Leita í fréttum mbl.is

Hefðuð þið trúað þessu?

 

Í öllum hamaganginum sem gengur á þessa dagana las ég einhversstaðar að hagkerfið okkar myndi fara aftur um þetta tuttugu til þrjátíu ár.

Ég alveg: Nú, nú, hvaða hýstería er nú þetta?  Við lifum á opnum tímum, ferðalög ertu tertubiti og ekki krassa tölvurnar þó efnahagsástandið sé í sögulegu lágmarki.

En halló, ég hefði betur aldið mér á mottunni með yfirlýsingagleðina við sjálfa mig.  Ég hefði átt að hasta á Jennýju Önnu og hreinlega segja henni að þegja, svei mér þá.

Á mínum sokkabands þegar allar leiðir lágu til London fórum við systur mínar og vinkonur í hverja innkaupaferðina á fætur öðrum.  Þetta var sjötíuogeitthvað ofkors.

London var heimsborg tískunnar og fyrir fataóðar ungmeyjar var hún himnaríki á jörð.

Klúbbarnir gerðu ferðirnar ekki leiðinlegri og miðað við þeirra tíma tísku hvað varðaði karlkynið þá þóttu breskir testosterrónar alveg ferlega liggilegir í útliti.  Kannski af því að þeir voru svo töff til tausins.

Við steðjuðum sem sagt til London stelpurnar og til þess að nálgast gjaldeyri á þessum haftatímum sem aldrei koma aftur (jájá) fékk maður einhverja lágmarksupphæð punda gegn framvísun farseðils.  Þessi summa var hvergi nærri nóg, mikið lá við og margt þurfti að versla.

Maður þekkti mann sem þekkti leigubílstjóra á setuliðssvæðinu og þar fengust dollarar.

Svo fyllti maður alla vasa plús ferðatöskur af hundraðköllum sem hægt var að skipta í breskum bönkum.

Reyndar skil ég ekki hvernig við komumst með góssið inn í landið aftur algjörlega athugasemdalaust því keypt var fyrir heilu vinkvennahjarðirnar í leiðinni.

NB. þá var ein alvörubúð með fatnað í Reykjavík, sum sé Karnabær og þar af leiðandi litu öll ungmenni út eins og tvíburar.

Plebbarnir versluðu í Hagkaup, Guðrúnarbúð, eða Verðlistanum.

Upptalið, búið, bless.

Ég reyndar lét Drengjafatastofuna gera mér klæði eftir eigin teikningum.

En það sem ég er að segja hérna er að það þurfti fyrirhöfn og frumleika til að falla ekki inn í hópinn en hjarðeðli hefur aldrei verið mér að skapi.

En aftur að gjaldeyri.  Nú erum við komin aftur í tímann.  Nú er það mæting með farseðil til að fá fjármunina afhenta.  Vá, að tala um að rúlla afturábak niður minningargötu.

Hefðuð þið trúað þessu?

Ónei!

Leiheiheiter.


mbl.is Framvísa þarf farseðlum í bönkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég man þessa tíma mjög vel.....og þá var nú ekkert VÍSA kort heldur.

Þetta voru 100 pund á mann

Sigrún Jónsdóttir, 10.10.2008 kl. 19:38

2 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Heheh áttu ekki mynd af þér með góssið???

Faco átti oft smart föt á okkur strákana.

En heldur þetta áfram, ætli að mamma sendi mig með brúsa í mjólkurbúðina í næstu viku?

Einar Örn Einarsson, 10.10.2008 kl. 19:43

3 Smámynd: halkatla

Ég væri til í að fara meira aftur í tímann, segjum svona 300 ár - en með tölvum

halkatla, 10.10.2008 kl. 19:50

4 identicon

Ég verð víst að viðurkenna það líka að ég man eftir þessum tíma þegar maður þurfti að framvísa farseðli til að fá gjaldeyri.

Þetta var soldið líkt því og þegar maður fór til Reykjavíkur úr sveitinn sextán ára gamall og þurfti að byrja á því að fara bónarveg til kaupfélagsstjórans og stynja því upp að maður vildi taka út smávegis af þeim peningum sem maður átti inni á reikning.

"Og hvað ætlar þú að gera með peningana"? spurði kaupfélagsstjórinn strangur á svip. "Ég er að fara í bæinn og ætla að kaupa mér föt og svoleiðis". "Það fæst nú ágætur fatnaður hér í nýju vefnaðarvörudeildinni okkar" svarar þá kaupsi.

Hvernig átti ég uppburðarlítill unglingurinn að útskýra það fyrir miðaldra kaupfélagsstjóranum að ég ætlaði að fá mér ameríska úlpu og alvöruskó en ekki einhverjar hallæris Heklu-úlpur og Iðunnarskó?

Ég man að þessar ágætu amerísku úlpur fengust í Vinnufatabúðinni en skórnir líklega í Karnabæ.

Manni finnst maður hafa verið uppi á miðöldum þegar maður rifjar upp þessa daga.

Jón Bragi (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 19:51

5 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

"Drengjafatastofuna"?? Jenný?? Hvað í veröldinni var það?

Hrönn Sigurðardóttir, 10.10.2008 kl. 20:08

6 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Við biðjum innilega vel að heilsa og óskum ykkur innilega góða ljúfa helgi og knús knús og bestu kveðjur til ykkar

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 10.10.2008 kl. 21:45

7 Smámynd: María Guðmundsdóttir

já ætli thad verdi ekki fleiri hlutir sem hrøkklist aftur til fortídar en thessi..hvad verdur thad næst?

María Guðmundsdóttir, 10.10.2008 kl. 21:52

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Svo mundi ég allt í einu.....þetta voru svokallaðir ferðatékkar, sem maður fór með í breskan banka, framvísaði vegabréfi og fékk "alvöru" pund.

Sigrún Jónsdóttir, 10.10.2008 kl. 22:12

9 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mér þykir þezzi Jón Bragi sérlega skemmtilegur & mæli eindregið & langdregið með því að hann byrji sitt sjálfstæða blogg, nú eða gefi upp slóðina, ef að hann á slíkt á öðrum merkilegri bloggsetrum.

Steingrímur Helgason, 10.10.2008 kl. 22:42

10 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Steingrímur! Hvað hefur þú að gera við Jón Braga þegar þú hefur mig?

Hrönn Sigurðardóttir, 10.10.2008 kl. 23:00

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Djísús ég er að reyna að rifja þetta upp.  En ég bara get það ekki.  En svo er ég heldur ekkert á leiðinni út í augnablikinu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2008 kl. 23:01

12 Smámynd: Sigríður Þórarinsdóttir

Þegar ég var unglingur þá voru einu búðirnar Karnabær, Faco með levis gallabuxurnar, Buxnaklaufin, popphúsið minnir mig, síðan byrjaði 17 þegar ég var um 13 ára held ég.  Laugaveginn þekkti maður eins og lófann á sér, ætli við vinkonurnar höfum ekki farið í strætó nokkrum sinnum í viku niður á Laugaveg bara til að tékka hvort eitthvað nýtt og spennandi væri til eða bara skoða.

Síðan voru það plötubúðirnar: Faco líka, Fálkinn, Karnabær.....

og snyrtivörubúðirnar: Stella, Regnhlífarbúðin, Oculus og ég man ekki hvað þær hétu allar.

Sigríður Þórarinsdóttir, 11.10.2008 kl. 00:49

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég man þegar ég fór í Faco og tróð mér í Levy´s gallabuxur nr 27 liggjandi á gólfinu til þess að geta rennt upp rennilásnum á þeim.  Og ég vann í Belgjagerðinni á útsölumarkaði og keypti ég mér Belgjagerðarúlpu sem var notuð í 30 ár, hún týndist í fyrra. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.10.2008 kl. 01:50

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Umræðan: 

Já hún er rosaleg þessi krippa! Það er engin ný bóla að blaðra springi. Það er bara að herða ólarnar og rétta úr kútnum, þreyja þorrann og góuna. Þegar boginn er þaninn svona er ekki skrýtið að krosstré bresti. Partýið er búið og ég er búinn að hringja á lögregluna!

"We´re going down in flames and you are throwing molotovs at us Mr. Brown!?"

Um að gera að halda kúlinu krakkar, ég er alveg sáttur við að taka upp Nylonskyrtur, Terlyn buxur og gaberdín jakka, þykkbotna skó, jafnvel trampara. Hekluúlpur og álafossmussur á liðið. Verum bara kúl með krippuna.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.10.2008 kl. 03:09

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gleymdi náttúrlega Iðunnarskónum...

Jón Steinar Ragnarsson, 11.10.2008 kl. 03:10

16 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Gaman að þessu

Jónína Dúadóttir, 11.10.2008 kl. 08:21

17 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Umm.. já og okkur leið ekkert illa í þá daga.  Ég vann í Landsbankanum á þessum árum og fékk aldrei fyrirgreiðslu þar heheh.... ekki einu sinni í mötuneytinu.

Ía Jóhannsdóttir, 11.10.2008 kl. 08:37

18 Smámynd: Tína

Já það er greinilega fleira en tískan sem fer í hringi. Ég man líka eftir þessum ferðatékkum og fleiru og finnst bara nokkuð skemmtilegt að rifja þetta allt saman upp með krökkunum sem núna standa eins og illa gerðir hlutir og vita hvorki upp né niður.

Knús inn í helgina þína ljúfan. Þú ert yndisleg

Tína, 11.10.2008 kl. 09:01

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Krakkar: Það er yndislegt að lesa kommentin ykkar.  Mér hlýnar allri að innan.  Hvert og eitt leggur eitthvað skemmtilegt til málanna.

Jón Braga: Þú komst mér til að hlægja.

Einar Örn: Það eru til alveg frábærar myndir hjá systrum mínum teknar á hótelherberginu á Regant Palace hvar vér sitjum innan um 30 skópör.  Það var sko tekin mynd af góssinu.

Er ekkí frábær leið til að láta sér líða vel á þessum síðustu og verstu með því að rifja upp skemmtilega tíma?

Ég held það.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.10.2008 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband