Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kvikmyndir

REYKJAVÍK BRENNUR

Rosalega er þetta sorglegt að horfa á eldinn í miðborginni.  Gömlu húsin sem hafa verið þarna svo lengi sem ég man öll að brenna til kaldra kola.  Ég get ekki horft á eyðilegginguna, þetta verður að hafa sinn gang.  Fyrst var það Nýj-Bíó,  núna Kaffi Ópera, Rosenberg og gamli Haraldur Níelson.  Ég ætla rétt að vona að eldurinn berist ekki í Hressó líka. Úff.. hryllilegur dagur.


NOSTALGIA

22

Sá þessa mynd af Sanasol flösku á einhverri bloggsíðu og fór samstundis aftur á bak í tíma og fór að velta fyrir mér hversu ljúfar minningarnar úr bernsku minni eru.  Þær er hægt að framkalla með bragði og lykt t.d.  Sanasol var mér gefið sem barni vegna þess að lýsi fékkst ekki ofan í mig vegna ættgengar klígjugirni.  Bragðið var af vítamínum og appelsínum og mér fannst það nammi.  Kornflexið, sömu tegundar og ég borða í dag, var unaðsgott.  Haltukjafti brjóstsykurinn rauður með hindberjabragði úje, erfitt að toppa. Þetta var foreldravænt sælgæti þar sem það þaggaði niður í manni í smá stund.  Kúlurnar í fánalitunum (þjóðerniskúlur?) hjá Möggu á horninu bráðnuðu á tungunni.  Magga sem alltaf afgreiddi í peysufötunum og hafði aldrei heyrt minnst á þjónustulund henti í okkur, fussandi og sveiandi því sem við báðum um.  Við krakkarnir höfðum heldur ekki hugmynd um fyrirbrigðið þjónustulund þannig að við héldum Möggu í bisniss.

Lyktin úr Gamla- Tjarnar- og Trípolíbíó er einstök í minningunni.  Hátíðleg, spennandi og ekki eins í neinu þessara bíóa.  Hef aldrei fundið þessa lykt fyrr né síðar.  Lyktin af blóðberginu í móanum bak við hús hjá mömmu og pabba, lyktin af nýslegnu grasi á sumrin og af vínarbrauðsendunum sem við fengum í bakaríi Jóns Símonarsonar, ef við komum nógu snemma, kemur næstum því út á mér tárunum. Rifsberjabragðið, undantekningarlítið stolin ber úr görðum vesturbæjar, ó svo ljúft....´

Kannski væri gaman ef hægt væri að bregða sér til baka í tímann bara í örskotsstund.  Sannreyna ljúfleika minninganna.  Æi nei, best að lifa með fortíðinni, vera í núinu og byggja sér mergjaða framtíð.

SíjúgæsHeart


ÚLLEN DÚLLEN DOFF

Nú hafa Danir áttað sig á því að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir nærri helminginn af þeim morðum sem framin hafa verið af afbrýðisömum eiginmönnum og kærustum þar í landi hefði lögregla haft sérfræðinga með þjálfun í því að greina á milli innhaldslausra og raunverulegra hótana.  Þetta er staðhæfting öryggiráðgjafans Henrik Bramsborg hjá PSF.  Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Ég veit satt að segja ekki hvort ég á að hlægja eða gráta.  Er vitneskjan um heimilisofbeldi ekki meiri en þetta?  Eftir áratuga langa fræðslustarfsemi kvennasamtaka á Norðurlöndunum erum við þá ekki komin lengra?  Hvernig væri fyrir dönsku lögguna að byrja að hlusta?  Það er talað um að þekkja "innhaldslausar" hótanir frá þeim raunverulegu!  Hótun er hótun og hlýtur alltaf að takast alvarlega.  Ég hélt það alla vega.  Það má vera að einhverjir sérfræðingar geti greint þarna á milli og þeir geti þá samkvæmt þessu fullyrt um hvaða hótunum beri að taka mark á og hverjum ekki.  Guð hjálpi þeim ef það klikkar og enn ein konan fellur í valinn.  Er það ekki svo ef við verðum fyrir líflátshótunum ókunnugra, að þeim sé ætíð tekið alvarlega?  Ég ælta nú rétt að reikna með því.  Það sama á að gilda um hótanir eiginmanna og kærasta.  Það hefur sýnt sig vera banvænt að gera það ekki.

