Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

RIP

HoneyBee 

Ég sat hérna í rólegheitunum áðan og las.  Jájá, bara lesandi á præm tæm, sko vinnutíma.  Ég er hyskin og ömurleg húsmóðir, ég veit það.

En aftur að mér þar sem ég sat og las skemmtilega bók.  Segi ykkur frá henni seinna.  Ég var með kaffibolla í hönd, sígarettu í munnviki, dásamlega sjarmerandi en það voru engin vitni að því.  Og ég heyrði suð, lágvært suð og ég hélt að Bördí Jennýjarson, sem hangir að venju uppi á bókaskáp, væri að prófa nýtt sánd.  Þess vegna var ég agjörlega kúl.

Suðið ágerðist, ég varð öll óróleg innan í mér.  Mér varð litið á jurtina ógnarstóru við stofugluggann og mundi eftir flökkusögu, sem kannski var ekki flökkusaga eftir allt saman.  Munið þið eftir sögunni um tarantúlluna sem átti að hafa fundist við rætur drekatrés eða svipaðrar jurtar? Hérna í höfuðborginni sko?  Djö.. sem það er óhugguleg saga.

En hvað um það.  Ég magnaðist öll upp í geðveikinni við tilhugsunina um að ég væri með risakönguló í þessari einu jurt sem tekist hefur að halda lífi í hérna við hirðina.  Ég var ein í húsinu, húsband við útréttingar út í bæ.  Það mátti heyra saumnál detta, fyrir utan suðið auðvitað.  Bördí var saklaus, því hann var sofandi upp á bókastafla.  Bzzzzzzzzzzzzzzzzzz, heyrðist og það magnaðist og efldist.

Fæturnir voru við það að gefa sig.  Átti ég eftir að deyja hér, fyrst kvenna í Norðurálfu sem finnst myrt á heimlii sínu og morðinginn viðbjóðsleg tarantúlla?

Ég gekk á hljóðið vopnuð glasi.  Bzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz, bzzzzzzzzzzzzzz, heyrðist nú greinilega.

Ég gekk fram á viðurstyggilega Humlu eða hunangsflugu sem eru svo sætar í bókum og þegar þær blogga (fluva, ég elska þig), en í návígi eru þær martröð skordýrahræddrar konur.  Flugan var 18 fermetrar á breidd og eitthvað svipað á lengd, og hún virtist ekki geta flogið.

Ég öskraði og hringdi í húsband og veinaði; komdu heim strax, það er Humla í stofunni.

Hann hélt nú ekki, var á bílaverkstæði að láta meta skemmdir á bíl sem komu á atvinnutækið um helgina.  "sjáðu um þetta sjálf kona, hvaða óhemjugangur er þetta?".

Ég er að skrifa þetta í lappanum inni í eldhúsi.  Ég er flúin þangað.  Símalaus og allslaus.  Mér segir svo hugur að ég hafi tapað fyrir skordýri.

Ég er gránduð á eigin heimili. 

Bzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz færist nær.

Ég þakka ykkur skemmtunina.  Lífi mínu er að ljúúúúúkkkkaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaa.

Rest in pease.

 


Atli Húnakonungur

Gas-gas-gasmann eða Atli Húnakonungur með piparúðann var að beita honum "rétt".  Hann var að beita honum eins og gert er í löndunum "sem við berum okkur saman við".  Hvaða lönd geta það mögulega verið? 

Hvaðan var Atli Húnakonungur ættaður?  Mongólíu held ég.

Ber löggan sig saman við USA, Ísrael, eða Írak við beitingu piparúða?

Ef þessi froðufellandi geðveiki sem löggumaðurinn virtist haldinn er að erlendri fyrirmynd, þá held ég að við ættum að bera okkur saman við aðrar þjóðir sem eru ögn mannúðlegri í framkomu.  Eða (guð hjálpi mér) setja okkar eigin reglur um meðferð á fólki við þessar aðstæður.

Það er gott að lögreglan ber ekki skotvopn.  Er að hugsa um manninn í NY sem löggan þar skaut og var óvopnaður.  Það var verið að sýkna lögregluna.

Ég er heitur andstæðingur ofbeldis en ég geri mér grein fyrir því að við ákveðnar aðstæður þarf lögreglan að geta gripið til örþrifaráða og beitt þá fyrir sig þessum andskotans piparúða.

En ég þori að éta hattinn upp á að þarna var notkun eiturgass engin nauðsyn.

Ég er enn með martraðir út af Atla.

Ég vil ekki mæta honum í myrkri.

Góðan og ofbeldislausan dag.


mbl.is Rétt aðferð við beitingu piparúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég á leiðinni í frambjóð?

Æi mér hefur alltaf þótt hann Ástþór svo mikið krútt.  Svona jólasveinakrútt.  Svo er það þannig að ef fólk er ekki með CV úr ráðuneytum, pólitík eða öðrum forfrömuðum lókölum samfélagsins, þá er litið á það sem bilað, ef það býður sig til forseta.  Ég stend með því fólki, alveg klárlega.

Allir muna eftir Pétri Hoffmann, hann reið ekki feitum asna frá sínu framboði, þessi fjörulalli.  Annars sagði pabbi mér, einu sinni þegar við fórum í fjöruferð að týna kuðunga, rétt hjá kofa karlsins, að það væri talið að Hoffmann hefði fundið miklar gersemar í fjörunni og væri því ríkur maður.

En þetta var útidúr.

Nú er það sem sagt ljóst að Ástþór býður sig ekki fram að þessu sinni.

Hvað með hana Sigrúnu úr Vestmannaeyjum?  Hún skellti sér í framboð og var algjör nóboddí og fólk þusaði um að það væri svo dýrt að fara í forsetaframboð, vitandi að maður á ekki séns í helvíti að vinna.  Sko dýrt fyrir þjóðfélagið.

Lýðræðið kostar, bara svo þið vitið það.

Ólafur Ragnar er þá öruggur.  Eða hvað?

Ég hef ekki sagt mitt síðasta orð um hvort ég fer fram.

Ég á eftir að tala við mína nánustu og bera saman bækur mínar við stuðningsmenninaW00t.

Þeir eru nokkuð margir.  Jájá.

Farin að ráða ráðum.

Úje.


mbl.is Ástþór býður sig ekki fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni á aðdáenda - montfærsla Össurar

 4448

Ég er í sunnudagsfíling og er að moka út úr skápunum og nú liggur þessi feita fatahrúga á herbergisgólfinu og bíður eftir að ég geri eitthvað við hana.

En hvað á ég að gera?  Fötin eru heil, ágæt alveg, þó ég segi sjálf frá, og ég er að berjast við vinstri mannúðarmanninn í mér.  Á ég að skutla þessu í poka eða gefa það niður í Rauða kross eða Hjálpræðis?  Hugs, hugs.  Þá þarf ég að þvo góssið.  Æi nenni því ekki, hendi bingnum.

Og ekki orð um það meir.

Ég er að fá gesti í kaffi á eftir, verð auðvitað að flýta mér, en sit hér og reyki eins og sprúttsali við tölvuna (uss ekki segja), er sem sagt í pásu.

Ég ætlaði ekki að pirrast út í "ráðamenn" og næturfrömuði í dag, en svo asnaðist ég inná eyjuna illu heilli.  Þar var Össur efstur á blaði.  Mikið andskotans vitleysan alltaf og montið í honum Össuri.  Nú mærir hann sjálfa sig og dýralæknirinn og svo flatterar hann Geir Haarde (hafið þið tekið eftir því hvað Haarde er orðinn rosalega pirraður í viðtölum, alveg; ég ætla ekki að svara þessu, eða ég var búinn að segja þér það- fílingur? Ég held að það sé einkaþotan sem orsakar þetta, þær gera manni hluti).

Það er ekki nýtt að Össur monti sig og mæri.  En mér finnst gott að vita að Árni er með aðdáenda.  Var reyndar farin að vorkenna manninum yfir að vera sá óvinsælasti fyrr og síðar, en sem betur fer; Össur hreinlega elskar hann.  Þeir einir geta staðið keikir og haldið í taumana á þessari firrtu þjóð.

Hér er monthaninn!

Lífið er bölvuð tík, ég segi það satt.

Muuuuuuuu

Farin að henda.


Plís gefðu mér utanundir

Ég er dásamleg mannvera sem svíf um meðal manna og gef þeim tilgang með lífi sínu.  Fólk verður aldrei samt eftir að hafa dvalið í unaðslegri nærveru minni.

Kostir mínir eru ótal margir, hvar á ég að byrja?  Ég tek þá helstu:

Fegurð að innan sem utan.  Fjölhæfni, örlæti, hnyttni, manngæska, listræna, dugnaður, ofurminni, góð heyrn og unaðslegir olnbogar.Halo

Minn helsti kostur, sem mér hættir til að gleyma að minnast á, en er sem betur fer sýnilegur í skrifum mínum en hann er auðvitað hógværðin, sem er beinlínis að drepa mig.Pinch

Allir elska mig og dá.

Þess vegna skil ég Renee ógeðslega vel þegar hún segist elska að láta fólk vera dónalegt við sig af því þá líður henni eins og venjulegu fólki.

Ég og Renee erum í sömu sporum hérna.  Við erum betri en annað fólk, aðeins fullkomnari og verðum þess vegna aldrei fyrir leiðinlegum flugfreyjum.  Oh, óþolandi. 

Ég er svo óheppin að hafa ekki lent á leiðinlegum flugfreyjum fyrir utan eina hjá útlendu flugfélagi og auðvitað þekkti hún mig ekki og var því eins og bölvaður fauti við mig.

Æi það er svo erfitt að vera betri en allir aðrir.  Mig langar til að fá á kjaftinn við kjötborðið ef karlinn þar er í vondu skapi (eins og allir hinir), ég vil láta manninn í sjoppunni hella úr kókflösku yfir hausinn á mér af því Liverpool hefur tapað í fótbolta og svo vil ég láta kerrumanninn í Bónus vaða með vagninn í lappirnar á mér þegar hann er orðinn þreyttur á slóðunum sem skilja kerrurnar eftir út um allt.

Það er lífið.  Þannig lifir venjulegt fólk.

Ekki gyðja eins og ég.

Dem, dem, dem! 


mbl.is Eins og venjulegt fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturgangan í borginni

garbage%20can

Afturgangan í borgarstjóralíki var að krúttast í vorkverkunum fyrir blaðamenn í dag.

Mér var einu sinni hlýtt til Ólafs, af því þeir voru vondir við hann í Sjálfstæðisflokknum.

Nú er hann búinn að setja niður sína síðustu kartöflu í mínum garði.

Ólafur er að spara og hann tekur klippurnar og lítur í kringum sig.  Hvar er óþarfi sem má missa sig?  Jú, Mannréttindaskrifstofa.  Þrjár stöður.  Algjör óþarfi, klipp, klipp.

Einn starfsmaður er á Mannréttindaskrifstofu.  Þórhildur Líndal.  Hún er að hætta.  Sem er auðvitað slæmt mál, Þórhildur var að gera góða hluti.  Ólafi finnst verkefni skrifstofunnar óljós!

Reykjavík er í góðum málum, það hlýtur að vera, ef þetta er það besta sem Ólafi F. dettur í hug til að flikka upp á heimilisbókhaldið. 

Mér finnst ég alltaf vera að horfa á Spaugstofuna þegar ég sé borgarstjórann í Reykjavík í fjölmiðlum.

Dem, dem, dem


mbl.is Hreinsunarátak í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rýkur - rúllar - eða rennur

fire

Einu sinni, fyrir ekki svo löngu síðan, tíu árum eða rúmlega það, hefði mér fundist flott að vinna við rauðvínsframleiðslu. Í smakkeríinu. Hikk.

Eftir að ég fór svo í pillurnar, þ.e. svefn- og róandi, lét ég mig í alvöru dreyma um að verða lyfjatæknir.  Mér fannst það praktískt og það fór sæluhrollur niður bakið á mér við tilhugsunina um að vera inn um milljónir af þríhyrningsmerktum lyfjum.  Ég held að ég trúi því sem mér var sagt á Vogi, að ég sé fyrst og fremst pilllukerling.

Hugsið ykkur að vera svo firrtur að finnast pillur í öllum stærðum og gerðum, það mest spennandi í heiminum.  Þvílíkt líf. 

En ég fór aldrei í lyfjatækninámið, sem betur fer fyrir apótek þessa lands, enda var það aldrei nema hugsunin ein.  Var svo illa haldin af alkahólisma að ég fór ekki langt, svona yfir höfuð. 

Nú dreymir mig aðeins um eitt og það er að vera edrú.  Þar kemur lykilinn að öllu hinu sem er eftirsóknarvert í lífinu.

Það er ekki flóknara en það.

En ég var að pæla í því hversu aumkunarvert það hefði verið, hefði ég haldið áfram á breiða veginum og á endanum hefði þurft að fylgja mér á barinn, sko apóteksbarinn. En eins og maðurinn sagði, það er sama hvort það rýkur, rúllar eða rennur, allt er nónó, af því sumir eru búnir með kvótannWhistling

Ómægodd.

Ég hendi mér í vegg.  Allsgáð og í flottum fíling.

Æloflæf.

Úje og snúrumst.


mbl.is Á launum við sumblið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og mammasín

20080416215110_5 

Ég lærði að lesa 5 ára og hann Óli frændi kenndi mér.  Hann fjárfesti í stafrófskveri og við tókum staf á dag.  Þann dag sem ég gat kveðið að fyrsta orðinu TÁ, varð ég yfirmáta hamingjusöm, enda man ég atvikið ennþá.  Ég elska þetta gamla kver og verð öll mössímössí innan í mér þegar ég tek það fram og skoða.  Gamli maðurinn átti eftir að kenna frumburðinum mínum að lesa líka, á samskonar kver, en Helga mín var rétt 4 ára gömul þegar hún fór að kveða að. 

Við Jenný Una erum að læra að lesa.  Þ.e. hún er að læra að lesa, ég er í heví upprifjun.Whistling

Það eru breyttir tímar og ég er að nota Stjörnubækurnar svokölluðu við heimakennsluna, en þær eru bæði skemmtilegar og hvetjandi.  Stjörnur og verðlaunapeningar í formi límmiða, fylgja með bókunum.  Bækurnar eru ætlaðar 3-5 ára börnum.

Í kvöld vorum við að skoða stóra A og litla a.  Jenný þekkir a, því það stendur fyrir amma.  Við ræddum heimspekilega saman um stóran og lítinn staf. 

Jenný: Akkurru er litla a ekki eins og mammasín?

Amman: Það er svolítið eins og mamman, en samt aðeins öðruvísi, eins og þú sem ert lík mömmu en samt aðeins öðruvísi.

Jenný: Aha, en litla a má ekki hlaupa burt frá mömmu sín og týnast, neei, það má alls ekki.

Amman: Alveg rétt Jenný mín.

Jenný: Því þá þarf löggan að koma og leita að litla a-inu.

Amman steinþagði og hugsaði með sér að löggan væri smá bissí í öðrum verkefnum þessa dagana.

Nú sefur nemandinn í litla rúminu sínu og á morgun förum með hana í íþróttaskólann í KR-heimilinu og þá á að veita verðlaun fyrir dugnað barnanna á íþróttabrautinni í vetur.

Farin í kollhnís.


..og svo fóru bloggheimar af stað..

Ég horfði á viðtalið við Láru Ómarsdóttur í Íslandi í dag.  Mér finnst hún ferlega flott stelpan.  Þarna tók hún ábyrgðina á mistökunum, hikstalaust og mættu fleiri taka hana sér til fyrirmyndar.

Mér finnst reyndar þetta mál engan veginn svo alvarlegt að Lára þurfi að segja upp.  Ég trúi henni þegar hún segir þetta hafa verið kaldhæðni og að það hafi aldrei átt að heyrast.

Ég held að Lára ætti að endurskoða sína uppsögn.

En að öðru.  Þegar málið var rætt, bæði í Íslandi í dag og svo í Kastljósinu, þá heyrðust setningar frá spyrlum sem dæmi:

"Einhverjir bloggarar" og

"svo fóru bloggheimar af stað". Dæs.

Það er ekki laust við að mér finnist að fjölmiðlamenn séu margir rosalega pirraðir út í bloggara.  Eins og það að blogga geri mann að ótýndum lýð,.

Kannski hugsa sumir með eftirsjá til þeirra tíma, þegar almenningur hafði ekki tök á að láta rödd sína heyrast, ég veit það ekki.

Við sem bloggum erum misjöfn og öll gerum við mistök.  Ég persónulega ét mín ofan í mig þegar ég fer offari, eða leitast að minnsta kosti við að gera það.

En Lára Ómarsdóttir á virðingu mína óskipta.  Svo má hún hætta við að hætta.

Og nú hef ég lokið máli mínu... í bili.


mbl.is Hættir sem fréttamaður á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggískt tuð

woman-computer-heart 

Ég tók ákvörðun í morgun og hún var einfaldlega á þann veginn, að himnar mættu opnast, jörðin springa og fjöllin hrynja, án þess að ég myndi missa mig í að blogga um það.  Ég er með upp í háls af fréttum eftir öll lætin undanfarna daga.

Samt er ég bloggískur tuðari og ég gengst við því.

Nú ligg ég á hnjánum í heitri og fagurri bæn og bið þess að fjölmiðlamenn, bílstjórar og aðrir töffarar samfélagsins, haldi sér á mottunni og að ráðamenn þjóðarinnar reyni að skandalisera hljóðlega, amk fram yfir helgi.  Kommon, ég get ekki urlast endalaust upp.

En.. ég er endurfædd yfirstéttarkona sem á ekki að þurfa að lyfta litlafingri ef réttlæti væri stærð í minni lífsjöfnu.  Þegar ég kom í heiminn, grámyglulegan morgun í janúar fyrir helling af árum síðan, gleymdist að senda með mér fylgihluti.  Ég hefði átt að "koma með" húsþjóni, Bentley bifreið og feitri innistæðu í Englandsbanka.  En það fórst fyrir.

Mér finnast húsverk svo leiðinleg, svo vita vonlaus gjörningur, að mér líður eins og ég sé að moka skurð til þess eins að moka ofan í hann aftur.  Þú hefur aldrei þrifið í síðasta sinn, nema þegar þú gefur upp öndina með andlitið ofan í skúringafötunni.

Ók, ég ýki, ég hef átt mínar stundir, high af hreingerningarvökva, styðjandi mig við kústskaft með heimskulegan sælusvip í andlitinu.  En það gerist eitthvað þegar ég þríf.  Mér verður ekki sjálfrátt, ég veð áfram eins og róbót og ég hugsa ekkert á meðan, sem er reyndar afskaplega góð upplifun.

Nú hefur runnið upp fyrir mér ljós.  Heilinn fer á átópælot.  Það er þó huggun harmi gegn.  Ég sé nefnilega ekkert í kortunum sem segir mér að húsþjónninn sé á leiðinni.

Farin að moka skít.

Ég er almúgi, ekkert annað en ótýndur almúgi.

Sippohoj.


mbl.is Leiðinleg störf setja heilann á sjálfstýringu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.