Leita í fréttum mbl.is

Vitleysingar hvað?

Um leið og unga fólkið efndi til mótmæla í gær inni í Alþingishúsinu geystust hneykslaðir bloggarar fram á ritvöllinn.  Hyski, ræflar, aumingjar sem eyðileggja fyrir friðsömum mótmælendum, skrifuðu þeir og voru nánast lamaðir af lyklaborðsæsingi.

Ég er þessu ekki sammála.  Bara alls ekki.

Ég sé ekkert að því að fólk láti heyra í sér og hækki röddina ofurlítið.  Hrópi "drullið ykkur út" þó það sé ekki mjög kurteislega orðuð beiðni af palli þinghússins.  Það eru óvenjulegir tímar og það kallar á óvenjulegar aðgerðir.

Staksteinar kallar fólkið vitleysinga.

Nú í morgun mætti sama fólk fyrir utan Ráðherrabústaðinn.

Fyrir mér eru þetta eðlileg viðbrögð við óeðlilegu ástandi.

Mér skilst að þessi hópur mótmælenda séu að stórum hluta til ungar manneskjur.

Hefur hvarflað að einhverjum að velta fyrir sér þeirri framtíð sem blasir við ungu fólki á Íslandi í dag?

Er einhver hissa þó kveikjuþráðurinn sé farinn að styttast þegar hver vikan líður án þess að nokkuð áþreifanlegt sé að gerast í málum almennings.

Stjórnvöld virðast ekki vera að gera neitt nema halda í horfinu, lafa á valdataumunum og á meðan bíður þjóðin óróleg yfir örlögum sínum.

Ef einhverjir vitleysingar eru í þessari jöfnu þá eru það þeir sem komu okkur hingað.

Þeir sem sváfu á verðinum og hanga nú eins og hundur á roði á valdapóstunum þrátt fyrir að vera rúnir trausti.

Skammist í þeim.

Ekki í fólki sem lætur heyra í sér.

Á meðan aðeins er verið að skerpa á hlustum hinna eðlu alþingismanna þá getur það tæpast kallast ofbeldi.

Þeir eru varla svona andskoti viðkvæmir í hlustunum nema ef vera skyldi að langvinn dvölin í vatteruðum og hljóðeinagrandi fílabeinsturninum hafi gert þeim erfitt um vik að beita viðkomandi skynfærum fyrir sig.

BRILLJANT MYNDBAND


mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð eins og venjulega ég tek undir hvert orð hér.  Þetta er algjörlega eðlileg viðbrögð unga fólksins okkar, og jafnvel eldri við þessu hryllilega ástandi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.12.2008 kl. 12:42

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góð !

Jónína Dúadóttir, 9.12.2008 kl. 12:49

3 Smámynd: Bara Steini

Frábær færsla

Bara Steini, 9.12.2008 kl. 12:52

4 Smámynd: halkatla

Sammála!

halkatla, 9.12.2008 kl. 13:01

5 identicon

Æji, nei.  Ég tek ekki undir þetta.  Ég get ekki séð hverjum það gagnast að standa í slagsmálum og eggjakasti.  Mér finnst það bara della.  Það eru bara alltaf innan um karakterar sem sjá sér leik á borði þegar verið er að mótmæla að fá útrás fyrir skrílmennið í sér.  Jafnvel virðist fólk fara í þennan gír þó að það hafi engan sérstakan áhuga á málefninu.

Mér dettur t.d. í hug þegar verið var að takast á við vörubílstjórana við Suðurlandsveg og sló í brýnu milli mótmælenda og lögreglu.  Þá voru þarna umgmenni að kasta eggjum og þegar þau voru spurð hvers vegna þau væru að þessu var svarið, "bara...  gaman", eða eitthvað í þeim dúr.  Þau voru þarna bara og fannst sniðugt að fá smá útrás.

Mín skoðun er að svonalagað sé einungis til trafala og g

Theodór Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 13:06

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er víst ein af þessum sem mælti mót þessu og stend við það. Ég var líka einu sinni ung eins og þú og fleiri og man ekki eftir að horfur okkar hafi verið mikið betri en núna en þetta hafðist allt. Er ekki margt svo gott í lífi okkar sem við getum verið þakklát fyrir?  eiga ekki flestir sína erfiðleika einhverntíman á lífsleiðinni?  tökumst við ekki á við þetta þegar að því kemur.  Hefur ekki ýmislegt skánað síðustu tvær vikur? tekur enginn mark á því? er ekki verið að gera eitthvað?  ætlum við ekki að kjósa í vor og endurnýja umboð stjórnarinnar eða fella þá.?  kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 9.12.2008 kl. 13:06

7 Smámynd: Bjarni Helgason

Ég get því miður ekki tekið undir þetta. Ég er sjálfur á besta aldri, einungis 23. ára og líklegast á svipuðum aldri og þessir "mótmælendur" svokölluðu.

Ef það er einhver kynslóð sem mun koma "vel" útúr þessari kreppu er það einmitt þessi kynslóð sem er að valda þessum usla. Þetta er fólk sem hefur ekki tekið lán, og á bókstaflega ekkert, svipað og ég sjálfur. Framtíðin er einmitt einna björtust fyrir unga háskólanema sem eru í námi, því þetta ástand mun breytast til hins betra, og þá verðum við að einmitt að koma útá vinnumarkaðinn, og þá verður íslenskt efnahagslíf vonandi aftur komið í blóma. 

Þetta lið á bara að drífa sig í skóla og mennta sig, og þannig getur það  breytt hlutunum til batnaðar!

Bjarni Helgason, 9.12.2008 kl. 13:42

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hjó eftir því í viðtölum við ráðherra eftir mótmælin að einn þeirra (man ekki hver) sagðist vera hissa á reiðinni...

Nú ættu hann og fleiri að vera að byrja að fatta hana.

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.12.2008 kl. 13:43

9 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Jú.. kreppukarl ég var búin að tala um þetta á síðunni hjá mér, þetta með ofbeldið, það er nefnilega hægt að fara vel að þessum krökkum. sammála þér Jenný.

Sigurveig Eysteins, 9.12.2008 kl. 14:23

10 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Hrikaleg fréttin hjá Dv frá átökunum i morgun.. Ég segi það fullum fetum að þetta er á ábyrgð ráðamanna sem hefur gjörsamlega daufheyrst við rödd fólksins og neyð....og ef fólki finnst í lagi að lögreglan hreinlega hvetji til þess að næstum keyra yfir liggjandi ungmenni er ofbeldið að taka á sig skýra mynd sem og grímulaust valdið sem alls staðar er eins. Hvort sem það er á íslandi eða Kína. Enn bara stigsmunur þar á.  Og eftir leynifund með fáeinum útvöldum frettamiðlum þar sem dagsskipunin er að kæla niður öll friðsöm mótmæli og fundi almennings er allt keyrt upp í ofbeldinu og réttlætingum á því. Skömm skuluð þið hafa valdhafar!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.12.2008 kl. 14:50

11 Smámynd: kiza

Ætla að leyfa mér að copy-paste-a úr kommenti mínu hjá Heiðu (skessa.blog.is):

Mér þykir nú merkilegt hvað fólk er farið að kalla ofbeldi og skrílslæti í dag... Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn voru mótmæli því sem næst í hverri viku sem gjörsamlega rústuðu þessum svökölluðu 'aðgerðum' hér á landi, bæði í útliti sem og áhrifum.   Þó svo að þau mótmæli væru vegna miklu vægari hluta, eins og t.d. bara 'hjólreiðamenn gegn bílum'; voru 100 sinnum sterkari en þessar réttir sem Íslendingar kalla mótmæli.

Þið; sem talið um að ríkisstjórnin sé 'kosin af fólkinu' og að við höfum 'kosið þetta yfir okkur'.  Hvað með þá sem skiluðu auðu síðustu kosningar?  Er mín rödd einskis virði fyrst ég kaus að neita öllum flokkunum?  Drullaði mér þó á staðinn, skráði nafn mitt niður og KAUS.  Kaus EKKERT AF ÞESSU PAKKI.  Þannig að ég tel mig í fullum rétti að mótmæla kjaftæðinu í þeim.
Og hvað með allt unga fólkið undir 18ára aldri, sem ALDREI hefur fengið að kjósa eitt né neitt, en fær samt að taka þátt í að hirða upp draslið eftir sukkarana?  FINNST ÞÉR EITTHVAÐ SKRÝTIÐ AÐ ÞAU SÉU PISSED OFF YRIR ÞVÍ??

Auðvitað er ég sammála því að bankastjórarnir og fjármálahrókarnir eigi að svara fyrir sig, og að mótmælin eigi að beinast að þeim líka, og meir ef eitthvað er.   Finnst skrýtið að enginn sé búinn að kasta klósettpappír í tréin hjá Jóni Ásgeiri á Laufásveginum eða þrusa eggjum í Björgólfsfeðga.  Það hlýtur þó að koma að því.   Hinsvegar var það ríkisstjórnin okkar og fjármálaeftirlitið sem leyfðu þeim að starfa svona!  Hvers vegna var ekki reynt að grípa í taumana og setja upp einhvers konar regluverk í kringum þetta?  Bara sofið á verðinum í nýja jeppanum ?

Það að fólk skuli í alvörunni kalla eggjakast og háværar raddir 'ofbeldi', sýnir bara fram á að þau hafi aldrei horft upp á ALVÖRU ofbeldi (og vona að þau þurfi þess aldrei).  Hversu margir hafa lent á spítala út af eggjakasti?  Hvenær dó síðast maður úr málningarslettu?  Come on.    En hversu margir þurftu aðstoð neyðarmóttökunnar vegna piparúða í augum og á húð, fyrir ekki svo löngu síðan..?

Íslendingar geta verið svo einstaklega uppteknir af því hvernig þeir líta út í annara manna augum, við getum ekki einusinni andskotast til að krefjast afsagnar þessara jólasveina af hættu á að líta kjánalega út.  Á meðan erum við gerð að athlægi á alþjóðavettfangi vegna aumingjaskaps og hégóma.

-Jóna Svanlaug Þorsteinsdóttir - alveg að fara á límingunum. 

kiza, 9.12.2008 kl. 15:42

12 Smámynd: kiza

Og hverju hafa þessi friðsömu mótmæli áorkað sem þessi 'skrílslæti' ( þreyttasta. orð. EVER.)  eru að eyðileggja?

Sé ekki að þau hafi haft nokkur áhrif, þannig að það ER EKKERT TIL AÐ EYÐILEGGJA.

Arg. 

kiza, 9.12.2008 kl. 15:43

13 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær færsla, ég er algerlega sammála.

Sigrún Jónsdóttir, 9.12.2008 kl. 16:02

14 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Innilega sammála þér Jenný, aðgerðir eiga síðan aðeins eftir að aukast á núja árinu þegar vandræðin hrannast upp þegar Bandaríkin og fleyrir ríki fara í þrot. Aðgerðir þær sem verið er í, semsé að bæta hrilalega skuldastöðuna er...já,er að fá lánað ennþá meira. Þessar svokölluðu aðgerðir eru bara prump og reykur og festa okkur endanlega í skuldagildrunni...forever. Héðan í frá verður Ísland eign alþjóðlegra bankamafíósa og risafyrirtækja...eins og til var stofnað.

Max Keiser spyr, verður fólkið reitt?

Georg P Sveinbjörnsson, 9.12.2008 kl. 16:08

15 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ísland er að öllum líkindum nú þegar eign mafíósa..rammíslenskra og örugglega einhverra útlendra líka.Og klíkurnar munu ekki sleppa krumlunum af feng sínum fyrr en í fulla henfana. Og það meina ég bókstaflega.  Að hugsa sér að það er enn fólk sem er venjulegir íslendingar að reyna að verja þessa spillingu og vilja gefa (land)ráðamönnum svigrúm og betri vinnufrið. Ha ha ha ha!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.12.2008 kl. 16:26

16 identicon

Bjarni, mikill meirihluti háskólanema eru með námslán á bakinu. Þau eru verðtryggð. Ég er bara örlítið eldri en þú og er við að klára mitt mastersnám, og nú kem ég út á atvinnumarkað sem er í komin í kalda kol. Mörg ár af alltof háu gengi sem hefur bitnað á útflutningsfyrirtækjunum og nú er gengið komið niður í jörð, bara smá stund að krónan verði komin niður á sex fet og við getum farið að moka yfir hana. Og útflutningsfyrirtækjunum er enn refsað með höftum á gjaldeyri og fá ekki að vinna upp tap sitt á raungengi krónunnar í dag heldur er verið að neyða þau til að skila inn þeim gjaldeyri sem þau eiga þó.  Og svo sé ég boðaðan niðurskurð á heilbrigðiskerfinu, kerfinu sem á að sjá um okkur þegar við erum sjúk. Ég efast um að ég geti farið í húsnæðiskaup á næstunni, né að stofna til fjölskyldu. Svo afhverju ertu að segja að við komum vel út úr þessu? Atvinnuleysi aldurshópsins 16-25 ára á 3. ársfjórðungi þessa árs var 5,2% (3. ársfjórðungur er fyrir kreppu!), geturðu ímyndað þér hvað prósentutölurnar verða fyrir 4. ársfjórðung? Svo þegar farið verður í niðurskurð í skólakerfinu hvað á eftir að aukast mikið atvinnulausum í þessum hóp? Fólki sem engin tækifæri hafa til að setjast á skólabekk sökum fjárhags foreldra en finna ekki vinnu sökum menntunarskort.

Ég er reið og finnst það alveg rétt viðbrögð. 

Anna (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 16:29

17 identicon

Þetta er kjánaskapur og eflaust rétt að stór hluti þessara "mótmælenda" er bara að leita að hasar. Ég efast um að flestir Íslendingar séu sammála því mottói þessa hóps að anarkismi sé æðsta form lýðræðis. Langfæstir vilja sjá anarkískt samfélag hér. Þetta fólk er ekki að berjast fyrir okkar málstað.

Kona (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 17:13

18 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kona, það hefur greinilega farið framhjá þér þegar þú fylgdist með fréttum að mótmælendur sem talað var við tóli það skýrt fram að þeir væru ekki einn, skipulagður hópur, heldur væri þetta fólk með alls kyns skoðanir, - þetta voru sem sagt ekki anarkistar eingöngu.

Mér finnst það kjánaskapur að sitja heima við sjónvarpið og fordæma aðra, og líka finnst mér það bera vott um kjánaskap að taka ekki betur eftir því sem sagt er en þetta. En þú ert kannski vön að taka fyrir eyrun þegar ungt fólk og mótmælendur tjá sig, vegna þess að Geir og Ingibjörg og öll hin eru búin að kenna þér hina "réttu" skoðun?

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.12.2008 kl. 17:21

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, ertu ekki gamall kommúnisti, Jenný? Þú leiðréttir mig, ef rangt er.

Jón Valur Jensson, 9.12.2008 kl. 17:34

20 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

*tóli = tók

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.12.2008 kl. 17:34

21 Smámynd:

SAMMÁLA þér Jenný.

, 9.12.2008 kl. 18:06

22 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Sammála þér Jenný Anna!  En ríkisstjórnin þegir og leyfir Davíð  að ólmast til að dreifa athyglinni frá þeim ósköpum sem ganga á,  bak við tjöldin.

  Þar sem þeir sem settir voru yfir skilanefndum, og síðar bankanna, eru í óðaönn að undirbúa afhendingu til fyrrum eigenda fyrir slikk. -

Það verður að gerast í skjóli þagnar, og áður en lýðurinn tryllist aftur og fer að mótmæla.  Sem verður um leið og jólaösinni lýkur, og gluggapósturinn með visareikningunum dettur inn um bréfalúguna.

En þá verður allt að vera um garð gengið og ársreikningar bankanna komnir til feðra sinna.

Svo lifi baráttan og mótmælum þessum gjörningum sem eiga sér stað bak við tjöldin.

Burt með spillingaröflin.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 9.12.2008 kl. 18:52

23 identicon

Samtökin Aftaka, sem Haukur Hilmarsson, bónusfánadrengur og samviskufangi, er félagi í, eru anarkísk samtök, Hann er einn af skipuleggjendum þessara mótmæla, sem sést best í því að hann fór á lögreglustöðina og krafðist skýringa á þeim handtökum sem fóru fram við alþingishúsið.

Móðir Hauks, Eva Hauksdóttir, er svo höfundur orðanna um að anarkismi sé æðsta form lýðræðis (sjá blogg hennar) en hún stjórnaði m.a. árásunum bæði á lögreglustöðina og á Seðlabankann. Svo getur enginn sagt mér að þetta séu "margir hópar", því að sami, litli hópurinn réðst á ráðsherrabústaðinn og á Alþingi.

Kona (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 19:36

24 identicon

Hér er heimasíða aftöku, samtaka Hauks: http://aftaka.org/

Talar þetta fólk fyrir þorra Íslendinga? Nei.

Kona (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 19:38

25 Smámynd: Hulla Dan

Jenny... Ég einfaldlega elska tig

Hulla Dan, 9.12.2008 kl. 20:35

26 Smámynd: Gunnar Þór Ólafsson

Mér dettur alltaf í dug sín mín á helsjúkt alkahólískt heimili þar sem alkinn kemst upp með andlegt og líkamlegt ofbeldi vegna þess að öll fjölskyldan hylmir yfir og réttlætir endalaust framgöngu og gjörðir alkans vegna þess að enginn má vita.Þetta dettur mér  alltaf í hug þegar fólk hneykslast á mótmæla aðferðum "hinna" en gerir ekkert sjálft dæmir og hneykslast en lætur hvalarann komast upp með allt heila jukkið.

Í gær fór fólk inná palla Alþingis og hafði uppi háreysti HVAÐ MEÐ ÞAÐ. Það var þeirra aðferð þau verða bara að nota það sem þau kunna ekki satt?

Áðan var haft efir forstjóra FME í kastljósinu að ekkli væri við stjórnendur að sakast það hefðu verið bankarnir sem brutu lögin..

Kom on;. Bíllinn minn fór yfir á rauðu áðan ,það var ekki mér að kenn ,

Gunnar Þór Ólafsson, 9.12.2008 kl. 20:36

27 identicon

Ég sá þig Gunnar Þór.
Gott ef þú varst ekki líka að tala í símann þegar þú fórst yfir á rauðu.
En það er að sjálfsögðu ekki þér að kenna

En að öllu gamni slepptu þá vil ég taka undir með þér Jenný.
Það er með ólíkindum að einhverjir "góðborgarar" útí bæ séu að hneykslast á eggjakasti og aðhrópunum að ríkisstjórn og alþingi en svo heyrist ekkert í þessum ágætu "góðborgurum" varðandi glæpsamleg vinnubrögð ríkisstjórnar og ríkisstofnana á þessu máli öllu saman. Þá þegar þeir þunnu hljóði enda finnst þeim það trúlega eðlilegt og réttlætanlegt.
Með ólíkindum að maður verði að ætla sem svo að þetta fólk búi að starfandi heilabúi.

En það er gott til þess að vita að til sé ungt, kjarkað og stórhuga fólk sem þorir, getur og vill. Húrra fyrir þeim.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 22:11

28 identicon

Hringja í nokkra bændur panta hjá þeim vel þynnta mykju á nokkra dreifara. Vera samstiga einu sinni,aka þeim öllum á sama tíma að þessum helstu póstum,seðlabankanum,(gott að bera á hólinn í leiðinni)sóðastaðahjáleigunni við Austurvöll,að ráðherrabústaðnum,að fjármálaeftirlitinu...og fleiri  ef vill.

Ég hef ávallt verið gætin í útlöndum og hef sloppið við að verða rænd,en ekki grunaði mig að bankinn minn hér heima myndi ræna mig þessu litla  sem ég átti.

Segið að þið séuð reið,ekki byrgja það inni.!

Margret (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 22:51

29 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fábær færsla og margar skemmtilegar athugasemdir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.12.2008 kl. 00:55

30 identicon

Góð að vanda Jenný, hittir naglann aldeilis vel á höfuðið þarna. Er þetta ekki dæmigert, að gera þá sem láta í þér heyra að vitleysingum, ömurlegt. 

alva (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 14:49

31 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þarf að hlust á þetta smáborgaraþvaður í vinnunni, ekki margir þar sem hafa dug í sér til að bera hönd fyrir höfuð og flestir láta sér ágætleg líka að hafa verið rændir og að þjófarnir gangi lausir og vanvitarnir sem voru við stjórn sitja fastast og þykjast vera í björgunarstörfum.

 Hver sá sem rís upp gegn biluninni og spillingunni á alla mína virðingu...svo framarlega að líkamlegu ofbeldi sé ekki beitt...nema þá kannski í nauðvörn gegn lögregluofbeldi.

Georg P Sveinbjörnsson, 10.12.2008 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.