Henrik Bramsborg segir: "Verði þetta gert af snjöllum einstaklingi með reynslu af slíkum málum, tel ég að það megi koma í veg fyrir 25% eða allt að helmingi morða þar sem fyrrum maki á í hlut".  Svo mörg voru þau orð.

Það ber að fagna því, að sjálfsögðu þegar yfirvöld vakna til meðvitundar um heimilisofbeldi.  En ég hélt að það væri almenn vitneskja nú orðið að svona hótanir verður alltaf að taka alvarlega en ekki nota eitthvað úllendúllendoff-kerfi við hverju skuli brugðist og hverju ekki.


ZERO LANDSFUNDUR EN FYLGIÐ EYKST

12

Kona hoppar nú bara hæð sína úr gleði.  Ný skoðanakönnun um fylgi flokkanna í Suðurkjördæmi sýnir að VG bæta við sig mestu fylgi frá síðustu kosningum.  VG fengi tvo þingmenn en við fengum engan í síðustu kosningum.

Ég hélt að það kæmi einhver niðursveifla næstu dagana eftir landsfundi Sf og Sjálfstæðisflokks. Það virðist ekki vera fyrir utan þessa skoðanakönnun sem birt var um helgina.  Ég óska sjálfri mér og öðrum kjósendum VG innilega til hamingju og er viss um að við verðum stóru sigurvegararnir í vor.

Jíbbískibbí


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRÁ ÖÐRUM SJÓNARHÓL

22

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur sent út á ensku nú í hálft ár og náð miklu áhorfi í Evrópu, hluta Asíu, Ástralíu og jafnvel í Ísrael.  Það er þó merkilegt að Bandaríkjamenn segja ekki markað fyrir sjónvarpsstöðina þar en forráðamenn stöðvarinnar segja að ástæðan sé af pólitískum orsökum.  Það er gott að það bætist í fjölmiðlaflóruna.  Það er ekki verra að geta séð hlutina frá fleiri en einum sjónarhól.  Flott framtak hjá Al-Jazeera.


mbl.is Mikið áhorf á Al-Jazeera í Evrópu og Asíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FATABRJÁLÆÐI

22

Mig dreymir um fataherbergi.  Án gríns.  Þrátt fyrir að vera algjörlega laus við löngun til að eignast hluti svona almennt, eins og einbýlishús, jeppa, sumarbústað, hús á Spáni, flatskjá, verðbréf  og skartgripi þá er ég haldin þeim "ljóta" galla að vera fatasjúk.  Þetta er fjölskyldusjúkdómur.  Mínar sex systur eru eins.  Við vorum ekki gamlar þegar við fórum að gera út á London.  Þá á ég við að einhverjar okkar fóru til London í vikudvöl eða svo og keyptum og keyptum og keyptum á okkur sjálfar og þær sem heima sátu.  Þrátt fyrir aukinn þroska á flestum sviðum (hm) þá situr þessi löstur eftir og dafnar eins og púkinn á fjósbitanum.  Fataskápurinn er að springa úr ofneyslu.  Þegar ég opna hann hrynja flíkurnar í fangið á mér, nær allar svartar. Jakkar, kjólar, peysur, bolir, skyrtur og pils, allt svart.  Maðurinn minn sér engan mun á fötunum mínum.  Hann sér ekki einu sinni mun á Prada og H&MW00t.

029

Einhver klæðagúrú sagði mér einhvertímann að hver einasta kona væri FATALAUS ætti hún ekki "þann litla svarta" þe svartan kjól sem hægt er að nota við flest fínni tækifæri.  Ég hef tekið manninn bókstaflega og þegar ég fór í gegnum fataskápinn minn um daginn komst ég að raun um að ég á sex brúklega "litla svarta".  tveimur hef ég ekki einu sinni haft tækifæri til að klæðast þar sem félagslífi mínu er viðbrugðið eftir að ég varð alsgáð.  Ég sé mig ekki spranga inn á AA-fundi íklædd sparikjól og háum hælum (hm) ekki þar fyrir að á slíkum samkomum er víðsýnin í hávegum höfð og enginn myndi kippa sér upp við það. 

 Dætur mínar þrjár hafa fengið fatasýkina með móðurmjólkinni.  Sýnu verst haldin er þó Maysan mín, miðbarnið sem býr í London og vinnur fyrir verslanirnar "The Arrogant Cat".  Hún keypti sér íbúð með fataherbergi!!  Það er ekki verið að láta sig dreyma neitt.  Bara framkvæmt.  Sóttin er sem sagt ekki í rénum þarna í heimsborginni og áður en hún flutti út seldi hún gestum og gangandi stóran hluta klæða sinna fyrir góða upphæð.  Hún er búin að endurnýja það allt fyrir lifandis löngu.

Helga mín var að koma frá Boston.  Hún keypti tvennar peysur handa móður sinni.  Hún veit sem er að ekkert gleður móðurhjartað meira en eitt eða tvö fataplögg þegar um veraldlega hluti er að ræða. Saran mín fer ekki út fyrir landsteinana án þess að kaupa eitthvað handa fataóðri móður sinni. Ég tek það fram að dætur mínar eru ferðaglaðar konur!!

  Það er náttúrulega skömm að því að vinstri konan og feministinn sé svona hégómagjörn.  Mytan er að við séum allar mussukerlingar í tréklossum, með svart-hvítt sjónvarp. Hehe.  Það leiðréttist hér með.


SUMARDAGURINN FYRSTI.

22

Svei mér þá,  það er að bresta á með Sumardeginum fyrsta.  Reyndar er staðsetning þessa dags á almanakinu alveg út úr kortinu en ég veit að sakvæmt dagatalinu munu vera jafndægur á vori þann dag.  Rökrétt væri þá að þessi dagur héti einfaldlega jafndægur að vori.  Hvern er verið að blekkja?    Ég man eftir sjálfri mér á upphlut, í sportsokkum og titrandi af kulda.  Samt var spennan algjör.  Þetta var æfing fyrir 17. júní sem var uppáhaldsdagurinn minn fyrir utan aðfangadag.  Á Sumardaginn fyrsta í bernsku minni voru sölutjöld í Lækjargötu þar sem mátti kaupa pylsur, popp og blöðrur.  Íslenski fáninn var þar líka í hávegum hafður.  Í minningunni var mér bókstaflega alltaf kallt.  Ef ekki var hríðarbylur eða frost þá forringdi svo að ég kom gegnvot heim. Við þræluðum okkur undantekningalaus í skrúðgönguna.  Amma mín var eins og björgunarsveit fyrir mig og mínar vinkonur og hafði heitt súkkulaði tilbúið þegar við hrísluðumst heim úr bæjarferðinni allar príma kanditatar fyrir blöðrubólgu.  Íslendingar eru bjartsýnir þegar beðið er eftir sumrinu.  Það veit náttúrulega hver maður að sumarið kemur í júní og stundum ef heppnin er með um miðjan maí.  Við búum á Íslandi og ekki við öðru að búast.  En við getum látið okkur hlakka til. 

Ég veit um eina konu sem fer ekki fet á Sumardaginn fyrsta sem verður nk. fimmtudag.  Hins vegar ætla ég að æða í bæinn þ. 1. júní nk. með flagg og blöðru og halda upp á sumarið þannig að eftir verið tekið.

029


BIRTIR UPP UM SÍÐIR

029

Það er yfirlýst stefna þessarar ritsjórnar að vera glöð í sinni þrátt fyrir oft neikvæðar fréttir og aðra óáran sem aftur og aftur skella á höfði þessarar ágætu stjórnar.  Sumir dagar eru erfiðari en aðrir.  Í raun eru flestir dagar góðir en einstaka, bara einstaka dagur má falla sem fyrst í gleymskunnar dá.  Ég vaknaði örg.  Bálill reyndar sem er fremur sjaldgæft í mínu tilfelli.  Nú orðið er ég alltaf svo glöð yfir nýjum degi.  En hvað um það í morgun var ég illa pirruð um leið og ég opnaði augun.  Ég veit enn þá ekki hvers vegna en það sem af er þessum degi hef ég haft allt á hornum mér.  Ég held hins vegar, að ein af ástæðunum sé að ég hékk fram á smátímana í stað þess að fara að sofa á eðlilega snemma.  Ég fór að hugsa um fortíðina, fólk og atburði og varð æst og pirruð.  Það leiddi til þess að ég gat ekki sofnað og var andvaka lengi nætur.  Svo vakna ég svona.  Ég hef hummað fram af mér eðlileg samskipti það sem af er degi, finnst ekki að maður eiga að bjóða upp á skemmtiatriði í formi fýlu og pirrings.  Ég hef legið yfir AA-fræðunum til að reyna að koma mér í jafnvægi.  Þetta er að skila sér svona smátt og smátt.

30

Það er að bresta á með sólskini núna bæði í geðslagi og fyrir utan gluggann minn.  Þvílíkur léttir. Ég er svo fegin að hafa ekki þurft að hringja í Skattinn, Orkuveituna, Ríkisútvarpið og Tryggingastofnun ríkissins.  Mér skilst að þar sé óliðlegasta fólkið í símsvörun.  Hm... ég er heppin kona.

AbanibiabonibaWhistling


ERUM VIÐ RASISTAR?

22

Ekki vinsælt orð rasismi geri ég mér grein fyrir.  Í umræðu almennt er hann yfirleitt klæddur í feguri búning.  Fólk hefur áhyggjur af velferð útlendinga í landinu og enn meiri áhyggjur af því hvort fólk af öðrum og oft framandi uppruna sé að taka vinnu frá innfæddum og síðast en ekki síst er fólk með áhyggjur af menningunni og móðurmáli viðkomandi landsW00t.

Ég verð að segja að þessi skoðanakönnun á "hertum reglum" um landvist útlendinga slær mig verulega illa svo ekki sé nú meira sagt. Rúmlega helmingur þjóðarinnar  eða 56,2% er hlynntur því að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast að á Íslandi.  Um 70% þeirra eru kjósendur Framsóknarflokksins.  Í Framsóknarflokknum eru samkvæmt þessu margir, margir rasistar.

029

Ég spyr mig hvað fólk vill herða í sambandi við reglur um útlendinga?  Halda íslendingar að svona stórum hluta að hér séu frjálslyndar reglur í sambandi við flutninga erlends fólks hingað til lands?  Ef svo er þá eru við á villigötum. Við tökum ákaflega lítin þátt í að taka hér á móti flóttamönnum.  Höfum alltaf látið nágranna okkar um þau mál.  Hér má fólk koma til að vinna.  Vill fólk hertari reglur gegn því?  Hvað með verk eins og Kárahnjúka (svei), jarðgangnagerðir og fleiri atvinnugreinar sem tæpast hefðu getað skilað af sér væri ekki fyrir þetta "óæskilega" vinnuafl.  Hvað með allar konurnar sem halda þjónustustofnunum okkar gangandi (spítölum, elliheimilum, skólum ofl.).  Eigum við að herða reglur og hleypa bara hinum Norðurlandabúunum inn í landið og kannski "dashi" af Bretum? Hvernig væri að fólk færi nú að skilgreina upp á nýtt?  Útlendingahatur (ótti) er oft skefjalaus hræðsla þeirra óupplýstu í hverju samfélagi.  Rosalega finnst mér leiðinlegt að við skulum vera svona illa upplýst hér á Íslandi okkur sé fyrirmunað að sjá hið frjóa og skemmtilega við litríkt samfélag sem kippir sér ekki upp við að vera öðru vísi og er óhrætt við fjölbreytileikann.

Yfir helmingur þjóðarinn, takk fyrir, vill hertar reglur.  Eruð þið ekki að djóka í mér?

