Leita í fréttum mbl.is

Útrásarunglingarnir fljótir til svars

"Eðlileg fjárstýring" segir Bjarni Ármannsson um millifærslur sínar frá Glitni úr landi skömmu fyrir bankahrunið.

Fjárstýring?  Hvað er nú það?  Allar aðgerðir þessara útrásarunglinga heita svo huggulegum nöfnum eitthvað.

Er það ekki merkilegt að um leið og það koma fréttir af strákunum sem óneitanlega byggðu upp íslenska efnahagsundrið, að vísu með öðruvísi formerkjum en það sem við héldum að fælist í hugtakinu eins og komið hefur á daginn, þá eru þeir búnir að svara fyrir sig af hroka og einurð eiginlega á nóinu.

Björgólfur Thor ætlar í mál við fréttastofuna sem leyfði sér að flytja fréttir úr skýrslu sem enginn hefur séð ástæðu til að vefengja.

Og þeir hafa aldrei gert neitt sem vert er að athuga nánar eða setja spurningamerki við.

Þessir óskasynir Íslands.

Bankahrunið er staðreynd.

Við finnum fyrir því á hverjum degi.  Afleiðingarnar eru skelfilegar.  Því verður ekki á móti mælt.

En enginn þeirra tekur það til sín.

Fyrirgefið en menn eins og Bjarni, svo ég taki dæmi, sem prédikuðu hugmyndafræði sem gekk út á að græðgi væri góð og beinlínis nauðsynlegt element í viðskiptum eiga ekkert inni hjá mér.

Ég gæti verið mamma þessara Armaniklæddu og velklipptu smádrengja og ég á ekkert handa þeim annað en óskina um að þeir hundskammist sín og reyni að greiða til baka eitthvað af öllum þeim milljörðum sem íslenskur almenningur stendur frammi fyrir að þurfa að borga.

Þetta er velgjuvaldandi að lesa og þá er ég að spara lýsingarorðin.


mbl.is Bjarni Ármannsson: Eðlileg fjárstýring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já og svo halda þeir að þeir geti bara flutt heim aftur eins og ekkert hafi í skorist. Keypt fyrirtæki á brunaútsölu og byrjað upp á nýtt!!

Nei fyrirgefðu. Þeir halda það ekki. Þeir GETA það!!

Hrönn Sigurðardóttir, 28.7.2009 kl. 23:02

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hrönn hittir naglann á höfuðið eins og svo oft áður.  Ég er sammála henni.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.7.2009 kl. 23:57

3 identicon

Það er ALLT svo "EÐLILEGT" hjá þessu útrásarliði.Eða þannig

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 00:26

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hvers vegna skyldu útrásarbófarnir fá að ganga lausir ?


Það tók ekki langan tíma að handjárna ungu mennina sem náðu heilum  50.000.000, króna af Íbúðalánasjóði og bankareikningum viðkomandi fyrirtækja sem þeir „yfirtóku“.

Hvað náðu Björgólfarnir miklu ?  5 milljörðum ? 7 milljörðum króna ?

Sama á við um geislaBAUGSfeðgana. Þeir munu hafa náð þúsundum milljarða einnig og ganga enn lausir vitaskuld. Ekki nóg með það. Almenningur kaupir enn hjá þeim nýlenduvörurnar. Í þeim verslunum hafa þeir verið að mjólka almenning með of mikilli álagningu, sem hefði sómt Ebeneser Scrooge vel, þó svo að sumar þessara verslana kallist lágvöruverðsverslanir og „Hagkaup“.

Þangað leitar klárinn þar sem hann er kvaldastur er það ekki ?

Baugsmiðlarnir hafa tamið hjörðina vel. Svo vel að athyglinni er „systematískt“ beint á alla aðra en geislaBAUGSfeðgana og meðreiðarsveina þeirra.

Muna menn það ekki að geislaBAUGSfeðgarnir sögðu breskum bankastjórum sínum að íslensku verslanirnar væru „reiðufjármjólkurkýrin“ þeirra ( cashcow samanber frétt þar um í breskum stórblöðum ) ? 

Þá eru ótaldir milljarðatugirnir sem bankarnir náðu hver um sig inn í gjaldeyrishagnaði með stöðutöku sinni gegn krónunni ársfjórðungslega. Sú aðgerð skekkti gengið verulega þar sem verðlag rauk upp með fallandi gengi krónunnar og hleypti vísitölunni á flug vitanlega. Þannig töpuðu íslendingar á hækkuðum lánum og verðlagi í verslunum milljarðatugum í hvert eitt sinn. Hlutabréf bankanna seldust þar að auki á hærra verði samhliða þessum aðgerðum bankanna. Þannig keyptu og seldu þessir „höfðingjar“hlutabréf sín í bönkunum á víxl, enda með innherjaupplýsingar í farteski sínu.Það er með ólíkindum að þessir böðlar skuli enn ganga lausir. 

Icesave.

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor mun vera sá lögspekingur á Íslandi sem þekkir reglur og lög Evrópusambandssins/EES hvað best. Hann ásamt öðrum góðum lögmanni, Lárusi Blöndal hrl., hefur skrifað einar 5 greinar þar sem þeir rekja það hverjar skuldbindingar eru í lögum og reglum um bankastarfsemi á þessu svæði og bankarnir störfuðu eftir undir árvökulu auga ráðherra bankamála honum Björvini . Þeir hafa lagt fram skír rök fyrir því að engin skuldbinding er á íslenska skattgreiðendur umfram það sem er til í innistæðutryggingasjóðnum. Það gildir jafnvel þó að í ljós kæmi að bankarnir hefðu vanrækt að greiða sinn hlut í sjóðinn. Sömuleiðis komast þeir með lagarökum sínum að því að þó svo að hér hafi verið ákveðið að við greiddum úr sjóðum skattgreiðenda til að bæta íslenskum innistæðueigendum upp í topp innistæður sínar, gerir okkur ekki heldur skuldbundna við þá bresku eða hollensku.

Þessi rök þeirra hefur enginn hrakið með neinum lögskýringum. Það eina sem hefur heyrst gegn þeim eru upphrópanir slagorðasmiða.Þetta segir okkur að við getum róleg farið að ráðum Davíðs Oddssonar frá því í upphafi, að við, skattgreiðendur, eigum ekki að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum sem þeir stofnuðu til í gegn um einkafyrirtæki sín.

Þeir sem telja sig eiga kröfu á íslenska skattgreiðendur sækja auðvitað þá kröfu sína í gegn um dómstóla. Það er lögvarinn réttur þeirra eins og kemur fram í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson dómari skrifaði á dögunum í Morgunblaðið.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 29.7.2009 kl. 01:04

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála ykkur öllum hér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.7.2009 kl. 08:20

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Sammála !

Jónína Dúadóttir, 29.7.2009 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.