Leita í fréttum mbl.is

Meðferðuð til háheilagrar edrúmennsku

"Mér hlýtur að vera í nöp við sjálfa mig" sagði ég stundarhátt við undirritaða þegar ég sat vafin innan í teppi og peysur úti í fimbulkuldanum og reykti rétt áðan.

Sígó er mín eina fíkn sem eftir stendur í þeirri andans hreingerningu sem ég hef gert á sjálfri mér undanfarin ár (tugi).

Eftir að hafa meðferðað sjálfa mig til háheilagrar edrúmennsku (að svo miklu leyti sem hægt er að tala um háheilögheit í sambandi við mína aumu persónu) á ég þennan eina löst eftir og mér þykir vænt um helvítið á honum.

En eftir að sígófíknin var gerð brottræk úr veislusölunum á kærleiks og send með skömm út í skýli hefur gamanið farið að kárna illilega.

Ég hef ekki heilsu í þetta.  Ég þoli illa kulda. 

Það er ekki til sú úlpa, þeir vettlingar, treflar, teppi eða föðurland sem getur klætt af mér þennan napra andskota sem smýgur inn í merg og í bein.

Ég sagði við minn löggilta elskhuga í gærkvöldi að mér væri orðið alltaf kalt.

Hann sagði spekingslega: "Það er kalt úti, kalt inni, kalt í sálu, kalt í sinni (maðurinn er gangandi rímnamaskína) og það er kreppan sem leggst svona í veðurfarið.

Ég: Ekki drepa mig úr jákvæðni.

Hann: Ó ég gleymdi að taka fram að við eigum hvort annað og lauk í ísskápnum.  Þessari ástarjátningu fylgdi illyrmislegt glott.

Ég sagði honum auðvitað að ég elskaði hann líka og svo sparkaði ég í sköflunginn á honum til að undirstrika mínar ólgandi tilfinningar.

En þetta er ekki alslæmt.  Það fæst nikótínúði í apótekinu og ég er alvarlega að íhuga notkun á viðkomandi.  Það er einfaldlega of kalt fyrir fíkn sem iðkuð er undir beru.

Ef ég hætti að reykja þá á ég ekkert eftir, enga bresti, allir gallar heyra sögunni til og mynd mín mun lenda á koparristum og íkonum í nálægri framtíð.

Hvað get ég sagt?

Ég er alls ekkert fyrir að ýkja. 

Þetta er fíflafærsla í boði komandi hátíðar.

Gleðilegan jólamánuð krúttin mín.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Það endar á því að þú verður gengin í hlaupaklúbb með þessu heilsueflandi áframhaldi  Já og jólin bara handan við hornið

, 1.12.2008 kl. 08:43

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Skil þig fullkomlega og þú átt alla mína samúð.  Vildi að ég gæti boðið þér hingað inn í hlýjuna en.......

Góðan mánudag í andsk. úlpunni

Ía Jóhannsdóttir, 1.12.2008 kl. 08:44

3 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

elsku besta þú hlýtur að geta fundið eitthvað til að misnota ef þú hættir að reykja ... nokkrar ábendingar úr eigin ranni : matur, sælgæti, nú nikotínúðinn auðvitað, netið, útsaumur, heimilisþrif, bakstur, og bara nefndu það, það má hella sér í allan fjandann í óhófi ef svo ber undir ... mæli samt ekki með að nota rettur og nikótínlyf saman, það er djöfullegur niðurtúr af því ... þetta brestaráð var í boði reynslubanka elínar, sem finnst ekkert mál að hætta að reykja, hef gert það oft og síðast tókst það 25.ágúst 2002, ekki reykt síðan takk

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 1.12.2008 kl. 08:47

4 Smámynd: Sigga Hjólína

"Ef ég hætti að reykja þá á ég ekkert eftir, enga bresti, allir gallar heyra sögunni til "  Góð.

Sigga Hjólína, 1.12.2008 kl. 09:28

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Iss það eru ekki nema fimm mánuðir þar til það fer að hlýna aftur Jenný mín. Hvað eru fimm mánuðir á milli bestu vina? Annars er ég að hugsa um að fara á hressó og reykja undir hitalampa og drekka heitt kappúsínó.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.12.2008 kl. 09:30

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Það var þetta með ástina og laukinn

Jónína Dúadóttir, 1.12.2008 kl. 09:30

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég legg til að þú leggir rettunni og leggist í fíkn á heimilsskáldinu ;)

Hrönn Sigurðardóttir, 1.12.2008 kl. 09:38

8 Smámynd: Laufey B Waage

Vonandi færðu ekki höfuðverk þegar þú hættir að reykja. Geislabaugurinn verður örugglega svo stór og mikill.

Laufey B Waage, 1.12.2008 kl. 09:54

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

You rock girl, gerðu bara það sem þig langar mest til.  Get alveg skilið að það sé vont að reykja úti í kuldanum. Ekki fá lungnabólgu. Gleðilegan jóla

Ásdís Sigurðardóttir, 1.12.2008 kl. 10:54

10 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

sparkaðu bara aftur í sköflunginn á honum og gáðu hvort þér hlýni ekki við það

Svala Erlendsdóttir, 1.12.2008 kl. 11:30

11 identicon

Hef einmitt hugsað til reykingafólks þessa köldu daga.Ég er svooooooooooooooooooo fegin að vera laus

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 12:19

12 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Þú mátt koma til mín það má reykja í eldhúsinu mínu yfir rjúkandi kaffi vina.

Það er lýðræði vað vera ekki neyddur til neins.

Anna Ragna Alexandersdóttir, 1.12.2008 kl. 12:44

13 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Já - það er erfitt að vera fullkomin.  Reyndi það í fyrra en byrjaði svo aftur að reykja.........

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 1.12.2008 kl. 14:16

14 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þar sem ég býst við að þú sért á hraðferð á borgarafundinn á Arnarhólnum, segi ég bara fáðu þér sterkasta sólarhringsplástur sem til er, nóg af tannstönglum til að narta í, og vatnskönnu, þá ertu í góðum málum þegar þú kemur heim af fundinum, þá geturðu fengið þér að reykja og reyktu eins og þú vilt þangað til daginn sem þú ætlar að hætta. - Þá hættirðu. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 1.12.2008 kl. 14:27

15 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Margir alkar fara í meðferð og fá hjálp við fíkninni, reykingafólk ætti að fara á námskeið hjá Valgeir Skagfjörð það er ótrúlegur árangur sem næst þar. Mér finnst einhvern veginn að það að fara á nikótínlyf sé svipað og fyrir alkann að drekka bara léttvín....vandinn er ennþá til staðar fíkninni er bara fullnægt í öðru formi en reyk.

Ég las sjálf bókina sem námskeiðið er byggt á og hef verið laus frá tóbaki síðan í maí og langar ekki fyrir 5 aura. 

Gangi þér vel í baráttunni

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 1.12.2008 kl. 14:43

16 Smámynd: Helga Dóra

Nú Svo er alltaf hægt að demba sér í blogg fíknina

Helga Dóra, 1.12.2008 kl. 15:03

17 Smámynd: Kolgrima

Frábært hvað þér gengur  vel, Hrafnhildur, djö... ertu hörð, kona. Ég hef stolist til að reykja inni undanfarna daga, það er svooo kalt, með þeim árangri að frumburðurinn hefur hótað skilnaði við móður sína. Ekki gott.

Veldu á milli mín og sígarettunnar, jajajajajaja. 

Kolgrima, 1.12.2008 kl. 16:55

18 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Kolgríma: Vér látum ekki bugast.  Gefum ekki rassgat eftir í okkar fíknum.  Múha.

Helga Dóra: Been there, seen that, done it.

Krumma: Takk honní.

LG: Tek þín ráð og hendi mér á plástur og tannstöngla.  Var of sein fyrir og komst ekki á fundinn.  Því miður.

Lísa: Fullkomnun er boooooring.

Dúa: Þetta var andlegt dúndurspark.

Anna Ragna: Takk.

Birna Dís: Segðu.

Hrönn: Búin að leggja mér skáldið til munns.
Takk öll fyrir innlegg.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.12.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.