Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gjörið svo vel - þeir eru ykkar

Í gær heyrði ég í fréttunum að Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra,  ætlaði ekki að gefa kost á sér í prófkjör, "vegna þess að hann hafi farið vítt og breitt um kjördæmið og af samtali sínu við kjósendur hafi hann komist að því að mikill vilji sé fyrir endurnýjun í flokksforystunni".

Ergó: Árni var að segja að það væri ekki eftirspurn eftir honum í Sjálfstæðisflokknum.

Ofsóknarbrjáluð eins og ég er orðin, hugsaði ég með mér að nú væri eitthvað enn alvarlegra sem þyrfti að leiða athyglina frá, fyrst maðurinn játaði opinberlega að hans væri ekki óskað.

Nú er það komið á daginn.

Takk Árni Mathiesen fyrir að koma okkur í dýpsta skítapoll hingað til, í allri Íslandssögunni.

Fólk sem getur ekki gert sig skiljanlegt á ögurstundu, hvort sem er á eigin móðurmáli eða öðru á að láta skrifa fyrir sig bréf, nú eða hafa með sér túlk.

Eða steinþegja, það getur ekki gert sama skaða að vera bara á nókommenti.

Þetta eru dýrustu mistök íslenskrar sögu.

Eða hvað?

Svo má ekki gleyma því að núna skil ég af hverju Geir haarderaði á að slá á til Brown og spyrja hvað lægi að baki einu eintaki hryðjuverkalaga á Ísland.

"Maby I should have".  Jájá.

Ég ber hér með fram þá frómu og mjög svo tímabæru ósk að íslensk þjóð gefi Sjálfstæðisflokknum gott og langt frí.

Davíð, Geir Haarde, Árni Matt og fleiri virðast hafa þvælst hver um annan þveran í bankahruninu.

Hver einustu mistök sem hægt var að gera voru framin af þvílíkri snilld að ætla mætti að vandað hafi sérstaklega verið til verka.

Og við sitjum uppi með skaðann, ásamt börnum okkar og barnabörnum.

Ég er svona að því komin að klæða mig í klofstígvélin og sjógallann til að freista þess af veikum mætti að halda þessu fólki frá öllu sem heitir opinber rekstur, pólitísk umsýsla og þvílíku.

Þeir sem vilja Rip, Rap og Rup í einkarekstur.

Gjörið svo vel.

Þeir eru ykkar.

 


mbl.is Hryðjuverkalög vegna samtals Árna við Darling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna I love you

Mér líst ágætlega á þennan norsara.

Komi hann fagnandi og farnist honum vel fyrir okkar hönd.

Þar sem við erum með orðspor á við lélegan sprúttsala í augum heimsins hlýtur það að vera til mikilla bóta að fá nú mann sem virðist kunna til verka.

Sem tengist hvorki sukkbarónum Íslands eða Sjálfstæðisflokknum.

Bara þær tvær staðreyndir gera það að verkum að ég er til í að elda handa honum hakkabuff með lauk og prjóna handa honum grifflur, eða væri til í ef ég kynni að prjóna.

Kannski fer umheimurinn að taka okkur alvarlega og trúa því að við ætlum að hysja upp um okkur.

Ekki að ég hafi nokkurn tímann verið með buxur á hælum.

Það hafa verið aðrir í því.

Jóhanna - I love you.


mbl.is Skilur vandamál Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hljómandi málmur og hvellandi bjalla

Gott hjá Árna Matthiesen að stimpla sig út.  Það er að minnsta meiri áttun í gangi þar en hjá sumum flokksbræðrum hans.

Ég er búin að vera að fylgjast með Sjálfstæðismönnum þrasa og þvæla undir yfirvarpi málefnalegrar umræðu við lokaafgreiðslu Seðlabankafrumvarpsins.

Ég ég get sagt ykkur í trúnaði að ég hef verki með því að horfa á suma þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Fyrst skal nefna Sigurð Kára Kristjánsson.  Öflugur og snarborulegur er hann að mati Össurs Skarphéðinssonar. 

Mér finnst hann þrætugjarn og þvælinn, bitur og reiður.  Ekki vitund krúttlegur.

En ég lifi hann af.

Það gerir mig hins vegar snakilla þegar ég horfi á "háttvirtan" þingmann Guðlaug Þ. Þórðarson, standa í prófkjörsbaráttu frá ræðustól á Alþingi.

Maður sem hefur eytt tugum milljóna af almannafé til að lappa upp á ímynd sína og fá rándýra sérfræðiaðstoð úr öllum áttum og hefur greinilega ekki haft nokkrar áhyggjur af eyðslunni stendur nú í ræðustól þingsins og talar ítrekað um heimilin í landinu, fólkið í landinu, almenning í landinu og fyrirtækin í landinu.

Og honum er stórlega misboðið.  Á ekkert að fara að taka á vanda heimilanna spyr þessi Armaniklæddi pótintáti með kökk í hálsi?  Er öllum sama?

Halló, hvað var hann að gera maðurinn frá því í október s.l. þangað til fyrir rúmlega þremur vikum?

Ég verð að játa að þegar þessir ungu forréttindadrengir í Sjálfstæðisflokkunum, eins og Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson tala með þessum hætti um almenning þá er í þeim holur hljómur, engin sannfæring og fyrir mér eru þeir eins og geimverur sem hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala.

Mér finnst það eiginlega á við að klæmast á Litlu gulu hænunni þegar þessir menn láta eins og þeir sofi ekki af áhyggjum yfir líðan og kjörum almennings.

Það hefur að minnsta kosti ekki þvælst fyrir þeim fram að þessu.

Eigum við eitthvað að ræða um hljómandi málm og hvellandi bjöllu.


mbl.is „Nú fer ég að líta í kringum mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æi, hættu þessu væli

Nú stendur Höskuldur Þórhallsson í ræðustól á Alþingi og heldur þrumandi kosningaræðu.

Hann skammar fjölmiðla og almenning, ófriðaröflin vegna vanstillingar og að hafa ætlað sér annarleg sjónarmið þegar hann snérist á sveif með Sjálfstæðismönnum í viðskiptanefnd.

Alþingi getur ekki látið vanstilltan almenning ráða gjörðum sínum.

Eða eitthvað svoleiðis kjaftæði.

Ókei, Höskuldur, baðaðu þig í ljósinu.

Sennilega varstu hafður fyrir rangri sök.

Ég biðst afsökunar sé það tilfellið.

Taktu þitt korter af frægð og frama.

En ekki gleyma því að trú fólks á Framsókn er lítil sem enginn.

Við erum vanari hrossakaupum af flokknum þínum í gegnum tíðinda.

Þú geldur fyrir það svo einfalt er það.

Og hættu svo þessu væli, harkaðu af þér og njóttu helgarinnar addna.

Þetta heitir skammarfyirgefningarbeiðni.

 


mbl.is Lokaumræða um Seðlabanka hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn H. Gunnarsson farinn úr Frjálslynda

Ég er spákona eða sjáandi, ég sverða.

Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um að nú hlyti Sleggjan að ganga úr Frjálslyndum og yfir í Sjálfstæðis ef mark er takandi á því hvernig hann byggir málflutning sinn á Alþingi.

En rétt í þessu var verið að lesa úrsagnarbréf mannsins úr flokknum á Alþingi.

Ég bíð eftir að hann gangi í Sjálfstæðisflokkinn eins og hinn óþekktaranginn Jón Magnússon.

En kannski þarf ekki spádómsgáfu til að sjá fyrir um hegðan ákveðna manna.

Þeir eru svo fyrirsjáanlegir.


mbl.is Kristinn hættur í þingflokki frjálslyndra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotnar forsendur

Seðlabankafrumvarpið verður tekið til þriðju umræðu í dag og ég ætla að fylgjast með.

Svo er það afgreitt.  Tékk, tékk.

En ég var að blogga í gær um frestun á launahækkun fyrir hinn almenna launamann.

Forsendur brotnar og þá verður ekki af henni.

Nú var ég að lesa um vaktaðan bílakjallara í Faxafeni sem Hannes Smárason er skráður fyrir og mun hafa að geyma glæsibifreiðar fyrir hundruð milljóna króna.

Eigendur bifreiðanna munu vera Hannes sjálfur, Jón Ásgeir og Þorsteinn M. Jónsson.

Ég verð orðlaus, reið og það misbýður réttlætiskennd minni að það megi ekki hrófla við eigum sukkbarónanna á meðan enginn skirrist við að ráðast á þá sem ekkert hafa til að láta í púkkið.

Ef talað er um að frysta eigur þeirra sem stærstu sök eiga á því hvernig fyrir okkur er komið kemur falski mannréttindakórinn og veinar um brot á eignarrétt.

Það er búið að brjóta eignarrétt fólks í þessu landi sem nú missir hús og vinnu vegna bankahruns.

Þessi mannréttindakór þegir þunnu hljóði þegar eignaupptökur á eigum almennings eiga sér stað af því fólk getur ekki lengur borgað vegna breyttra forsenda.

Á að ræða þetta frekar?

Nebb, kyrrsetjum eigur þessara manna svo geta þeir fengið þær aftur þegar og ef þeir eru eins blásaklausir og þeir vilja vera láta.

Manni er farið að þyrsta í réttlæti.

En Seðlabankinn er málið í dag.

Mikið skelfing er ég orðin þreytt á því máli.


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er réttlætið?

Það þarf að spara.  Draga saman.  Skera niður.

Og hvar byrjar maður?

Jú, við frestum launahækkun sem átti að taka gildi 1. mars fyrir almenna launþega.

Sniðugt.

En lágmarkslaun verða hækkuð úr 145 upp í 157 þúsund krónur þannig að það sé ekki verið að slíta sér út allan guðslangan daginn fyrir minni peninga en atvinnulausir fá á mánuði, sem er reyndar skammarlega lág upphæð og þeir verða ekki feitir af, svo sú skoðun mín sé alveg á hreinu.

Ég viðurkenni auðvitað að hafa ekki mikið vit á svona málum. 

Eflaust er það rétt að atvinnuveitendur sem eru að upplifa samdrátt á alla enda og kanta hafi ekki getað staðið undir launahækkunum við þessar aðstæður.

Ókei, ég skil það svo langt sem það nær.

En hvernig á fólk að lifa af þessari upphæð, nú þegar verðbólgan er tæp 18%, öll nauðsynjavara hefur hækkað um heilan helling?

Fólk með börn á framfæri t.d. hvaða göldrum á það að beita til að láta þessa smánarupphæð duga til heimilisreksturs?

Er einhvers staðar meitlað í fjandans stein að höggva skuli þar sem síst skyldi ávalt og ævinlega?

Ég verð hvínandi fúl og reið þegar ég hugsa um að enn er fullt af fólki á allt of háum launum við nýju ríkisfyrirtækin (já ég er m.a. að tala um bankana).

Ég vil sjá að þeir sem meira hafa umleikis gangi á undan með góðu fordæmi.

Þá fyrst skal ég kyngja frestun á launahækkun hjá þeim sem lægstu launin hafa.

Hvar er réttlætið á þessu guðsvolaða landi?

Ég sé að súpueldhúsin eru að koma sterk inn.

Djöfulsins aumingjar sem komu þjóðinni á þennan stað.

Arg.


mbl.is Samið um frestun kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp á borð

Ég er sammála Birgi Ármannssyni, að ég held í fyrsta og eina skipti á ævinni.

Tel ekki stórar líkur á að það gerist aftur.

En burtséð frá því..

En BÁ segir að það sem Davíð sagði um eignarhaldsfélög, í eigu stjórnmálamanna og annarra þekktra einstaklinga sem hefðu fengið sérþjónustu í bönkunum hljóti að kalla á hörð viðbrögð.

Þetta gæti verið spurning um mútuþægni.

Áður en ég kýs vill ég fá þessar sjálfsögðu upplýsingar.

Annars gæti ég verið að gefa gjörspilltum stjónmálamönnum atkvæði.

Davíð verður að tala.

Maðurinn er Seðlabankastjóri, hann getur ekki komið með svona ásakanir og farið svo heim að drekka kaffi eða taka til á lóðinni bara.

Eða er þetta séríslensk aðferð sem telst góð og gild?


mbl.is Gæti talist mútuþægni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr landi með helvítið

 guðfaðir

Þegar ég týndi síðustu krónuna upp úr buddunni í gær í búðinni þá hugsaði ég einmitt; nú hlýtur verðbólgan að vera þetta 17,6%.

Jeræt.

Ekki að ég finni ekki fyrir verðbólgunni, matarverðinu og klárum erfiðleikum í listinni við að ná endum saman.

Og kann ég auðmönnum, fyrrverandi ríkisstjórn, Seðlabanka og öðrum ábyrgum aðilum engar sérstakar þakkir fyrir.

Ég er að Davíðsjafna hérna.

Ég ætla að blogga um þennan  Steve Cosser nörd.

Hvern fjandann er þessi hrokagikkur að vilja upp á dekk og kaupa okkur Íslendinga á brunaútsölu?

Þegar ég horfði á hann í fréttunum í gærkvöldi leið mér eins og ég hafi dottið inn í mafíumynd af B-tegund.

Hann var að leita að uppruna orðrómsins um að hann gengi erinda auðmanna.

Svo ætlar hann að grípa til aðgerða gagnvart þeim. 

Ætli að hann geri þeim tilboð sem þeir geta ekki hafnað?

Hann sem á íbúð í London sem kostar meira en allir sukkbarónar Íslands saman lagt.

Er ekki dásamlegt að fá svona fólk til að kaupa Ísland?

Er ekki hægt að henda þessu viðrini úr landi?

Og læsa kyrfilega á eftir honum.

En fjandans verðbólgan er 17,6% eins og ég fann á mér.

Djöfull sem ég er mögnuð.


mbl.is Verðbólga mælist 17,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott á okkur

Nú er klappliðið í bloggheimum að gera Davíð Oddsson að fórnarlambi.

Hann var svo sterkur í viðtalinu, svo sannfærandi, svo sannur.

Sínum augum lítur hver silfrið.

Með hvaða gleraugum er fólk að horfa sem sér eitthvað traust við framkomu Davíðs Oddsonar?

Og hvaða andskotans þörf fyrir "sterka leiðtoga" er að þjá íslensku þjóðina?

Eitthvað gamalt undirkastelsisheilkenni að trufla okkur, þráin eftir kóngi.

Landið er á höfðinu, hvað er að fólki?  Sleikurinn við vöndinn er aldrei langt undan hjá þessari þjóð.

Ég er orðin hundleið á því að Davíð Oddsson skuli sitja og sitja og að enginn virðist geta gert nokkuð í því.

Við hvað er fólk hrætt?

Ef þjóðin getur ekki með mótmælum komið því til skila!

Ef ríkisstjórnin getur ekki komið því til skila!

Ef alþingi getur ekki komið því til skila (í boði Framsóknar)!

Af hverju hendum við okkur ekki á hnén og tilbiðjum Davíð.

Þá fær sá hluti almennings sem vill láta "sterka einræðisherra" stjórna sér helvítis kikk út úr því.

Við hin höldum svo áfram að röfla.

Davíð stjórnar hér greinilega öllu hvort sem er.

Við erum aumingjar og undirlægjur Íslendingar, amk. stór hluti þjóðar og þings.

Gott á okkur.


mbl.is Fjármagnsflutningar Kaupþings höfðu mikil áhrif á Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2988595

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.