Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Snúra

Alkinn ég

 

dansklemmur

Ég vaknaði í morgun og sjá, það hafði snjóað.

Ég verð að játa að ég er orðin ansi þreytt á þessu hvíta dufti út um allt.

Hvar er vorið?

Jájá, ætla ekki að blogga um veður.  Veðrið er eins og það er og þar til vísindin koma með veðurstillingatæki þar sem maður getur valið vetur, sumar, vor og haust, þá situr kona í súpu.

Ég er að fara í fermingarveislu.

Hm.. ég hef nú bloggað um fermingarveislur áður og það ekki allt fallegt.

En það geri ég bara í fokki og fíflaskap, þær eru ágætar.

Sko, í minni fjölskyldu þar er fólk frekar skemmtilegt.

En hei, vissuð þið að ég er alki?

Ég er það sko, ég spyr vegna þess að ein systir mín var að auglýsa eftir alkabloggi, það væri svo langt síðan og svo væru stjórnmálin að kæfa allt á þessari síðu minni.

Ég alveg tilbúin til þjónustu: Ég blogga um alkan mig bara í bítið í fyrramálið, ekki málið krúsa mín.

Og hér kemur það.

Ég er alki, á þriðja ári edrú. 

Drakk bjór og vin, át pillur og blandaði öllu saman þangað til að ég nærri dó.

Ég mæli ekki með þessum lífstíl.

Leiðinlegri sjúkdóm (eða hobbí allt eftir því hvar fólk skilgreinir sig) er ekki hægt að koma sér upp börnin góð.

Síðan ég varð edrú hefur líf mitt verið eintóm hamingja.

Hm. reynum aftur.

Síðan ég varð edrú hefur líf mitt gjörbreyst til batnaðar.

Ég á slæma og góða daga.

Á hverju kvöldi fer ég að sofa nokkuð sátt í sál og sinni.

Edrú í boðinu.  Ekki spurning.

Farin að taka mig til.

Þetta er snúrublogg börnin mín sæl og samstæð.


mbl.is Óveður á Súgandarfjarðarvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nakin kona í Nókía stígvélum

Þegar ég var í rauðvíninu (hehemm og bjórnum og pillunum), vaknaði ég stundum á morgnana og langaði til að hverfa af jörðinni.

Fyrir utan svæsna timburmenn, þá hafði ég þessa skelfilegu tilfinningu að muna ekki og vita jafnframt að ég hefði getað gert eitt og annað án þess að hafa hugmynd um það.

Eins gott að minna sig á, bara tilhugsunin veldur mér þrefaldri gæsahúð.

Oftast hafði ég ekkert gert að mér.  En þegar það gerðist þá hafði ég í yfirleitt rifið kjaft í síma.

En ég var heppin, drakk á bak við byrgða glugga og hitti engan eða fáa.  Merkilegt hvað það koma fáir í heimsókn til fyllibyttna.  Hm.. ætli þær geti verið leiðinlegar í umgengni?  Kræst nei!

Ég get ímyndað mér að maðurinn sem vildi inn á Litla Hraun liggi í skelfilegri vanlíðan.

Fylleríið komið í blöðin!

Maðurinn verður ekki sakaður um skort á frumlegheitum í uppátækjaseminni.

Hugsið ykkur að detta í það og vakna, kíkja í blöðin og sjá t.d. forsíðufrétt af ykkur hálfnöktum í Mogganum.

"Nakin kona í Nokíastígvélum lét ófriðlega í Austurstræti í nótt!"

Nú eða þá skreppa til Köben eins og maður sem ég þekki (töluvert náið).

Vakna bara á hótelherbergi í gamla höfuðstaðnum og hafa ekki hugmynd um hvar maður er staddur en heyra óm af útlensku út um gluggann.

Halló, ef það er ekki kominn tími á meðferð eftir ferðalög á milli landa án þess að vita af því, þá aldrei.

Annars þekkti ég einu sinni mannveru sem átti til að vakna í ýmsum rúmum daginn eftir.

Mannveran lenti á annarri mannveru af gagnstæðu kyni og sú rétti hinni strætómiða um leið og augun voru upprifin og sagði köldum rómi: Strætó kemur eftir fimm.

Guð hvað ég er happí að vera á snúrunni.

Og þið líka, yfir að ég hangi þar en ég er algjört bómullarhöfuð undir áhrifum.

Og ég myndi ekki nenna blogga ef ég væri í byttunni. (Ætla ég rétt að vona).

Ég myndi einfaldlega svamla um í brennivínsfljótinu þangað til ég dræpist.

Ekki flóknara en það.

Farin.


mbl.is Óminnishegri við Litla-Hraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðferðuð til háheilagrar edrúmennsku

"Mér hlýtur að vera í nöp við sjálfa mig" sagði ég stundarhátt við undirritaða þegar ég sat vafin innan í teppi og peysur úti í fimbulkuldanum og reykti rétt áðan.

Sígó er mín eina fíkn sem eftir stendur í þeirri andans hreingerningu sem ég hef gert á sjálfri mér undanfarin ár (tugi).

Eftir að hafa meðferðað sjálfa mig til háheilagrar edrúmennsku (að svo miklu leyti sem hægt er að tala um háheilögheit í sambandi við mína aumu persónu) á ég þennan eina löst eftir og mér þykir vænt um helvítið á honum.

En eftir að sígófíknin var gerð brottræk úr veislusölunum á kærleiks og send með skömm út í skýli hefur gamanið farið að kárna illilega.

Ég hef ekki heilsu í þetta.  Ég þoli illa kulda. 

Það er ekki til sú úlpa, þeir vettlingar, treflar, teppi eða föðurland sem getur klætt af mér þennan napra andskota sem smýgur inn í merg og í bein.

Ég sagði við minn löggilta elskhuga í gærkvöldi að mér væri orðið alltaf kalt.

Hann sagði spekingslega: "Það er kalt úti, kalt inni, kalt í sálu, kalt í sinni (maðurinn er gangandi rímnamaskína) og það er kreppan sem leggst svona í veðurfarið.

Ég: Ekki drepa mig úr jákvæðni.

Hann: Ó ég gleymdi að taka fram að við eigum hvort annað og lauk í ísskápnum.  Þessari ástarjátningu fylgdi illyrmislegt glott.

Ég sagði honum auðvitað að ég elskaði hann líka og svo sparkaði ég í sköflunginn á honum til að undirstrika mínar ólgandi tilfinningar.

En þetta er ekki alslæmt.  Það fæst nikótínúði í apótekinu og ég er alvarlega að íhuga notkun á viðkomandi.  Það er einfaldlega of kalt fyrir fíkn sem iðkuð er undir beru.

Ef ég hætti að reykja þá á ég ekkert eftir, enga bresti, allir gallar heyra sögunni til og mynd mín mun lenda á koparristum og íkonum í nálægri framtíð.

Hvað get ég sagt?

Ég er alls ekkert fyrir að ýkja. 

Þetta er fíflafærsla í boði komandi hátíðar.

Gleðilegan jólamánuð krúttin mín.

 


Ég er alki og nikótínfíkill

 

ulpa

Ég er alki, ég get dílað við það.  Ég vinn í að vera edrú og ég höndla það prýðilega.  Mér hefur sjaldan liðið betur ef ég á að vera skammarlega hreinskilin. 

Ég er nikótínfíkill og ég get ekki dílað við það.  Ég vinn ekki í að hætta en það má segja mér til nokkurra málsbóta að ég hef minnkað það um meira en helming eftir að ég flutti hér niður í Teigahverfi og fer út til að reykja.

Ég er ekki hrifin af úlpum, hef meira að segja skrifað um það heitar færslur en þær voru skrifaðar fyrir kreppu.  Á þeim tíma sem maður gat leyft sér að vera með lúxusvandamál með dassi af attitjúdi.

Og enn er ég að ganga í gegnum úlpuhaturstímabil.  Hvað get ég sagt, veðráttan gerir mér hluti.

Ég verð nefnilega að klæðast einni forljótri og þræl hlýrri við mína nikótíniðkun úti í garranum.

Í úlpu missir kona kvenleikan og í mínu tilfelli gerast fleiri og stórkostlegri útlitsbreytingar á mér en mér er unnt að þola til langframa.

Sjáið fyrir ykkur kúlu.  Sjáið svo fyrir ykkur konu.

Já, rétt skilið ég verð kúlukona.

Þess vegna hef ég tekið ákvörðun.

Ég verð búin að drepa í fyrir jól.

Það er ekki hægt að vera hipp og kúl í vatteraðri úlpu með skinnkant á hettu.

Bara alls ekki.

Það er heldur ekki hægt að beina fingri ásakandi að t.d. eiginmanni og skamma hann fyrir umgengni eða eitthvað.

Því viðkomandi eiginmaður hristist bara af hlátri og segir; ekki reyna að vera ábúðarfull í þessum klæðnaði.  Það missir algjörlega marks.

Mark my words, ég verð hætt að reykja fyrir jól.

Cry me a river


..og ég drakk

Á RÚV segja þeir frá því að óvirkir alkar séu að falla þessa dagana vegna kreppunnar.

Vogur fullur.

Vogur er alltaf fullur - af fólki á ég við svo ég sé ekki alveg hvar þessi breyting á að koma fram.

Reyndar var mér sagt í meðferð oftar en einu sinni að allar sveiflur bæði upp og niður séu okkur ölkum hættulegar.

Ég drakk;

af því það rigndi, af því sólin skein, af því ég var blönk, af því ég átti peninga, af því ég var í fríi, af því ég komst ekki í frí til að drekka til að geta haldið upp á að vera í fríi.

Ég var svöng og ég drakk.

Ég var södd og ég drakk.

Ég gat ekki sofið og ég drakk.

Ég svaf of mikið og ég drakk.

Ég var leið og ég drakk.

Ég var glöð og ég drakk.

Ég drakk þangað til að ég drakk ekki lengur.

Myndi einhver segja að ég hafi verið í þörf fyrir meðferð?

Hm....?

Kreppunni slær auðvitað alls staðar niður.

Sorglegt.

Óvirkir alkar að falla.


Hvítvín-rauðvín-bjór (raðist eftir þörfum)

 

Ég hélt að Russel Crowe væri einn af þessum selebbum sem væru búnir að fara í meðferð.

Ónei, en hvernig á kona að henda reiður á öllu þessu þekkta fólki?

Guð, gæti mér verið meira sama?  Tæpast.

En ástæðan fyrir því að ég er að blogga um þessa frétt er einföld; ég stenst ekki mátið þegar alkar í svona bullandi afneitun setja það í heimsfréttirnar.

Sko Russel vinurinn er orðinn pabbi.  Þess vegna hefur hann dregið úr neyslu áfengra drykkja.

Vel að merkja dregið úr neyslu.

Það sem kom mér til að skella uppúr, þó tilefnið sé í sjálfu sér sorglegt er að leikarinn segist ekki geta drukkið dökkt áfengi.

Vodkað og Tequilað eru enn að gera sig hjá honum, hitt fer skelfing illa í hann.

Það var einu sinni sálfræðingur sem var með námskeið fyrir fólk hér á landi um hvernig mætti læra að drekka.

Og nei, þetta var ekki á nítjándu öld, námskeiðin riðu hér húsum á tíunda áratug síðustu aldar.

Vó, hvað ég held að margir alkar hafi stokkið til.  Alveg: Þarna er eitthvað fyrir mig, mig skortir kunnáttu í drykkjumennsku.  Það hlaut að vera.  Farinn á námskeið.

Ég eins og fleiri alkar hef staðið í tegundaskiptum blá í framan trúandi því að ef ég drykki minni bjór og rauðvín á móti þá myndi ég ná alsælu þeirri sem Bakkus boðar.

Nú eða hvítvín/rauðvín/bjór (raðist eftir þörfum).

Niðurstaða: Ég var sama gluggatjaldafyllibyttan án tillits til hvað ég drakk.

En mér persónulega gæti ekki staðið meira á sama um hvað Russel karlinn drekkur eða drekkur ekki.  Ég sá bara ágætis tækifæri til að spinna út frá þessari frétt um minn eigin alkóhólisma.

Minna mig á og svona.

Mikið djöfulli er gott að vera edrú.


mbl.is Russel Crowe dregur úr drykkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég með lífverði eftir þetta blogg?

Hm, mér finnst ástandið á landinu verða æ farsakenndara.

Geir er með lífverði.  Kannski nauðsynlegt, ég skal ekki segja, en ég er á því að dauðadrukkinn Fellini hefði aldrei náð stemmingunni á Íslandi í dag á filmu.  Honum hefði hreinlega skort ímyndunarafl.

Þegar ég horfði á Kiljuna á miðvikudagskvöldið og sá viðtal Egils við Orra Harðarson vin okkar vegna bókar hans, Alkasamfélagið sem var að koma út, spurði Egill hvort Orri héldi að hann yrði barinn af meðlimum AA-samtakanna en Orri gagnrýnir hugmyndafræði þeirra harkalega í bókinni.  Orri gerði lítið úr því en mér sýndist hann brosa út í annað.

En kannski þarf Orri líka lífverði nú eftir að bókin er komin í búðir eða ég þar sem ég tek undir nánast allt í þessari merkilegu bók sem ég er búin að lesa spjalda á milli.

Orri skefur ekki utan af hlutunum.  Jafnvel hún ég fór í keng og köku þegar hann gagnrýnir upphafsmenn þeirrar hugmyndafræði sem veður uppi í ákveðnum samtökum og ganga að mínu mati þvert á alla skynsemishugsun.

Orri er frábær stílisti.  Sjálfsíronía hans er með þeim hætti að maður veinar úr hlátri þrátt fyrir sorglega umfjöllun höfundar um skelfilega upplifun sína af sjúkdómnum alkóhólisma.

Ég ætla ekki að tíunda hugmyndafræði leynisamtakana enda þarf ég þess ekki. 

Og ekki ætla ég að gera lítið úr því að fjöldi manna og kvenna finna þar aðstoð.

En ég hef eftirfarandi skoðun á hvernig ég vil vera edrú.

Ég viðurkenni að ég get ekki drukkið brennivín eða notað önnur hugbreytandi efni.

Algjört bindindi og sjálfsvinna með góðum slatta af heilbrigðu líferni er útgangspunkturinn.

Ég hafna því alfarið að máttur æðri mínum eigin geri mig heilbrigða og haldi mér þar.

Ég fer þá leið að leita mér lækninga á viðurkenndri heilbrigðisstofnun sem til þess er bær og síðan tek ég ábyrgð á mínum sjúkdómi.  Ekkert hanky panky þar.

Ef mér fer að líða illa þá er til urmull sérfræðinga með reynslu og menntun til að aðstoða mig til að ná aftur góðri líðan.

Í bók Orra segir frá því að í meðferðarbatteríi LSP sé trúarkuklið út úr meðferðarmyndinni og þar sé stunduð hugræn atferlismeðferð sem tæki til bata.

Hvar hef ég eiginlega verið?

Ég hef mikla trú á þeirri aðferð í meðferð geðsjúkdóma og ekki spurning að ég myndi nýta mér hana í baráttu við Bakkus.

En ég læt þetta duga í bili.

Vonandi á eftir að verða umræða í þjóðfélaginu um nýjar leiðir til bata. 

Halló, valkostir í meðferð eru bráðnauðsynlegir hlutir.

Og getum við plís haldið guði fyrir utan, ef hann er til þá er ég nokkuð viss um að hann er alveg þreyttur á alkavaktinni og hugsar: Djísús, til hvers haldið þið að þið séuð með heila bjánarnir ykkar?

Ég afþakk algjörlega þá ömurlegu stöðu að vera óvirkur og gagnrýnislaus móttakandi bata frá heilögum anda, guði, Jesús eða öðrum ósýnilegum.  Enda hefur það sýnt sig bæði á mér og öðrum að það er ekki á vísan að róa á þeim sjó.

Alkar líkja oft sínum sjúkdómi við sykursýki.  Ég er með hana líka og það er án gríns alveg jafn glórulaust að standa í meðferðarbandalagi við guð í alkóhólismanum og í insúlíndæminu.

Ég gæti þá rétt upp hönd alveg; guð sjáðu um insúlínið ég nennessuekki.

Það er svo sorglegt að gefa frá sér forræðið á sjálfum sér.

Já og góðan daginn.

Ég er edrú í boðinu. 


mbl.is Lífverðir gæta Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edrú í boðinu

Ég svaf út í morgun, þ.e. ég vaknaði 8,30 í staðinn fyrir 07,00 eins og venjulega.

Svo settist ég með mína sígó út í reyk og kaffibollinn var oss til samlætis.  Þið vitið að allir konungbornir eru í fleirtölu þannig að vér verðum að gangast við voru bláa blóði af og til.

Og þar sem vér sátum þarna og reyktum í ró og næði sló það oss í höfuðið að núna eftir nokkra daga eru tvö ár síðan vort nýja líf hófst hér við hirðina.

Þann 5. október 2006 fór ég í meðferð og síðan hef ég ekki verið söm.

Á hverjum degi síðan þá (fyrir utan 12 daga lyfjafallið í janúar) hef ég upplifað hvern byrjaðan dag sem fyrirheit.

Ég er ein af þeim sem hef hlaupið í gegnum lífið og leitað að lífshamingjunni á bak við hverja hæð og hvern hól, þrátt fyrir að hafa  verið með hana í vasanum allan tímann.

Ég trúði því svo innilega að lífshamingjan hlyti að vera eitthvað stórt og merkilegt og ég lagði mig alla fram í að finna lykilinn sem mér fannst að sjálfsögðu liggja í stórum afrekum, miklum veraldlegum sigrum og troðfullum fataskáp (djók með fataskápinn, væmnijöfnun).

Stundum tókst mér vel upp stundum mistókst mér hrapalega.

Ekki misskilja mig, lífið er ögrun og það er hægt að gera stóra hluti - og njóta þeirra, en aðeins ef maður getur þolað sjálfan sig.

Svo var ég stoppuð illilega af.  Ég fór að drekka og éta róandi til að slá á sársaukann innan í mér sem mér tókst ekki að hlaupa frá.

Alkinn ég var mættur í vinnuna. Varúð, varúð!  Og þar sem ég hef alltaf farið heilshugar í öll verkefni, til góðs og ills þá eyddi ég hartnær 12 árum give or take, misslæmum auðvitað í stöðugum faðmlögum við Bakkus, við vorum samvaxin á mjöðm félagarnir og sambandið var afskaplega ástríðufullt.  Einn langdrægur sleikur þar sem ég kom aðeins upp til að anda.  Úje bara.

Í sambandinu við þennan slóttuga félaga má segja að ég hafi farið að praktísera og leggja rækt við mína frábæru skapgerðarbresti.

Jájá.

En nú sit ég hér, ekki teljandi daga, heldur með það á hreinu hvenær ég kom til mannheima og fór að lífa lífinu á eigin safa.  Ekkert hugbreytandi fyrir mig takk.

Svo fékk ég þessa fínu áminningu í janúar þegar ég fékk lyf við Heimskringluáverkanum á löppinni á mér og hóf fljótlega upp úr því 12 daga lyfjafyllerí og endaði inni á Vogi.

Ég er þakklát fyrir þá áminningu svona eftir á að hyggja, alkinn er aldrei kominn í mark.

Ég er frasahatari.  Ég berst gegn frösum hvar sem ég til þeirra næ.  S.k. skyndibitar sálarinnar gera mér hluti.

Samt hef ég tekið í fóstur eitt frasakvikindi og það er frasinn um daginn í dag.  Ég hef bara daginn úr að moða og það virkar algjörlega fyrir mig.

Ég hef verið svolítið fráhverf því undanfarið að skrifa í alvöru um minn alkóhólisma vegna þess að ég hef tekið nærri mér þegar óvandað fólk er að beita honum gegn mér í bloggheimum þegar rökin þrjóta, en eftir smá hugarleikfimi og þankastorm upp á fleiri metra á sekúndu komst ég að því að það má einu gilda hvað öðrum finnst um mig á meðan ég er sjálfri mér trú.

Svo er yndislegt fólk í stórum og yfirgnæfandi meirihluta í lífi mínu.

Og víst er ég alveg friggings þakklát fyrir það (væmnijöfnun 2).

Svo skuluð þið skammast til að eiga góðan dag þið öll sem komið hér inn á síðuna mína.

Þetta með að rífa kjaft er auðvitað della, ég er alltaf góð, alltaf glöð og alltaf að skiptast á.

Og þegiðu svo Jenný Anna Baldursdóttir, alkóhólisti og sykursýkissjúklingurHalo

Verum edrú í boðinu.

Úje

 

 


Alkasamfélagið

Hebbi er edrú, hann hætti í búddismanum og snéri sér til Krists.

Edrúmennska margra byggir á trúarbrögðum, allt gott um það að segja.  Hver velur sína leið.

Til hamingju með það Hebbi.

Merkilegt en stundum þá les maður eitthvað svona rétt á eftir eigin pælingum um svipað efni.

Ég er nefnilega dálítið að bíða eftir bók stórvinar okkar hjóna honum Orra Harðar, en hún kemur út 3. október og heitir Alkasamfélagið.

Orri lýsir þar hvernig er að koma úr meðferð og fara inn í leynifélagið.

Ég ætla ekki að fara að ræða neitt sérstaklega um viðkomandi leynifélag en ég hef alltaf átt erfitt með að kasta örlögum mínum í hendurnar á "æðri mætti" sem ég veit ekki einu sinni hvort er til.  Hallast þó að því á góðum dögum.   Mín fílósófia er einföld.  Ef ég gef mér að alkóhólismi sé sjúkdómur og innan vestrænna læknavísinda er hann skilgreindur sem slíkur, þá er mér meinilla við að láta nokkurn annan en sjálfa mig taka ábyrgð á mínum sjúkdómi.

Ég ber hins vegar fullt traust til þeirra lækna sem hafa meðferðað mig til heilsu og til þeirrar sjúkrastofnanar hvar þeir starfa.

Það meikar einfaldlega engan sens fyrir mér að setja jafn mikilvægan hlut og alkóhólismann, sem gengið hefur svo nærri heilsu minni að ég þakka fyrir að vera ofanjarðar, í hendurnar á óskilgreindu afli sem mögulega er ekki einu sinni að hlusta væri það til.

Svo má nota sumt, reynslu annarra bæði góða og slæma í batanum.  Það geri ég.

Kannski er svarið fundið.  Það má vera að leynifélagið sé svarið og það þurfi ekki að leita lengra en það væri þokkalegt.

Hér erum við Billarnir og Bobbarnir frá 193tíuogeitthvað og við erum komnir með lokasvar.

Samt hrynja alkarnir eins og flugur.

Ekki illa meint en má ekki leita víðar?

En að þessu skemmtilega í edrúmennskunni.  Vogur er ákaflega merkishlaðið orð.  Hann er á Vogi (rómur lækkar um 100 desibel).  Ég og mín fjölskylda sem eru með alkann mig á borðinu notum þetta orð eins og flest önnur.  Ekkert merkilegt við það.  Spítali og ekki orð um það meir.

Núna er ég að taka þátt í rannsókn á vegum SÁÁ um alkóhólisma.  Í gær þurfti ég upp á Vog í blóðprufu og til að ná í pappíra.  Hljómsveitin keyrði mig.

Á meðan ég var inni hringdi náinn ættingi minn í Hljómsveitina og var að leita að mér.

Einar: Þú hefur ekki náð í Jenný, ég er fyrir utan Vog, var að skutla henni.

Sá náni: Jesús minn góður guð, er hún komin inn á Vog!!!!! Hvenær féll hún?????W00t

Það tók við áfallahjálp á ættingjanum í gegnum símann.

Annars góð og  það er Svarthöfði líka, þ.e. ef bloggarar hafa húmor fyrir sjálfum sér.

Later.


mbl.is Herbert: Kokteill af bjór, kannabis og kókaíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr sóandsó yfir í sóandsó

Samkvæmt þessari frétt þá muna drykkjumenn góðu stundirnar en gleyma þeim vondu og það er sagt vegna þess hversu valkvæð minningin um síðasta drykkjutúr er.

Valkvæð, smalkvæð, fínt skal það vera.  Á jennísku heitir þetta einfaldlega afneitun.  Ef alkinn væri t.d. að velta sér sífellt upp úr óminninu sem fylgir fylleríum margra nú eða öllum skandalíseringunum þá væru allir sem þyldu ekki áfengi bláedrú, Vogur væri ekki til og Þórarinn Tyrfingsson í allt öðru.

Einhver fróður maður sagði mér að alkinn væri sífellt að berjast við að reyna að endurtaka fyrsta fylleríið.

Það getur auðvitað verið satt - en hvað mig varðar þá man ég ekki til þess.  Hehe  ekki mikið á minnið að stóla hjá mér sko, alltaf bryðjandi pillur ofan í búsið.

Svo eru það réttlætingarnar hjá þeim sem detta illa í það en vilja samt halda áfram.

Hafiði heyrt þennan:

Æi ég drakk ofan á fastandandi maga?  Eða..

ég var svo lítið búin að sofa, var dauðþreytt, glorsoltin og hálfdösuð. 

Nú eða..

merkilegt að ég skuli ekki geta drukkið sóandsótegundina.  Ég verð alltaf stórskrítin af þessu áfengi.  Ég ætla bara að skipta yfir í sóandsótegundina og annað hvort glas verður vatn og ég borða vel áður en ég fer á djammið.

Og áfram er haldið.

Ég ætti að vita þetta með reynslu í keppnisgreininni alkóhólisma.

En svo merkilegt sem það nú er þá man ég aðeins eftir hinu vonda, að minnsta kosti eftir að ég fór í meðferð.

Góðu stundirnar á fylleríi voru fátíðar þarna í lokinn og ég hefði þurft að fara ansi langt aftur til að kalla fram skemmtilegar minningar sem tengjast áfengi.

Allir edrú í boðinu.  Amk. ég.

Jájá - börnin góð.  Ég er farin að týna köngla.

Ók, ók, ók, ég er aktjúallí að þvo þvott.

 


mbl.is Drykkjufólk man góðu stundirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987322

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband