Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Út með allt helvítis pakkið

Krúttlegur þessi krakki í S-Kóreu sem misþyrmir Hey Jude þannig að eyrun á manni verkja.

Hvað um það, mér er sama, fólk má syngja og gera allt sem það vill á meðan það er ekki að abbast upp á mig.

En ég er með berkju- og lugnabólgu, jájá fékk það úrskurðað af alvöru lækni en ekki ræstitækni.  Ég var nefnilega farin að ímynda mér að það allir væru farinir að ganga í allt í heilbrigðiskerfinu svo kreppulegt.  Mætti ekki einum skúrandi lækni í ferð minni á vit vísindanna.

Ég stíg því aðeins upp af mínum sjúkrabeði til að minna ykkur á svolítið, svolítið sem skiptir máli.

Jólin eru búin.  Við erum búin að opna pakka gleðja börnin og gússígússast út af afmæli Jesúbarnsins.

Nú tekur alvaran við.

Kreppan bíður með ískaldar loppurnar úti í myrkrinu.

Ekkert hefur breyst.

Ég reikna með að nú sé engum borgara þessa lands neitt að vanbúnaði.

Allir út á götu, á bloggið og hvar sem drepið er niður fæti, til að mótmæla.

Burt með ríkisstjórn, fjármálaeftirlitsvanhæfispakkið, Seðlabankastjórn, skilanefndir og alla sem taka þátt í að breiða yfir sannleikann.

Út með allan helvítis pakkann.

Um leið og ég er orðin hitalaus þá hefst mín bylting.

Ég lofa ykkur því.

Mikið andskoti er ég annars lasin.

 


mbl.is Heimsfrægð á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villingarnir mínir

 jólagjöf

Það er þetta með að skila gjöfum.  Ekki mín sterkasta hlið.

Nú nema að ég fái fleiri en eina af sama hlutnum.  Þá stekk ég til og skipti.

Jólagjafir eru hins vegar viðkvæmt mál hjá mér, mér þykir svo vænt um þær vegna gefendanna.

Mér finnst eins og ég sé að vanþakklátt kvikindi ef ég fer og skila einhverju af því mér líkar ekki litur, áferð, tegund eða yfirhöfuð smekkur viðkomandi.

Þá er ég að segja; Rosalega ertu með auman smekk kæri gefandi.  Þú átt ekki að gefa hluti, þú átt að gefa gjafabréf.

En það er öðruvísi með bækur, þeim má skila.  Enda gaf ég eintómar bækur í ár svo allir gætu gert það sem þeir vildu með pakkana án þess að finnast þeir móðga mig.

Ég á einn náinn ættingja sem ég ætla ekki að skilgreina frekar og þegar ég hringdi í viðkomandi að morgni jóladags og var búin að þakka fyrir mig, spjalla um veðrið, jólamatinn, pólitík, ættingja á austur- og suðurlandi, möguleika bílaiðnaðarins í kreppunni, gæði jólahangikjötsins, líkur á vatnsþurrð á komandi árþúsundum, mögulegar kosningar á árinu, gæði ákveðinna kaffibauna og ljósleiðaralögn héðan og til Galapagoseyja gat ég ekki beðið lengur og spurði viðkomandi hvað honum hafi fundist um bókina sem hann fékk frá mér.

Ættingi: Ég hef engan áhuga á að lesa bók eftir þennan höfund.  Hann er á stöðugri sjálfshátíð og alltaf að segja frá sömu hlutunum og í leið hversu æðislegur hann er.

En hvernig fannst þér bókin sem ég gaf maka þínum?

Ættingi: Ekki skárri, hún fer beint í Eymundsson hvar henni verður skipt.  Okkur líst ekkert á hana.

Þessi ættingi minn hlýtur krúttverðlaun ársins.  Þvílík sannleiksdúlla og gleðigjafi.  Ég sagði honum það og það krimti í honum, alveg: Hehehe þú spurðir.

En í ár fékk ég bara hluti sem mig langaði í.

Jakka, sjal, tvennar peysur, maskara, handklæði, ullarsokka alveg þrælflotta og fleira sem upp verður talið seinna.

Falalalalala og nú er úti ævintýri.

Hangið góð á jólunum villingarnir ykkar ég er að blogga til að halda ykkur gangandi.

Ég er fokkings móðir Theresa bloggheima, égsverða.

 


mbl.is Jólagjöfum skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanskilanefndin

Hið frábæra "björgunaraðgerðar- og veltisteinaplan" ríkisstjórnarinnar er að verða að geðveikislegum brandara.  Algjörum Fellini sko. 

Fátt eitt hefur verið gert af viti, óvissan jafn slæm og þegar hrunið reið yfir og við litlu sem engu nær fyrir utan það sem við uppgötvum sjálf með okkar kommon sens.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra skoðar millifærslur upp á samtals hundrað milljarða króna frá Kaupþingi á Íslandi inn á erlenda bankareikninga.

Ábending um þetta glæpsamlega athæfi ef rétt reynist kemur í formi ábendingar utan úr bæ takið eftir, ekki skilanefndinni sem var skipuð til að finna þessa hluti og það með hraði.

Algjörlega dæmigert.

Hvar er friggings skilanefndin?

Alveg er ég viss um að hún er enn að reyna að finna út hvar aðalinngangurinn á bankanum er.

Það má örugglega sjá hana á helvítis túninu við Kaupþing að diskútera sig í gegnum þá byrjunarörðugleika.

Fífl.

Viðkvæmir lesendur eru beðnir fyrirgefningar á orðbragðinu og það á sjálfum jólunum en ég á ekki orð yfir hversu duglausar þessar skilanefndir virðast vera.

Ráðandi þvers og kross alla gömlu stjórnendurna inn í bankana og mér sýnist ekki betur en verið sé að halda upplýsingum frá almenningi.  Amk. hef ég enga trú á að þessar skilanefndir séu að vinna fyrir mig sem er auðvitað eigandi bankanna þó ég kæri mig ekki hætishót um slíkar eigur.

Svo eru þeir allir meira og minna tengdir inn í gömlu bankana sjálfir.

Burt með þetta lið og það á stundinni.

Þeir myndu ekki finna út úr bankaráni þó það væri framið fyrir framan nefið á þeim.

Þessar skilanefndir eru ekki að standa sig.

Þær eru í bullandi fjandans vanskilum.


mbl.is Rannsaka millifærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið alveg að líða - jösses á jólunum

Árið er að verða búið.  Ég var að átta mig á því áðan og það ekki á skemmtilegan máta.

Hinar hefðbundnu fyrirfram sprengingar eru hafnar.  Ég gæti gargað en geri það ekki.  Ótýndir götustrákar að taka forskot á sæluna.

Ég fæ ekki kikk út úr flugeldum en af því að ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir hjálparsveitunum okkar þá finnst mér að það ætti enginn að versla þessa "nauðsynjavöru" annars staðar.

Annars á að reka hjálparsveitirnar af samneyslunni, það er ekki öðruvísi.  Þessi þjónusta bjargar mannslífum.

Ekki versla við dílerinn á horninu sem er að fjármagna eigin neysluHalo.  Jabb, ég er að tala um flugelda ekki dóp.

En jólin rúlla hjá með látum.  Það er að segja hraðar en hönd á festir.

Áður en ég sný mér við verður "Nú árið er liðið í aldanna skaut" sungið í útvarpinu.  Þá er stutt í að árið sé horfið - búið og bless.

Þessu ári gleymi ég seint ef nokkurn tímann.

Í ár var ég vakin upp með þokulúðri beint í eyrað þar sem ég svaf værum afneitunarsvefni haldandi að ég tilheyrði súperþjóð.  Ok, ok, ok, ég hélt alls ekkert að Íslendingar væru klárari en aðrir en það var ekki laust við að ég væri farin að hallast aðeins á þá síðuna eftir heilaþvottinn í fjölmiðlum, í forsetanum og ríkisstjórninni um ofurmennsku smáþjóðarinnar.

Halló Jenný, var veinað í hlustirnar á mér, nú skaltu vakna og sjá á hvaða andskotans ormagryfju þú hefur komið þér fyrir á með öllu þínu hyski.

Jabb, ekkert verður samt aftur og kannski sem betur fer.

Það dásamlega við kreppuna er að hugarnir fara að starfa aftur.  Einkaþoturnar og jeppahelvítin verða símból fyrir hyskni og óheiðarleika og úr rústunum mun rísa fallegt fólk að innan og í algjörum stíl við náttúruna sem getur drepið mann með fegurðarfyrirkomulagi sínu.

Birtan er bjútífúl eins og sjá mátti í frábærri mynd gærkvöldsins, Brúðgumanum.

Þvílík fegurð á þessari eyju.

Haskið ykkur á lappir hér er verk að vinna. 

Burt með gamla Ísland inn með nýja siði og nýja vendi.

Hér þarf að sópa úr öllum hornum.

Æmgonnasúðemoðerfokkers.


mbl.is Bankamenn sprengdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðingjar

Í dag myrtu Ísrealar að minnsta kosti 195 Palestínumenn og særðu yfir 300 með þróuðum morðtólum sínum sem þeim er látið í té af Bandaríkjamönnum.

Bölvaðir morðingjar segi ég og ég meina það.

Þeir ætla að fara að kjósa í Ísreal og þá er þetta vinsælt stönt að uppræta Hamassamtökin en drepa saklaust fólk í hundraða tali.

Ég reikna með að íslensk stjórnvöld standi upp frá jólaborðinu og mótmæli kröftuglega.

Eða er þetta morðæði Ísraelsmanna í sömu kategóríu og morðin í Írak?

Í stríðinu sem við erum þátttakendur í?

Svona allt í lagi gjörningur af því Bandaríkjamenn hafa velþóknun á?


mbl.is 195 látnir, yfir 300 særðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með mann í hjartanu

jenný sefur 

Sara yngsta dóttir mín er með fjölskyldunni sinni hjá tengdaforeldrum í Svíþjóð eins og ég hef sagt frá hér á síðunni.

Fyrir jól spurði Jenný Una mömmu sína um Jesú.  En dætur mínar hafa lítið verið að troða trúarbrögðum í börnin sín og látið nægja að kenna þeim að vera góðar manneskjur.

Jenný: Mamma hver er Jesús?

Sara: Hann er sonur Guðs og Guð er allt sem er gott í heiminum.  Jesú á afmæli á jólunum.

Jenný: Ekki 30. desember eins og ég. Hvar á Jesú heima?

Sara: Jesús er ekki alvöru maður en sumir segja að hann hafi einu sinni verið til og sé núna í hjartanu á fólki. (Sara í töluverðum erfiðleikum með að útskýra goðsögnina fyrir barninu).

Jenný: Ég vil ekkert hafa Jesús inni í hjartanu mínu, það er lítið og hann getur alveg verið heima hjá pabbasín bara.

Sara: (Eyðir hjartaumræðunni); Jesús á afmæli á jólunum og þess vegna fá allir gjafir.

Jenný Una (sáttfús): Jesús má vera í hjartanu mínu á afmælinu sínu en svo á hann að fara heim til sín, pabbi hans getir keypt rúm´handonum.

Guð minn góður, hvernig er hægt að ætlast til þess að börn læri hvað er raunverulegt og hvað ekki?

Hvað er andlegt og hvað er áþreifanlegt?

Í morgun sagði sú sem gerði Jesú brottrækan úr eigin líffæri við mig í símanum að hún "elskar mig och saknar mig jättemycket".

Sko.. when in Rome

Jabb í Sverige bregður maður fyrir sig tungumáli innfæddra, það er ekkert flóknara en það.

Ef börn eru ekki á við heilan Ésús þá er ég illa svikin.

Sjáumst.


"Stétt með stétt" verði "stétt undir stétt"

Ég fékk hugljómun í kvöld þegar ég sá Geir Haarde segja að sjúklingar geti staðið undir þeirri gjaldtöku sem hann ætlar að skella á þá til að næla sér í þrjúhundruð millur eða svo.

Flestir sjúklingar eru sko ekki veikir í grunninn nebblilega, segir Geir.

(Alveg eins og við í Háskólabíó á dögunum vorum ekki þjóðin skv. ISG.)

Fyrir utan mína hefðbundnu hugsun sem alltaf slær mig í höfuðið er ég ber forsætisráðherrann augum og er: "Gvöð hvað maðurinn er mikill dúllurass", þá gerði ég hér heljarinnar uppgötvun sem breytir lífi mínu varanlega.

Allt í einu skildi ég hvað Sjálfstæðisflokkurinn meinar með einum af uppáhaldsfrösunum sínum"Stétt með stétt"!

Mér fannst þetta alltaf vera innantómur byljandi þangað til að nú á jólum ég skildi.

Auðvitað á flokkurinn við að öreigastéttin búi í haginn fyrir yfirstéttina eða haldi henni gangandi svo að segja.

Eiginlega ætti að umorða frasann.  Inntak hans er nefnilega: Stétt undir stétt.

Djöfull sem ég er sein að fatta.

Ég sé veika fólkið alveg brosa hringinn yfir að fá að leggja sitt af mörkum þegar það fer til læknis.

Það mun borga og brosa.

Að því sögðu þá ætla ég að leyfa mér að segja nákvæmlega það sem mér finnst um þetta nýjasta útspil Geir Haarde sem ekkert aumt má sjá, blessaður maðurinn.

Mér finnst að hann eigi að hafa þá skömm í sálu að halda kjafti og láta norska hermanninn tala fyrir sig og láta hann terrorisera þá sem veikir eru og í þörf fyrir sinn skerf af samneyslunni, þ.e. ef það þarf yfirhöfuð eitthvað að vera að tjá sig.

Geir og hans samverkamenn hafa nefnilega sýnt töluverða hæfni í að þegja og yfirleitt þegar það er gjörsamlega óviðunandi.

Það er ekki á íslenska þjóð meira leggjandi í bili.  Kolruglaðir stjórnmálamenn eiga að þekkja hvenær komið er nóg.

Stétt með stétt minn andskotans afturendi og guð veri með ykkur.


mbl.is Standa undir gjaldtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðinn á annan í jólum

 að tala

Hér á kærleiks hafa umræðuefnin aldrei verið eftir bókinni.

Þá á ég við að við ræðum ekki um Jesú á jólunum, Júdas á páskunum og Guð í öllum tilfellum.

Við ræðum allan fjandann  á hátíðum jafnt sem rúmhelgum.

Í morgun breyttum við auðvitað ekki út af vananum.

Við sátum við morgunverðarborðið þegar minn heittelskaði spurði varfærnislega en samt með ákveðnum "það er ekki seinna vænna" undirtón, hvort ég væri hrædd við dauðann.

Ég setti mig í stellingar og ætlaði að koma með mitt venjulega búllsjitt um að ég væri ekki hrædd við dauðann og ladídadída af því það er svo þroskað en ákvað að bregða út af vananum í dauðadeildinni og segja satt og rétt frá.

Ég: Já, lafandi hrædd og það er vegna þess að ég veit ekkert hvort ég meiði mig, hvort ég verð skelfingu lostin eða bara kúl á því af því ég sé himnafeðga eða aðrar guðlegar verur við rúmgaflinn.

Hann: Af hverju gefur þú þér að þú deyir í rúminu?

Ég: Af því ég á það skilið að deyja rólega, ég er alveg búin með minn skammt af bömmerum (fórnarlambið) og ég vil fá að deyja máluð um augun með flottar strípur og langar neglur.

Hann: Hvað ætlar þú að láta gera við afganginn?  Ég ætla að láta brenna mig, fara beint til Valhallar og hafa fönn með guðunum.

Ég: Ég veit það ekki.  Sko ef það er ekkert eftir dauðann þá er mér slétt sama hvort ég verð brennd eða grafin en ef ég veit af mér og verð komin í hvítan kufl með vængi þá vil ég örugglega ekki horfa á sjálfri mér inn í líkbrennsluofninn.

Hann: Af hverju?  Ég meina er hvorutveggja ekki gjörsamlega óásættanlegt?  Er dauðinn ekki fullkomlega óásættanlegur.  Hvern er maður að blekkja?  Hver vill deyja?  Ha?

Ég: Æi hættu að tala maður.  Þú ert í þann mund að eyðileggja fyrir mér daginn.

Spurningamerkið sem ég giftist fór sáttur í vinnuna.  Búinn að tala bömmerinn yfir á mig. 

Urr á jólunum.

Rosalega er maður hræddur við dauðann.

Ég held að í mínu tilfelli sé það af því ég er kontrólfrík.

Er miðill eða eitthvað á lausu?

Einhver?


Fallegar manneskjur og minna fagurt njósnafyrirkomulag

Ég man þegar ég las bókina 1984 eftir George Orwell.

Mér fannst allt að því hlægilega absúrd þessi framtíðarsýn höfundar, hvar stóri bróðir fylgist með hverri okkar hreyfingu og einkalíf er ekki til.

Nú er bók Orwells eins og barnaævintýri sem engan á að geta hrætt því raunveruleikinn er mikið lygilegri en Orwell karlinum gat dreymt um. 

Ég man þá tíma þegar fólk tókst í hendur og innsiglaði samninga. 

Nú hafnar Persónuvernd beiðni fyrirtækisins Lánstraust um að kortleggja greiðsluhegðun (þvílíkt orð) Íslendinga.

Borgar þú rafmagnsreikninginn á gjalddaga eða eindaga?  Eða ertu einn af þeim forstokkuðu sem greiðir mánuði of seint?  Þetta vill Lánstraust vita og selja til sinna kúnna. 

Ég vil ekki að það sé hægt að njósna um mig og selja upplýsingarnar til væntanlegra fyrirtækja sem ég skipti við og nei það hefur ekkert að gera með svarta samvisku mína, mér líður ágætlega þar nú um stundir, þetta hefur með pjúra mannréttindi að gera og friðhelgi einkalífsins.

nýlendurvöruverslun 1963

En...

Mikið skelfing var myndin um Kjötborg falleg.  Hún endurvakti trú mína á mannkynið sem hefur beðið mikinn hnekki undanfarið.

Ég ólst upp á þessum slóðum, reyndar aðeins vestar og mínar búðir voru hlið við hlið á Bræðraborgarstíg.  Reynisbúð, SS, Mjólkurbúðin og Kron.

Svo á Ásvallagötu var Steini fisksali, kjötbúð og Magga brauð.  Magga barnahatari sem ég hef sagt ykkur frá en sú kerlingarálft seldi fánakúlur sem voru hryllilega góðar.

Konurnar lyftu símanum og svo kom sendillinn með vöruna.

Allt á persónulegu nótunum.

Maður gat ekki stolist til að kaupa sér einn haltukjaftibrjóstsykur því kaupmaðurinn þekkti mann og spurði hvort amma hefði gefið leyfi.  Ekki laug maður að kaupmanninum.

Hm...

Ég sakna þessara tíma, held að þeir hafi verið mun manneskjulegri en þeir sem við lifum núna.

Ég vil ekkert dvelja í fortíðinni en þrátt fyrir allt þá fékk maður að vera manneskja á þessum árum en ekki einber helvítis kennitala.

En bræðurnir í Kjötborg fá mann til að brosa hringinn.  Þeir eru svo fallegar manneskjur.

Later.


mbl.is Lánstrausti hafnað í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oliver

 Ollie

Oliver óskar ykkur gleðilegra jóla.

http://www.facebook.com/video/video.php?v=58870145024

Og Oliver býður upp á eitt í viðbót.

http://www.facebook.com/home.php#/video/video.php?v=58869860024

Krúhúttkrampi.

Sjáumst á morgun.

Jólakram og kreist.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 2985718

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.