Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Hamfarablogg

Ætla ekki að baka mér refsiábyrgð

Í Kastljósi kvöldsins fengum við innsýn í mikilmennskubrjálæði og siðblindu bankadólgana.

Þarna sat Hreiðar Már Sigurðsson og hafði ekki gert nokkurn skapaðan hlut af sér.

Ó, best að hafa þetta rétt, eitthvað smáræði hafði honum orðið á, en það var svo lítið að hann dvaldi ekki við það.

Svo var hann stórlyndur.  Hann bað hluthafa og starfsfólk bankans afsökunar.

Hann sá ekki að hann skuldaði íslensku þjóðinni afsökunarbeiðni.

Enda kannski eins gott - ég myndi ekki vilja sjá hana.

En hann var svo vinsamlegur þessi snillingur að ráðleggja vegna skuldavanda heimilana.  Takk.

Síðan ég horfði á viðtalið hef ég upplifað allan neikvæðari helming tilfinningaskalans.

Ekki hefði ég getað verið í sporum Sigmars - ég útskýri það ekki nánar.

Ætla ekki að baka mér refsiábyrgð það er á hreinu.

Getur þessi tegund atgervis ekki búið til stóran SPEKILEKA til bjargar íslensku þjóðinni?

Heimurinn bíður.

Við höfum fengið nóg.

Eða hvað?

Ég sá að einhver var að fabúlera um tjöru og fiður.

Neh, hvorutveggja allt of dýrt í kreppunni.


mbl.is Annarra að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á sjittlista guðs

 p

Ef guð er til, sem ég veit ekkert um, þá hlýtur hann að hafa vaknað illa s.l. haust og sett okkur á sinn persónulega sjittlista.

Alveg: Þessir forstokkuðu hrokagikkir, Íslendingar,  þurfa að læra lexíu hérna og það þó fyrr hefði verið.

Maðurinn (veran) hefur séð að við vorum um það bil að rústa hagkerfum heimsins.  Við gerum allt svo vel, svo alla leið eitthvað.

Svo hefur hann hent sér undan sænginni, beint í bleyjugaskirtilin og hafist handa við að gera fagurt mannlíf við Bankafossa að hreinu helvíti á jörð.

Eins og bankahrunið sé ekki nóg þá eru náttúruöflinn með guði í liði.

Hlutir koma af himni ofan.

Jörð skelfur og ætlar að halda því áfram sýnist manni. 

Alveg þessi kall: Ekki slaka á, verið á nálum fíflin ykkar.

Það er bókstaflega ekkert eins og það á að vera.

Álverð lækkar, sumarið er kalt, krónan í tjóni, Gulli Snoð með áhyggjur af velferðarkerfinu, hús eru eyðilögð í vafasömum tilgangi, öryrkjar og gamalt fólk fá fokkmerki frá ríkisstjórninni, Lennon er dáinn, hællinn laus undan skónum mínum, ég braut nögl, það er sprunga í eldhúsglugganum mínum, kirsuber kosta hvítuna úr augum okkar, ég finn ekki plokkarann, Kópavogur sökkar, mig vantar kjól,  það er verið að myrða hvali og ég er með hausverk.

Hvernig haldið þið að maður geti búið við þetta?

Kreppa hvað?

Gleði, gleði, gleði.

 


mbl.is Reykjanes skelfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kakófónía dauðans

Þessi sláttur úr og í varðandi kosningar er hreinlega að gera mig brjálaða.

Hvað er að þessum stjórnaliðum?

Það er ekki hægt að segja að þeir tali tungum tveim einu sinni, það er talað með tungu á mann!

Ég eins og fleiri skynja spennuna í Samfylkingunni, enda ekki nema von, það er farið að hitna all verulega undir þeim.

Meirihluti þjóðarinnar styður ekki þessa ríkisstjórn.

Össur segir blátt nei við stjórnarkreppu.  Halló monthaninn þinn, kreppan er nú þegar fyrir hendi.

Ég hef reyndar tilhneigingu til að finnast Össur vera að selja Norðurljósin í hvert skipti sem hann opnar munninn.  Hann er alltaf að gera milljarða díla út um heimsbyggðina.

Af hverju heldur þetta fólk að við klárum okkur ekki út úr neinu nema að akkúrat ÞAÐ haldi um taumana?

Eins og þeir hafa nú verið frambærilegir á dansgólfinu til þessa.

Dottið um allt eins og sauðdrukknir svallpésar á þorrablóti.

Ingibjörg Sólrún er veik og mér finnst að hún eigi að fá frið til að láta sér batna, láta málin í hendurnar á öðrum á meðan hún nær sér.

Eftir að hafa hlustað á hana, Össur, alla þingmennina í Kastljósi kvöldsins ásamt Geir Harðsnúna og Þorgerði Mannasætti Katrínu þá læðist að mér illur grunur.

Ég hef allt gengið grunað um að hugsa bara um eitt, hafa áhyggjur af aðeins einu.

Og það er hvernig þetta komi nú allt sem best út fyrir þau persónulega og flokkslega, hvert og eitt.

Þjóðin er búin að segja þeim á allan hugsanlegan máta að við viljum ekki láta stjórnina "hjálpa" okkur, ekki leiða okkur yfir götu einu sinni, vér viljum lifa fjandinn hafi það.

Átta sig, játa sig sigraðan og hoppa frá völdum.

Það er komið gott.

Þangað til verður framin kakófónía dauðans út um víðan völl.


mbl.is Ingibjörg vill kosningar í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HjúíLúí

Líf Hefners sýndarmennska?

Eruð þið ekki að fokking kidda mig?

Ég sem hélt að þessi níræði foli væri ríðandi eins og rófulaus hundur upp um alla veggi.

Ji, hvað maður getur látið blekkjast.

En mikið skelfing er ég glöð fyrir hönd þessara stúlkna sem hann heldur við úrkynjunarhirðina, að þær séu lausar við þá iðju að sofa hjá steindauðri goðsögn sem enginn trúir lengur að sé sönn.

Félagi Hefners og náinn samstarfsmaður sem kallaður er Lilli er kominn á varanleg eftirlaun.

Hafi spurningamerki einhvern tímann verið ofaukið í fyrirsögn þá er það nú.

Annars góð bara.

Eða verð það um leið og ég er hætt að gráta yfir sannleikanum um kyntröllið HjúíLúí.

Úje.


mbl.is Líf Hefners sýndarmennska?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"The "en" word"

222 

Best að skella inn einni EN-færslu, langt síðan síðast sjáið þið til.

Betra að skrifa um það heldur en að einhenda sér í uppvaskið sem bíður mín, en ég var með forsetahjónin af Búrúndí í heimsókn.

Ókei, þau eru frá Köben.

Það er þetta með orðið "en".  Ég blogga reglulega um fullyrðingarnar hjá fólki (stundum mér sjálfri líka) sem setur svo "en" fyrir aftan og segir hið gagnstæða.

Dæmi:

Þú ert alls ekkert feit EN þú mátt missa nokkur kíló.

Þú ert ekki þreytuleg, nei, nei EN þú ættir að hvíla þig betur.

Ég er ekki rasisti EN ég vill ekki sóansó frá sóandsó inn í landið.

Þú ert birtingarmynd fullkomnunar í þessum kjól EN þú ættir að fara í hinn kjólinn.  Hann klæðir þig betur.

Kapíss? No?

Ég var nefnilega að hugsa um yfirlýsingarnar frá ríkisstjórninni, fjölmargar sem hljóma á einn máta en þýða hið gagnstæða.

Kannist þið við þessar?

Það verður að fá allt upp á borðið, velta við hverjum steini EN það á alls ekki að leita að sökudólgum (hvað þá persónugera vandann),  heldur skrifa leynilegar skýrslur og ráða ráðum í reykfylltum bakherbergjum.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra hefur brotið stjórnsýslulög sem er alvarlegt mál EN ég treysti honum til allra góðra verka.

Við munum aldrei láta kúga okkur til að greiða Icesave peningana EN við ætlum ekki að fara í mál við Bretana, bara borga og brosa.

Málið er allt að verða vitlaust í kringum mann.  Breytingarnar snöggar, umskiptin svo stór og sífellt bætast fleiri hneyksli í sarpinn.

Ég er hætt að geta meðtekið allt sem ég les, hvað þá orðað tilfinningar mínar gagnvart því.

Ég skil svo vel af hverju "helvítis fokking fokk" hefur slegið í gegn í samfélaginu eftir Áramótaskaupið.

Fólk er í vandræðum með að lýsa líðan sinni, sárindum, reiði og hneykslan.

Þess vegna grípur það til HFF þrátt fyrir að það sé ekki beinlínis fagurt orðasalat.

Nú hefur Eimreiðin birt skipurit "Nýja" Glitnis sem er auðvitað sami grautur í sömu skál eins og hjá Landsbanka sem birt er þar í gær.

Kíkið á skipuritið og sannfærist um að það er ekki verið að breyta neinu frá því sem var.  A.m.k. ekki neinu sem orð er á gerandi.

Það er einna helst bankastjóri Kaupþings sem virðist vera ærlegur í því að taka bankann inn í nýja tíma.

Enda fékk hann verðlaun frá aðgerðarsinnum í morgun, hið s.k. Ljós í myrkrinu.

Ég er farin í uppþvott EN ætla ekki að þvo upp fyrr en á mánudaginn.

En hvað?


mbl.is Eiríkur Tómasson: Blekktu eigendur bankanna starfsfólk sitt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvítis fokking fokk

Það má svo sem yppa öxlum eins og utanríkisráðherra gerði í Kastljósi í gær og halda því fram að stjórnmálasambandsslit skili engu.

Þá er ég að tala um stjórnmálaslit við morðingjamaskínuna Ísrael.

Utanríkisráðherra talaði um að það gegndi öðru máli ef alþjóðasamfélagið gripi til slíkra aðgerða.

Ég er að sjálfsögðu ekki sammála.  Finnst þetta léleg afsökun til að gera ekki neitt.

Það vekur alltaf gífurlega athygli þegar þjóð slítur stjórnmálasambandi við aðra.

Auðvitað vegna þess að það úrræði er bara nýtt sem algjör þrautarlending.

Ef fjöldamorð á börnum og almennum borgurum gefur okkur ekki ástæðu til að grípa til sterkra viðbragða, þá veit ég ekki hvað gæti orðið ástæða til stjórnmálasambandsslita.

Mér finnst hver einasta þjóð sem horfir á útrýmingu á Palestínumönnum án þess að gera nokkuð vera sek um alvarlegt siðleysi.

En Íslendingum er ekki oft nóg boðið í alþjóðasamhengi.

Ekki þó á okkur séu sett hryðjuverkalög og við sett á lista með Al Queda og öðrum glæpamönnum.

Ég eins og fleiri á orðið ekki lýsingarorð til að koma til skila líðan minni á svo mörgu sem fer fram á hinu svo kallaða "Nýja Íslandi" sem utanríkisráðherra vill meina að sé ekki enn orðið til.  Reyndar er ég sammála henni, það hillir ekki einu sinni undir það.

Ég tala vart við nokkurn mann þessa dagana sem lýsir ástandinu öðruvísi með hinum fleygu orðum áramótaskaupsins:

HELVÍTIS FOKKING FOKK!

Meira að segja Bingi skrifar færslu með þessari fyrirsögn.

Það er þá best að ég safnist í hópinn.

Helvítis fokking fokk.

Viðtalið við ISG


mbl.is Ísrael svarar skeytum Líbana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andskotinn sjálfur

Afsakið á meðan ég garga mig hása.

Ég held að tilfinningum mínum sé best lýst á eftirfarandi hátt:

Andskotans, djöfulsins spillingarlið.

Fari það í fúlan pytt, eða réttara sagt; beinustu leið í svartholið þar sem það á heima.


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djöfullinn danskur

Ingibjörg Sólrún segir í viðtali í Mogganum í dag að Davíð Oddsson hafi skaðað orðspor Íslands erlendis.

Velkomin í hóp stórs hluta íslensku þjóðarinnar kæra Solla, okkur finnst þetta flestum.

Málið er að algjört þýlyndi forsætisráðherrans gagnvart Seðlabankastjóra er með slíkum ólíkindum að maður er nánast orðlaus.

Ég persónulega er hálf lömuð í hvert skipti sem Davíð gerir bommertur og Geir Haarde kemur og lýsir fullum stuðningi við stjórn Seðlabankans og hnýtir svo aftan í stuðningsyfirlýsinguna að það eigi ekki að persónugera vandann.

Staðreyndin er nefnilega sú að þetta er að verða í hæsta máta persónulegt kæri forsætisráðherra.

Seðlabankastjórn (eins gott að nefna engin nöfn þá er maður ásakaður um að ráðast að eiginmanninum og föðurnum) hefur verið og er að valda stórum fjárhagslegum skaða nánast á hverjum degi með arfavitlausri framkomu sinni og ákvörðunum.

Ríkisstjórnin virðist eiga heima í Svörtuloftum, ekki í Stjórnarráðinu.

Hversu lengi getur þessu farið fram svona?

Þessi vinskapur og lojalitet forsætisráðherra við "Seðlabankastjórnina" verður að vera í framkvæmd annars staðar, þar sem hún er ekki heilli þjóð svona dýrkeypt.

Svo vill ég kosningar strax.

Þá meina ég strax eftir áramót.

Mér sýnist nefnilega að engar breytingar séu fyrirsjáanlegar fyrr en almenningur hefur rekið og síðan ráðið nýtt fólk til starfa.

Fólk sem kannski hreinsar til og skiptir um stjórn Seðlabankans svo ég taki eitt lítið dæmi.

Koma svo.

Djöfullinn danskur.

KJÓSA.IS


mbl.is Ingibjörg segir Davíð skaða orðsporið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gargfærsla

Ég lofaði sjálfri mér að æsa mig ekki og láta ekkert í fréttunum ná mér í dag.

Ég var búin að ákveða að svífa yfir andlegum vötnum eins og búttaður Búddamunkur sama á hverju gengi.

En mín andlegu vötn eru uppþurrkuð og æðruleysi fitubollumunksins eins fjarri mér og hugsast getur.

Ég er ekki afslappaða týpan hvað þá heldur efni í háheilaga ljósveru.

Og þess vegna ætla ég að garga það sem eftir er af þessari færslu.

Björgvin og Jóhanna eru stórhneyksluð á launum bankastjóra Kaupþings, Finns Sveinbjörnssonar.  (Finnur - banki - ekki góð reynsla múha).

Yfirlýsingar hafa margoft verið gefnar um að jafna út launamun kynjanna í opinbera geiranum.

Nú skal viðurkennast að þanþolið gagnvart launamálum bankastjóra er ekkert, mér eins og öðrum er nóg boðið.

Og þá að efninu.

Ef forsætisráðherra landsins þarf að láta sér duga rétt um milljón á mánuði fyrir að stjórna landinu þá skil ég ekki að maður sem tekur við einum af ríkisbönkunum skuli hafa tvöfalt hærri laun en hann.

Hvaða vitleysa er þetta?  Átti ekki að fara að greiða úr öllu ruglinu í sambandi við peningatilbeiðsluna sem hefur nú komið okkur á kaldan klaka?  Eiga ofurlaunin ekki að heyra sögunni til?

Sko miðað við raunveruleika hins almenna borgara þá eru mánaðarlaun mannsins ofurlaun bara svo það sé á hreinu.

Svo er það jafnlaunastefnan.  Hún er auðvitað brotin líka, hvað annað, vér skulum hjakka áfram í sama farinu, alls ekki breyta því sem við ætlum að breyta.  Himnarnir gætu hrunið, fjöllin sprungið og jörðin opnast ef við förum að standa við stóru orðin.

Það munar 200 þúsund krónum á stelpunum og drengnum á mánuði.

Reyndar eru þessi laun of há hjá þeim öllum.  Við erum á kúpunni, almenningur er að missa vinnuna, bullandi kjaraskerðing í gangi og verðbólgan stefnir í hlussukýli.

Kæra Jóhanna og Björgvin.

Ég minni ykkur á að það er ekki nóg að verða hissa á launum bankastjóranna og finnast þau of há.

Þið eruð sko í ríkisstjórninni munið þið og það er ykkar að lyfta símanum og breyta þessu.

(Jóhanna ég elska þig samtHeart þú ert töffari þessarar ríkisstjórnar).

Svo myndi ég vilja að Björgvin gæfi fólkinu í skilanefndinni skýr fyrirmæli um að gefa fjölmiðlum allar upplýsingar sem varða starfsmannahald í nýju bönkunum. 

Mig minnir að hann og hinir meðlimir ríkisstjórnarinnar séu voða stemmd fyrir gagnsæi, amk. er það orð notað eins og kardóinn hjá sumum.

Úff, hvað mér létti, búin að garga mig hása.

Nú er þetta frá, ég er farin að myrða dýr í matinn.

Verði mér að góðu og ykkur í leiðinni.


mbl.is Finnur launahæstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lotið í marmaragólf

á skeljum

Mikið skelfing er það andskoti tímabært að Seðlabankastjórnin gefi leyfi sitt til láns frá IMF. 

Alveg: Takk, takk, takk, fallið á skeljar, lotið í marmaragólf, grátið fögrum þakklætistárum.

Davíð knúsaður í algjöra klessu, kysstur á vanga (farið í stjórnmálalegan sleik)og honum gefið gullúr.

Þið drepið mig.  Hættið þessum andskotans lappadrætti og komið þessu á koppinn.

Það er ekki alveg í lagi hjá okkur á skerinu eins og fjölmörg dæmin sanna.

Enn bíðum við þolendur kreppunnar eftir svari.

Biðin er mörgum erfð og sumum hættuleg.  Þá er ég að hugsa um eldra fólk og fólk sem er veilt á hjarta svo ég taki dæmi.

En...

Ég var að lesa þennan kall inni á DV. 

Hann fjallar um orðróm sem segir að ástæða frestunarinnar á frágangi lánsins við Alþjóða sé að stjórnmálamenn muni vera að fela vegsummerki og klóra yfir skít.

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það og ekki Þórarinn heldur.

Ef satt er - hvað þá?

Síjú.

 


mbl.is Sátt um IMF-lán í Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987322

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband