar fyrir 18 ára aldurinn- möo á ábyrgð barnarverndarnefndar. Velferðarsvið og þar með talin barnarverndarnefnd dregur og dregur að díla við þau mál sem koma til þeirra eins lengi og þau komast upp með það.
Sjáðu til, það er nefnilega ódýrara að bíða þangað til þessi skítugu börn Evu ná 18 ára aldri vegna þess að þá eru þau á ábyrgð stjórnvalda en ekki sveitafélaganna
En það er önnur saga- en samt sú sama

Andrea, 21.5.2008 kl. 20:22

18 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég hefði auðvitað ekki átt að tengja við þessa frétt, svona eftir á að hyggja.  En ég vildi koma aðeins inn á það mál vegna þess að svona mál fara af stað með látum og springa svo og sofna, deyja út af.  Svo hélt ég áfram vegna annarrar fréttar í tengslum við viðtal við Annie Haugen í 24 stundum í dag, en hún talar um mikla og algenga vanrækslu á börnum.

Og þá fannst mér rétt að koma inn á ábyrgðina sem mér finnst liggja hjá foreldrunum um að hugsa almennilega um börnin sín.  Sinna þeim andlega ekki síður en að hlúa að ytri þörfum.

Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki skilið nógu vel þarna á milli, því það var svo sannarlega ekki meiningin að láta þetta koma svona út.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2008 kl. 20:28

19 Smámynd: Andrea

Mér fannst það amk undarlegt og eiginlega enn undarlegra að þér þætti að barnarverndarnefnd væri stikkfrí í þessu máli. Hef lesið bloggið þitt nógu mikið til að þykjast þekkjast skoðanir þínar það vel að þetta kom mér á óvart

Og aftur biðst ég afsökunnar á látunum en ég var bara alveg að springa! Þessi málaflokkur er í svo hræðilegri óreiðu að það er alveg skelfilegt
20 ungar konur á einu ári! Og það eru bara þær sem vitað er um!

Andrea, 21.5.2008 kl. 20:32

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Andrea: Við skiljum hvor aðra og mér finnst ágætt að fólk láti í sér heyra.  Ekki málið.  Mér er stundum svo heitt í hamsi að ég mætti telja upp á milljón áður en ég ýti á "send".

Takk Andrea

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2008 kl. 20:33

21 Smámynd: Andrea

Já og ég ætla að punkta það hjá mér að fara alltaf úr boxhönskunum áður en ég pikka á lyklaborðið :)

Andrea, 21.5.2008 kl. 20:38

22 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hahahaha

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2008 kl. 20:44

23 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Og ég ætla að fá að þakka ykkur fyrir góðar samræður, og koma á framfæri von um, að umræðu um þessi mál,  verði haldið vakandi,  því brátt lýkur skólum, og sumarfrí barna taka við. - Þetta er alversti tími sen hugsast getur fyrir tíundubekkinga. -

Stór hluti þessara ungmenna hafa ekki að neinu að hverfa,  og leiðast þá út í að prufa og kanna,  öll þau hættuspor, sem orðið hafa þessu fólki að aldurtila,  sem ölli því að þessi pistill var skrifaður hér.  -

Því verður að blása í alla lúðra landsins og vekja þannig landsmenn af Þyrnirósasvefninum þráláta, - því það er tími til kominn að snúa vörn í sókn, og slá hring um ungmennin sem nú eru á leið út úr skólanum og út á göturnar, og stýra þeim inn á þá leið sem, sem við viljum að þaulæri að rata.  Það er veginn til farsældar á vegferð lífsins.

 - Bara ekki leggjast aftur í Þyrnirósardrungann. -  Það er þess virði að verja lífið - Og byggja bjarta framtíð barnanna í landinu.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 22.5.2008 kl. 01:38

24 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Lilja Guðrún: Heyr, heyr.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.5.2008 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987325

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.