Leita í fréttum mbl.is

Ég sofnaði í lýðræðisríki

  hh

Ég sofnaði í lýðræðisríki

Svohljóðandi bréf frá Hallgrími Helgasyni fer eins og eldur um sinu um netheima:

“Kæru viðtakendur.

Atburðir morgunsins segja manni að hér starfi hvorki þing né ríkisstjórn. Eitt stærsta fyrirtæki landsins er þjóðnýtt í nafni ríkisstjórnar Íslands en forsætisráðherra er ekki í aðalhlutverki heldur situr í farþegasætinu og fjármálaráðherra í aftursætinu ... Og Alþingi er einhverstaðar víðs fjarri. Bara hóað í nokkra þingmenn til að vera vitni að aðgerðinni.

Hver fer með æðsta vald á Íslandi?

Ein stærsta aðgerð okkar daga er framkvæmd án umræðu, án sýnilegrar aðildar annars ríkisstjórnarflokkanna. Hvar er Samfylkingin? Í Bandaríkjunum hefur umræða um svipaða aðgerð staðið látlaust í tíu daga. Fyrir opnum tjöldum. Hér er allt í leyni. Og svo er ákvörðun tekin af ... já, af hverjum? - á lokuðum fundi seint um nótt. Minnir óneitanlega á aðra stóra ákvörðun, sem tveir menn tóku fyrir nokkrum árum.

Til hvers vorum við að kjósa fyrir rúmu ári síðan?

Geir gufaði endanlega upp sem forsætisráðherra um helgina. Hér er hvorki starfandi þing né ríkisstjórn. Við erum bara með Seðlabankastjóra, sem ræður, og Silfur Egils, fyrir umræðuna.

Svo bætast við sögur um að Glitnir hefði beðið um aðstoð Seðlabanka í síðustu viku en DO neitað honum um það, nema hann fengi að yfirtaka bankann. Davíð yfirtekur banka Baugs ... Hversu traustvekjandi aðgerð er það? Ekki mjög, eftir að stjórnarformaður Glitnis talar í viðtali við Stöð 2 eins og bankanum hafi verið rænt af sér. Á meðan birtist viðskiptaráðherra dreyrrauður í viðtali við sömu stöð og talar eins og hlutlaus áhorfandi. “Með þessu er ríkisstjórnin að sýna að hún lætur ekki banka fara í þrot.” Hann hefði fremur átt að segja: “Með þessu sjáum við að Samfylkingin hefur engin áhrif í ríkisstjórn sem að auki er í vasa Seðlabankastjóra.”

Í hádegisfréttum RUV sagði svo Davíð: “Seðlabankanum verður svo bætt þetta upp með ákvörðun Alþingis, væntanlega.” Já, væntanlega. Hver ræður á Íslandi í dag?

Ég get ekki betur séð en að ríkisstjórnin sé ónýt. Seðlabankinn hefur eignast 75% hlut í henni.

Ég sofnaði í lýðræðisríki í gærkvöldi en vaknaði í konungsríki í morgun.

Með kveðju - HH”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Góð grein frá Hallgrími Helga.  Tak fyrir að birta þetta Jenný.

Ía Jóhannsdóttir, 29.9.2008 kl. 17:56

2 Smámynd: María Guðmundsdóttir

frábær grein, flott ad birta hana hér , vonandi flýgur hún um alla bloggheima á nótæm.

hafdu gott kvøld og góda viku

María Guðmundsdóttir, 29.9.2008 kl. 17:57

3 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Þetta flott grein! Segir eiginlega flest af því sem segja þarf!!

Sunna Dóra Möller, 29.9.2008 kl. 18:19

4 identicon

Alltaf flottur HH.

alva (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 18:20

5 Smámynd: Eyrún Gísladóttir

Hann er góður.

Eyrún Gísladóttir, 29.9.2008 kl. 18:25

6 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Málið í hnotskurn.

Helga Magnúsdóttir, 29.9.2008 kl. 19:43

7 Smámynd: Sigríður Inga Sigurjónsdóttir

Ótrúlega hittir Hallgrímur Helgason, alltaf naglann á höfuðið. Algjör Snillingur.

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, 29.9.2008 kl. 19:56

8 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Öll þjóðin var tekinn í .........og getur ekkert gert sér til varnar.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 29.9.2008 kl. 19:58

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Málið í hnotskurn er það að við almenningur erum algerlega valdalausir vesalingar og atkvæði okkar telja ekki punkt í þessu samfélagi og flestir stjórnmálamenn og meira að segja hluti af ríkisstjórnin eru strengjabrúður í ótrúlegu valdatafli sem leikið er á taflborði þjóðarinnar. Málið er líka það í hnotskurn....að við gerum ekkert frekar en fyrri daginn..nema skrifa og tala  og blogga um það sem okkur misbýðurog kjósum svo sama bullið aftur og aftur og aftur og þorum ekki að standa upp fyrir rétti okkar. Og höldum áfram að tapa eignum okkar, peningum, heimilum og sjálfsvirðingunni. Að því að við erum ekki þegnar heldur þjónar í okkar landi. Að endingu....í hnotskurn. Þetta stjórnmálakerfi er ónýtt og agerlega ónothæft. Það heldur uppi sérhagsmunum og eiginhagsmunum þeirra sem sitja við kjötkatlana alveg sama hvaða nafni flokkarnir kjósa að kalla sig og hvaða hugsjónum þeir þykjast fylgja. Það eru engar hugsjónir, það eru bara hagsmunir fárra sem ráða ferðinni. Það er vonandi fleirum að verða ljóst núna. Það ber enginn okkar hag fyrir brjósti nema vonandi við sjálf. Vonandi.

Jenný mín afsakaðu að ég bloggi í athugasemdum þínum....þessi pistill bara setti mig af stað. Ég tjái mig vanalega ekkki um þennan sirkus sem stjórnmálin eru.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 29.9.2008 kl. 20:01

10 Smámynd: Gulli litli

Mikill er konungur Davíd.......

Gulli litli, 29.9.2008 kl. 22:30

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Flott bréf hjá Hallgrími og það er eitthvað Mafíu yfirbragð á þessu öllu.

Sigrún Jónsdóttir, 29.9.2008 kl. 23:32

12 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hallgrímur er bæði hnyttinn & hittinn ...

Steingrímur Helgason, 29.9.2008 kl. 23:34

13 identicon

Sæl Jenný

Ég er mikill aðdáandi bloggs þíns og kíki reglulega inn hjá þér en hef aldrei fyrr kvittað fyrir mig.  Þú ert að mínu mati einn besti "ironiski" bloggari landsins og þó víðar væri leitað, góður penni og rosalega sterkur "húmóristi", svona uppá breska mátann.  Og umræðuefnin sem þú tekið fyrir oftast verið þörf, og oft með nýrri og áhugaverðri sýn.

En svona er það víst, maður hrósar sjaldnar en maður kvartar :-o  Og núna er ég sennilega að "kvarta", því ég skil ekki hvað fyrir þér vakir með þessari færslu þinni, annað en hljótir að vera sammála þeim viðhorfum sem Hallgrímur lýsir í sínum pistli?  Og það í sjálfu sér er mjög íronískt, því aldrei hef ég kosið íhaldið og ekki hef ég verið hrifin af forsetisráðherra vorum hingað til og fundist, og finnst, hann rosalegur "auli" í sínum samskiptum við fjölmiðla og almenning.  En umræðan í dag hefur komið mér mjög á óvart, og sennilega honum og fleirum líka.

Hefur þú og þeir sem hér kvitta hugsað málið til enda, hverra hagsmuna á ríkið að gæta í þessu máli?  Átti ríkið að hafa hagsmuni hluthafa að leiðarljósi eða sparifjáreigenda og skattborgara?  Markaðsvirði bankans fyrir helgi var 234 milljarðar m.v. gengið 15.7 en þann 30. júní síðastliðinn voru innlán "almennings" um 710 milljarðar (innifelur örugglega ýmsa íslenska ríkisbubba, en einnig marga Jóna og Gunnur, íslenskar og erlendar, og sennilega fleiri Jónur og Gunnur en sem eiga hlutabréf í bankanum?). 

Með aðgerðum ríkisins voru hagsmunum síðarnefnda hópsins vonandi bjargað.  Vissulega bitnaði þetta á hluthöfum EN er það ekki hugmyndin með hlutabréfamörkuðum, að eiga hlutabréf er áhættufjárfesting og þess vegna geta menn grætt meira ef vel gengur (og það hafa svo sannarlega ýmsir gert á síðustu árum) en þeir geta líka tapað þegar illa gengur.  Ef menn vilja ekki taka áhættu, þá eiga þeir að fjárfesta í ríkisskuldabréfum eða leggja peninginn inn í banka, ekki satt? 

Og enn stærri hagsmunir lágu að baki, ef Glitnir hefði farið á hausinn þá hefðu afleiðingarnar fyrir íslenska hagkerfið verið umfram það sem flestir vildu hugsa til enda.....  Og meira að segja ef ríkið hefði lánað þeim, þá hefði það sennilega fengið marga sparifjáreigendur (710 milljarðar) til að færa peninginn, just in case!  Bankakerfi snýst nefnilega að miklu leyti (ef ekki öllu) um traust, er það ekki?

Það er hins vegar góð og gegn spurning sem Vilhjálmur Bjarnason, formaður samtaka fjárfesta spyr, þ.e. af hverju var Glitni ekki frekar veitt skammtímalán.  Geir svaraði þeirri spurningu með því að hefði verið spurningarmerki hvort bankinn hefði getað staðið undir slíkri lánveitingu.  Það svar vekur margar spurningar hjá mér (en greinilega ekki blaðamönnum), bæði um hver munurinn sé á að lána eða setja sömu upphæð undir sem hlutafé?  Ekki síst ef engu á að breyta með stjórn og rekstur bankans!  En mig grunar svarið, það er ekki augljóst og það er þess eðlis að okkar ráðamenn eiga erfitt með að segja það.  En held það tengist nýju orði í umræðunni, orði sem hef grun um að muni heyrast mikið á komandi vikum og mánuðum.  Og hvað er orðið?  Það er GJALDEYRISSKORTUR.   

Eins og fyrr segir, það er mjög "írónískt" að ég skuli vera að verja Sjálfstæðisflokkinn á einni af "írónískustu" bloggsíðu landsins :-)  En ástandið í efnahagsmálum okkar Íslendinga er bara of alvarlegt fyrir flokkadrætti.  Held að menn hafi staðið frammi fyrir tveimur slæmum valkostum að ekta Víkingasið.  Kenningar um annarleg sjónarmið að baki ákvörðunum þessum finnst mér mjög svo undarleg, og ég sem aldrei þolað íhaldið :-)))))

ASE (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 00:32

14 identicon

SENNILEGA FÁIR SEM HAFA NENNT AÐ LESA OFANGREINDA LANGLOKU FRÁ MÉR EN MEÐFYLGJANDI UMFJÖLLUN ER AÐ FINNA Á WWW.EYJAN.IS  OG VERÐ AÐ VIÐURKENNA AÐ FINNST LÍKLEGRI ATBURÐARRÁS EN "AÐ TILKOMIN VEGNA HEFNDARVILJA EINHVERJA AFDANKAÐRA STJÓRNMÁLAMANNA Á/Í SVÖRTULOFTUM!"  

EN ÞVÍ MIÐUR ENN VISS UM AÐ YFIRVÖLD HAFA VERIÐ AÐ VERJA FLEIRI (OG MIKILVÆGARI?) HAGSMUNI Á SAMA TÍMA, Þ.E. GJALDEYRISSTÖÐUNA (M.Ö.O. REYNA AÐ FYRIRBYGGJA GJALDEYRISSKORT) OG ÞAR MEÐ ENN FREKARA FALL KRÓNUNNAR (ÞVÍ HVAR ER JAFNVÆGISGILDIÐ EF EKKI TIL GJALDEYRIR?)

PS. OG ÞAÐ FÁRÁNLEGASTA Í ÖLLU SAMAN AРMÁNUDAGURINN 29/09 REYNDIST GÓÐUR DAGUR FYRIR SVONA FRÉTTIR (MUNIÐ ÞIÐ EFTIR BRETUNUM SEM SÖGÐU AÐ 9/11 WAS A GOOD DAY TO BURY BAD NEWS!).  AÐ USA ÞINGIÐ SAMÞYKKTI EKKI SÍNAR BJÖRGUNARAÐGERÐIR GÆTI VERIÐ ÞAÐ BESTA SEM GAT GERST FYRIR LANDSBANKANN OG KAUPÞING, ÞVÍ ÞEIRRA AUKNING Í INNLÁNUM ERLENDIS HEFUR EKKI GJALDDAGA - EF FÓLK MISSIR TRÚ Á ÞEIM - ÞÁ TEKUR ÞAÐ PENINGINN SINN ÚT - JUST IN CASE - EN MEÐ ÞESSU ÞÁ VERÐA SENNILEGA AÐRAR FRÉTTIR Á FORSÍÐUM DAGBLAÐA HEIMSINS DAGINN EFTIR!!!!

EN MEÐFYLGJANDI ER SKÝRING EYJUNNAR Á ATBURÐARRÁS SÍÐUSTU DAGA, TRÚVERÐUG EÐUR EI?

Aðdragandinn að aðkomu ríkisvaldsins og síðan yfirtökunni á Glitni var ekki langur, samkvæmt þeim upplýsingum sem Eyjan hefur aflað sér í samtölum í dag við aðila sem komu að málum í ráðuneytunum.

Að þeirra sögn hafði atburðarrásin verið hröð fram að þeim tíma sem Seðlabankinn tók málið upp við ríkisstjórnina um nýliðna helgi. Upphaf málsins var um miðja síðustu viku þegar Glitnismenn lögðu fram beiðni um lánafyrirgreiðlsu af hálfu Seðlabankans, eftir að mikilvæg fjármögnunarleið, sem bankinn hafði stólað á, hafði óvænt lokast.

Glitnir var með lánsloforð í höndunum frá fjárfestingarbankanum Lehman Brothers vegna mikilvægrar endurfjármögnunar bankans í október. Við gjaldþrot Lehman 15. september komst þessi annars venjubundna endurfjármögnun Glitnis þar með í uppnám.

Þar var um að ræða ófyrirséð áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar - fjármögnun sem átti að vera trygg, varð það síðan skyndilega ekki.

Rúmri viku eftir gjaldþrot Lehman sneri Glitnir sér til Seðlabankans með beiðni sína um lánafyrirgreiðslu. Með beiðninni lagði Glitnir fram áætlun, sem Seðlabankinn mun hafa tekið vel í og farið að vinna að málinu á þeim nótum og útlit var fyrir að lánið yrði veitt.

Nokkru síðar komu svo Glitnismenn til baka og þá hafði hlaupið snurða á þráðinn. Einn erlendra lánadrottna bankans hafði bent á að lánafyrirgreiðsla Seðlabankans til Glitnis væri háð tæknilegum annmörkum, sem lutu að takmörkunum á ríkisaaðstoð við banka. Af þessum sökum þurfti að hætta við þá áætlun um lánið sem ákveðin hafði verið. Þessi aðili sem Glitnir hafði í góðri trú treyst á fékk nú bakþanka, “cold feet” og bakkaði út.

Það er hér sem ráðuneytismenn og fleiri gera athugasemdir við þær skýringar sem heyrst hafa, að Glitnismenn hafi ekki notið sannmælis og hægt hefði verið að fara lánaleiðina, því hún hafi einmitt verið skoðuð mjög vel. Og ekki bara einu sinni heldur tvisvar, því Glitnir hafi þá sett allt á fullt við að gera aðra áætlun og sett saman annan “pakka” sem miðaði að því að Seðlabankinn lánaði Glitni gegn tryggingum samsettum m.a. úr lánasafni bankans, þar á meðal bílalánum. Eftir vandlega skoðun á þessum kosti reyndist hann ekki uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg þóttu og ríkisstjórnin var kölluð að borðinu um helgina til að taka pólitíska ákvörðun um hvaða leið skyldi fara í málinu.

Ekki þótti reynandi að fara þessa lánaleið sem Glitnir bauð sem annan kost, því of margir hefðu þá þegar vitað af vandræðum bankans við endurfjármögnun og talið var nær öruggt að bréf bankans hefðu byrjað að snarfalla í dag, mánudag,  þrátt fyrir hugsanlega lánafyrirgreiðslu, með fyrirsjánlegum afleiðingum fyrir Glitni og íslenska fjármálakerfið.

Þegar málið síðan kom á pólitískan vettvang ríkisstjórnarinnar, þannig vaxið, þá munu þau Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde hafa unnið þétt saman að málinu, samkvæmt einum heimildarmanni Eyjunnar úr innsta kjarna Samfylkingarinnar, eða alveg þar til Ingibjörg forfallaðist í gær vegna aðgerðarinnar sem hún gekkst undir í New York.

Einn heimildarmanna Eyjunnar í Stjórnarráðinu lét þess getið að hefði annar lánakosturinn verið valinn hefði það þýtt útdreginn óvissutíma þar sem smám saman hefði saxast á traust bankans, sem allt eins hefði kallað á enn frekari fyrirgreiðslu. “Það var kominn tími til að greiða úr þessu.” Og hann bætti við að áhrifyfirtökunnar á stöðu annarra banka hafi einnig verið greind sérstaklega, þvert á það sem haldið hafi verið fram.

Sami aðili benti á, eins og Lárus Welding gerði líka í viðtali í dag, að CDS álag bankans hefði nánast á einu vetfangi lækkað í dag um 500 punkta.

ASE (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 00:59

15 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Hallgrímur er góður penni.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 30.9.2008 kl. 01:18

16 identicon

NÚ ER ÉG SENNILEGA AÐ OFNÝTA MÉR TJÁNINGARFRELSIÐ OG YFIRTAKA SÍÐUNA ÞÍNA EN ÞÚ ERT BARA MEÐ SVO GOTT "ÁHORF" (Þ.E. EF ÞÚ VÆRIR SJÓNVARPSSTÖÐ, ÞÁ VÆRI ÁN EFA EINHVER EINS OG ÉG BÚIN AÐ YFIRTAKA ÞIG :-) 

EN EINS MIKILL HÚMORISTI OG ÞÚ ERT ÞÁ HLÝTUR ÞÚ AÐ HAFA GAMAN AÐ MEÐFYLGJANDI VANGAVELTUM EIRÍKS INGVARS INGVARSSONAR (KANN EKKI AÐ LINKA) SEM ÉG RAKST Á FYRIR TILVILJUN, SKÁLDSKAPUR EÐUR EI, F...... SNILLD ;-)   MINNIR MIG Á BRESKU STJÓRNMÁLAGÆJANA SEM TAKA BRESK STJÓRNMÁL OG DÆGURMÁL REGLULEGA Í NEFIÐ EINS OG BARA BRETINN GETUR, SMÁ SÝNISHORN AF BESTU ÁDEILU EVER (AÐ MÍNU MATI) EFTIR "YES MINISTER" http://www.youtube.com/watch?v=mzJmTCYmo9g  

Ég neita að horfa á þetta sem hefnd. Þetta fór svona fram að mínu mati

"Blessaður Davíð, Þorsteinn Már hér. Áttu tvær"

"Blessaður Þorsteinn Már hvað get ég gert fyrir þig?"

"Ég vara að hugsa Davíð, getur þú nokkuð bjargað okkur...strax, það vill engin vera með okkur lengur...menn eru að segja að við séum ekki með góðar tryggingar fyrir endurfjármögnun. Þetta er náttúrulega algert bull við getum látið handveð í bréfum Stoða áður FL...fín bréf maður."

"Já að sjálfsögðu er ég til í að bjarga ykkur. Það er mitt starf. Ég kasta til ykkar björgunarhring á morgun."

"Já, nei, nei, þess gerist ekki þörf þú bjargar okkur þannig, þetta verður að vera gert á okkar forsendum....Við stjórnum og þú bjargar skilur.. bara svona fifty fifty þú skilur, við þurfum bara lánalínu til að halda áfram fjárfestingastefnu okkar..hún virkar oftast...þú verður að skilja við höfum stóra hluthafa að hugsa um..arðsemi þeirra og aðgengi þeirra að fé er okkar hjartans mál"

"Já rétt er það Þorsteinn Már við verðum að hugsa um hluthafa, en líka um skattgreiðendur og sparifjáreigendur, eftir allt þá eru þetta peningar fólksins í landinu sem þú ert að biðja um."

"Já, já það er augljóslega rétt en það er ekki aðal málið Davíð. Það er okkar reynsla hjá Glitni að vasar skattgreiðenda eru djúpir og tapþol skattgreiðanda skal ekki vanmetið. Við erum góðir í að finna út tapþol fólks. Sko Davíð ef þú gerir ekki eins og við segjum þá setjum við þetta þannig upp að þú sért að gera upp gömul mál. Fáum Hallgrím Helga til að skrifa innihalds litla pistla um hatur þitt á Baugsmönnum."

"Já, þið verðið að gera það sem þið teljið rétt Þorsteinn Már. Ég geri það sem mér ber, og það er að huga að skattgreiðendum og efnahagnum í heild. Þið gerið það sem ykkur finnst rétt til að réttlæta eigin mistök."

"Ok Davíð ef þú gerir þetta ekki á okkar forsemdum þá er fjandinn og Hallgrímur laus."

"Ok Þorsteinn Már your the Boss"

Það er mín bjargfasta skoðun að þetta hafi farið svona fram

ASE (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 01:22

17 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Frábær grein hjá Hallgrími og ég er sammála honum um margt, meðal annars það að Geir Haarde er algjörlega sviplaus ráðherra í þessu máli, sem og mörgum öðrum. Hann mætir fréttamönnum með hroka, svarar í raun engu af því sem hann er spurður um og kemur í raun fram við íslensku þjóðina, eins og okkur komi ekkert við hvað er að gerast í ríkisfjármálunum. Við erum bara þreytandi lýður sem öskrar á svör..... sem hann hefur ekki.

Lilja G. Bolladóttir, 30.9.2008 kl. 02:28

18 Smámynd: Tína

Ætla að láta mér nægja Jenný mín að senda þér knús og óska þér góðs dags.  Það getur nefnilega ekki annað verið en að e-ð gott verði við hann.

Tína, 30.9.2008 kl. 07:09

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég tók enga sérstaka afstöðu með eða á móti því sem Hallgrímur segir en það er amk. sjónarhorn sem má ræða.

Kannski er sannleikskorn þarna að finna, er það ekki möguleiki?  Ég veit það ekki.  Þegar logið er hægri vinstri þá fer maður að verða ansi nojaður svo ekki sé meira sagt.

ASE: Takk fyrir falleg orð og það er öllum velkomið að blogga í mínu athugasemdakerfi og helvíts bömmer er að vera ekki sjónvarpsstöð.  Ég er amk. fjölmiðill.

Múha.

Hef ekki tíma til að svara ykkur að svo stöddu, er bissí í barnapössun.

Úje.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.9.2008 kl. 11:18

20 Smámynd: Mofi

Svakalega góður punktur hjá HH. Gaman að vita hvað er mikið til í þessu hjá honum, það sem er á hreinu er að þetta allt saman lyktar afskaplega illa.  Ég spyr líka eins og fleiri, hvernig stendur á því að samskonar aðgerðir sem hafa verið í umræðunni í Bandaríkjunum voru í opinni umræðu og þurfti að fara fram fyrir þingið en hérna þá eru engar umræður, aðeins ákvarðanir; ekkert þing og enginn forsetisráðherra, aðeins seðlabankastjóri.

Mofi, 30.9.2008 kl. 12:17

21 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Góð grein hjá HH. Hann er bara snilli maðurinn og ekki bara í þetta skiptið. Góður punktur með nojuna, hún er alsráðandi þegar enginn segir satt. En það þýðir ekki að maður hafi ekki rétt fyrir sér.

Rut Sumarliðadóttir, 30.9.2008 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.