"If it walkes like a duck, acts like a duck.... it´s probably a duckPinch


mbl.is Meirihluti hlynntur hertum reglum um landvist útlendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SUNNUDAGSHEIMSÓKN

22

Ég fékk tvær kunningjakonur mínar í snögga kaffiheimsókn í kvöld.  Við ræddum ma kosningarnar, þe aðallega tvær okkar.  Hin hélt því fram sem oftar að hún væri ópólitísk.  Það er bláköld trúa mín að það sé ekki hægt að vera ópólitískur, hins vegar sé þessi röksemdafærsla notuð þegar fólk vill ekki og nennir ekki að taka afstöðu.  Þessi ópólitíska kunningjakona mín er hins vegar með skoðanir og heilmikið attitjúd í sambandi við þær.  Hún setur þær fram af ákveðni, með þóttasvip á milli samanbitinna tanna.  Hún er algjör andstæðingur feminisma, viðurkennir ekki tilvist glerþaksins og vill meina að konur komist áfram á eigin verðleikum ef þær bara nenni því sem sé nú ekki algengt.   Á hennar heimili hefur ríkt þjóðarsorg síðan setuliðið hvarf héðan.  Þau geta ekki á heilum sér tekið hún og eignmaðurinn.  Nú getur hvaða kommúnistaríki sem er hertekið landið!  Hún er sem sagt alls ekki pólitísk og hún er EKKI uppfærð í heimsmálunum á 15. mín. fresti (W00t).  Þessa kunningjakonu mína hef ég ekki séð í nokkuð mörg ár.  Hún kom vegna þess að hin vinkonan sem býr í Hollandi var í heimsókn og leiðir okkar þriggja lágu saman fyrir nokkuð mörgum árum vegna vinnu.  Sú frá Hollandi er mikil baráttukona.  Hún veit hvað hún vill og það sem meira er um vert: Hvað hún vill alls ekki.  Þær fóru að rífast meðan ég bætti á könnuna og voru bálillar á svip þegar ég (blásaklaus) birtis með skarpheitt kaffið handa þeim. 

029

Nú ég ætla ekki að tíunda það sem fram fór okkar á milli enda yrði mér þá hugsuð þegjandi þörfin.  Er nú þegar í ónáð hjá annari þeirra. En ég verð að segja ykkur frá því að sú ópólitíska ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn (eins og svo margir "ópólitískir"gera) og ég spurði hana illkvittnislega hvort hún myndi  listabókstafinn þeirra.  Það var nefnilega sollis þegar við unnum saman þá hitti ég hana á kjörstað með eiginmanninum.  Þó fóru inn í sitthvorn kjörklefann og um leið og hún var horfin á bak við tjöldin gall í henni "Magnús hvort átti ég að setja X við D eða G?". Frk. ópólitísk.is varð ekki par glöð yfir þessari upprifjun minni, hafði skilið húmorinn eftir heima (eða hafði aldrei átt hann til) og rauk á dyr.  Eftir sátum við Holland og hlógum okkur máttlausar.  Þarna varð ég einni "vinkonu" fátækari og var rétt í þessu að þakka almættinu fyrir þá miklu gjöf.

Ég hef sankað að mér allskonar fólki í gegnum árin.  Þeir minna aðlaðandi hafa hrunið úr umgengi mínu eins og flugur, án þess að til einhverra uppgjöra kæmi.  Ein og ein skítabomba í fortíðardraugaformi fellur þó af og til að mér ásjáandi.  Annars er ég aöl svakalega heppin með vinkonur og óvini mína myndi ég ekki þekkja á götu þó líf mitt lægi við.Wink

Ég reikna með að ég hefði getað þagað, verið kurteis og ljúf og að fleira en kaffið hefði þá runnið ljúflega niður en eftir að mér rann þá nenni ég ekki lengur að "búllsjitta". Það tekur tíma, það er leiðinlegt og maður verður afskaplega ósáttur við sjálfa sig.

SíjúgæsHeart

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 2987755

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.