Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

ÉG HEF..

 

..aftur skellt hurð.  Í þetta sinn í huganum.  Hlutirnir eru sjaldnast eins og þeir líta út fyrir að vera, og fólk ekki heldur.

Merkilegast uppgötvun mín þetta árið.  Svo sein að fatta.

Ég, með augun á stilkum.


EN-LISTINN

Fordómar hafa verið mér hugleiknir í dag.  Auðvitað eru allir að einhverju leyti fordómafullir gagnvart því sem þeir ekki þekkja.  Ég játa mig að sjálfsögðu seka.  Ég vinn reyndar stöðugt að því að minnka líkurnar á að ég geri mig kjánalega innan um fólk.  Maður hefur nú einu sinni "repjúteisjon" að verja.

Það sem kom þessum hugrenningum af stað hjá mér var lestur pistils litaður af miklum kynþáttfordómum og í athugasemdakerfi viðkomandi bloggara (sjá færslu neðar) voru margir haldnir sömu hræðslunni við útlendinga.  Flestir tóku þó fram að þeir væru ekki útlendingahatarar EN svo kom viðhorfið, grímulaust og ljótt fram í skrifunum.

Hvað hefur maður ekki heyrt oft eftirfarandi frasa (ég tek bara örfá dæmi, en þar er reyndar af nógu að taka):

..ég er ekki kynþáttahatari og hef alls ekki á móti því að útlendingar komi hér til að búa EN.. þeir verða að aðlagast íslensku samfélagi, læra málið (aðlögun og reiprennandi íslenskukunnátta skal vera fyrir hendi eftir fyrstu 10 dagana eða svo), vera ekki fyrir, ekki gera kröfur og vei þeim ef þeir troða okkur um tær.

..ég er friðarsinni EN.. innrás Bandaríkjamanna var nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að Saddam setti heimsfriðinn á annan endann.  Stundum er stríð eina leiðin.

..ég er á móti ofbeldi á konum og börnum EN...stundum ögra konur manninum þannig að þær geta sjálfri sér um kennt og stundum ÞARF að dingla í krakka til að þau fái skilið mörkin.

..ég hef ekkert á móti samkynhneigðum EN...þeir skulu ekki sjást, heyrast eða vera til öðruvísi en í dulargerfi og ekki ögra hinum "normala" manni með afbrigðilegri kynhegðun sinni.

...ég er jafnréttissinni EN...ég skammast mín fyrir kynsystur mínar, feministana sem eyðileggja sambandið á milli kynjanna. 

Ergo:

Cut the crap.  Þið sem eruð í EN-unum;  það sem þið segir eftir þetta smáorð, sem þó er svo áhrifaríkt, er það sem gildir.  Ekki hið pólitískt rétta sem þið setjið fyrir framan.


STUNDUM SKAMMAST ÉG MÍN FYRIR ÞJÓÐERNI MITT

1

Alþjóðlegar sumarbúðir standa nú yfir í Hjallaskóla í Kópavogi. Þar dvelja börn frá 12 mismunandi löndum, frá ólíkum menningarheimum og ólíkum aðstæðum.  Í sumarbúðunum er unnið að því að auka víðsýni og umburðarlyndi krakkanna.

Flott framtak.  Ég hef hins vegar engar áhyggjur af börnum þegar kemur að umburðarlyndi.  Börn eru yfirleitt gædd þeim eiginleika í ríkum mæli.  Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af fullorðnu fólki hvað þetta varðar og þá alveg sérstaklega skort á umburðarlyndi gagnvart fólki frá öðrum löndum, sem kemur hingað t.d. til að vinna og vekur oft vægast sagt neikvæðar kenndir í hinum eðalborna Íslending.

Í gærkvöldi var ég að vafra um netið og rakst á pistil hér á Moggabloggi sem gerði það að verkum að mér brá í brún.  Þar er kona að tjá sig um útlendinga, hún er ekki útlendingahatari, vill hún meina,  en vill að þeir lykti betur, séu ekki svona eða hinsegin og þá sé hún til í að leyfa þeim að vera (lesið sjálf (www.iwanna.blog.is) .  Enn verri eru svo athugasemdirnar sem hún vær við færslunni. Þar sér maður að kynþáttahatur er ansi útbreitt fenomen á Íslandi.  Ó við Íslendingar erum svo vel að okkur, svo menntuð, svo umburðarlynd, svo fordómalaus, ó já bara að við þurfum ekki að hafa fyrir því að praktisera allan þennan þroska í daglegu lífi okkar.

Ég sting upp á svona sumarbúðum fyrir fullorðna.  Það væri flott að byrja á þeim sem eru að ala upp börn svo þeir skvetti ekki sjúklegum og mannfyrirlitlegum skoðunum sínum yfir á saklausa afkomendur sína.

Ég í fjósgallanum með skófluna tilbúin að byrja að moka.

 


mbl.is Víðsýni og umburðarlyndi aukið í sumarbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MÁL BARNA

1

Ég hef tekið upp á því að horfa aftur á barnatíma sjónvarpsins um helgar.  Það er þennan sem er fyrir yngri börnin.  Ég hélt að ég væri búin með þennan pakka eftir að stelpurnar mínar uxu úr grasi en nú er ég aftur komin í barnasjónvarpið með henni Jenny Unu Erriksdótturrr.  Ég sit oftast með henni því stundum koma jákarlar, kókófílar og grekar, algjörlega óforvarandis og þá verður Jenny oft smá órótt.  Allavega fer ég ekki langt.

Það sem ég er hins vegar að furða mig á hvers vegna það er ennþá verið að láta fullorðið fólk tala barnaröddum.  Þetta var svona í denn þegar stelpurnar mínar voru litlar og viti menn, enn er rígfullorðið fólk að tala með smábarnarómi.  Ekki alltaf að vísu en ansi oft. 

Það versta sem ég veit er þegar fullorðnu leikararnir hlægja með tilgerðarlegum röddum sem eiga að túlka hlátur barnsins en það er í besta falli hallærislegur uppúrkreistingur.  Í morgun tók Jenny fyrir eyrun tvisvar sinnum og ég skildi hana ofsalega vel.

Það er alltaf að aukast skilningur á þörfum minnstu borgaranna.  Allir vita nú orðið að börn eru alvöru fólk og eiga ekkert minna skilið en það besta alveg eins og við hin.  Þess vegna bíð ég spennt eftir að sjónvarpið sjái ljósið og fái börn til að tala í sinn eigin barnatíma.

Og hvar eru barnafréttir?  Ég er alltaf að bíða eftir þeim.

Ég í fullorðinsfötum með eyrnatappa.


PILLAN ÓÞARFA

1

Ég var að tala við kunningjakonu mína fyrir einhverju síðan sem getur ekki sofið án þess að eiga svefntöflur.  Ég kannast sjálf við vandamálið, gat ekki sofnað um nokkra ára skeið án þessarar töfralausnar.  Samt má segja að mitt svefnvandamál hafi fyrst orðið alvarlegt eftir að ég hóf að gúffa í mig þessu vímuefni, sem veitir skammtímalausn og hefur í farteskinu helmingi fleiri vandamál en þú lagðir upp með í byrjun.

Þetta er eiginlega snúrublogg.  Svefntöflunotkun var eitt af mínum neysluefnum.  Ég hef aldrei sofið eins illa og eftir að ég hóf svefntöfluátið.  Svona töflur virka í nokkra daga og þá þarf fólk í raun að auka skammtinn til að ná sömu áhrifum.  Auðvitað er til fullt af fólki sem getur notað svona lyf án þess að misnota þau en það er ótölulegur fjöldi fólks sem getur það ekki.

Kunningjakonan er á leið í meðferð til að fá aðstoð með að losna við svefntöflurnar.  Ég held að það sé hið eina rétta.  Ég hef aldrei sofið betur en eftir að pillunum og bjórnum sleppti, það segi ég satt.  Ég sofan þegar ég legg höfuðið á koddan, mig dreymir eðlilega og ég vakna úthvíld að morgni.  Það er best að sofa á eigin safa.

Einhver sagði einhverntíman að enginn gæti dáið af svefnleysi.  Ég man allavega ekki eftir svohljóðandi dánartilkynningu: 

Hr. soandso lést að heimili sínu soandso vegna svefnleysis.  Blóm og krasar afþakkaðir.

Auðvitað kallar langvarandi svefnleysi á ýmis vandamál.  Í flestum tilfellum er hægt að komast fyrir þau með heilbrigðari aðgerðum en að skutla í sig pillu. 

Þetta datt mér nú svona í hug þar sem ég blakti skráfþurr á snúrunni þenna sólríka sunnudagsmorgun.

Síjúgæs.


GREKINN ÓGURLEGI

1

Þegar hún Jenny Una Errriksdóttirrrr vaknaði í morgun var hún svolítið hrædd og kúrði sig í fangið á ömmunni og trúði henni fyrir því að grekinn hafi verið vondur og hún hrædd.  Amman huggaði barnið og sagði henni að grekar væru bara í þykjustunni og þær væru eiginlega ekki vondir bara svolítið öðruvísi en sum dýrin.  Aha, sagði Jenny en sat samt aðeins lengur hjá ömmu til öryggis og jafnaði sig.  Svo fórum við fram og meðan amman var að taka til morgunmatinn tjáði barnið ömmunni að grekinn væri góður og skemmtilegur og skrýtinn og sætur og.. og.. enda sólin fyrir utan gluggann og allt orðið svo skemmtilegt aftur og vondi draumurinn á hröðu undanhaldi.

Svona byrja sumir dagar, smá óþægindi en samt allt í hinu fínasta.


BARA SMÁ PARTÝ EÐA ÞANNIG

 

Rosalega hefði ég ekki viljað vera í sporum fólksins sem hefur brugðið sér af bæ í gærkvöldi og á meðan var 150 manna unglingapartý í gangi heima hjá þeim.  150 manna.  Allt vitlaust auðvitað og löggan send á svæðið.  Þetta var í fjölbýlishúsi.  Að tala um að skemmta sér rækilega!

Mikið rosalega finn ég til með þessu fólki sem brá sér að heiman.

Jesús minn!


mbl.is 150 manna unglingapartý leyst upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÉG UM MIG FRÁ ÞÉR TIL ÞÍN

1

Þið trúið því ekki hvað ég er æðisleg.  Ok ég byrja aftur.  Þið trúið því ekki hvað ég var ótrúlega dugleg og framkvæmdasöm í gær.  Enda var þessi lukkudagur, 13. júlí á föstudegi alveg yndislegur.  Ég verð að deila með ykkur afrekunum.

Fyrir hádegi var ég búin að þrífa íbúðina hátt og lágt, blogga, lesa blogg, hringja nokkur símtöl og skrifa meil.

Jenny Una Errriksdóttirrrr kom í pössun til okkar og við drifum okkur með hana í Rúmfatalagerinn (já ég veit að það er klisjukennd hegðun en hafið þið prófað dönsku borðtuskurnar sem fást þar?)  og síðan í Hagkaup í Kringlunni.  Jenny lék við hvern sinn fingur og söng hástöfum, kastaði kveðju á hvern mann og í Hagkaupum fékk hún að reiða fram Visakortið þegar við greiddum fyrir matinn.  Sú stutta sagði alvarleg um leið og hún rétti fram kortið "þetta errr korrrt ég ekki borrrrga peninga".  Ég ásamt húsbandi og öðrum nærstöddum horfðum á undrabarnið stórum augum og svo hélt hún áfram "Jenny gleymdi peninginn".  Stúlkan sú er komin inn í íslenska hagfræði rúmlega tveggja ára gömul og geri aðrir betur.

Jæja.  Í gærkvöldi toppaði ég svo sjálfa mig með því að baka bæði banana- og kryddbrauð sem Edda mín (www.eddaagn.blog.is) á heiðurinn af en konan er snillikokkur og kennir hússtjórnarfræði sem útleggst á íslensku matreiðsla.  Þeir sem þekkja mig vita að ég er þekkt fyrir margt annað en tertu-, brauð- og kökuframleiðslu.  Það splundraðist einhver uppsafnaður hormónaköggull þegar ég varð edrú og nú legg ég nótt við dag til að bæta fyrir áralanga vanrækslu í bökunardeildinni.

Nú er kominn nýr og fallegur dagur.  Ég og húsbandið vældum í foreldrum Jennyar Unu um að fá hana til gistingar og það gengur eftir.  Nú þarf ég að baka eitthvað í tilefni dagsins, bara ekki vandræði.

Skellti inn mynd af mér við baksturinn í gærkvöldi og þið sjáið að mér fellur aldrei verk úr hönd eða fót.  Á meðan ég bakaði kryddbrauðið gerði ég mínar hefðbundnu dansæfingar.

Súmí ef þið öfundið mig.

Hehe


NAUMHYGGJAN Í BLÓMA

1

Einu sinni hélt Ibba Sig. vinkona mín því fram að hámark naumhyggjunnar, sem nú tröllríður innréttingatískunni á Íslandi, væri komin út í öfgar þegar það vantaði ausu og það þyrfti að ná í hana niður í geymslu.  Hehe ég hló að þessu eins og brjáluð kona, fannst það lýsa svo vel þessari tískugeggjun í einu og öllu.

Í kvöld vantaði mig ausu...............  og ég þurfti að sækja hana í geymsluna.

Ég er í vondum málum svona innréttingawise og öðruwise!

ARG


SNÚRA

50

Nú, nú, kominn tími á snúrublogg.  Ég er bókstaflega alltaf í baráttunni um sjálfa mig, edrúmennskuna mína og andlega jafnvægið.  Þetta er púl, sko stundum, oftast nær þó bara skemmtilegt.  Ég er að fara í magaspeglun 24. nk. og þá fæ ég róandi.  Já, já það eru einhverjar hetjur sem fara í gegn um þetta ódeyfðar en ég er ekki ein af þeim.  Búin að reynaða og var vægast sagt óþjáll sjúklingur.  Nú er ég búin að hringja upp á Vog og ætla að tala við ráðgjafa þar í næstu viku.  Málið er einfalt, ef ég verð eitthvað megarugluð eftir þessa deyfingu þá ætla ég að fá að fara þótt ekki sé nema dagspart inn á Vog.  Til að ná mér í stemminguna.  Annars hefur mér verið sagt að þetta sé fyrst og fremst spurning um hugarfar, hvernig maður er innstilltur gagnvart edrúmennskunni og ég er alveg á því og er btw afskaplega glöð með mína edrúmennsku og hugarfarið gæti ekki verið betra.  Tack så mycket.

Þegar ég var gelgja og fékk að fara á ball einstaka sinnum þá sagði mamma yfirleitt eftirfarandi: Þú mátt ekki vanga, þú mátt ekki kyssa strák, þú mátt ekki fara í partý og áfram og áfram þig vitið.  Ég varð óheyrilega pirruð þegar hún byrjaði og sagði: Já, já, já ég veit (fór eins sjaldan eftir þessum ráðum og ég mögulega komst upp með) og þá sagði mamma: Ég veit þú veist, ég er bara að slá varnagla.

Það er það sem ég er að vilja með því að fara í viðtalið upp á Vog.  Ég er að slá varnagla.

Haldiði að útsýnið sé ekki flott héðan af snúrunni í þessu dásamlega veðri?

Égheldinúþað!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 2988568

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband