Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Tær snilld

Ég veit ekki með ykkur en Skaupið í ár hitti beint í mark hér á kærleiks.

Ég sá ekki atriði sem hefði mátt missa sig.

Takk fyrir frábæra skemmtun RÚV.

Ég vorkenndi Geir eitthvað í ávarpinu.

Mér fannst hann eitthvað svo hnípinn.

Ég vorkenndi honum alveg þangaði til hann sagði eitthvað á þessa leið:

"Hafi ég gert mistök þá finnst mér það leitt".

Þessi uppsetning á afsökunarbeiðni hefur valdið næstumþví skilnuðum hér á kærleiks.

Sko húsbandið á til að orða hlutina svona ef honum verður á og finnst hann þurfa að segja fyrirgefðu.

Hafi ég, ef ég hef verið eitthvað leiðinlegur þá fyrirgefðu.

Bara svona just in case dæmi.

Arg.

En annus horribilis er nánast á enda runnið.

Mikið skelfing er ég glöð.

Gleðilegt ár esskurnar.

ÁRAMÓTASKAUP ALDARINNAR SÓ FAR.


..og fólk fékk nóg

Ingibjörg Sólrún hefur talað.

Það voru arabar sem mótmæltu af hita fyrir utan Borgina áðan.

Ó, ég er að misskilja,

þetta voru Íslendingar en samt ekki Íslendingar,

með arabatakta.  Svona Al Queada týpur auðvitað.  Morðingjar og fól.

Sjúkkitt, ég sem hélt að þetta væri þjóðin.

Og þið sem nú geysist fram á ritvöllinn og hneykslist á aðgerðunum, munið að það hefur verið mótmælt í rúma þrjá mánuði á allan mögulegan máta og oftast lýðræðislega og friðsamlega.

Enginn hefur hlustað en að sjálfsögðu finnst ráðherrum ríkisstjórnarinnar bara krúttlegt að mótmælendur standi friðsamir á Austurvelli á ákveðnum tíma einu sinni í viku.

Á meðan taka ráðherrarnir vikuþrifin heima hjá sér og finna ekkert fyrir lýðnum.

Og svo, og svo,

kemur að því að fólk fær nóg.

Því miður.

Er einhver hissa?


mbl.is Kryddsíld lokið vegna skemmdarverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annus horribilis 2008

Þeir hafa mikið á samviskunni sem komu Íslandi á kaldan klaka vegna eintómrar græðgi og valdasýki.

Þeir mega taka það til sín sem eiga þó mér sé orðið ljóst að enginn þeirra gerir það.

Hvorki stjórnmálamenn né peningabarónar.

Látum vera skaðann með peningana, orðspor þjóðarinnar og fjárhagslegt tap allra þeirra manna og kvenna, ungra sem gamalla sem hafa tapað sparifé sínu.  Það má í flestum tilfellum vinna aftur þó það gerist ekki á næstu árum eða áratugum.

Það er tilvist barnanna og afdrif þeirra í þessum hamförum sem ég er ekki á því að fyrirgefa.

Ekki að það hafi verið neitt svakalega barnvænlegt á Íslandi um langan tíma, börnin hafa verið afgangsstærð allan tímann í gróðærinu enda aðrir og mikilvægari hlutir í gangi en að gefa sér tíma og rúm með smáfólkinu.

Amk. hjá æði mörgum.

Það má sjá vægi barna og þeirra sem bera ábyrgð á að kenna þeim og þroska í launatöflum fóstra, kennara og annarra starfsmanna sem hafa mikilvægustu störf þessa þjóðfélags með höndum.

Vægið má sjá með því að bera saman launataxta fólks sem sýslar með peninga annars vegar og hins vegar með börn.

Við þekkjum allan þann samanburð og vitum að hann er ekki börnunum okkar í hag.

En nú er árið að líða.  Anno horribilis eins og 2008 réttilega hefur verið nefnt.

Ég held að fólk hafi vaknað, að ekkert verði aftur eins og það var.

Þar með talið börnin okkar og barnabörn.

Ég er til í að teygja mig helvíti langt til að koma í veg fyrir að það verði svínað á þeim frekar en orðið er.

Svo ég tali nú ekki um hvað ég er til í að leggja á mig til að koma skuldunum af ungum og ófæddum börnum framtíðarinnar og koma þeim þangað sem þær eiga heima.

Aldrei aftur segi ég og meina það.

Gleðilegt ár kæru lesendur og allir aðrir Íslendingar.

Takk fyrir samveruna á árinu.

Gangið hægt um gleðinnar dyr.

Djöfull er ég klisjukennd í ávarpinu.

Úje


mbl.is Börnin full af kvíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róni eða vínmennungur

 

Ég var að lesa að það minnkar líkurnar á krabbameini að láta steikina liggja nokkra tíma í brennivíni fyrir steikingu.

Það á líka að vera allra meina bót að drekka eins og eitt til tvö rauðvínsglös á dag, það mun meira að segja vera ávísun á langlífi.

Áfengi ku vera gott fyrir blóðrásina, meltinguna magann og fleiri innanbúðarfyrirkomulög líkamans.

Svo mun áfengi einnig vera helvíti óholt fyrir sömu líffæri sé þess neytt í óhóflegu magni.

Þetta var ég að hugsa þegar ég sat í bíl fyrir utan ríkið í dag.  Nei, var ekki að versla, það lá annað fyrirtæki að áfengisversluninni.

Ég þurfti að bíða dágóða stund og ég virti fyrir mér fólkið inni í búðinni í gegnum glervegginn.

Fólk var mis kúl að sjá, sumir hlupu  flóttalega um með innkaupavagninn og ryksuguðu heilu víntegundirnar úr hillunum, aðrir gengu um með attitjúd og skoðuðu allskyns kryddvín og líkjöra.  Þeir voru meira að segja með saklausa bakhlið svei mér þá.

Mér kom í hug að það er alveg rosalegur tvískinungur í gangi gagnvart fíkniefninu áfengi á landinu.

Þú mátt en þú mátt samt ekki.

Þú skalt hafa gaman en þú skalt ekki hafa of gaman.

Þú skalt ekki vera frá vinnu vegna timburmanna og þú mátt ekki koma bakfullur heldur en þú mátt samt detta í það á vinnustaðarfylleríum.  Þú mátt æla ofan í tætara fyrirtækisins ef þú gerir það með félögunum á þeirra lögbundna vinnudjammi.

Af hverju má ekki koma með afleiðingarnar í vinnuna, bara nauðga orsökinni við skrifborðið eftir útstimplun.  Fara svo í sleik við deildarstjórann, segja nýja sölumanninum að grjóthalda kjafti, káfa á framkvæmdastjóranum og gráta utan í ritaranum?

Af hverju er það alkahólismi að drekka um hábjartan dag niðri á torgi en ekki að sitja og sötra hvítvín við sama torg á sama tíma en bak við vegg með matseðil fyrir framan þig?

Er það proppsið sem stjórnar sjúkdómsgreiningunni?

Þú ert alki ef þú ferð með strætó í ríkið, kaupir þinn bjór og lætur opn´ann á staðnum.

Þú ert vínmennungur ef þú ferð á Lexus í ríkið í Armanijakkafötunum, kaupir árgerð og tekur nótu.

Auðvitað þekki ég muninn á alka og róna - en gerir þú það?

Mér er alveg sama hvort fólk drekkur eða ekki - í alvörunni - mér hugnast þó frekar allsgáð fólk eftir að mér rann, sennilega af því að drukkið fólk er sífellt endurtakandi sig og talar barnalega.

En á áramótum fer í gang fylleríisorgía.  Ég hef alltaf áhyggjur af öllum börnunum í myndinni.

Gæti fólk ekki tekið því rólega að þessu sinni og gengið hægt um gleðinnar dyr.

Væri ekki lag að vera edrú þegar nýja árið er hringt inn?

Halló, ég er ekkert að beina orðum mínum til hófdrykkjumanna, þeir geta séð um þetta án þess að himnarnir opnist og fjöllin springi.

Ég er að tala um Happynewyeartýpurnar með brennivínsnefin sem þurfa að byrja árið á að vera með móral.

Og eru að afsaka sig alveg fram að næsta fylleríi.

Jájá.

Skál í kókinu.

 

 


mbl.is Lyf til að lengja augnhár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klifur?

Á komandi ári mun allt ganga mér í haginn líka hjá öllu mínu fólki.

Ég mun brillera í fjallaklifri.

Ég mun klífa hæstu tinda, ná á toppinn aftur og aftur.

Ég er að tala um andlegt klifur aularnir ykkar.

Ég ætti ekki annað eftir en að fara aktjúallí að hendast um allt í láréttri stöðu niður í lóðbeint helvíti.

Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu ári.

Byltingin mun sjá til þess.


mbl.is Fjallkonur stefna á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af fíflum í Kópavogi og annarsstaðar

Þegar karlinn sem kenndur er við Kópavog og finnst afskaplega gott að búa þar lét út úr sér í fréttum í vikunni að námsmennirnir í útlöndum sem beðið hafa eftir neyðarláni frá Lánasjóðnum síðan í október væri óþolinmótt "ungt" fólk þyrmdi yfir mig.

Í gærkvöldi horfði ég svo á Kastljós og sá Katrínu Jakobsdóttur og formann menntamálanefndar Sigurð Kára Kristjánsson sitja fyrir svörum vegna þess að af 119 umsóknum um neyðarlán hafi 7 fengið fyrirgreiðslu.  Þessar 7 fyrirgreiðslur voru afgreiddar daginn fyrir Þorláksmessu og verða greiddar út í janúar.

Neyðarlán minn afturendi.

Þau sátu þarna, Katrín og SK, ráðvillt á svip vegna þess að fyrirmælum þeirra hafði ekki verið sinnt af óhæfum embættismönnum kerfisins og það rann upp fyrir mér að það er sama hvar borið er niður - ekkert virkar.

Þarna gefur menntamálanefndin stjórn Lánasjóðsins tilmæli um afgreiðslu neyðarlána og hún er búin að vera að dunda sér við að fara endalaust fram á fleiri gögn á meðan fólk á ekki fyrir mat og húsaleigu.

Í mínum bókum er neyð eitthvað sem er aðkallandi og það strax. 

Ég fékk sömu tilfinninguna og þegar Geir var að svara því í október á hverjum degi nánast, að gjaldeyrisviðskipti væru alveg að komast í lag.

Við vitum hvernig það fór.

Það á að reka formann stjórnar Lánasjóðsins og hann getur bara fengið sér ást í Kópavogi eða eitthvað.

Hann hefur gjörsamlega hundsað tilmæli menntamálanefndar Alþingis.

Skilur þetta fólk ekki að meðal námsmanna er fullt af fólki með börn á framfæri? 

Og að námsmenn eru að missa húsnæði vegna vanskila og þeir eiga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum?

Katrín og SK töluðu um að það yrði að boða til fundar í nefndinni strax eftir áramót.

Ég segi; gerið það strax.  Nógu stórt er klúðrið nú þegar.

Einhver verður að taka ábyrgðina og koma málinu í lag.

Þetta eru ekki einhverjar friggings tölur á blaði - það er lifandi fólk á bak við hverja umsókn.

Er enginn hæfur á neinu stigi í þessu kolbilaða samfélagi?

Arg

 


mbl.is Menntamálanefnd fer yfir reglur um neyðarlán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni dagsins..

Afmælisbarn

Þessi litla stúlka, hún Jenný Una Eriksdóttir er fjögurra ára í dag.

Hennar er sárt saknað hér á kærleiks en afmælisbarnið er að heiman ásamt foreldrum sínum og bróður hjá farfar og farmor í Sverige.

Jenný hefur beðið lengi eftir afmælinu sínu, tíminn getur ekki liðið nógu fljótt þegar allir eru að eiga afmæli í kringum mann.

Jenný Una átti afskaplega erfitt með að sjá réttlætið í því að litli bróðir sem varð eins árs á Þorláksmessu ætti afmæli á undan henni sem er miklu eldri en hann.

Nú er beðið í ofvæni eftir 3. janúar á þessu heimili þegar ferðalangarnir koma heim og við fáum að knúsa þau.

Tengdamóðir mín elskuleg hún Gógó er áttræð í dag þannig að það er merkisdagur í tvennum skilningi hér á bæ.

Oliver fór til heim til London í gær og amman er frekar leið yfir þessum eilífu ferðalögum á fólki.

Að heilsast og kveðjast...

Jájá..

En til hamingju með daginn þinn ömmustelpan okkar.


Grönn í kreppu

málband

Ég var lengi sérfræðingur í negrunum.  Ég kynnti mér þær allar, prufaði margar og nú heldur þú sem lest að ég hafi verið spikbolti.

Ónei, hef reyndar einu sinni verið feit en það var þegar ég var full og andstyggileg og troðfull af róandi til að bíta höfuðið af skömminni.  Það þarf vart að taka fram að þá var ég ekki að pæla í megrunaraðferðum.

Það er nú yfirleitt þannig að við vestrænar konur erum með kíló á heilanum frá því í snemmbernsku.

Við erum mataðar á standardlúkkinu hvert sem við snúum okkur.

Þess vegna er mér til að mynda frekar kalt til Barbídúkknanna sem kenna stelpunum okkar að svona eigi konur að líta út og í leiðinni kennum við þeim að næra kaupgleðina með fötunum á þetta gervikvendi og öllum fylgihlutnum og fyrirkomulögunum sem hún þarf að eiga.

Burtséð frá því þá held ég að megrunarkúrar séu flestir gagnslausir.  Amk. þeir sem útiloka ákveðnar fæðutegundir.

Mér líður aldrei betur en þegar ég borða allan mat (nei, ekki slátur, unnar kjötvörur og úldinn fisk).

Hver man ekki eftir kókósbollumegruninni, hvítvíns- og eggjakúrnum, Scarsdale, Danska, Prins og Kók dæminu og áfram skal talið.

Ég gekk svo langt í mesta brjálæðinu að fá Mirapront (spítt) hjá heilsugæslulækni í Keflavík þegar ég var tuttuguogeitthvað.  Ég sagði við manninn þar sem hann sat á móti mér og horfði á mig;

Dr. Feelgood, ég er alltof feit, mig vantar megrunarpillur (ég var tíu kílóum undir kjörþyngd á þessum tímapunkti).

Hann (annars hugar): Ókei en þú mátt ekki taka fleiri en stendur á pakkningunni.

Ég: Nei, nei (á innsoginu). Jeræt.  (Ég hef ALLTAF tekið meira en stendur á pakkningunni og því skyldi ég breyta út af vananum.  Þetta sagði ég auðvitað ekki upphátt).

Ég var því ósofin í vinnunni, nagandi á mér kinnarnar og skyldi ekkert í hvað mér leið illa.

Ergó: Borða í hófi, allan mat og hætta að láta eins og kjánar gott fólk.

Þá eru allir þokkalega grannir í kreppunni.

Adjö!

Hey, hver fjandinn er að bloggforsíðunni?  Hún liggur bara niðri vegna bilana.  Ég kann alls ekki við þetta og hananú.


mbl.is Etum, drekkum og verum glöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég kem til dyranna eins og ég er klædd

 crazy_woman

Þegar ég má ekki eða get ekki gert hluti, eins og að þrífa, fara í matvörubúð og svoleiðis leiðindasýslur er ég að kafna úr andlegri framkvæmdasemi.  Mér finnst ég VERÐA að þurrka af, ryksuga, þvo stórþvott og elda rétti sem hæfa konungbornum.

Þannig er því farið með mig núna.

Ég er svo andlega ofvirk að það er að drepa mig einkum og sér í lagi vegna þess að ég er með bullandi hita og beinverki.

Þannig að hér sit ég og líð. 

Hárið á mér er eins og það hafi lent í tætara Kaupþings, Landsbanka og Glitnis.

Ergó: Um hárið lít ég út eins og kona sem hefur fengið raflost.

Ég er í svörtum alltof stórum kjól, eldgömlum og í suðabeisuðum forljótum ullarsokkum.

Augun eru sokkin.

Ég leit ekki svona illa út einu sinni þegar ég var alltaf full.

Og af hverju er ég að blogga um ógeðislúkkið á mér á þessum degi?

Jú ég skal segja ykkur hvers vegna.

Ég lá í múnderingunni og var að lesa Skaparann, þá frábæru bók eftir Guðrúnu Evu, á sófanum eins og aumingi.

Dingdong, dingdong, dyrabjallan hljómaði.

Ok, Katrín vinkona mín komin í kaffi, hugsaði ég og hentist á fætur og stökk að útidyrunum og opnaði þær og gargaði með minni kynhlöðnu röddu; Dújúvonnadansátinðemúlæt um leið og ég tók viltan tribal á þröskuldinum.

Úti stóð ógeðslega huggulegur maður, held ég sko, því ég skoðaði hann ekki mjög náið heldur skellti hurðinni í andlitið á honum.

Hann hringdi ekki aftur.

Ég held að hann sé í jafn miklu sjokki og ég, hann er að minnsta kosti farinn.

Ég veit ekki afturenda hvað hann vildi mér, hann bara fór maðurinn.

Var hann frá Rafmagninu?  Neibb, á ekki von á lokunarmönnum.  Múha.

Var hann frá happdrætti Háskólans?  Varla á ekki miða og hef þar af leiðandi ekki unnið neitt.

Kannski var þetta friggings Votti eða Mormóni.  Fruss.. gott á hann.

Eða var þetta sjálfur keisarinn af Búrúndí?

Ég hallast á þá skoðun.

Að minnsta kosti get ég sagt í dag að ég komi til dyranna eins og ég er klædd og verið að segja satt.

Jibbí og hóst.

Og dansa..... Úje


Ábyrgð - einhver?

 græðgi

Frá því í október hefur Fjármálaeftirlitið haft Kaupþingsmilljarðamálið til "skoðunar".

Það þurfti samt nafnlausa ábendingu utan úr bæ til að koma málinu á skrið og þá hjá efnahagsbrotadeild lögreglunnar.

Eru ekki allir búnir að fá nóg af Fjármálaeftirlitinu, þ.e. allir sem eru ekki svo heppnir að vera til "skoðunar" hjá stofnuninni og auðvitað þeir sem vinna þar?

Ef einhver stofnun hefur sýnt sig vera ófær um að sinna hlutverki sínu þá er það þetta batterí.

Það er kannski þess vegna sem þeir fara hvorki lönd né strönd karlarnir sem eru ábyrgir þar á bæ.

Það virðist nefnilega vera þannig eftir hrun (og sennilega fyrir það líka) að það sé vísasta leiðin til fyrir óhæfa einstaklinga að vinna vinnuna sína með hangandi hendi eða alls ekki, til að fá að sitja sem fastast.

Eða hefur einhver tekið pokann sinn eftir allt klúðrið?

Hefur einhver verið yfirheyrður einhvers staðar?

Er einhver til í stjórnkerfinu, bankakerfinu eða í útrásinni sem hefur sætt þó ekki sé nema aðkenningu af ábyrgð?

Ekki einu sinni ráðuneytisstjórakarlinum í forsætisráðuneyti með innherjaupplýsingarnar hefur verið vikið frá störfum, ekki einu sinni tímabundið.

Þetta er nú meira spillingarbælið sem við búum í.

Allt undirlagt af spikfeitum græðgisboltum.

Þetta afþakka ég fyrir hönd barna minna og barnabarna.

Og ég ætla að gera mitt í því að koma á nýju Íslandi.

Þ.e. um leið og ég er hætt að finna til í öndunarfærum og orðin hitalaus.

Hóst.


mbl.is Gátu ekki tapað á samningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 2987315

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband