Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Ég vil byltingu

Ég og stórfjölskyldan erum komin með garð rétt fyrir utan bæinn.

Þar sem ég er stórneytandi fersks grænmetis þá þýðir ekkert annað en að ástunda sjálfsþurftarbúskap.

Það gerðu drykkjuglaðir vinir mínir í denn.  Þeir opnuðu bar.  Frábært og skemmtilegt og ég og fleiri nutum góðs af.

En þessar aðgerðir eru ekki nægjanlegar nú þegar matarverð hefur hækkað um lítil 25% á einu ári.

Ég ætla að fá mér veiðistöng.

Minn elskulegi verður skikkaður í byssubúð og það strax á morgun.

Mig má sjá praktísera veiðiþjófnað í sumar við einhverja á, og ég veit að það munu ekki brjótast út fagnaðarlæti hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur þegar ég fer að hala inn stóra laxa í matinn.  Döh.. enda geta félög ekki glaðst, bara þeir sem eru meðlimir og þokkalegir í skapi.

Svo mun ég senda húsband með skotvopn í skjóli sumarnætur til að salla niður lömb.

Búmmmmmmmmmmmmmmmm pang.

Löggan getur komið og handtekið mig strax.

Því þrátt fyrir að ég hafi ekki enn kastað línu í vatn og húsband hafi ekki enn hleypt af einu skoti þá er það minn einbeitti og forstokkaði brotavilji sem gerir mig bullandi seka.

Málið er að ég er komin með upp í kok af því að þurfa súpa seyðið af græðgi annarra.

Í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Það sem fór með það var lúxuskerlingaferðin (eiginkonur "útrásarvíkinganna) til Oman um helgina, (þær kalla félagsskap sinn Kampavínsklúbbinn), ásamt þessari frétt sem ég tengi við.

Í Oman lágu þessar siðlausu kerlingarbreddur og veltu sér upp úr lúxus eins og  engin væri samviskan enda virðast þær hafa skilið hana eftir heima, þ.e. ef þær hafa þá nokkurn tímann haft hana.

Á meðan berjumst við upp á líf og dauða, almenningur á Íslandi.

Vitið þið, ég held ég vilji byltingu.

Einhver með?


mbl.is Matarverð hefur hækkað um 25%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsal ráðherralauna

Ef heimurinn væri réttlátur, allir leituðust við að gera það sem rétt er og ef samviskan væri nokkurs konar öryggis- (og þjófavarna)kerfi sem léti ófriðlega í hvert skipti sem við gerum eitthvað gegn betri vitund, væri gaman að lifa.

Því miður er heimurinn ekki þannig en það eru til jákvæðar undantekningar á þessu og ég held að þeim eigi eftir að fjölga.

Ögmundur Jónasson afþakkaði ráðherralaun og lætur sér nægja þingfararkaup og hefur gert frá því að hann varð heilbrigðisráðherra, svo ég taki nýlegt dæmi.

Nú er ég að vona, kannski vegna þess að stundum þegar sólin skín trúi ég nánast bara á það góða, að þessir ráðherrar sem eru á bullandi ráðherralaunum en eru ekki í embætti lengur, afsali sér þessum peningum.

Margir þessara fyrrverandi ráðherra eru nú þingmenn og mánaðarlaun þeirra eru ágæt miðað við efnahagsástand og ört vaxandi fátækt meðal almennings.

Eigum við ekki að deila með okkur kjörunum?

Jeræt, Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað ekki á því, en kannski, maður veit aldrei.

Áttun getur hafa átt sér stað síðan ég heyrði í þeim síðast.

Bíðum og sjáum.

Kannski


mbl.is 22 á ráðherralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirgefðu Gylfi!

 

Ég verð eiginlega að biðja Gylfa hjá A.S.Í. afsökunar á framhleypni minni.

Mér varð nefnilega á að skrifa varnarfærslu fyrir hinn búandi skríl á Austurvellinum í gær.

Þetta er sem sagt allt byggt á misskilningi.

Gylfi hefur útskýrt að laun hans sem eru milljón á mánuði séu ekki óeðlilega há.

Þar fyrir utan þá er sú staðreynd að hann er í Samfylkingunni og harður fylgismaður inngöngu í Evrópusambandið fullkomlega eðlileg hjá verkalýðsforkólfi alls almennings úr öllum flokkum, með allar skoðanir á öllum fjandanum.

Fyrirgefðu Gylfi!


Fólkð búar - það skil ég

 

Ég hef aldrei unnið líkamlega erfiðisvinnu, ef frá eru taldar þessar vikur sem ég vann í frystihúsi, um það leiti sem Bobby Kennedy var skotinn en ég var rekinn þann dag vegna þess að ég sprautaði að gamni mínu úr þrýstislöngu framan í verkstjórann.

Honum var sem sagt ekki skemmt.  Það kom til vegna gusanna sem lentu aðallega í andlitinu á honum, um áhrif dauða Bobbís á verkstjórann veit ég ekkert um.  Hann minntist ekki á það einu orði.

Hann sagði reyndar ekkert, var eins og herptur handavinnupoki í andlitinu og benti mér út.

Föðurafi minn, Guðmundur Ingvarsson, sem útvegaði krakkakvikindinu vinnuna var miður sín, enda mátti hann ekki vamm sitt vita.

Jú, svo vann ég í einhverja mánuði sem gangastúlka á Landakoti þegar ég gekk með frumburðinn minn.

Þar held ég að mínum ævintýrum í líkamlegri vinnu sé lokið.

Ég hef reyndar alltaf verið í skemmtilegum störfum, nánast ótrúlega heppin með það.

En ég tilheyri auðvitað verkalýðnum, launþegum, en ekki hvað.

Ég kem af venjulegu alþýðufólki, ósérhlífnu og hörkuduglegu, langafi minn, t.d. mætti á niður á bryggju í úrvalið, þegar daglaunavinnan var og hét.

Stundum var hann sendur heim, eins og fleiri, enda margir kallaðir en fáir útvaldir.

Mér var sagt að það hafi verið ákaflega þungt í Jóni Jónssyni frá Vogum á þeim tíma.

Það sem ég er að reyna að koma að hérna er einfaldlega sú staðreynd að nútíma verkalýðsforkólfar snerta ekki streng hjá venjulegu vinnandi fólki.

(Að undanskildum einum eða tveimur, annar þeir heitir nafni sem byrjar á Guðmundur, hinn Aðalsteinn).

Enda eiga þeir ekkert sameiginlegt með umbjóðendum sínum, virðist vera himinn og haf þar á milli.

Þetta eru jakkaföt, framkvæmdastjórar og ekkert að því svo sem, ef þeir væru ekki að fara fyrir röngum hópi manna sem þeir þekkja vart.

Ég skil vel að fólk skuli búa á þá.

Svo sendi ég almennum launþegum þessa lands baráttukveðjur á þessum 1. maí í kreppunni.

Annars er það efni í aðra færslu, ævintýri mín á vinnumarkaði, þegar ég vann á Landakoti og var ólétt, ógift og var falin í eldhúsinu.  Skömmin var nunnunum óbærileg.

Það kemur seinna.

Annars er ég alveg hipp og kúl í verkamannsins kofa hérna.

Því lýg ég ekki.

 

 


mbl.is Nýjan sáttmála um stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum vaktina

Gleðilega hátíð allir sem einn.

Aldrei hefur þörfin fyrir samstöðu og virka baráttu hjá launamönnum verið meiri en í dag.

Njótum dagsins.

Brettum upp ermar.

Veitum öflugt aðhald og stöndum vaktina.

Nú sem aldrei fyrr.


mbl.is Kröfuganga og útifundur 1. maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki leiðinlegt

Þegar ég sá að Ögmundur hefur ekki þegið ráðherralaunin frá því hann tók við embætti og ætlar ekki að gera á meðan stjórnin situr, þá bærðist lítil von í brjóstinu á mér.

Að kannski ættum við okkur viðreisnar von.

Það er til fullt af fólki sem er heiðarlegt og skoðunum sínum trútt.

Ekki leiðinlegt.


mbl.is Ögmundur fær ekki ráðherralaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti sleikurinn gerði útslagið

Ég fer í kruðu og krampa þegar ég les/heyri frá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ.

Hvers vegna?

Jú, maðurinn virðist samsama sig frekar með atvinnurekendum en umbjóðendum sínum.

Hann getur óskapast yfir að almenningur hafi misst trú og traust á hinu og þessu.

Ég get hins vegar sagt honum að líta í eigin barm.

Eftir síðasta sleik við atvinnurekendur þar sem launahækkunum var frestað út af efnahagshruninu þá held ég að traust hins almenna manns á svo kallaðri verkalýðsforystu sé hrunið niður fyrir frostmark.

Samt eru gullmolar í verkalýðsforystunni. 

Verkalýðsforingar sem enn sjá fólk af holdi og blóði þar sem forysta ASÍ sér dauðar tölur á blaði.

Einn þessara gullmola er t.d. hann Aðalsteinn á Húsavík.

Einn af þessum mönnum sem gefa mér vonina um að enn sé hægt að stokka upp og verða eins og fólk en ekki fífl.

En Gylfi og kó eiga nákvæmlega ekkert inni hjá almenningi þegar kemur að trausti.

Kerfiskallar sem eru á sæmilegum launum og lesa skýrslur og ræða hvor við annan eru eins langt frá fólkinu á gólfinu eins og hægt er að komast.

Það er að minnsta kosti mín skoðun.

Og fyrir mér er hún góð og gild.

Góðan daginn annars villingarnir ykkar.


mbl.is Verða að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt - núll fyrir nýju Íslandi!

Ég gleðst innilega yfir því að hafa haft rangt fyrir mér.

Ég var búin að afskrifa lýðræðið í VR.

Kosning Kristins Örn Jóhannessonar er sigur fyrir lýðræðið og merki um breytingar sem almenningur hvar í flokk sem er hefur verið að vonast eftir.

Í stjórnmálum, í verkalýðssamtökum, í stjórnkerfinu, hjá fjármála- og eftirlitsstofnuum og hvar sem spillingu, óhóf og sérplægni er að finna.

VR er gamla félagið mitt.

Mér þykir vænt um það.

1-0 fyrir nýju Íslandi!


mbl.is Kristinn kosinn formaður VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er af sem áður var

Sjálfstæðismenn vilja ekki breytingar á stjórnarskránni.

Nú eru þeir í öflugu málþófi til að koma í veg fyrir að breytingar á stjórnarskrá komist á dagskrá þingsins.

Þeir raða sér á mælendaskrá, í lokaumræðunni um séreignasparnað,  sumir aftur og aftur, veita andsvör hjá hvor öðrum, allt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að frumvarp sem íslenskur almenningur hefur kallað eftir nái fram að ganga.

Eins og góðir andófsmenn þá þverneita þeir að vera að þæfa og og eyðileggja.

Hva, þetta er alsiða hjá íhaldinu að taka sér bólfestu í ræðustól á Alþingi, eða þannig.

Ég ætla rétt að vona að þingfundi verði ekki slitið, að þingið haldi áfram þar til stjórnarskrábreytingin fæst rædd.

Held áfram að fylgjast með þessari ábyrgu stjórnarandstöðu.

Það er af sem áður var.


mbl.is Saka sjálfstæðismenn um málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrt val - takk

spyr

Ég fagna því að Sigmundur Davíð greini nú frá því að honum og Framsókn hugnist vinstri stjórn.

Fínt þegar pólitíkusar segja hvað þeir vilja svona til að auðvelda kjósendum þrautina, nóg er nú samt í þessum rústum hrunsins sem þarf endalaust að vera að spá í án sýnilegs árangurs.

Ég held nefnilega að öll þjóðin sé eitt gangandi spurningamerki frá morgni til kvölds í kreppunni.

Sigmundur Davíð er nokkuð harður á því að Framsókn vilji til vinstri.

Sko, ef félagshyggjuflokkarnir hafa áhuga, sem hann reiknar fastlega með.

Svo skáskítur hann augunum á blaðamanninn og bætir við eitthvað á þá leið; að ef ekki sé áhugi fyrir maddömunni á vinstri heimilinu, þá komi íhaldið til greina.

Sko það er þetta sem ég þoli ekki við íslenska pólitík.

Ekki loka dyrum, ekki útiloka möguleika, ekki gera hlutina auðveldari fyrir kjósendur.

Ekki hafa skýrt val og standa síðan og falla með því.

Valdið, eilíflega valdið sett í fyrsta til tíunda sæti.

Nú eiga flokkar og samtök að ganga bundnir til kosninga.

Ekki að hafa friggings flokka til þrautavara ef annað klikkar.


mbl.is Vill vera í vinstri stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 2987142

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.