Leita í fréttum mbl.is

Nú slær Borgarahreyfingin heldur betur undir beltið

Nú er ég reið, það sýður á mér.

Fyrir utan mallandi, stöðuga reiði út í þá flokka sem komu okkur hingað, aðallega Sjálfstæðisflokkinn, þá beinist reiði mín annað núna.

Hún beinist að Borgarahreyfingunni og því bjóst ég seint við.

Sko, Borgarahreyfingin á (átti?) sæti í hjarta mínu, ásamt með VG sem ég ætla að kjósa að öllu óbreyttu.

Ég hef fagnað innilega komu þessarar grasrótarhreyfingar sem mér finnst nauðsynleg viðbót í hina pólitísku flóru.

En með þessari yfirlýsingu ganga þeir fram af mér og gott betur.

T.d.

"Borgarahreyfingin segir að þingflokkarnir hafi svikið í annað sinn fyrirheit um mikilvægar umbætur á lýðræðisfyrirkomulaginu. Fyrst hafi það gerst með því að kasta fyrir róða áformum um persónukjör og nú með því að leggja til hliðar að taka ákvörðun um stjórnlagaþing."

Hvaða kjaftæði er þetta?  Veit hreyfingin ekki að Sjálfstæðismenn hafa haldið þinginu í gíslingu í rúma viku og voru búnir að lýsa því yfir að þeir myndu tala endalaust til að komast hjá því að stjórnarskrárbreytingar færu í hendur stjórnlagaþings?

Hafa þeir ekki fylgst með málþófinu sem átti að halda áfram með einlægum málþófsvilja íhalds og Sleggjunnar?

Vita þeir ekki að þingsköp gera það að verkum að þeir hefðu getað talað fram á haust ef þeim hefði sýnst svo?

Djöfull er þetta ódýr leið til að slá sér upp á kostnað ALLRA flokka og frekar neðanbeltis.

Svo bítur Borgarahreyfingin höfuðið af skömminni með þessu:

"Í yfirlýsingu frá Borgarahreyfingunni segir að í stjórnlagaþingsmálinu hafi berlega komið í ljós hversu núverandi alþingismönnum sé meinilla við að afsala sér hluta af völdum sínum."

Nú vill svo til að ég veit persónulega um þó nokkuð marga alþingismenn sem af hjartans einlægni vildu sjá frumvarpið um breytingar á stjórnarskrá verða að veruleika og þá einna helst vegna stjórnlagaþings.

Hvernig ætlar stjórnmálahreyfing að láta taka sig alvarlega með svona bullyfirlýsingum?

Núverandi þingmenn eru þá væntanlega þingheimur allur.

Ég næ ekki upp í nefið á mér.  Það er skömm að svona málflutningi.

Allir flokkar á þingi fyrir utan helvítis íhaldið stóðu að framlagningu stjórnarskrárfrumvarpsins og hafa lagt ofuráherslu á að ná því í gegn.

Það hefði verið öllu vænlegra til stuðnings við málstaðinn að hafa það sem réttara er.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði nótt við dag til að koma málinu ekki í gegn og lýsti sig til búinn til að halda því áfram svo lengi sem þyrfti.

Og að endingu til félaga minna í baráttunni.

Ég reikna fastlega með að þið umorðið þessa yfirlýsingu.

Ég meina, upp á réttlæti og svona.

Ég er eiginlega ekki svo mikið reið, fremur sár.  Ég lít á fókið í Borgarahreyfingunni sem samherja.  En ég hugsa ekki svo mikið í "flokkum", frekar málefnum.  Ég held að við viljum sömu hluti, þ.e. Nýtt Ísland og á því á Borgarahreyfingin engan einkarétt.


mbl.is Stjórnarskráin ekki á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

eigum við ekki að skrifa þetta á unggæðishátt.með hverjum ætlar borgarahreyfingin svo að vinna að betra þjóðfélagi eftir kosningar.SJÁLFTÖKUFLOKKNUM.held ekki

páll heiðar (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 13:21

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Kæra Jenný Anna, baráttu kona með meiru. Að bakka með helstu kosningaloforð sín um lýðræðisumbætur er okkur einfaldlega þvert gegn skapi. Það er hreinlega fáránlegt að bregðast okkur á þennan máta.

Sjálfstæðismenn beita málþófi, gott og vel. Það er því miður þeirra réttur, réttur sem hefur gjarnan verið beitt af stjórnarandstöðunni í gegnum tíðina.

Gremja mín gagnvart núverandi ríkisstjórn, já því miður eru VG ekki þar undanskildir þó í minnihluta séu, snýr að því að reyna ekki einu sinni að leggja fram frumvarpið sem þau lofuðu okkur um persónukjörið. Þess í stað vísa þau til eins einstaks álits lögmanns, sem er starfsmaður Alþingis, um að líklega þyrfti aukin meirihluta til að samþykkja það og leggja það því ekki einu sinni fram til þess að láta á það reyna.

VG eiga margt gott skilið, en við megum ekki falla í þann pytt að halda svo sterkt með einhverju liði í pólitík að fólk verði undanskilið réttmætri gagnrýni.

Pólitík ekki um keppni liða eins og íþróttir - hún snýst um almannahag.

Þú getur þá samt líklega huggað þig við það að sem stærri flokkurinn í stjórnarsamstarfinu, á Samfylkingin væntanlega meiri sök á máli hér.

Borgarahreyfingin vill verja lýðræðið í landinu - ekki flokksræðið.

Baldvin Jónsson, 15.4.2009 kl. 13:21

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég vill það sama og þið Baldvin og þið gerið ekki rétt í að gera lítið úr þeirri löngun af því ég tel VG geta uppfyllt draum minn um Nýtt Íslands (væntalega með nýrri Borgarahreyfingu).

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 13:24

4 identicon

Borgarahreyfingin hefði réttilega átt að stíla þessa yfirlýsingu beint á Sjálfstæðisflokkinn og enga aðra. Þessi glórulausa yfirlýsing er Borgarahreyfingunni hvorki til fyrirmyndar né framdráttar.

Stefán (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 13:24

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Já og aðalatriðið.

Þú veist og ég veit að það var ekki grundvöllur fyrir þessum breytingum yfirhöfuð þar sem minnihlutaflokkurinn Sjálfstæðis sá til þess.

Í þessu máli er sökin þeirra.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 13:25

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Kreppi: Þú þarft ekki að vera sammála mér, en að kalla heila starfsstétt hyski, hvar nokkur hluti viðkomandi hefur ekki komið nálægt eyðileggingu af neinu tagi, finnst mér í stíl við yfirlýsingu Borgarahreyfingarinnar.

ALGJÖRLGA NEÐANBELTIS.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 13:30

7 Smámynd: Baldvin Jónsson

Við erum sammála um svo margt Jenný Anna, en augljóslega ekki eitt.

Fyrir mér getur sökin ekki einungis verið Sjálfstæðisflokks þegar að frumvarpið um persónukjör, sem að mér persónulega fannst hvað mestu máli skipta fyrir komandi kosningar, var ekki einu sinni lagt fram af ríkisstjórninni.

Baldvin Jónsson, 15.4.2009 kl. 13:42

8 identicon

Það hlaut að koma að því að ég yrði þér ósammála.

Erna Kristín (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 13:57

9 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Alveg sammála þér Jenný Anna.  Held að kreppukarlinn eigi kollgátuna í þessari setningu:  "Þetta var fyrirséð vandamál með Borgarahreyfinguna. Setja sig upp sem flokk og þá þarf að fara og spila leikinn og það eftir að það er búið að draga úr þér allar tennurnar."

Vona bara að næsta ríkisstjórn hafi nægilega stóran meirihluta til að koma frá sér breytingum á stjórnarskrá og að hægt verði að kalla til stjórnlagaþings.  Borgarahreyfingin ætti að beita sér gegn hinum raunverulega óvini þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokknum.

Sigrún Jónsdóttir, 15.4.2009 kl. 14:05

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Kreppi: Ég sleppi þér með hyskið.  Hehe.

Sjáumst hvernig umræðan þróast gott fólk.

Mér finnst nefnilega nokkuð merkilegt ef mín elskaða Borgarahreyfing ætlar að fara niður á gamla flokkaplanið í baráttunni.

Því vil ég ekki trúa fyrr en fullljóst er orðið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 14:09

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Jenný mín. Afskaplega tekur þú nærri þér yfirlýsingu Borgarahreyfingarinnar. Bið ég þig um að ígrunda eftirfarandi:

Formlega séð er það niðurstaðan á Alþingi í heild að búið er að varpa fyrir róða frumvarpinu um persónukjör og ákvæðinu um stjórnlagaþing. Hvernig sem á málin er litið þá voru þessi mál lögð fyrir löggjafarsamkunduna og löggjafarsamkundan afgreiðir þau ekki.

Þingflokkarnir eiga misjafna sök í málunum, það er alveg rétt. Sjálfstæðisflokkurinn á langstærstu sökina og næsta kemur Framsóknarflokkurinn í stjórnlagaþingsmálinu við það að hafa beygt af. En VG og Samfylking bera sína ábyrgð á þinglegri meðferð þessara mála. Í persónukjörsmálinu létu þessir flokkar (ásamt andstöðu Íhaldsins) yfirlögfræðing Alþingis hræða sig að óþörfu. Í stjórnlagaþingsmálinu misstu þeir Framsókn útundan sér.

Ég held að þú getir rétt eins og ég lesið í þróun málanna að Sjálfstæðisflokkurinn eigi langmestu sökina, en í yfirlýsingunni var ekki talin þörf á að tiltaka það sérstaklega. Það sér öll þjóðin, já heimurinn allur, hvaða öfl það eru sem hatrammast berjast gegn auknum völdum til fólksins.

Ég vil sjá frumvarpið um persónukjör og stjórnarskrárfrumvarpið MEÐ stjórnlagaþingsákvæðið inni fara til atkvæðagreiðslu í þinginu - láta það koma fram svart á hvítu. Ég get ekki séð að það sé slæmur kostur að Sjálfstæðismenn haldi áfram að gera sig að fífli.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.4.2009 kl. 14:25

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Friðrik Þór: Já það er rétt, ég tek þetta verulega nærri mér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 14:27

13 identicon

Sammála Kreppukalli. Og Borgarahreyfingin setur út á fjórflokkinn, réttilega, því í mörgum atriðum taka VG þátt í Samtryggingu þeirra flokka sem þegar eru á þingi.

Ef Borgarahreyfingin ætlar að vera heiðarleg og veita aðhald þá verður hún að fá að segja hreint út, annars er hún eins og hinir flokkarnir sem bulla bara tóma steypu eins og ekkert hefði hrunið í haust.

Ef Jenný Anna Baldursdóttir þolir ekki pólitíska umræðu eða skiptar skoðanir þá minnir það því miður á íslenskum almenningi sem aldrei hefur þroskast í pólistískri umræðu. Það er búið að þagga svo lengi niðrí okkur að við þolum ekki að fólk hafi aðra skoðun á málefnum sem eru okkur hjartans mál. Sorrý.

Erla (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:28

14 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Erla: Þú ert ekki með þetta hvað mig varðar.  Bara alls ekki.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 14:31

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Búsáhaldabyltingin felldi ríkisstjórn og þegar hástemmd fyrirheit voru gefin um lýðræðisumbætur sljákkaði í mótmælum - sigur á mikilvægum sviðum virtist í höfn. Borgarahreyfingin ákvað framboð fullviss um efndir loforðsins um persónukjör, sem hefði þýtt að hreyfingin gæti boðið upp á óraðaða lista og látið kjósendum um að velja fulltrúa hreyfingarinnar. Þetta var svikið. Eingöngu Sjálfstæðisflokkurinn lagðist alfarið gegn þessum umbótum, en hinir flokkarnir voru fljótir að hlaupa í skjól með vafasamt lögfræðiálit í farteskinu - sem virtir lögfræðingar hafa skotið í kaf.

Nánast frá upphafi ólgunnar í landinu hefur verið reiknað með samþykkt Alþingis á stjórnlagaþingi. Lýðræðissinnar hafa gengið út frá samþykkt slíks "þjóðfundar" um nýja stjórnarskrá, um grundvallarlög hins nýja lýðveldis. Einnig í þessu máli hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið harður á móti. Þetta var eitt af prinsippmálum Framsóknarflokksins við stuðning við ríkjandi minnihlutastjórn, en Framsókn guggnaði gagnvart málþófi Sjálfstæðisflokksins og kastaði loforðinu um stjórnlagaþing út í hafsauga. Við það gáfust stjórnarflokkarnir upp, í stað þess að láta reyna á málið í atkvæðagreiðslu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.4.2009 kl. 14:35

16 identicon

Nú verðum við, kæra vinkona, að vera sammála um að vera ósammála. En það er hollt í þroskuðum samskiptum - er það ekki? ;)

Skorrdal (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:41

17 identicon

Verð að viðurkenna að ég er eiginlega sammála bæði Jenný og Baldvin. Mér finnst í fávisku minni að sá aðili, sem hafi svikið í þessu máli sé framsóknardrullan. Eins og venjulega. Þegar þau beygðu af leið og létu eins og íhaldið hefði mátað þau, þá var málið náttúrulega búið, því eins og allir vita, þá hafa Samfó og Vg ekki meirihluta fyrr en eftir kosningar. Við sitjum víst uppi með þann andskota. Það er hefur sem sagt enn og einu sinni komið í ljós, að það er aldrei hægt að treysta framsókn.

Öldungur (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:42

18 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skorrdal: Jú, lífið væri leiðinlegt ef við værum alltaf sammála.  Það yrði engin framþróun.

En ég fer ekki ofan af því gott fólk að þetta er ekki aðferð sem er mér að skapi, sú sem Borgaraflokkurinn notar hér.

Reynir að slá sér upp á öllum flokkunum.

Þrátt fyrir að vita betur.

En..

þetta jafnar sig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 15:14

19 Smámynd: Baldvin Jónsson

Jenný Anna, að standa vörð um lýðræðis umbæturnar ER HELSTA verkefni BorgaraHREYFINGARINNAR.

Að vekja athygli á þessum misbresti er ekki að "slá sér upp" á kostnað einhvers, heldur mun fremur hlutverk okkar sem varðhunda í samfélaginu. Stjórnarflokkarnir sem og aðrir flokkar og hagsmunasamtök hafa afar gott af því að vera minnt á þegar eitthvert moð er að taka yfir störf þeirra.

Höldum öll vöku okkar og berjumst saman fyrir umbótum í samfélaginu okkar.

Baldvin Jónsson, 15.4.2009 kl. 15:58

20 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Gleymum því ekki að síðustu skoðanakannanir sýndu yfirburða málefnalegan sigur Samfylkingar, Vinstri Grænna og Borgaraflokksins. -  Þá brást Framsóknarflokkurinn undir forystu nýja formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við, með því,  að draga til baka útúr Stjórnarskrárfrumvarpinu kröfuna um stjórnlagaþing.  Hvað þýddi það ? - Jú það þýddi,  að ef minnihlutastjórnin ætlaði að halda málinu til streitu, þá væri hún í minnihluta, sem þýddi,  vantraust á ríkisstjórnina, og jafnframt þýddi það líka að þar sem Framsóknarflokkurinn var búinn að draga tillöguna um Stjórnlagaþing út úr Stjórnskipunartillögunni, voru þeir búnir að fría sig ábyrgð á að verja minnihlutastjórnina falli. - Klókindi ? Já. -  Þeir sem hlustuðu á Borgararfundinn frá Reykjavík Norður, hljóta að muna orðaleikni nýja Framsóknarformannsins. 

 - Auðvitað vilja Framsóknarmenn ekki frekar en Sjálfstæðismenn,  að það komist í Stjórnarskrá,  að allar auðlindir landsins skulu vera eign þjóðarinnar um alla tíð og tíma.   Og þeir stefna að stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum, eftir kosningar.  Plott? Já.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 15.4.2009 kl. 17:28

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það besta sem komið getur fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að hinir flokkarnir fari að rífast innbyrðis, þá geta þeir hallað sér aftur og sagt, þarna sjáið þið, þau geta aldrei komið sér saman um neitt.

Þess vegna skulum við leggjast á eitt að reyna að halda friðinn hvort á sínu heimili.  Allir hinir flokkarnir vilja stjórnlagaþing.  Og allir hinir flokkarnir eiga málefnalega samleið í stórum dráttum, þá er ég að tala um Samfylkinguna, Vinstri Græna, Frjálslynda flokkinn, Borgarahreyfinguna og Framsókn.  Við skulum tala einum rómi um þessi mál og ekki gefa höggstað á okkur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.4.2009 kl. 19:00

22 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sammála Jenný og sammála Ásthildi, ég held það sé engum til gagns að þrátta um þetta hér, auðvitað er það fyrst og síðast Sjálfstæðisflokkurinn sem eyðilagði frumvarpið um stjórnlagaþingið, það vita allir. Þeirra tilgangur var að beina athyglinni frá málefnafæð sinni og að stjórnlagaþinginu og það tókst hjá þeim um sinn. Sáuð þið ekki hvað þingmenn íhaldsins voru pirraðir yfir því að enginn sá ástæðu til að andmæla bullinu í þeim á þinginu? Svo kom milljónadíllinn í dagsljósið og þeir rifust hvor í öðrum um páskana og ætluðu síðan að halda áfram þar sem frá var horfið, eins og ekkert hefði gerst, eftir páskafrí.

Við, sem ekki styðjum sjálfstæðisFLokkinn verðum að halda aðeins í okkur, það er grundvallarskilyrði að íhaldið komi hvergi nærri stjórn landsins næstu fjögur ár og best væri ef framsókn þurrkaðist út. Borgaraflokkinn býð ég velkominn til leiks.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 15.4.2009 kl. 19:32

23 Smámynd: Gerður Pálma

Ég bið, vona og treysti að Borgaraflokkurinn komi fílelfdur út úr þessari kosningu, hann er að mínu mati eini flokkurinn (svo framarlega sem mér er kunnugt) sem talar út frá hjartanu og ber einlæglega hag Íslands sem þjóðar fyrir brjósti.  VG eru í flestum málum sömuleiðis einlægir, en þeir börðust ekki harkalega fyrir persónukosningu, það er fallin spíta í þessum leik.  
Ég átta mig ekki á fylgi Samfylkingarinnar sem í einu orði talar um Fagra Ísland og í hinu fagnaðarerindi álvera- þessar andstæður setja mig alveg í mát. Stórkostlega flott fólk innanborðs en hvað? engin mótmæli við Helguvíkur áformunum eða Bitruhálsvirkjun, það hræðir mig.
Ég hef ekki lesið greinar um vonbrigði VG eða SF vegna þess að ekkert varð úr persónukjöri í væntanlegum kosningum, og engin loforð um að það mál liggi þeim á hjarta, hugsanlega? hver veit?
Hverjum er hvað að kenna, í guðs bænum hætta því tali, manni verður hreinlega illt af þeim lestri, beinum athyglinni og kraftinum í  hvað gert verður í framtíðinni.
Atvinnustefnan? Hvar er hún? Ísland þarf fjölbreyttan atvinnuveg, lítil litrík sjálfbær fyrirtæki, hvar er aðhaldið við að koma þeim upp?
Robert Z.Aliber hagfræðingur hélt því fram að nú væri tækifæri á Íslandi til útflutnings og uppgangs í margvíslegri þjónustu í fjölbreyttum ferðaiðnaði. Hvar er sú virkjun?  Hann taldi að okkur væri farsælast að þiggja ráðgjöf frá IMF en ekki lán, styrkja innviði landsins, það getum við, því krafturinn í mannskapnum er eins og
frumkraftur Íslands og getur flutt fjöll ef trúin á takmarkið er til staðar.  Án þessa krafts væri Ísland ekki í byggð.
Ég hef ekki séð neinn eldhuga úr röðum flokkanna tjá sig um þessi tækifæri eða setja þjóðinni háleitt takmark, ekki heyrt neina hvatningarræður með raunveruleg tækifæri til að keppast að. 
Það var haldin kynning um tækifæri í Kanda, það var kynning um tækifæri í Noregi, hvar var kynningin um tækifærin sem bíða í röðum á Íslandi? 
Við erum smáfyrirtæki á heimsvísu, það þarf ekkert galdraverk til þess að snúa þessu dæmi við okkur í hag. 

Gerður Pálma, 15.4.2009 kl. 21:45

24 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er afskaplega þakklát fyrir þessa frábæru umræðu.

Takk öll.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 23:35

25 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Tek undir að umræðan er fín.

En lifandis skelfing og ósköp hve fólk er gjarnt á að segja Borgaraflokkinn. Ég leyfi mér að flokka þetta undir misgáning og athugunarleysi, auk þess sem framboðið er ungt, og óþarfi að gera ráð fyrir uppnefni. En í ljósi þess að fyrrum stjórnmálaflokkurinn með þessu flokksnafni varð til í kringum umdeildan fyrirgreiðslupólitíkus úr Sjálfstæðisflokknum þá er mér ekkert sérlega skemmt yfir nafngiftinni.

Gerum öll samning. Ég kalla Vinstri græna ekki Bandalag Jafnaðarmanna, Samfylkinguna ekki Þjóðvaka og þið kallið Borgarahreyfinguna ekki Borgaraflokkinn. Samþykkt?

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.4.2009 kl. 01:33

26 Smámynd: Gerður Pálma

Svona erum við nelgd í flokkakerfið...auðvitað Borgarahreyfingin, ég biðst rúmlega forláts.  Ég er sjálf í hreyfingunni - þannig að þetta glap skrifast á ósjálfráða hreyfingu fingranna.

Gerður Pálma, 16.4.2009 kl. 06:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 2987323

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband