Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Óþverraþjóðfélagið

Ég fór til læknis í dag, sem ekki væri í frásögur færandi, nema af því að ég er að segja frá því núna.

Sjálf er ég með tímabundna örorku og þurfti að borga einhverjum hundraðköllum meira en venjulega.  Ég spurði konuna, svona af því að ég er forvitin um hagi mína, hversu hátt öryrkjahámarkið væri fyrir afsláttarkorti.  Það hafði hækkað um einhverja upphæð.  Sem sagt, örykjar  (og aðrir reyndar líka) þurfa að borga hærri upphæð til að fá sk. aflsáttarkort.  Brilljant. Af því að ég er ekki alveg á horriminni og ekki svo tíður gestur (amk. ekki hingað til) á læknastofum, þá yppti ég öxlum en hugsaði ekki fallega til svikarana sem alltaf eru lofandi öryrkjum og eldra fólki, manneskjulegum lífsskilyrðum.

Ég settist og beið.  Inn kom kona í hjólastól með konu sem fylgdi henni. Hún  þurfti að borga hækkuðu upphæðina auðvitað og henni brá verulega. Fimmhundruðkallinn getur verið mikill peningur hjá þeim sem hafa örfá slíka til ráðstöfunar eftir að vera búnir að borga leiguna yfir höfuðið á sér.

 Konan sagði í hálfum hljóðum við fylgdarkonu sína, eitthvað á þá leið að hún vissi ekki lengur sitt rjúkandi ráð.  Mannsæmandi kjörum hafi verið lofað en það eina áþreifanlega gagnvart sjúklingum væru beinharðar hækkanir. Svo nefndi hún upphæðina sem hún hafði á mánuði til ráðstöfunar (sem ég ætla ekki að tíunda hér, ef hún læsi nú bloggið mitt eða einhver sem þekkir til hennar) og það er skemmst frá því að segja að mig langaði að fremja eitthvað, gagnvart nokkuð mörgum aðilum.

Hvað er að þessu andskotans þjóðfélagi sem borgar þessum herrum hérna í fréttinni 76 milljónir í árslaun og 300 milljónir fyrir að hefja störf. Og rúsínan í pylsuendanum er þetta: "Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis fékk 190 milljónir króna í launagreiðslur á síðasta ári. Þar af voru 100 milljónir bónusgreiðsla en Bjarni lét af starfi forstjóra Glitnis í maí á síðasta ári. Hann vann ákveðin ráðgjafastörf fyrir bankann eftir að hann hætti sem forstjóri Glitnis. Hagnaður Bjarna vegna kaupréttarsamninga nam 381 milljón króna."

Hefur enginn í ríkisstjórninni, í samfélaginu yfirleitt, heyrt um sanngirni og meðalhóf?  Að græðgi sé löstur og afskiptaleysi og ill meðferð á fólki algjört siðleysi?

Ég er hreinlega komin með ógeð á þessu jakkafataþjóðfélagi, jeppa og einkaþotublæti og allri þesari taumlausu græðgi.

Og það eina sem öryrkjar fá í sinn hlut á þessum  lóðarísdögum ríkisstjórnarinnar, eru hækkanir fyrir læknisþjónustu.

Skammist ykkar þið sem ábyrgðina berið og hvað í andskotanum ætlar fólk að gera með alla þessa peninga á einni hendi?

Skeina sér á þeim?

Svo eru kofakaupin hjá hinum nýja meirihluta efni í aðra færslu.   Þetta eru auðvitað smápeningar, en þegar þeir sem lítið hafa á milli handanna eru til umfjöllunar þá er sunginn annar söngur.  Helvítis verðbólgusöngurinn.

Sjútmíækúldentkerless.


mbl.is Forstjóralaun hjá Glitni 266 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er best að steinhalda júnó

Ég er varla búin að senda út í cypertómið færslu til dýrðar sjálfri mér, almættinu og edrúmennskunni  minni en að flugmaðurinn hjá Air Canada fær taugaáfall og var færður í böndum, í hrókasamræðum við Guð, inn á spítala, eftir að vélinni hafði verið lent á Írlandi af akútástæðum.

Ég er ekki að gera grín að manninum, né neinu tengdu þessu máli.  Kapíss?  Ókei, þá held ég áfram mínum uppúrveltingi.

Í öll árin sem ég þjáðist af flughræðslu, var ég alltaf að berjast við þá löngun að fara og tékka á hvort flugmennirnir væru edrú, ekki þunnir og vel útsofnir.  Ég reyndi það ekki, enda hefði mér þá verið vísað samstundis frá borði. OMG.

Í staðinn engdist ég í minni alkahólvímu og velti mér upp úr þessu, upp úr andlegu ástandi flugumferðarmanna, hvort þeir myndu ekki örgla halda öllum vélum í hæfilegri fjarlægð frá hvorri annarri og svoleiðis.

En nú gerist þetta.  Það fór smá um mig, en núna þegar ég er búin að skrifa um þetta, þá held ég að ég haldi bara áfram að vera kúl og edrú í flugvélum sem og annarsstaðar og vona að aumingja maðurinn nái skjótum bata.  Litli dúllurassinn.

Úje

Flæmítúðemún.


mbl.is Flugmaður fékk taugaáfall í flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búhú fargings færsla með dassi af símaskráarvanda og Britneyjaráhyggjum

 

Mé er kalt, en ykkur?  Finnst ykkur það merkilegt að það skuli frjósa á manni þessa dagana?  Ég er svona að pæla í því hvort þetta sé einstök upplifun hjá mér.

Ég er í tvennum bolum, einni ullarpeysu og eiturgrænu flísteppi en nötra eins og hrísla í óveðri.  Ég sem er svo kuldaþolin.  Ég hlýt að vera veik, enda á leiðinni til læknis þar sem önnur löppin á mér hefur tekið vaxtakipp á þvervegin (heitir bjúgur held ég) og nú fer ég í að láta dopplerinn (læknaritarinn, svo fagleg í tali) segja mér hvað er að.  Kannski fer ég á spítala.  Ég dramatísk, nei, nei.

Jólaskrautið er enn inni í litla herbergi, só?  Eruð þið að segja að ég sé löt?

Þurfti að rífast heillengi við manninn hjá símaskránni, sem var eitthvað ósáttur við mitt nýja starfsheiti sem er fjöl-miðill.  En ég hafði það í gegn. 

Ég er á vatnskúr, drekk tvö glös og þau stór í hvert skipti sem ég geng fram já vaskinum, og ég get trúað ykkur fyrir því að það geri ég á fimm mínútna fresti, flatt.

Ég vorkenni Britneyju alveg rosalega, grínlaust.  Eins og ég vorkenni öllum alkahólistum sem eru nánast í dauðateygjunum og fá ekkert við sig ráðið.  Mér finnst svo ljótt að sjá hvernig pressan gerir sér mat úr þessari ungu konu og tekur myndir af niðurlægingu hennar í gríð og erg.  Það eru margir í svipuðum aðstæðum en bara ekki fyrir framan á augunum á heiminum.  Hún gæti verið dóttir mín þessi elska.  Mig langar að knúsa hana.

Jenný Una er ekki binkona mín, af því ég náði ekki í hana á leiksólann í gær en það gerði amma hennar Söru Kamban, hins vegar (þið munið, fullt nafn hjá Jennýju).  En hún er búin að fyrirgefa mér að hafa ekki mætt (hafði ekki hugmynd um að hún ætlaðist til þess) og kemur með Lillemann og mömmu í heimsókn til hennar ömmu eftir leikskóla mín.

Geir segir að allir umsækjendur hafi verið hæfir.  Geta þá þessir hæfu menn ekki bara skipt með sér djobbinu.  Allir að skiptast á eins og Jenný segir.  Hvað er vandamálið?  Sjálfstæðisflokkurinn er VANDRÆÐALEGUR í þessu klúðri og það gleður mitt heita kommahjarta.

Annars er ég farin að laga mér te.  Þetta er búhú færsla fyrir ykkur ódámarnir ykkar svo þið hafið eitthvað að lesa þangað til að ég kem sterk inn eftir læknisheimsóknina, þe. ef ég blogga þá ekki af gjörgæslunni í dauðateygjunum.

Ítmímítmíæmdæing!

Úje


Ólafur Eff, snarstoppaði þegar hann rakst á skrítnu konuna á gangi ráðhússins, vitandi að spákonan Ellý Ármanns hafði spáð að hann myndi finna ástina um leið og hann hætti að pæla í þessari geðveiki.

 

Hvað myndi Ólafur F, ég og fleiri merkilegar persónur gera ef við gætum ekki leitað til spákvenna eins og t.d. hennar Ellýjar Ármanns, sem er mjög margt til lista lagt, ma. að sjá inn í framtíð okkar, fyrir nú utan þann hæfileika að hafa horft á mann í stofunni heima í fjölda ára.  OMG.

Ég veit nú ekkert hvort hún vill spá fyrir mér, enda svo sem engar snekkjur og bankar í minni nánustu framtíð,  þannig að það er ekki neitt spennandi þannig framundan, sem ég þarf endilega að vita.

Á gríns þá finnst mér þjóðfélagið og maður sjálfur meðtalinn (stundum) sé að verða að einum stórum farsa.  En hér er þessi merkilegi spádómur um Ólaf og verðandi kærustu, sem nb. virðist nokkuð skrítin í byrjun en hva, hún kemur til.  Ólafur á líka að hætta að hugsa um þessa geðveiki.

Gjörsvovel:

Það birtist kona í spádómnum. Hún er mjög dul, og virðist skrítin við fyrstu kynni, en þegar borgarbúar fá að kynnast henni er hún hjartahlý og góð", segir Ellý Ármanns, spákona, en hún lagði nokkur spil fyrir Ólaf F. Magnússon fyrir þáttinn Mér finnst á ÍNN sjónvarpsstöðinni.

Ellý segir að konan muni birtast borgarbúum á árinu, en Ólafur sé jafnvel búinn að kynnast henni nú þegar. „Þetta er akkurat kona sem hentar manni eins og honum. Þau eiga eftir að leiðast, ganga á fjöll og njóta þess að vera úti í náttúrunni", segir Ellý og bætir því við að þetta sé einmitt það sem Ólafur þarf núna. „Hann er svolítið einmana og þarf á góðri konu að halda".

Ellý segir að konan eigi eftir að styrkja Ólaf mikið, og bætir við að Ólafur þurfi að fara að láta að sér kveða, „Hann þarf að fara að láta verkin tala og hætta að hugsa um þessa geðveiki", segir Ellý að lokum
. "´

Ó svo sætt, ég sé þau alveg fyrir mér, valhoppandi hönd í hönd upp um Esjuhlíðar, hann með prjónahúfu með nafninu hennar og hún með prjónahúfu af merkta F-listanum.  Krúttkast.

Ég spyr nú bara: Er í lagi heima hjá fólki, sko ekki konunni og Ólafi Eff heldur okkur hinum?

The hills are a live

Úhúje

 

 


Kverúlantinn afhjúpaður

Ég hef illan bifur á sjónvarpssálfræðingum, prestum, læknum og slíku liði , sem básúnar út "selvfölgeligheter" í sjónvarpinu.

Dr. Phil sem rífur konuna sína með sér, upp með rótum, af áhrofendabekknum á leiðinni út eins og hún sé hundurinn hans, fer sérstaklega í taugarnar á mér.

Svo er hann íhaldssamur, fordómafullur og innsnjóaður í viðhorfum.

Þannig menn, sem eru skinheilagheitin uppmáluð, predika stöðugt um dásemd fjölskyldulífsins, hafa ansi oft orðið uppvísir að áreiti gagnvart konum.  Svo ekki sé nú meira sagt.

Hann minnir mig á prest með skipunarbréf frá Gussa um hvað sé rétt og hvað sé rangt.

Það þýðir ekki að hann slumpist ekki til að hjálpa hluta fólks, en mín skoðun er einfaldlega sú, að fólk á ekki að leita í sjónvarpið eftir hjálp við alvarlegum vandamálum.

Látum vera að hann sé fjársvikamaður.

Horfum fram hjá því að hann er eins og frummaðurinn sjálfur þar sem hann druslar konunni sinni á eftir sér eins og dúkkudruslu.

En ég vil ekki horfa fram hjá því að hann sé perri.

Bölvaður asninn!


mbl.is Dr. Phil sagður eiga sér vafasama fortíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið svarta blæti Jennýjar Önnu

 

Ég á við vandamál að stríða.  Bara eitt sko.  Jeræt.

Ég er fatasjúk, en vandamálið er ekki það, fatasýki er afskaplega skemmtilegt tómstundagaman, svona næstum því jafn skemmtilegt og að blogga.

Vandamálið er hinsvegar ásækni mín í svartan fatnað.  Svart, svart, svart.  Ef það leynist bara eins og ein lítil rós eða tvær köflur á flík þá er hún út. 

En í London átti að gera bragarbót á hinum svarta fataskáp.  Vilji einbeittur. 

Ég óð um verslanir borgarinnar og gúffaði í körfur og kistla.  Frumburður dró mig með valdi að bláum, rauðum, gulum,grænum, röndóttum, doppóttum og köflóttum fatarekkum.  Hm.. já, sagði ég, of æpandi, fitandi, styttandi, lengjandi og svo dróst ég eins og segull að hinum svörtu rekkum með örlitlu stoppi við þá gráu, þar sem keypt voru nokkur ætem.

Niðurstaða: Fullur fataskápur af kjólum, peysum, og öðru slíku, ásamt skóm, í svörtu.

Ég þarf að nota vasaljós þegar ég leita mér að klæðum á morgnanna.

Heiðar snyrtir myndi segja að ég væri að loka orkuna mína inni, en ég segi að ég sé að halda orku annarra úti.

Getur einhver gefið mér skýringu á þessari ást á svörtum fatnaði?

Þetta hlýtur að vera sálrænt.

Er þetta löngun til að verða ekkja, stunda jarðafarir, sjást ekki, eða bara líta út fyrir að vera virðuleg?

Einhver?

Þekkið þið einhvern sem á svarta sumarkjóla? Já þið þekkið mig!

Þekkið þið marga sem hafa gift sig í svörtu?  Já ég er ein af þeim.

Hjálp!!!!!!!!!!!

Úje Blakkisbjútífúll.


Bara einn klefi - hvar er hin alræmda óhlýðni??

Ég er svolítið hissa á að bara einn bar skuli ganga í berhögg við hið illræmda og ósveigjanlega reykingabann.  Hélt satt best að segja að það yrðu amk. nokkrir sem létu ekki segja sér að láta gestina sína standa úti í blöðrubólguaðgerðum, en svona geta hlutirnir komið manni á óvart´

Ekki að ég sé að mæla með lagabrotum hérna, en reykingarbannið á opinberum stöðum og þá er ég aðallega að tala um kaffihús og skemmtistaði, er gerræði og illa ígrundað. Við búum fjandinn hafi það vart á byggðu bóli, veðurfarslega séð.

Heilbrigðisráðherra, þessi sem stendur dedd með því að fíkniefnið alkahól verði selt í búðunum, var eitthvað búinn að ýja að því að þetta yrði endurskoðað með reykingarnar ef ekki gengi nógu vel.

En það þarf vart að endurskoða neitt þegar allir hlýða, allt gengur eins og smurt og lungnabólgur og blöðrubólga, flensur og bronkítis eru meðhöndluð hjá sama heilbrigðiskerfi og enginn segir neitt.

Ég verð að játa að ég dáist pínu að þeim á Barnum við Laugaveg sem eru með reykklefa og ætla að láta reyna á hver útkoman verður.

Ég stend með þeim.

Það sem gerir mig hissa er hversu hlýðnir hinir skemmtistaðirnir eru, því mér hafa alltaf þótt íslenska þjóðarsálin óþekk í eðli sínu.

Ekki að þetta skipti máli fyrir mig.  Fer ekki á bari, fór stundum á kaffihús fyrir bann, en ætti ekki annað eftir nú þegar ég má ekki fá mér eins og eina síu með kaffinu.  Ekkert liff í því.

Komasho Barinn.


mbl.is Borgin ráðalaus vegna reykklefa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðagóðir alkahólistar

 

Í gegnum árin hef ég heyrt ævintýralegar sögur af hugmyndauðgi alkahólista, til að fá að drekka í friði fyrir umhverfinu og virðist sem hugmyndaflugi þeirra virðist lítil takmörk sett.  Spurning hvort heimurinn væri ekki komin lengra á veg í öllu tilliti ef við þessar elskur hefðum notað frjósemi hugans til góðra verka.

Ég fór að pæla í þessu þegar ég sá þessa frétt um að Danir ættu Evrópumet í ofdrykkju.

Mér detta í hug nokkrar aðferðir bara með að láta hugann reika aðeins til baka.

Einn úr fjölskyldu minni var kominn í ónáð heima hjá sér vegna brennivínsdrykkju.  Hann tók á það ráð að sprauta vodka inn í góðan slatta af appelsínum, sem hann úðaði í sig yfir ensku knattspyrnunni. 

Sá hinn sami, tók niðursuðudósir sem hann stakk gat á tæmdi, fyllti af áfengi og lóðaði fyrir gatið.  Þetta var nestið hans í vinnunni.

Maður mér vel kunnugur þurfti að mæta í dönskutíma á laugardögum, flaskan var í skólatöskunni, plaströr var leitt úr flösku og undir jakka og upp í hálsmál.  Hann var glaður í dönskunni og kennarinn lét hann lesa fyrir bekkinn, hann hafi svo afslappaðan framburð.

Þegar ég sjálf var farin að fara ótæpilega oft í ríkið (alltaf það sama vegna bílleysis) klæddi ég mig í dragtina, skellti áfenginu á borðið og bað um nótu, ferlega kúl í framan.  Var auðvitað að kaupa fyrir "fyrirtækið" mitt.  Ég er svo viss um að þær hafa allar séð í gegnum mig á kassanum en voru svo vinsamlegar að láta sem ekkert væri.

Boðskapur þessarar færslu er ekki að segja krúttlega brandara af ölkum með hugmyndir.  Þó ekki sé annað hægt en að brosa af vitleysunni. Heldur hversu langt maður er tilbúinn að teygja sig til að geta fengið sitt fíkniefni og að fá að hafa það í friði.

Hvað söguhetjurnar í dæmisögunum áhrærir, þá hafa þær allar farið í meðferð, sumar oftar en einu sinni,hehemm.  Ætli við séum af dönskum ættum?

Farin edrú í lúll.

Þarf enga nótu fyrir því.

Úje


mbl.is Evrópumethafar í ofdrykkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðifrétt dagsins/vikunnar og mánaðarins

 Matthildur Helgadóttir

Ég er ein af þeim sem get endalaust dáðst af stelpunum fyrir vestan, sem fengu hugmyndina af fegurðarsamkeppninni Óbeislaðri fegurð, sem er sú flottasta mótaðgerð sem búin hefur verið til gegn hinni stöðluðu fegurðarímynd kvenna (og reyndar karla).

Þessi gjörningur náði athygli heimspressunnar á sínum tíma og svo var heimildarmyndin um Óbeisluðu alveg frábær.

Ein af þeim sem hafði veg og vanda af uppátækinu er hún Matta bloggvinkona mín og nú hefur henni verið boðið að halda erindi á 52. þingi kvennanefndar Sameinuðu Þjóðanna sem haldið verður í New York.  Haldiði að það sé sigur stelpur!!!

Í viðtengdri frétt stendur:

"Matthildur mun fjalla um um keppnina og heimildarmyndina sem gerð var um keppnina. Matthildur verður ekki hluti af sendinefnd Íslands, heldur verður erindi hennar einn af hliðaviðburðum sem haldnir eru samhliða þinginu. Þess vegna mun félagsmálaráðuneytið ekki greiða kostnað við ferð Matthildar.

Hún fór þess á leit við bæjarráð Ísafjarðarbæjar að bærinn styrki og varð ráðið við því og veitti henni styrk að andvirði 100 þúsund krónur."

Til hamingju Ísafjarðarbær að leggja málinu lið.

En afhverju er ég ekki hissa á að ráðuneytið skuli skýla sér á bak við það að þetta sé hliðarviðburður sem haldinn sé samhliða þinginu og greiðir því ekki kostnað Matthildar.

Það er svo sem ekkert nýtt að það sé ekki púkkað mikið upp á það sem konur eru að bardúsa í kvennabaráttunni.

En Matta þú og allar hinar, til hamingju, þetta var verðskuldað.

Knús á ykkur krúttin ykkar.

Úje.


mbl.is Óbeisluð fegurð til SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nefnd og málið er dautt

Mér er svakalega illa við nefndir.  Nefndir sem eru stofnaðar í kringum aðgerðaráætlanir til að bæta eitthvað ástand.

Einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnum, Jóhanna Sigurðardóttir, var að stofna eina, starfshóp sem falið verður að vinna aðgerðaráætlun til að sporna gegn fátækt og treysta öryggisnet velferðarkerfisins.

Halló, hér er fólk að berjast við fátæk frá degi til dags.  Á varla mat á borðið fyrir börnin sín, hvað þá að fólk hafi efni á að leyfa börnunum að stunda tómstundastarf of lifa eðlilegu lífi barna í nútíma samfélagi.

Og hvað með þá öldruðu sem vart eiga til hnífs og skeiðar?

Eða öryrkjana sem eru neyddir til að lifa á loftinu stóran hluta mánaðarins?

Nefndir skoða og spá og spegúlera.  Koma saman og velta fyrir sér einu og öðru og enginn í nefndinni þekkir til neyðarinnar á eigin skinni.  Að minnsta kosti tel ég það nokkuð víst.

Ég er ekki þolinmóð í grunninn en gagnvart þessu er ég gargandi brjáluð.

Fyrirgefið orðbragðið; en aulist til að gera eitthvað núna.  Strax um mánaðarmótin bara.

Það er hægt að gera allskonar á nótæm.  Hendast til úlanda og skoða orkufyrirtæki og útrásarmöguleika, hver ráðherrann (aðallega einn)  eru sífellt bloggandi frá útlöndum.  Um eitthvað útrásar, orku ladídadída.

Það hlýtur að vera hægt að setja fart í málið.

Þetta óréttlæti er að gera mig brjálaða hérna.

Málið sett í nefnd og er þar með strax komið í dauðateygjurnar.

Og hvar eru húsin sem voru tilbúin fyrir jól, fyrir útigangsmenn?  Hvar eru þau?  Gætu hafa farið fram hjá mér, en eru þau í fullri notkun?

Arg


mbl.is Aðgerðaáætlun gegn fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.