Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Neimdropping tækifæri aldarinnar

Í fyrsta skipti sem ég gifti mig var kirkjan svo lítil að ég og þáverandi vorum komin út á hlað þegar brúðarmarsinn var rétt í startholunum, þ.e. við gengum út á fyrstu tónunum.  Það kom hallærislega út og það var þá, í nepjunni fyrir utan litlu Hallgrímskirkju, sem ég ákvað að ég myndi ekki hafa músík í mínum brúðkaupum aftur.  Og ég stóð við það.

Ég gifti mig því alltaf í algjörri þögn eftir það og missti þess vegna af mörgum skemmtilegum tónleikum.Pinch

"Brúðguminn" sem var í fréttunum um daginn af því hann var ósáttur við að brúðkaupsveislan hans í Þróttarheimilinu yrði í miðjum tónleikum Bjarkar og Sigur Rósar í Laugardalnum, er búinn að redda málunum.  Hann flutti veisluna.

Hann er ánægður með það, fílar heldur ekki Björk og Sigur Rós.  Finnst músíkin þeirra væl.

Allt í góðu með það sko, smekkurinn er misjafn og ég fell heldur ekkert í stafi yfir Sigur Rós, við erum ólík eins og gengur.

En er hann ekki að missa af frábæru neimdropping tækifæri maðurinn? 

Það er ekki margt sem toppar það að geta sagt stórkostlega sanna sögu úr brúðkaupinu sínu.

"Þetta var frábær dagur, það var svo smekkfullt af gestum að ég gat ekki talið þá.  Björk og Sigur Rós spiluðu og brúðkaupið vakti heimsathygli".

Margir myndu gefa af sér höfuðleðrið fyrir að geta sagt svona lagað og vera að segja algjörlega satt og rétt frá.

Dem, dem, dem, ef ég væri ekki hætt að gifta mig þá hefði ég stokkið á þetta tækifæri.

Nú er að bíða og vona að Frumburður eða Maysan mín einhendi sér í að gifta sig næst þegar spilað verður með náttúrunni.

Svo vel við hæfi.

Til hamingju Thorvaldur Brynjar og frú.

 


mbl.is Brúðkaupinu reddað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannstu?

 seb

Mér finnst svo krúttlegt eitthvað þegar auglýsingar eru skrifaðar eins og fréttir og svindlað inn með alvöru stöffinu, þ.e. fréttum sem standa undir nafni.

Eins og t.d. þessi "frétt" um að miðasala á tónleika franska tónlistarmannsins Sebastien Tellier sé hafin, hvar megi kaupa miðana og hvar tónleikarnir verða haldnir.

Og þá kem ég að því sem ég ætla að blogga um.  Þegar ég sá þessa "frétt" var ég alveg: Hm, bíðið nú aðeins, hver er þessi Tellier? Algjörlega blankó sko.  Svo gúgglaði ég manninn og þá sá ég að þetta var franski júrósöngvarinn.  Það er ekki langt síðan Júróvisjón var haldin og ég gjörsamlega búin að blokkera þá skelfingu og grafa í óminnisdýpinu.

Ég er nefnilega ótrúlega minnug þegar það hentar.  Mínus þessi ár sem ég var í áfengi og pillum auðvitað, þá mundi ég ekkert stundinni lengur.  Algjörlega tóm á milli augna og eyrna.

Ég man auðvitað hvar ég var þegar Kennedy var myrtur eins og allir aðrir sem á annað borð voru farnir að skríða þegar það gerðist.

Ég man ótrúlega langt aftur, man hvað ég var að hugsa þegar ég var 4 ára og svona.  Ekki eðlilegt.

Munið þið hvað þið gerðuð daginn fyrir fermingardaginn ykkar? En daginn eftir?  Þetta er skítlétt, auðvitað munið þið það.

Munið þið hvað þið gerðuð á Þorláksmessu þegar þið voruð 8 ára?

Eða daginn fyrir Skírdag þegar þið voruð 9?

Eða fyrsta daginn í skólanum þegar þið voruð 6?  Ég man það og ég man í hverju kennarinn minn var og hverjir komu í fylgd mömmu sinnar og ég var ein af þeim.

Og áfram, fullt af undarlegum smáatriðum sem ég man. 

Ég hef líka ágætis hæfileika í pylsutroðningaraðferðinni við próflestur.  En þið?

Ok, segja Nennu sinni.

Og svo ætlaði ég skrifa eitthvað annað hérna en ég man ekki hvað!

Sjitt, mér er að förlast.


mbl.is Miðasala hafin á Tellier
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Felupenni og Skóflustingur

Okkur sem viljum ekki sjá náttúrunni misþyrmt enn frekar hefur borist liðsauki úr ekki svo óvæntri átt.

Ungir jafnaðarmenn hafa sent út tilkynningu þar sem kemur fram hörð gagnrýni á ráðherra Samfylkingarinnar, þá Össur Felupenna Skarphéðinsson og Björgvin Skóflusting Sigurðsson, fyrir að ganga gegn stefnu flokksins í umhverfismálum.

Fagra Ísland er orðin eins og lélegur brandari eftir að þessir stjörnuráðherrar fóru að praktisera stefnuna, eða svoleiðis.

Í tilkynningu UJ stendur eftirfarandi:

"Nú hefur Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra tekið skóflustungu að álveri í Helguvík og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra endurnýjað viljayfirlýsingu um byggingu álvers á Bakka. Ungir jafnaðarmenn telja að ráðherrarnir hafi með þessu farið gróflega gegn stefnu flokksins. Ekki þýðir að skýla sér bak við að ríkisstjórnin hafi ekki tæki til að stöðva það sem þegar hafi verið í farvatninu þegar Samfylkingin tók við ríkisstjórnartaumunum fyrir rúmu ári. Lágmark væri þá að slá sig ekki til riddara með því sem er andstætt stefnu flokksins."

Ég hefði ekki getað sagt þetta betur sjálf.

Og svo er beinlínis sorglegt að lesa yfirklórið og réttlætingarnar hjá þeim ágæta manni honum Dofra, sem ég að öðru leyti hef töluvert álit á.

Stundum er best að horfa á hlutina eins og þeir eru.  Ekki eins og maður vildi að þeir væru.

En jólsveinaráðherrarnir í Samfylkingunni eru hreinlega ekki að slá í gegn hjá mínu fólki í umhverfismálunum.  Mér þykir það leitt, ekki svo mikið Samfylkingarinnar vegna, af skiljanlegum ástæðum heldur einfaldlega vegna þess  að fórnarkostnaðurinn  á eftir að verða skelfilegur.

Ójá.


mbl.is Ungir jafnaðarmenn gagnrýna Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófarir spikfeitrar býflugu - eða hvað?

 543

Ég stend frammi fyrir vandamáli.

Það hefur með reykingar að gera.

Ég þyrfti að hætta þessum (ó)sið en ég nenni því ekki. 

Það er vandamálið sko.  Letin á eftir að verða minn bani.

Annars verð ég að segja ykkur frá því að í gær var ég nærri búin að yfirgefa.

Jájá og það var nokkuð dramatískt bara.

Sú kakófónía innihélt eftirfarandi: Svalahurð, stóra býflugu, stökk tvo metra í loft upp, flugnaspaða, fall á gólf og hönd sem festist á milli stafs og hurðar ásamt aumum raddböndum.

Persónur og leikendur: Undirrituð og  eitt býflugukvikindi, spikfeitt.

Ég minni á að býflugur hafa ekki hendur.

Nú getið þið raðað saman brotunum.

Ég nenni ekki að fara nánar út í atburðarrás.

Er að reykja sko.Devil


Vinkonuvæðing á húsbandi?

Guð hvað það væri notalegt ef ég gæti platað húsband til að horfa á Beðmál í Borginni, sko þættina sem einhver dætra minna á komplett.  Ef ég gæti hangið með honum í sófanum og við hlegið og ruglað yfir stelpunum og kommenterað á fötin og svona.

En.. það mun ekki gerast.  Ég horfi bara ein á svona stelpuþætti.  Hann horfir einn á fótbolta og er reyndar að því í þessum töluðu orðum.

Þess vegna öfunda ég svolítið Elton og kærastann, að hanga saman yfir Beðmálunum.  Krúttlegt, ef þið vitið hvað ég meina.  Sé þá alveg fyrir mér í heví umræðum um föt og uppáferðasögur stelpnanna.

Ég öfunda þá reyndar ekki af bökuðu baununum og ristaða brauðinu sem þeir graðka í sig á meðan þeir horfa - en þetta er samt svo svakalega huggulegt eitthvað.

En þegar ég hef hugsað þetta til enda þá er ég eiginlega nokkuð fegin að við húsband erum ekki með sama áhuga á sjónvarpsefni.

Hann horfir á sitt - ég á mitt. 

 Ég giftist honum eiginlega ekki til að vinkonuvæða hann.  Ég á nefnilega glás af vinkonum.

Við sláumst heldur ekki um spegilinn.  Þar hef ég forgang.

Enda erum við ekki hommar.

En maður getur látið sig dreyma.


mbl.is Vill helst horfa á Beðmálin með kærastanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldursblogg

 lucy-jump-large-coat-stand

Ég held að þetta með að verða gömul og allt það kjaftæði hafi náð mér.  Og það þrátt fyrir að ég hafi marglofað sjálfri mér að láta það ekki gerast.

Sko þegar ég var tvítug þá voru allir yfir þrítugt á grafarbakkanum.

Ég held meira að segja að ég hafi lýst því yfir í votta viðurvist að ég ætlaði ekki að verða eldri en fertug, en það var svo skelfilega hár aldur að ég náði ekki upp í það.

En ég er orðin fimmtíuogeitthvað og ég upplifi að flestir eru eldri en ég.

Ég býð eftir að áhugamálin breytist.  Mér er sagt að á mínum aldri komi músíksmekkurinn að breytast, útsaumur muni höfða til manns í ríkara mæli og eitt aðaláhugamálið verði að stunda  lestur minningargreina og að mæta í jarðarfarir hjá ókunnugu fólki.

Þetta er auðvitað ekkert annað en bölvað kjaftæði.

Jákvæða breytingin sem ég hef tekið fagnandi er að ég nenni sjaldnast lengur að fara í kringum hlutina eins og köttur í kringum heitan graut.  Ég segi hlutina hreint út.  Það er kosturinn við að eldast. 

Annars er ég að lesa bók um konu sem er með jarðarfarir sem áhugamál og erfisdrykkjur eru sérstaklega spennandi að hennar mati.  Það er út af þessari bók sem ég missti mig í aldurspælingarnar og ég varð alveg meðvituð um það í smástund að lífið styttist í annan endann.  Ekki gott mál.  Ég segi ykkur frá bókinni seinna þegar ég er komin yfir sjokkið, ef ég lifi það af.

Ég gæti alveg búllsjittað mig og aðra með því að segjast ekki óttast ljámanninn en þá væri ég ekki að segja satt.  Mér þykir alltof vænt um lífið til að kæra mig um að yfirgefa það.

Einhvern veginn finnst mér það alveg ágætlega heilbrigð afstaða.

En nóg um það, ég ætla að hríslast út á svalir í sólbað.  Með hitapoka, sjal og staf.  Jeræt. 

Lífið er bjútífúl.

Úje.

 


Aðstoðarkona með attitjúd

 e107e4072187d0e62515b45af4e50a69

Ég er orðin þreytt á þessum lestri á milli línanna hvað varðar ástandið í borginni.  Mig fýsir að vita hvaða rugl er í gangi þarna.  Aðstoðarkona Ólafs að hætta og gefur engar skýringar á því.´

Mér finnst eins og okkur borgarbúum komi við hvað þetta lið er að gera.  Eru þau öll að flippa út?

Tekið af visi.is

"Ólöf Guðný Valdimarsdóttir mun láta af störfum sem aðstoðarmaður Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra á næstunni, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Ólöf Guðný varð aðstoðarmaður þegar Ólafur tók við í janúar á þessu ári. Samkvæmt samkomulagi meirihlutans í Reykjavík situr hann sem borgarstjóri til mars á næsta ári, en þá tekur Hanna Birna Krist­jáns­dóttir við.

Ólöf Guðný vildi hvorki staðfesta né neita þegar blaðamaður náði tali af henni. „Ég var í vinnunni í dag og verð í vinnunni á morgun, meira hef ég ekki um það að segja."- kóp"

Ólöf Guðný bara með attitjúd þegar hún er spurð eðlilegra spurninga.  Ég sver það ég er hætt að skilja upp né niður.

 P.s. Get ekki stillt mig um að birta þessa mynd af Ólafi með listakonunni sem hann hefur fengið til að skemmta okkur á Menningarnótt.  Ég nappaði henni hjá honum Herði á eyjunni.


Nú fékk ég á kjamman - áts

woman_laughing 

Og þeir halda áfram að rannsaka.  Og núna er það ekkert selvfölgelighet sem er útkoman, heldur gefur niðurstaðan manni einn á kjammann og það svo syngur í.

Hvað hef ég ekki lesið margar bækur um lækningamátt jákvæðs hugarfars?  Óteljandi og ég er ekki að ýkja.  Því er haldið fram um víðan völl að jákvæðar hugsanir séu svo máttugar að þær geti læknað flest mein.  Gott ef ekki gert það að verkum að maður lifi nánast forever.  

En óekkí samkvæmt þessari rannsókn frá Kalforníuháskóla.

Ég t.a.m sem er afskaplega geðgóð manneskja að öllu jöfnu er líklegri til að hverfa á vit forfeðra minna mun fyrr en fýlupúkinn!  Hafið þið heyrt annað eins?

Skapvonskupúkarnir geta lifað út í það óendanlega á meðan við þessi glöðu blómabörn föllum eins og flugur í vígða jörð, fyrir aldur fram.

Ég spyr, hvaða bölvaða réttlæti er nú fólgið í þessu?

Ég er alveg að verða dedd sjúr á því að guð er hreinlega ekki til.  Það getur ekki verið að hann sé svona snúinn og fullur af absúrd hugmyndum um réttlæti.

Eða kannski að klisjan sem kemur mér til að æla reglulega þegar mér verður á að lesa minningargreinar: "Þeir sem guðirnir elska deyja ungir" sé ekki bara plástur á sárin heldur beinharður sannleikurinn.

Kannski er þetta karmískt dæmi, maður er rekinn heim þegar það fer að verða skemmtilegt á Hótel Jörð?

Ég sverða, nú er ég hætt að brosa, hætt að hlægja og allt verður dauðans alvara frá og með núna.

Engan fíflagang börnin góð ef þið ætlið að lafa hérna eitthvað lengur.

Fyrirgefið á meðan ég hendi mér fyrir björg.


mbl.is Glaðlyndir fara sér fremur að voða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjötfyllerí

Ein glataðasta aðferð í samskiptum para er þegar annar aðilinn ákveður að breyta hinum að sínum smekk.

Klikkar alltaf, eða nánast alltaf.

Einn af mínum fjölmörgu eiginmönnum var alveg dedd á því að fá mig til að hætta að reykja.  Hann reykti reyndar sjálfur, aðeins minna þó.  Reglulega tók hann saman kostnaðinn við að reka þennan löst hjá mér og gaf mér tölur á færibandi.  Þú ert búin að reykja fyrir þessa og hina upphæðina, og það gera tvær Mallorcaferðir, fjóra bíla og eitt hús eða svo.

Ég svaraði þessum bókhaldara í lífi mínu með því að kveikja mér í sígó.

Og sumar vinkonur mínar sem í gegnum tíðina hafa sagt við fyllibyttukarlana sína; Ef þú hættir ekki að drekka þá skil ég við þig.  Einn og einn hætti í smá tíma og rúllaði síðan í brennivínið með látum eftir að hafa verið óþolandi á þurrahnefanum í x-tíma.

Maður breytir ekki fólki.  Maður hræðir engan til hlýðni.  Öll löngun til breytinga á háttum og líferni verður að koma frá manni sjálfum.

Vó hvað mig langar ekki að vera viðstödd þegar Tommy Lee húrrar á kjötfyllerí.  Pamelan er nú þegar búin að banna honum að drekka.  Núna er kjötið fokið.  Hvað verður það næst?

Ég gæti trúað að það fyki illilega í karlinn Lee eftir nokkrar vikur í viðbót á blómafæðinu.

Jájá. 


mbl.is Hætti að borða kjöt fyrir Pamelu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

..og pabbi minn er lögga

 2660_angry_man_waving_his_fist_around_and_yelling

Nú er farið með nágrannaerjur fyrir dóm.  Hann sagði þetta og hinn sagði þetta.  Búhú.  Pabbi minn er lögga.  Ésús.

Sumar gerðir af fólki eiga ekki að búa í sambýli við annað fólk.  Það er sama þótt það búi með englum í mannsmynd, það getur ekki látið sér lynda.

Ég hef sem betur fer verið heppin, en einu sinni lét ég mig hafa það að flytja vegna óþolandi nágranna.  Konan var það sem ég kalla húsvarðartýpan.  Hún var auðvitað ekki húsvörður nema í eðli sínu.

Í hvert skipti sem börnin mín fóru út að leika, stökk hún niður í kjallara og læsti bakdyrunum sem lágu að leiksvæðinu.

Ef maður opnaði hurð í húsinu eftir kl. 22 á kvöldin þá kvartaði hún.

Og ég gæti haldið áfram.  En ég flutti án þess að standa í miklum illdeilum.  Aldrei séð eftir því, ónei.

Nú er konan hjá guði.  Verði honum að því.

En..

Það er sagt að það sé ein svona týpa í hverju fjölbýlishúsi.  Amk. einhver með húsvarðartendensa.  Ég veit það ekki, bý með frábæru fólki.  Rétt þekki það í sjón flesta hverja, öðrum heilsa ég og spjalla smá við, en þar stoppar það. Allir hamingjusamir og aðallega ég.  Djók.

Og ég ætti ekki annað eftir en að fara að þjarka fyrir dómstólum um nene og nana, búhú og baba.

Æ dónt þeink só.

Í staðinn pakkar maður niður.

Nú eða ef maður er tæpur í höfðinu þá býður maður hina kinnina.

Úje.

 


mbl.is Fór með rifrildið fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 2988498

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.