Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

ÞUMALFINGURSREGLAN

kSkelli hérna inn gamalli færslu um þumalfingursregluna fólki til fróðleiks.

Þumalfingursreglan "the rule of thumb"

Þar sem ég skrifaði um kynlægt ofbeldi í dag finnst mér tilvalið að láta þennan fróðsleikmola fylgja með.

Þumalfingursreglan svokallaða er talin eiga uppruna sinn á Englandi en þar finnst hún fyrst skjalfest árið 1692. Þumalfingursbreidd kaðals eða annars bareflis var talin leyfileg stærð fyrir eiginmenn sem vildu refsa konum sínum með barsmíðum.

Það mun hafa verið Sir Francis Buller sem fyrstur mun hafa kveðið á um þetta.  Hann var því fyrir vikið kallaður Þumall dómari að því er sagnir herma. 

Maður gekk um í mörg ár og talaði um þumalfingursregluna hingað og þangað án þess að hafa grænan grun um að þar lægu að baki kvenlegir harmar.


MEIÐANDI GOÐSAGNIR UM KONUR

bloggr

Eftir umræður um klám, ofbeldi á konum og börnum undanfarin misseri, hef ég eins og oft áður velt fyrir mér öllum þeim goðsögnum sem fólk virðist trúa á og notar óspart í umræður um þessi málefni eins og um heilagan sannleika sé að ræða. Ég ætla bara að skrifa um þær algengustu.

Það er sama hvar borið er niður, mýturnar eru allsstaðar.  Lífseigari en fjandinn sjálfur. Um vændiskonur, um ofbeldi á konum og um barnaofbeldi.  Þegar einhver talar um að það þurfi að skilgreina klám, t.d. virðist það flækjast hreint ótrúlega fyrir mörgum. Hafsjórinn af goðsögnum þvælist fyrir í umræðunni og fólk kemst stundum ekki út fyrir túnfótinn.  Þess vegna er ágætt fyrir fólk að kynna sér staðreyndir mála og "debattera" svo.

.. já en mýturnar, ég skoða nokkrar þær algengustu.

Um helgina var grein um hina "hamingjusömu hóru" þ.e. klámmyndastjörnu í einhverju dagblaðanna.  Sú umrædda var Mensumeðlimur með greindarvísitölu upp á 150.  Hún elskar vinnuna og á hóp af peningum. Váááá!

Hún er sem sagt yfirmáta greind þessi kona og hamingjusöm með innkomuna og vinnuna yfirleitt.  Kva!! ENN ein staðfestingin fyrir marga að það sé ekki slorlegt að vinna fyrir sér með þessum hætti.  Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á vændiskonum sýna með óyggjandi hætti að þær hafi margar verið misnotaðar kynferðislega sem börn.  Sumar eru fíkniefnaneytendur.  Þær staðreyndir tala sínu máli.

Það er talað um elstu atvinnugrein í heimi.  Starf vændiskonunnar er þá fyrsta og elsta djobb hinnar útivinnandi konu, í þróunarsögunni.  Halló!! Fyrsta og elsta atvinnugreinin hlýtur að vera starf ljósmóðurinnar, einhver hefur þurft að koma mannkyninu í heiminn svo að þessi goðsögn fellur dauð til jarðar.  Búmm pang.

Klám er vændi.  Kynlíf fyrir peninga.  Enn ein birtingarmyndin af ofbeldi gegn konum.

Ofbeldi á konum

Fullyrðingar til skilgreiningar heimilisofbeldis á konum eru margar og seiglífar. Hér eru nokkrar:

..maður lætur ekki lemja sig nema einu sinni

..konur sem beittar eru líkamlegu og andlegu ofbeldi hafa einfaldlega beðið um það

..henni var nær, með þessari framkomu kallar hún á umgang

.. þann sem maður elskar agar maður

Það er ekki margir sem viðurkenna þetta viðhorf í dag, opinberlega,  en það er samt til staðar.  Engum finnst gott að láta lemja sig, kúga sig eða hræða.  Það er einfaldlega þannig. Engin kona kallar á ofbeldi, biður um það eða á það skilið, aldrei nokkurn tíma.  Ofbeldi er einfaldlega aldrei réttlætanlegt.

Konur sem búið hafa við ofbeldi, bæði líkamlegt og andlegt hafa margar hverjar lýst því sem viðvarandi ástandi. Að ógnin inni á heimilinu sé alltaf til staðar.  Þær eru hræddar um börnin. Afkoma þeirra er oft lítil og þær hafa ekki fjárhagslega burði til að standa einar, finnst þeim.  Sjálfsmatið er ekkert og líf þeirra gengur orðið út á eitt, að komast hjá ofbeldinu með því að breyta hegðun sinni. Konurnar eru þá yfirfullar af sektarkennd og eitt af einkennum ofbeldisins er að þær trúa því að þær hafi með hegðun sinni kallað framkallað það. Ofbeldismaðurinn er duglegur að ýta undir þessa upplifun konunnar.   Þessari líðan fylgir náttúrulega framtaksleysi og ekki er erfitt að skilja að þær séu ekki mjög duglegar við að taka frumkvæði til að sækja sér hjálp.

Engin kona lætur lemja sig, kúga sig eða meiða á annan hátt.  Ofbeldinu er einfaldlega beitt án tillits til hegðunar, útlits eða annara þátta.  Það er einfaldlega andstætt mannlegu eðli að biðja um misþyrmingar.   Þessi staðreynd virðist oft standa í fólki?  Væri tam ekki eðlilegra að spyrja sig hvers vegna ofbeldismaðurinn kúgi?

Undanfarin ár hafa margar breytingar orðið til batnaðar.  Það má þakka mikilli  fræðslu- og kynningarstarfsemi öflugra kvennasamtaka. Í umræðunni um nauðganir og klám hafa karlmenn í feministafélaginu gengið ötullega fram.  Þeir vilja að karlmenn taki ábyrgð í umræðunni,  þeir höfða til kynbræðra sinna með tali sínu um ábyrgð.  Loksins, loksins. 

 Konur tóku sig til og sköpuðu úrræði fyrir kynsystur sínar tam. með stuðningi við þær. Þessi samtök hafa stuðlað að aukinni umræðu og fræðslu bæði til faghópa og almennings og síðast en ekki síst til þolendanna sjálfra.  Það starf hefur skilað miklu.  Við getum samt alltaf á okkur blómum bætt.

Ég hef aðeins stiklað á stóru.   Ofbeldi á konum og börnum er stór og yfirgripsmikill málaflokkur og birtingarmyndirnar eru margar.

Ég kem að því síðar.

Heart


SUNNUDAGUR

jenny6bloggiiblogg25

Það er mikið að gera þegar komið er í heimsókn til ömmu og Einarrrrrrs (Jenny nýbúin að læra að segja rrrrr og notarrrr það ósparrrrrt). Hér á bæ var vaknað hálf sex í "nótt" þe í bítið og barnið sagðist vera búið að lúlla.  Síðan er búið að fara í bað borða morgunmat, smá súkkula.. (sorry Sara) leika mikið hoppa, greiða dúkku ofl.. ofl..

Nú líður að,  að næturgestir helgarinnar fari til síns heima og hér bíðum við spennt eftir fréttaþáttum sunnudagsins.  Ætli Siv blási ríkisstjórnarsamstarfið af hjá Agli í Silfrinu á eftir?  Það gerast alltaf einhver drama hjá Agli. Það má jafnvel búast við að einhver gangi í og/eða úr Frjálslynda!

Úff ég er spennt.  Ég ætla að fá mér te og fylgjast með og njóta sunnudagsins.

Sjáumst.....Heart


ÞEGAR STÓRT ER SPURT, HMMM

8_s

Svarta bókin hans Denna

Er ég ein um að vera að velta mér upp úr bókinni hans Steingríms í Íslandi í dag?  Þessi bók sem hann ekki sleppir er að gera mig brjálaða.  Af hverju er þessi bók og hann Steingrímur samvaxin á mjöðm? 

 Þegar stórt er spurt.....

Ég held að ég hafi séð þetta gimmikk í amerísku sjónvarpi, man bara ekki hvar.  Merkilegt að svona smáatriði skuli getað hoppað beint í aðalhlutverkið.  Hann er svo ábúðarfullur með bókina.  Svo mikið "out on a mission from god maður".  Jösses!  Það segir máske eitthvað um efni þáttarins að bókin skuli eiga athygli mína allaSick

Mínar vangaveltur um ástæður fyrir því að Denni sleppir ekki bókinni:

hún inniheldur:

.. pönnuköku-uppskrifin hennar Jónu frænku

.. lykilorðin á öllum bloggunum hans

.. símanúmmerið hjá hárgreiðslukonunni

.. fyrirlestur um miklivægi líkamlegrar nálægðar í sjónvarpi

.. símanúmerið hjá Þórhalli Gunnarssyni

.. bókhald yfir heimsóknir á bloggsíðurnar

.. hvernig hægt er að vera bæði sexý og trúverðugur í svörtu, samtímis

.. öll leyndarmálin sem tilheyra djobbinu

E.t.v. er gimmikkið bara gimmikk og ekkert annað.  Kannske er bókarfjárinn bara "tabula rasa". Leikmunur, "the front side only" eins og skáldið sagði forðum.

Þegar stórt er spurt!

 


BLOGGVINIR

bloggg

Ég hef ekki bloggað lengi en er öll að koma til í bloggheimum.  Þetta er sérstakur heimur.   Mér finnst EKKI leiðinlegt að vafra um bloggheima og það sem er mest gaman er að eiga bloggvini.  Þá hef ég valið af natni.  Þeir eru allir skemmtilegir, skrifa fróðlega, fyndna, átakanlega, pólitíska og kærleiksríka pistla.  Ég byrja daginn á að lesa þá, hvern einn og einasta enda ekki með svo marga bloggvini að það sé eitthvað mál.

Ég sæki alltaf eitthvað jákvætt til þessara vina minni, hagnast alltaf á því að eiga þá.

Nú blasir við skemmtilegur og annasamur laugardagur í faðmi fjölskyldunnar.  Ég ætla að njóta dagsins.  Ég vona að vinir mínir á blogginu eigi ævintýralegan laugardag og skrifi nottla um það ekki seinna en í kvöld.Kissing

Þessi dagur er eðalflottur, það er ég sannfærð um.

blogg30

Laugardagschill - leikíleikíleik

 

 


ÆÐRULEYSI FYRIR AFGANGINN, TAKK

blogge

Á blogginu mínu hef ég ætlað mér að skrifa það sem mér kemur í huga hverju sinni. Hugsanir mínar um allt og ekkert. Stundum er ég alvarleg, stundum í prakkaraskapi og stundum er ég með einhverja bölvaða játningarþörf. 

Ég er óvirkur alki.  Til þess að verða óvirkur alki þurfti ég fyrst að vera virk í  drykkju.  Svo að fara í meðferð til SÁÁ þar sem ég fékk bestu mögulega aðhlynningu hjá fínu fagfólki og yndislegum manneskjum. Hm.. hljómar einfalt en er það ekki.

Margir hafa bent mér á að leggja mig ekki svona á borðið.  Vera ekki að veifa mínum óhreina þvotti framan í þá sem slysast inn á bloggið mitt.  Hehe  ég skrifa fyrst og fremst fyrir sjálfa mig.  Ég skrifa líka fyrir fjölskylduna mína og bloggvini.  Það er ákveðið aðhald falið í að tala beint út.  Það er heldur engin óhreinatausbragur á mínum afturbata, óekkí.    Ég læt mig heldur ekki dreyma um að nú á þessum upplýstu tímum þyki það tiltökumál að vera alkóhólisti.  Það er töff að vera edrú og ég gengst upp í því. 

Það var "lame" að vera full.  S.l. tvö árin í neyslu, eru sem í móðu.  Ég man í raun ekki mikið.  Langaði þó oft til að hverfa af yfirborði jarðar.  Ég brást sjálfri mér og öllum sem þykir vænt um mig.  En það er að baki.  Allt hefur komið til baka..... svo fljótt í rauninni og ég á svo góða fjölskyldu og vini sem standa með mér og hvetja mig áfram.

Það er gaman að vinna í edrúmennskunni.  Hvort sem það er að fara á fundi, tala við trúnaðarkonuna mína, lesa í AA-bókinni eða öðrum fræðum og að byggja upp nýja framtíð með góðum minningum.  Ég vakna edrú að morgni og er uppfull af hamingju yfir að vera á lífi og eiga allt sem ég á.  Líka fortíðina.  Ég leggst til svefns þakklát fyrir að geta sofnað edrú og að verkefni morgundagsins séu framkvæmanleg.  Ekki ókleyfur hamarinn.

Í nokkur ár fór ég helst ekki út úr húsi.  Ég vildi engan heim til mín.  Var fleiri daga að undirbúa mig ef ég átti von á gestum.  Vildi engan sjá og ekkert heyra.  Að tala um að djamma er ekki rétta lýsingarorðið á ástandinu.  Fjörið lýsti algjörlega með fjarveru sinni og þunglyndið og skortur á lífslöngum voru alsráðandi. 

Attbúiðbless.  E.t.v. er því þannig farið með marga að þeir þurfi að upplifa dýpstu vanlíðan til að kunna að meta vellíðan.  Að eiga yfirborðskunningja til að kunna meta alvöru vini og að þurfa að langa til að deyja til að fá lífslöngunina aftur.  Það er svolítið þannig í mínu tilfelli.

Ég er sumsé alsæl með lífiðWhistling og í kvöld fer ég edrú að sofa.

 

 


HELGIN NÁLGAST!

blogghit

Nú er að bresta á með helgi.  Gaman.  Ég er að reyna að sýnast afslöppuð og yndisleg þrátt fyrir að Maysan, Robbi og Oliver lýsi með fjarveru sinni.  Við vorum búin að undirbúa komu litlu fjölskyldunnar frá London eins og um opinbera heimsókn væri að ræða en hlaupabólan, títtnefnda kom í veg fyrir það.  Nú,  en þá er að einblína á það jákvæða, þau koma í marsmánuði hress og kát og það er fínt.

Barnahelgi

blogg23

Ég bíð alltaf spennt eftir helgunum. Jennslubarnið er hérna oft og stundum gistir hún og núna kemur hún á laugardaginn.  Saran er í London og pabbinn var að vinna í gær og hún gisti hjá Afa í Kefló.  Afi á hestinn Funa og Jennslan fór og heimsótti það eðla hross þegar hún var á opinberri yfirreið sinni um kjördæmið.  Hún bað afa sinn um að fá að "máta" Funa og fékk nottla að setjast á bak. Þetta með að máta kemur mér í opna skjöldu.  Getur verið að móðir barns MÁTI dálítið mikið af fötum og sollis?? Jenny segir að hún og amma séu "binkonur".  Er hægt að fá fallegri ástarjátningu frá tveggja ára snót?

blogg 21

Jökull minn, elsta barnabarnið ætlar að koma í mat um helgina.  Helgan mín er á ráðstefnu í Finnlandi og ömmudrengur heimsækir okkur til að dreifa huganum. Klakinn (eins og móðursystur hans hafa kallað hann frá því í vöggu) er orðinn svo stór og þroskaður að ömmunni finnst tíminn hafa brunað áfram.

Skádóttir mín hún Ástrós ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni líka.  Hún er orðin 15 og er mjög upptekin ung kona, eins og gefur að skilja.  Þessa helgi fáum við félagsskap hennar óskiptan. 

Ég er heppin kona.  Með þessi yndilegu afkomendur bæði beint og á ská.  Svona helgar eru það skemmtilegasta sem ég veit.  Allt í einum dásamlegum hrærigraut.

Hugleiðing um helgar:

Helgar eru:

..spennandi

..fullar af tækifærum

..fljótar að líða

..einu sinni í viku

..fjórum sinnum í mánuði

..fimmtíuogtvisvarsinnum á ári

..Guðveithvaðoftsinnum á öld

..lokkandi

..tækifæri

..góður matur

..nammidagar

..heimsóknardagar

..og fullar af spennandi, skemmtilegum hlutum

Ég bíð í ofvæni eftir aufúsugestum helgarinnar.  Nú hamast vorsólin á gróðrinum, ég er með sólgleraugun vegna ofbirtuCool.  Það er gaman að lifa!!


AF GÓÐGERÐARMÁLUM

blogg114

Ég sá viðtal við formann Fjölskylduhjálparinnar í Kastljósi, þar sem hún var spurð út í útrunnar matvörur sem starsfólk hjálparinnar höfðu haft á boðstólnum fyrir íslenska "fátæklinga".  Formaðurinn afsakaði sig með að neyð fólks væri svo mikil og fólk vildi fá þetta þrátt fyrir að varan væri allt að þremur árum eftir síðasta söludag.  Aðspurð kvaðst formaðurinn að sjálfsögðu leggja sér til munns útrunna matvöru (þurrmat) ef til kæmi.  Ég leyfi mér að efast um það.

Hugmyndafræðin

Ég held að sú hugmyndafræði sem lögð til grundvallar rekstri á hjálparstarfi eins og tam Fjölskylduhjálpar sé í raun ekki mjög mannkær í eðli sínu. Ástæðan fyrir því að sumir vilja með sjálfboðaliðastarfi og framlögum einstaklinga reka starfsemi eins og Fjölskylduhjálpina þar sem gengið er út frá því að bæði gefandi og þiggjandi fái út úr starfinu, á ekki við í þessu tilfelli að mínu mati.  Ég efast þó alls ekki um að formaður Fjölskylduhjálpar og hennar fólki gangi gott eitt til. Þetta er í raun spurning um nálgun og samfélagslega ábyrgð.  Ég er í sjálfu sér alls ekki á móti þessu þegar um sum þjóðþrifamál er að ræða.  Dæmin um það eru mörg eins og t.d hjálparsveitirnar okkar sem ég styrki af mikilli ánægju. 

Hinsvegar eru þeir sem vilja að samfélagið,  beri ábyrgð á öllum þegnum sínum og því eigi ENGINN að þurfa að ganga með betlistaf í hendi og biðja um lífsviðurværi fyrir sig og börnin sín.  Þar skilur á milli feigs og ófeigs. Fólk eigi að hafa framfærslu sem nægi fyrir nannsæmandi líferni og allt annað sé bjevað óréttlæti.

Hið ameríska súpueldhús

Einu sinni voru íslendingar fátækir, í orðsins örgustu.  Það á ekki við í dag.  Það er til nóg af peningum í þessu þjóðfélagi til að allir geti lifað með reisn.  Það virðist vera að íslensk stjórnvöld hafi villst töluvert af leið frá norræna velferðarmódelinu sem við erum alltaf að miða okkur við.  Íslendingar þurfa í raun ekki að miða sig við nein módel þar sem við getum byggt okkar eigið.  Það virðist þó vera þannig að við séum á leið í ameríska súpueldhúsið og það beri enginn ábyrgð á náunganum heldur sé hver sjálfum sér næstur.

Svo ég vísi aftur í viðtal Kastljóss við formann Fjölskylduhjálpar, þá sagði hún eitthvað á þá leið að nú væri enginn þurrmatur á boðstólnum lengur og ekki víst að fjármunir leyfðu að hann yrði keypur.  Þetta er nákvæmlega það sem ég vil ekki að fólk þurfi að upplifa þegar lífsviðurværi þeirra er annars vegar.  Að það skuli háð velvilja einhverra fyrirtækja út í bæ um daglegar nauðsynjar.

Það er alveg greinilegt að viðkomandi stjórnvöld þurfa að fara í langt frí (jafnvel á eftirlaun) og að aðrir taki við stjórnartaumunum.  Raunveruleikatengdir einstaklingar með virðingu fyrir fólki eins og tam Vinstri grænir með þáttöku Samfylkingar.  Það er ekki lengur draumur heldur vel mögulegt.

Ég persónulega vil engum svo illt að þurfa að biðja um mat fyrir fólkið sitt. Að fólk skuli sett í þá aðstöðu að geta ekki keypt mat  er mannfjandsamleg stefna og engum sæmandi. Ekki okkur sem einstaklingum og heldur ekki sem þjóð.

Annars skín sólin, daginn er að lengja og vorið á hraðferð til okkar.  Hvenær kemur lóan?  Ég veðja á vinstra vor á Íslandi eftir 12. maí. n.k.


« Fyrri síða

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2987752

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband