Leita í fréttum mbl.is

Frummaður - sorrí

 magart0107_p54_pic3

Mér finnst vont að verða að játa það hér, en ég geri það samt.

Hin Norðurlöndin, eru alla jafnan með mun meiri félagslegan þroska en við villingarnir, snillingarnir á Íslandi.

Ég get verið ruddi, ég veit það, einkum og sér í lagi þegar mér hitnar í hamsi.  Mér hitnar í hamsi þegar ofbeldi og misnotkun á fólki, einkum konum og börnum, ber á góma.

Mér eru sendar kveðjur, undir rós stundum og svo með beinum persónulegum árásum í kommentakerfinu.  En það er ekki öðruvísi en við er að búast.  Málefni um vændi, mansal og allt sem því viðkemur, vekja heit viðbrögð þeirra sem sjá "frelsið" myndbirtast í niðurlægingu fólks.

Frelsi til að kaupa konur, frelsi til að horfa á klám, frelsi til að haga sér eins og frummaður (frummaður fyrirgefðu að ég geri þér skömm til).

Mér finnst fínt að ræða þessi mál, fá fram viðbrögðin, líka þessi sem er beint að persónu minni, því það segir mér hvað fólk er tilbúið að leggjast lágt, í stjórnlausri bræði.

Ég tek svona athugasemdir ekki alvarlega nærri mér, amk. ekki nóg til þess að ég þagni.

En hvað um það.  Ég er auðvitað að æra óstöðugan með því að blogga um þetta hitamál, en ég vona að helgin blási fólki í brjóst málefnalegum hugsanagangi, áður en þeir æða fram á bloggvöllinn.

Mikið andskoti eru Norðmenn þroskaðir og vísir, að gera kaup á kynlífsþjónustu refsiverða, svo að segja á sama tíma  og við leyfum allan pakkann.

Ójá, það var víst gert í skjóli nætur undir því yfirskyni að koma vændinu upp á yfirborðið.

Er það ekki fljótandi á yfirborðinu nú þegar?  Það hlýtur að vera.

Til hamingju Norge.


mbl.is Kaup á kynlífsþjónustu gerð refsiverð í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit að það er afskaplega erfitt að koma mörgum um skilning um þetta, en að kaup kynlífsþjónustu af einhverjum, er ekki að kaupa einhvern.

Að kaupa einhvern, og halda einhverjum nauðugum í kynlífsþjónustu, ÞAÐ er að kaupa einhvern.

Það er vægast sagt ósanngjarnt, fyrir utan það að vera rökfræðilega úti á túni, að setja samasemmerki á milli kynferðislegrar hegðunar og einstaklingsins sjálfs. Ég fullyrði að þú sért annað og meira en hverjum þú sefur hjá, og hvers vegna. Ég segi það allavega um mig, að ég sem einstaklingur og manneskja skilgreinist ekki út frá því hverjum ég sef hjá, eða hvers vegna. "Að selja sig" er því vægast sagt mistúlkun á því að veita kynlífsþjónustu, sem sýnir hvað best fram á að þessir taumlausu fordómar fólks gagnvart fólki sem finnst kynlíf bara einfaldlega ekkert stórmál, eru byggðir að miklu leyti á... fyrirgefðu, ég þekki ekki nákvæmara orð yfir það; móðursýki.

Það er ekki löglegt að KAUPA FÓLK á Íslandi. Mansal, þrælkun og að leigja út kynlífsþræla ER bannað á Íslandi, á að vera það, og enginn er að reyna að fá það lögleitt. Það er alveg sama hversu mörg blogg þú lest, þú finnur ætíð fólk sem vill hafa löglegt að kaupa og selja vændi, EKKI að halda fólki í þrælkun.  Það á að refsa fólki fyrir að halda fólki í þrælkun, og að mínu mati mjög grimmilega; málið snýst um hvort það eigi að refsa öllum sem koma svipuðum málum við líka. Það er þar sem við erum ósammála.

Þið bannsinnar gleymið nefnilega því að það er bara víst til fullt af hamingjusömum hórum af báðum kynjum sem sjá ekkert að því að veita kynlífsþjónustu, af þeirri afskaplega einföldu ástæðu að kynlíf er hætt að vera jafn mikið mál og það hefur yfirleitt verið í gegnum söguna. Þetta fólk veit betur en að tala hátt samt, vegna þess að þá þarf það að díla við móðursjúklinga samfélagsins sem bara trúa því ekki að það sé til fólk sem skilgreini sig ekki út frá kynlífi sínu.

Þetta er stundum svolítið eins og að rífast við trúaða manneskju sem bara getur ekki trúað því að það sé til fólk sem raunverulega trúi ekki á Guð og sjái enga ástæðu til að trúa á Guð, og sé ekkert hrætt við helvíti þrátt fyrir að hafa lesið Biblíuna. Það er búið að tyggja svo oft ofan í þetta fólk að svona eða hinsegin virki mannssálin, og að ekkert annað komi til baka. Þegar svo er komið, er það venjulega, og með réttu, kallað þröngsýni.

Það á ekki að refsa fólki sem stundar vændi, hvorki því sem selur það eða kaupir. Hvaða sens á það að meika að banna sölu og kaup á einhverju sem er löglegt að gefa og þiggja frítt? Vandamálið er mansalið, mafíurnar sem eru þarna OG VERÐA ÞARNA ALVEG SAMA HVERSU HARKALEGA KAUPENDUM OG SELJENDUM ER REFSAÐ, sem við eigum að vera á eftir. Á meðan við erum að eyða tíma og orku í að eltast við þá sem einfaldlega hafa engum gert nokkurn skapaðan andskotans hlut, erum við að sóa orku og tíma sem við gætum verið að nota í að eltast við þá sem stunda mansal og þrælkun!

Og þar stöndum við öll saman, bæði konur sem halda að þær viti hvernig aðrar konur sjái kynlíf (sem er í hreinskilni sagt fáránlegur hugsunarháttur), og frelsissinnar af báðum kynjum. Það eru allir á móti þrælkun og mansali.

Það eru bara ekki allir hlynntir því að hengja bakara fyrir smið. 

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 12:52

2 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Góða helgi Jenný mín

Kristín Katla Árnadóttir, 18.4.2008 kl. 13:21

3 identicon

Helgi Hrafn. Auðvitað er samasemmerki á milli manneskjunnar sjálfrar og kynlífsins sem hún lifir. Ef svo væri ekki væri nauðgun og annað kynferðisofbeldi ekki eitt það versta sem gæti komið fyrir manneskju. En við vitum að það er það.

Ef manneskja mætti velja á milli þess að vera barin í spað og að vera nauðgað hvort held þú að hún myndi velja?

Auðvitað myndi hún frekar velja að vera barin í spað. Það er auðvitað vegna þess að kynlíf er eitthvað sem er mjög persónulegt og ef brotið er á því þá er brotið á manneskjunni sjálfri.

Þegar fólk stundar kynlíf er það að hleypa einhverjum mjög nálægt sér, eiginlega algjörlega inn í kviku í sálinni. Og það skiptir þá ekki máli hvort það er í gegnum one night stand eða í sambandi.

Það er ekki hægt að taka kynlífið út fyrir sviga í sálinni. Það gengur ekki upp.

Þannig að þegar talað er um að "kaupa einhvern" þá á það fullkomlega við.

Guðrún (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 13:43

4 identicon

Hversu illa barinn í spað erum við að tala um? Því ef ég ætti það á hættu að vera barinn það illa að ég hlyti alvarlegan heilaskaða af eða myndi lamast fyrir neðan háls, þá myndi ég frekar kjósa nauðgun og koma þá líkamlega heill út úr því.

Kolbeinn (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 13:48

5 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Jenný ég ætlaði bara að taka undir það sem þú segir í pistlinum.  Um leið og ég vona að Íslendingar beri gæfu til að feta í fótspor Norðmanna og Svía, og setji sömu lög hér. 

Ekki veitir af þegar maður les það sem skrifað er hér í athugasemdum fyrir ofan. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 18.4.2008 kl. 14:16

6 identicon

Já, AliP gerir nú fyrir minn smekk heldur lítið úr alvarleika nauðgana og afleiðinga þess fyrir fórnarlambið. Það sem ég meinti aðallega var að það er eflaust auðveldara að lifa eðlilegu lífi eftir að hafa

En veistu, Guðrún. Það ER til fólk sem getur tekið kynlífið út fyrir sviga í sálinni. Það ER til fólk sem getur haft samfarir án þess að finnast það vera að taka hina manneskjuna algjörlega inn í kviku í sálinni. Þetta eru mjög algeng mistök; að heimfæra sínar eigin tilfinningar varðandi kynlíf (jú, og marga aðra hluti ef út í það er farið) á allt annað fólk.

Oft heyrir maður fullyrðingar eins og að 92-98% (man nú ekki þessar tölur nákvæmlega, en þetta er örugglega nokkuð nærri lagi) þeirra sem eru í vændi vilji komast út úr því. Ekki ætla ég að draga þessar tölur í efa, þær eru ábyggilega réttar. En það sem kemur alltaf upp í hugann á mér þegar ég heyri þetta er "allt í lagi, en hvað með hin fimm til átta prósentin?" Er sá hópur ekki bara nokkuð sáttur við að vera í þessu? Allavega sá þessi hópur ekki ástæðu til að svara játandi þeirri spurningu hvort það vilji hætta í vændi.

Ég geri ekki lítið úr nauðsyn þess að berjast gegn mansali og kynlífsþrælkun. Alls ekki. Höfum það alveg á hreinu. En mér þykir það heldur mikil þröngsýni að fullyrða að sú athöfn, að aðili A hafi kynmök við aðila B gegn greiðslu sé alltaf, í öllum tilvikum, án undantekninga misnotkun og ofbeldi. 

Kolbeinn (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 14:18

7 identicon

Úps. Gleymdi að klára eina setningu. Klaufi er ég.

"... eftir að hafa verið nauðgað heldur en með ónýta mænu." ætlaði ég að skrifa. 

Kolbeinn (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 14:19

8 identicon

Auðvitað á að fara norsku leiðina frekar en þá sænsku. Ágúst Ólafur er að mjatla þessu í gegn, vonandi fyrir vorið.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 14:26

9 Smámynd: Ari Björn Sigurðsson

Ég er nokkuð viss um að a.m.k. 92-98% þeirra sem steikja hamborgara á McDonalds, væru alveg til í að vinna við eitthvað annað.

Ari Björn Sigurðsson, 18.4.2008 kl. 14:51

10 identicon

Það vill brenna við hjá ýmsum að telja forræðishyggju og valdbeitingu stjórnvalda gagnvart þegnunum merki um félagslegan þroska.  Að þegnarnir skuli aðeins hafa frelsi til að gera það sem stjórnvöldum sé þóknanlegt. Velji sér starf miðað við þarfir og óskir stjórnvalda. Borði það sem stjórnvöld telja þeim fyrir bestu og drekki eingöngu holla drykki samþykkta af stjórnvöldum. Kröfur um ýmiskonar nefndir, ráð og stofnanir sem ætlaðar eru til eftirlits með þegnunum eru háværar hjá hinum "félagslega þroskuðu" . Í stað þess að uppfræða þegnana og auka við þekkingu og félagslegan þroska er nær undantekningarlaust gripið til lagasetningar. Lausnir hinna "félagslega þroskuðu" eru sektir og fangelsi. Fangelsisdómar og sektargreiðslur eru víst mjög félagslega þroskandi og allt frelsi af hinu illa ef eitthvað er að marka þennan hóp fólks.

Það er ekkert samasemmerki milli forræðishyggju og félagslegs þroska.

sigkja (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 15:06

11 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Æi Jenný mín, varstu farin að sakna gauranna hér að ofan?

...ég tek undir með þér og óska norsurum til hamingju.

Þú ert best!!!  (smá skítkastsjöfnun)

Laufey Ólafsdóttir, 18.4.2008 kl. 15:11

12 identicon

Gott að þér finnst Norðurlöndin hafa svona mikinn og góðan félagslegann þroska. Þú kemur kannski inn á það aftur þegar dómur fellur næst í kynferðisbrotamáli. Þar eru Íslendingar það þroskaðir að vera á svipuðu róli og Norðurlöndin (jafnvel strangari). 

Punktur (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 16:17

13 identicon

Kolbeinn. Ef 92-98% vændiskvenna vilja hætta í vændinu þá er það auðvitað mikið mál. Þá segir það það að stærsti hluti vændiskvenna vill þetta ekki.

Guðrún (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 16:23

14 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Flottir Norðmenn.

Hólmdís Hjartardóttir, 18.4.2008 kl. 16:37

15 identicon

Að sjálfsögðu er það mikið mál. Atriðið sem ég var að benda á að (samkvæmt þessum tölum, hversu nákvæmar sem þær eru) virðast vera að allt að 8% þeirra sem eru í vændi eru ekkert sérstaklega mótfallin því. Því er oft og iðulega haldið fram að hin svokallaða hamingjusama hóra sé goðsögn. Ég er bara að segja að einhver slík eintök hljóti að leynast í þessum 2-8% sem svara spurningunni "langar þig að komast út úr vændi" neitandi. Íhugaðu þetta... af hverju myndi einhver svara þessu neitandi ef honum/henni þætti eitthvað slæmt við að veita kynlífsþjónustu gegn greiðslu.

Svo ég endurtaki mig: Ég er ekki að gera lítið úr alvarleika mansals og kynlífsþrælkunar. Það er stórt vandamál og þeir sem neyða konur út í vændi með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi eru fúlmenni sem eiga ekkert gott skilið. Það bara angrar mig svolítið þegar ég sé málflutning hálfgerðra anti-vændis "fúndamentalista" sem þverneita að viðurkenna að það sé vel hugsanlegt að kynlíf gegn greiðslu feli ekki í sér neina þvingun eða misnotkun, heldur geti verið venjulegt samkomulag tveggja sjálfráða, fullorðinna einstaklinga.

Fólk hefur ótal mismunandi viðhorf til kynlífs. Sumum finnst að það eigi ekki að stundast nema milli karla og kvenna innan hjónabands. Sumum eru í nöp við einstaka kynlífsathafnir (t.d. endaþarms- eða munnmök). Sumir hafa áhuga á að stunda kynlíf með fleiri en einum aðila, aðrir geta ekki hugsað sér það. Sumum finnst gaman að láta drottna yfir sér og niðurlægja, aðrir vilja vera þeir sem drottna og niðurlægja. Sumum finnst það kynferðislega örvandi að finna fyrir sársauka. Drottinn minn dýri, sumir vilja blanda saur og þvagi í málið! Ég veit ekki um neinar opinberar tölur um það, en ég ímynda mér að það séu færri en 8% prósent fólks sem vill láta kúka á sig. Þó er það fólk til.
Hugsaðu þér, það er til fólk sem raunverulega vill láta kúka á sig! Í ljósi þess, er þá virkilega svo erfitt að trúa því að til sé fólk sem finnst það ekkert tiltökumál að taka við peningum fyrir að stunda kynlíf?

Kolbeinn (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 17:02

16 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég hef ekki tíma né nennu akkúrat núna til að svara öllum mótrökunum hér.

Ef örlítill hluti vændiskvenna er ánægður í vinnunni þá réttlætir það ekki að vændi sé látið grassera.  Alls ekki.  Þeir fara ekki að opna síldarsöltun á Raufarhöfn fyrir þessi fjögur síldarkvikindi sem þar svamla um.

Þar er fórnað meiri hagsmunum fyrir minni að sjálfsögðu.

En þar fyrir utan, þá vita allir sem lesa bloggið mtit skoðun mína á vændi, mansali og misnotkun á konum.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.4.2008 kl. 17:13

17 identicon

Það er svolítið erfitt að svara þessu því það er ekki alveg ljóst hvað felst í því, að þínu mati, að "láta vændi grassera." Ennþá erfiðara á ég með að átta mig á samlíkingunni við síldarsöltun á Raufarhöfn og hvernig hún tengist spurningunni um hvers konar kynhegðun skuli eða skuli ekki vera refsiverð. 

Ég sé ekki að það þurfi að fórna neinum hagsmunum fyrir minni hagsmuni. Það er vel hægt að sporna við mansali og kynlífsþrælkun án þess að gera vændi útlægt eins og það leggur sig, rétt eins og það er hægt að sporna við nauðgunum án þess að gera allt kynlíf refsivert.

Góða helgi annars. 

Kolbeinn (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 17:53

18 identicon

"En þar fyrir utan, þá vita allir sem lesa bloggið mtit skoðun mína á vændi, mansali og misnotkun á konum."...  Er misntkun á konum e-ð verri en misnotkun á öðru fólki?

Bjarki (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 19:04

19 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

AliP, heh! ertu að meina þetta í alvöru, að spyrja hvort þetta sé ekki hættulegt? Pínu annað mál að vinna á mcD, eða vera one on one með einhverjum gaur sem þú veist ekkert um, iðulega frekar varnarlaus, nakin og undir.

Kíktu á þessa mynd ef þú ert ekki búinn að sjá, jú auðvitað er þetta áróðursmynd en þarna tala einmitt fyrrverandi vændiskonur og lýsa starfinu.

Ekki þori ég að sverja fyrir að hamingjusama hóran sé ekki til, en sú sem kom fram sem slík fyrir nokkrum árum síðan, andlit stéttarinnar (sorrí, man ekki í augnablikinu hvað hún heitir) brotnaði niður síðar og berst nú fyrir afnámi. Var nefnilega lygi.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.4.2008 kl. 21:44

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk Hildigunnur.  This sais it all.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.4.2008 kl. 21:57

21 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heimskan lætur ekki að sér hæða hjá sumum hérna, vanþekkingin og vitleysisgangurinn!En Jenný, best að árétta eitt, aðeins og djúpt í árinni tekið hjá þér að við leyfum "allan pakkan" vændi jú löglegt eins og málum nú háttar jú, en svo lengi sem þriðji aðili hagnast ekki á eða komi við sögu. Dreg ekki fjöður yfir hitt, að mér hugnast það lítt, en samt verður að halda öllu til haga og hafa það sem sannast og réttast reynist!

Magnús Geir Guðmundsson, 18.4.2008 kl. 22:03

22 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

AliP, ég kíkti. Kíktir þú?

Ég hef engin réttindi til að ákveða, nei. En hef full réttindi til að hafa skoðun.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.4.2008 kl. 22:15

23 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Það er allavega hættulegast þegar það er ólöglegt að stunda það en löglegt eða semilöglegt að kaupa...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.4.2008 kl. 23:02

24 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Sælt veri fólkið. Mér finnst dálítið einsog þeir sem hér hylla norsku og sænsku leiðina að þeir haldi að Svíar hafi og Norðmenn muni með þessum lögum útrýma vændi hjá sér eða stórminnka það.

Reynslan hefur ekki verið sú í Svíþjóð. Hér er, þrátt fyrir að lögin hafi verið í gildi í fjölda ára, vændi stundað á fullu og komið hafa upp mörg mál varðandi mansal. Enda er það þannig að ef sá sem selur vændið og sá sem kaupir eru sammála þá hafa þeir aðilar einga ástæðu til að kæra og lögreglan nánast einga möguleika á að upplýsa málið.

Ég mundi treysta mér betur hér í Svíþjóð að komast upp með vændiskaup en að ganga á móti rauðu ljósi...

Jón Bragi Sigurðsson, 19.4.2008 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband