Leita í fréttum mbl.is

AÐ VERA SNÚRA...

..er ekki alltaf auðvelt.  Allir sem lesa bloggið mitt vita að ég er óvirkur alki og oftast er ég glöð og hress en stundum á ég mína daga þar sem mér líður ekki sérstaklega vel.  Það gerist oftast ef ég gleymi mataræðinu, fundunum eða AA-fræðunum. Verst er þó ef ég sef ekki nóg.  Óbalans er stórhættulegur fólki eins og mér.  Í dag hefur dagurinn verið minna góður en oft áður.  Til að fyrirbyggja misskilning þá er það ekki svo að mig hafi langað í brennivín, ónei sem betur fer en svona dagar eru áminning um að rétta kúrsinn og ganga varlega um í lífinu.

Það hringdi í mig vinur minn í kvöld og við vorum ekki sammála og undir venjulegum kringumstæðum hefði það ekki pirrað mig eða komið mér í ham.  Í þetta skipti fannst mér að heiminum og honum væri hollt að vita nákvæmlega hvað mér fyndist um málefnið.  Egóið spratt fram, gamli hrokinn var uppábúinn í sparifötin tilbúinn að láta til skarar skríða.  Ég hentist út í rökræður sem engu skila, hafa aldrei skilað neinu og munu aldrei gera.  Við tuðuðumst á um stund þar til hann varð illa pirraður á ég væri með skoðanir og attitjúd og sagði þessa dásamlegu setningu sem gerir hvern jafnvægislítinn alka arfabrjálaðan: "Rosalega ertu illa stemmd, ertu að drekka?".  Hm.. hér er kona búin að vera á snúru í hartnær átta mánuði og hefur hangið þar hin ljúfasta í alls konar veðrum án þess að hrynja til jarðar og... ég varð kjaftstopp.  Í huganum henti ég símanum í vegginn, framdi hægfara limlestingu á viðkomandi manni, fór með æðruleysisbænina og sagði honum eins rólega og mér var unnt að við yrðum að tala saman á morgun.

Kannski hefur alki eins og ég fyrirgert rétti sínum til að vera í óbalans.  Ég veit það ekki.  Ég má jafnvel lifa við að fá svona spurningar það sem ég á eftir ólifað.  Hvað veit ég.  Ég er þó viss um að allar manneskjur geta átt von á alls kyns óþægilegheitum, þannig er bara lífið.  Ég get brugðist við mínum bömmerum með að taka leiðsögn frá þeim sem hafa gengið leiðina á undan mér og vera tilbúin til að taka olnbogaskotum lífsins, kannski ekki með bros á vör en þó jafnvægi og slatta af æðruleysi.  Ég fer edrú til fletis í nótt.

GúddnætgæsHeart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Æ, æ, æ. Vondur endur á deginum. En vittu til, við bloggvinir þínir reynum að ná þér upp. Vertu stolt á snúrunni, það eru margar snúrur í lífi manns. Ég á stundum vonda daga, þar sem mér finnst allir dissa mig og vera vondir og ekki að skilja mig, ekki skilja að veikindi eru erfið og það er erfitt að umgangast heilbrigt fólk sem nennir ekki alltaf að skilja okkur sjúklingana þá á ég til að missa mig og pirrast yfir leiðinlegum kommentum og skilningsleysi annarra, en það gengur yfir, vertu hörð stelpa, ég stend með þér. 

Ásdís Sigurðardóttir, 1.6.2007 kl. 00:51

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Helvítis kallinn. Elsku Jenný. Það þarf ekki alka til að verða pirraður og brjálaður í skapinu og þú hefur fullan rétt á því að taka þín köst eins og aðrir. Ekki láta þér detta eitt andartak í hug að það sé eitthvað óeðlilegt við það. Fyrr í kvöld lýsti ég því yfir að ég væri svo pirruð að mig langaði til að snúa einhvern úr hálsliðnum. Bretinn var svo almennilegur að benda mér á köttinn í sófanum. Sá einhverfi var eins og biluð plata í svona korter: Ian sund Laugaland júní. Pabbi sund Laugaland Júní. Mamma sund Laugaland Júní. Viddi/Bósi (hundarnir) Laugaland júní. Svo bara hækkaði hann röddina þegar enginn svaraði honum. Ég get svarið það að hann var í meiri hættu en kötturinn.

Jóna Á. Gísladóttir, 1.6.2007 kl. 00:55

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þið eruð báðar dásamlegar og ég beinlínis elska ykkur.  Bretinn hefur ískyggilegan húmor sem ég fíla í tætlur.  Við eigum öll misgóða daga.  Takk elskurnar mínar

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2007 kl. 00:56

4 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Svona er lífið víst bara stundum....... erfitt.

En í guðanna bænum..... ekki hengja þig í snúrunni ;)

Eva Þorsteinsdóttir, 1.6.2007 kl. 01:00

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Iss Eva þessi snúra býður ekki upp á sollis fínessa addna.  Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2007 kl. 01:01

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þú ert nú besta skinn sjálf honey

Jóna Á. Gísladóttir, 1.6.2007 kl. 01:03

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nei Jenný, þú hefur fullan rétt á að vera pirruð og illa fyrirkölluð, eins og við erum ÖLL einhverntímann, og stundum er gengið á okkar sjálf þannig að ósjálfráð viðbrögð taka við.  Þannig er nú það.  Ég á son sem var komin svo langt niður í neyslu fíkniefna að enginn trúði á hann lengur nema mamma.  Og allir sögðu við mig, vertu ekki að reyna að eyða lífi þínu í að reyna að bjarga einhverju sem er ekki hægt að bjarga, jafnvel mínir nánustu.  Í dag á þessi sonur minn gott líf, ég var eiginlega orðin sálarlaust flak af áhyggjum, en þetta er búið í dag.  Ég hef lært að taka hverjum degi fyrir sig, og ég er þakklát á hverjum degi sem þessi yndislegi drengur mætir í vinnu og stendur fyrir sínu.  Þetta hefur verið óskapleg barátta um líf og dauða núna í yfir 20 ár.  En sem betur fer virðist allt ætla að ganga að óskum.  Baráttan heldur samt áfram.  Barátta fíkla hvort sem það er brennivín, fíkniefni eða matarást, eða hverju nafni sem nefnist, er barátta lífsins, og sú barátta er ekki bara einstaklingsins, heldur allra sem eru í kring um viðkomandi, hvort sem það eru börn, makar foreldrar eða systkini.  Það eru allir einhvernveginn involveraðir í málið.

Þannig er það bara elskuleg.  Og þinn sigur er sigur allra sem í kring um þig eru, og meira að segja núna líka okkar sigur bloggvina þinna, því þú hefur hleypt okkur inn í lífið þitt, alveg eins og Ásta Lovísa gerði, þó það sé meiri dramatík, Samt sami grautur í sömu skál, bara stigsmunur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.6.2007 kl. 01:03

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk Ásthildur þetta skiptir mig miklu.  Ég tek daginn á morgun með brosi á vör.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2007 kl. 01:52

9 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Elsku Jenný, þetta er allt partur af því að vera tilfinningavera og fullkomlega eðlilegt. Suma daga bara líður manni illa, er með heiminn á herðunum og meikar ekki að gúddera nokkurn skapaðan hlut. Fyrir þessu þarf ekki að vera nein haldbær ástæða nema sú að við erum mannleg. Hugsaðu nú vel um sjálfa þig, hvíldu þig og hugsaðu jákvætt! Ég tek undir með öllum hér að ofan... og þú ert yndisleg!

Laufey Ólafsdóttir, 1.6.2007 kl. 07:05

10 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Sammála öllum hér að ofan. Það er mannlegt að vera pirraður og varla hollt að vera skaplaus Gangi þér vel elsku bloggvinur

Kristján Kristjánsson, 1.6.2007 kl. 08:20

11 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

svo mega konur líka aldrei vera pirraðar nema fá það framan í sig að þær hljóti að vera með fyrirtíðaspennu, á túr eða, eins og ég heyrði fleygt í gær um eina arga snót, að hún þyrfti að skipta um dömubindi...  Svo þú ert í double trouble að vera kvenkyns og óvirkur alki. Stay strong !! :)

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 1.6.2007 kl. 09:10

12 Smámynd: Ragnheiður

Nákvæmlega rétt hjá Bergrúnu. Við virðumst einhversstaðar í þróuninni hafa tapað réttinum á að vera ergilegar og pirraðar..stundum er maður bara pirraður afþvíbara. Jenný mín, það má alveg. Við getum ekki alltaf verið happy campers og það þarf ekkert að hanga saman við tíðahring,alkóhólisma né það að vera foreldri einhvers í neyslu. Ég er bara hálfdrættingur á við elsku Ásthildi, minn slagur hefur staðið í 8 ár.

Ragnheiður , 1.6.2007 kl. 10:00

13 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mér finnst þú standa þig mjög vel Jenný mín og það er allt rétt sem. Ásthildur .segir.

Kristín Katla Árnadóttir, 1.6.2007 kl. 10:08

14 identicon

Fyrst þessi maður spurði hvort þú værir að drekka vegna þess að þú varst illa fyrirkölluð, hvað er þá hægt að segja við okkur hin sem erum ekki AA manneskjur og komumst í vont skap?
Mér finnst vera svo rosalega einblínt á áfengisneyslu AA fólks, sérstaklega hjá þeim sem eru kannski fyrsta árið í edrúmennskunni. Ég veit af reynslu að það er ekki til að hjálpa neinum.
Gangi þér vel í edrúmennskunni.

Maja Solla (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 10:28

15 identicon

Það er alltaf eitthvað svo yndislegt að lesa bloggið þitt, svo fullt af áminningum um það að við erum öll manneskjur með tilfinningar og bregðumst við lífinu í takt við það. Mín fyrsta hugsun þegar ég las þetta var að þú værir í góðum málum vegna þess að þú ert að velta fyrir þér hvernig þú brást við, hvað triggeraði það og hvað þú eigir að gera við það. Með því er verið að taka ábyrgð - eða þannig horfi ég á það. Njóttu þess að vera þú með öllu sem því fylgir, uppákomur eins og þessar eru bara spennandi verkefni en í leiðinni ábending um það að það er fyrst og fremst hugsunin sem stýrir viðbrögðunum. Ég las einu sinni bók sem heitir Understanding. Þetta er bók sem húsbandið mitt fékk á Hazelden stofnuninni í Bandaríkjunum. Hún gengur meira og minna út á setninguna First there comes thought - sem sagt að öll viðbrögð séu afleiðing einhverrar hugsunar og rótin að því að þessar afleiðingar verði ekki til sé að átta sig á hvaða hugsun kom þeim af stað og taka næsta skref í bataferlinu þaðan. Þessi bók hafði mikil áhrif á mig og ég hugsa oft um það sem þar stendur t.d. í samskiptum við börnin mín og nemendur mína ekki síður en húsbandið. Mæli með henni - og svona í lokin - Jenný mín - takk fyrir að vera til

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 10:46

16 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Æi þetta er svona "ertu á túr" dæmi. Óþolandi þegar fólk grípur til svona frasa. Sparkaðu bara í hann næst þegar þú hittir hann...fast! Helst í sköflunginn

Segir aldrei neinn "ertu á túr" við mig í vinnunni.... lengur

Heiða B. Heiðars, 1.6.2007 kl. 11:12

17 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Mér fannst það rosalega stór lærdómur þegar ég uppgötvaði að ég má vera stundum pirruð og þreytt og ergileg! Það er eðlilegt að finna þessar skapsveiflur. Enn stærri lærdómur fannst mér þegar ég uppgötvaði síðan að þessar skapsveiflur líða hjá ef ég leyfi þeim að gera það bara í rólegheitunum. Í stað þess að þvinga í gegn gott skap og um leið að afneita hvernig mér líður gerir ekkert að annað en að safna upp allri gremjunni og ég enda með að gjósa eins og eldfjall! Þess vegna þarf maður að sætta sig við sína líðan á hverjum degi, ganga í gegnum stormana vegna þess að loknum stormi er yfirleitt stillilogn! Gangi þér alveg ótrúlega vel og þú ert sannkölluð hetja! Takk fyrir að deila þessu með okkur! Með kærri kveðju, Sunna Dóra

Sunna Dóra Möller, 1.6.2007 kl. 11:32

18 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég verð nú bara smá hrærð þegar ég les öll fallegu kommentin við snúrufærsluna.  Ég vil bara taka fram að ég var í alvörunni að velta því fyrir mér að þetta með "að leyfa sér að vera pirraður og allt það" eru kannski eðlileg mannréttindi en mér finnst að þar sem það getur verið hættulegt að hleypa sér í tilfinningafár út af léttvægum hlutum (í hinu stóra samhengi) sé að kasta perlum fyrir svín.  Þar sem það er óhollt ölkum að vera tilfinningalega jafnvægislausir vil ég geyma mín æðisköst til betri tíma, ef kostur er.  Fram yfir fyrsta árið amk. því þetta er hreinlega lúxus sem ég hef ekki efni á nú um stundir.

Ég þakka ykkur enn og aftur fyrir falleg orð og hugsanir í minn garð.  Það hjálpar ótrúlega mikið.  Ég verð sífellt ríkari kona. Love u

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2007 kl. 11:44

19 identicon

Það er yndislegt að lesa bloggin þín. Það eru góðir dagar og svo betri dagar. Ég er búin að vera edrú í  20 ár og einhverja mánuði. Svo fór ég í sjónvarpsviðtal í janúar(minnir mig) og fékk símtal í kjölfarið. Ertu á lyfjum? Ha svaraði ég. Já ertu á lyfjum? Nei ég er ekki á lyfjum. Nú! Þú varst svo róleg í viðtalinu. Hjartslátturinn og blóðþrýstingurinn sást ekki í mynd og ekki svitakastið heldur. Þú ert frábær.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 12:36

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það eru konur eins og þú Birna Dís sem virka á mig eins og vítamínsprauta.  20 ár vááá!  En á minn mælikvarða er það forever ég er enn í að telja mánuði, vikur, daga og klukkustundir.  Takk fyrir kveðjuna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2007 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.