Leita í fréttum mbl.is

"I love you to death"

domestic_violence6_1 

Mikið skelfing er ég ánægð með að til skuli vera meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn.  Meðferð sem er fyrir karla og veitt af körlum.  Nafnið er töff, "karlar til ábyrgðar.

Ég get hins vegar ekki verið alveg sammála skýringunni sem verkefnastjórinn gefur á heimilisofbeldi.  Að gerandinn sé hræddur við að missa þann sem honum þykir væntum og beiti þess vegna ofbeldi.

Ég hélt að þessi hugmyndafræði um að þeir sem hafi átt erfiða æsku geri þetta og hitt þess vegna væri dottin út enda vita gagnslaus að mínu mati.

Ofbeldismaður beitir ofbeldi af því hann hefur einhvers staðar á leiðinni tekið ákvörðun um að gera það.  Hann velur að beita ofbeldi í samskiptum inni á heimilinu í staðinn fyrir að beita eðlilegum úrlausnaleiðum og hann sér ofbeldi sem leið til að fá sínu framgengt og hafa hlutina eftir sínu höfði.

Málið er svona einfalt.  Algjör óþarfi að flækja það með hryllingssögum úr æsku.

Við alkar getum endalaust drukkið út á alls kyns harma frá því við komum í heiminn og fram til dags dato og auðvitað gerum við það áður en við erum tilbúnir til að taka á vandanum.   

En ég er á því að það sé algjört krapp og búllsjitt.  Nær væri að taka ábyrgðina á gjörðum sínum og taka á vandamálinu sem slíku.

Merkilegt með suma af þessum "örvæntingarfullu" konulemjara hvað þeir virðast samt hafa mikla stjórn. Konan er t.d. oft slegin víðs vegar um líkamann, en ekki þar sem sést.  Ofbeldismaðurinn beitir aldrei ofbeldi í öðrum samskiptum amk. í flestum tilfellum hefur það reynst svo.

Ég endurtek að mér finnst þessi hópur fínt framtak og það hefur svo sannarlega vantað meðferðarhópa og önnur úrræði fyrir þá sem beita ofbeldi heima hjá sér, ég er ekki að gera lítið úr því.

Málið er að flest okkar búa að sárri reynslu frá hinum ýmsu tímabilum í fortíð.  Spurningin er bara hvort við notum þá reynslu til að réttlæta vonda hegðun og til þess að geta viðhaldið henni ögn lengur.

En að því sögðu, þá óska ég körlum til hamingju með þetta framtak.

 


mbl.is Berja konurnar af örvæntingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Ég held einmitt að stór hluti þeirra sem að berja konurnar sínar sé að því að þetta var liðið á þeirra æskuheimili og það sé það sem að þeim finnist eðlilegt. En ég er ekki að segja að það eigi við alla, bara hluta af þeim. Og að menn séu að berja konurnar sínar svo að þær fari ekki frá þeim, er það ekki oft þannig að konur sem lifa í slíku sambandi/hjónabandi þær láta sig þola það af hræðslu og kannski búið að heilaaþvo þær með því að þær eigi ekkert betra skilið, að þær séu einskis virði ???

Veit ekki annars, finnst bara hræðilegt þegar svona er. Hef hjálpað konum að komast úr svona samböndum og farið með þær í kvennaathvarfið og verið þeirra stoð og stytta og ekki hafa þær lent í slíku sambandi afutr, sem betur fer.

Vonandi gerir þessi meðferð a.m.k. eitthvað gagn og vonandi sækjast þessir menn eftir hjálp. Heimilisofbelti er skelfilegur hlutur hvort sem að ofbeldið er líkamlegt eða andlegt.

Eigðu annars góðan dag Jenný mín og njóttu sólarinnar.

Linda litla, 30.7.2008 kl. 10:03

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Nefnilega! Einhversstaðar í ferlinu er tekin ákvörðun um að beita ofbeldi! PUNKTUR

Hrönn Sigurðardóttir, 30.7.2008 kl. 10:11

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þessir menn vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera og eru ótrúlega lunknir við að sjá út konur með brotið sjálfsmat sem láta bjóða sér þetta. Þeir snúa sér örsjaldan að sterkum og sjálfstæðum konum. Eins og þú segir berja þeir þannig að áverkarnir séu faldir. Annað er að þótt þeir séu búnir að leggja allt í rúst í íbúðinni eru sjónvarpið og hljómflutningstækin alltaf látin í friði. Þeirra uppáhaldseigur.

Helga Magnúsdóttir, 30.7.2008 kl. 10:44

4 Smámynd: Laufey B Waage

Ertu viss um að gerandinn hafi einhvers staðar á leiðinni tekið ákvörðun um að berja? Ég hefði frekar haldið að verknaðurinn sé hömluleysi, kannski komið til að því að hann tók ekki meðvitaða ákvörðun einhvers staðar á leiðinni, um að gera þetta aldrei.

Ég hef trú á að 12 spora leiðin virki á þetta, eins og svo margt annað.  

Laufey B Waage, 30.7.2008 kl. 10:46

5 identicon

Ég held að það sé engin "punktur" útskýring á þessu. Ég held að það sé mikið til í það sem bæði Jenný og verkefnastjórinn eru að nefna. Auðvitað þarf að taka ákvörðun um ofbeldi eins og flest annað en samt getur ástæðan á bak við ofbeldið verið að viðkomandi er hræddur við að missa makann úr lífi sínu vegna þess að hann hefur ekki stjórn á sambandinu eða ástandinu. Ég held að í mörgum tilfellum sé um hræðsluáróð að ræða en ekki löngun til þess að meiða eða slasa. Þetta er að minnsta kosti eitthvað sem þeir hafa greinilega greint á spjöllum sínum við þá menn sem hafa leitað til þeirra. Kannski eru hinir "slæmu" ofbeldismenn (glæpamenn) ekki að leita sér hjálpar heldur halda þeir áfram að meiða og slasa. Eins og ég segi, þá held ég að það sé engin ein ástæða eða lausn á þessu. Punktur :)

Grétar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 10:46

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ástæðurnar eru örugglega eins margar og ofbeldisfólkið og ein af þeim er alveg ábyggilega sú að það hefur alveg gleymst að taka ákvörðun um að beita ekki ofbeldi, aldrei !

Jónína Dúadóttir, 30.7.2008 kl. 11:21

7 identicon

Er sammála Laufey og fréttinni að mestu. Held að þessir menn séu að nota ofbeldið vegna þess að þeim voru ekki kenndar aðrar aðferðir til að leysa málin í uppvextinum og fyrirmyndir í karlmannsmynd verið slæmar.

kona (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 11:36

8 identicon

Það er allavega jákvætt að það sé verið að leita að orsök (ef einhver er) þessa ofbeldis. Vonandi er þá hægt að reyna að fyrirbyggja heimilisofbeldi að einhverju marki.

Þú talar um val Jenný og hljómar eins og besti frjálshyggjustuttbuxnastrákur. En því hefur margoft verið slegið fram að einstaklingur sem verður fyrir misnotkun í æsku beitir aðra misnotkun. Það hlýtur að benda til að einhver brenglun eigi sér stað í þroskun einstaklingsins. Hvort svipað geti átt sér stað hjá þeim sem beita maka ofbeldi veit ég ekki um en finnst alveg þess virði að rannsaka það.

Karma (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 11:43

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það er ljótt að lemja, það var mér kennt og aldrei hef ég verið lamin fyrir utan þennan eina herstöðvarandstæðing sem sparkaði í mig á 17.júní hátíðarhöldunum í Noregi 1974, vegna þess að ég var ekki á mót Nató,  viðurkenni fúslega að það hefur haft áhrif á skoðanir mínar á mótmælendum alveg síðan þá og mun lifa með mér alla tíð, svona geta atburðir í fortíðinni haft mikil áhrif inn í framtíðina.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.7.2008 kl. 11:49

10 Smámynd: Hin Hliðin

Lykilsetningarnar í þessari ræðu hjá þér eru: að mínu mati og ég get ekki verið sammála.

Það er félagsfræðingur sem setur þetta fram og við bara verðum að gera ráð fyrir því að hann viti hvað hann er að segja.

Annað.  Að halda því fram að ofbeldismaður hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að beita ofbeldi inni á heimili sínu í stað þess að leita annara úrlausna er bara barnalegt.  Það er örygglega í fæstum tilfellum meðvituð ákvörðun hjá þeim sem haga sér svona gangvart sínum nánustu enda eru menn samkvæmt fréttinni að leita sér aðstoðar.

Hin Hliðin, 30.7.2008 kl. 12:04

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hin hliðin: Ég er ekki sammála því að einungis vegna þess að einhver er sálfræðingur, félagsfræðingur eða með annað fagheiti þá séu kenningar þess sama óumdeilanlegar.

Það er ekki barnalegt að gera ráð fyrir að ákvörðun um að beita ofbeldi hafi á einhverjum tímapunkti verið tekin, einfaldlega vegna þess að viðkomandi hefur oft algjörlega stjórn á ytri aðstæðum.  Svo sem að engin vitni eru til staðar, ofbeldið er á líkama þar sem ekki sést osfrv.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 12:19

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Gott fólk ég er ekki að gera lítið úr því að sá sem upplifir ofbeldi sem samskiptamáta í ættu og verður jafnvel fyrir því líka sé ósnortin af því.  En ég bendi á að stór hluti fólks endurtekur ekki óæskilega hegðun annarra. 

Skoðun mín er á ekkert skylt við frjálshyggju en það er fyrsta skref í "bata" að viðurkenna vandann og taka ábyrgð á honum.

Einfalt mál.  Það skilar engu að leita sífellt í ytri aðstæður eftir skýringum á því hvernig maður hegðar sér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 12:21

13 Smámynd: Hin Hliðin

Vissulega er það ekki sjálfgefið að þó að einstaklingur sé menntaður þá séu kenningar viðkomandi óumdeilanlegar.  En, kenningar menntaðs manns, sem vinnur við það sem hann menntaði sig í, eru samt sem áður meira marktakandi en kenningar miðaldra konu, sem hefur ekkert annað til málana að leggja en "mér finnst".

Það er kannski ekki barnalegt að halda því fram að ákvörðun sé löngu tekin um að beita ofbeldi, en það er asnalegt.  Það eru örugglega dæmi þess að maður hugsi með sér þegar hann er á leiðinni heim eftir erfiðan vinnudag "ég ætla að berja konuna mína í kvöld" en það er án efa mun sjaldgæfara en hitt.

Það er bara fullt af fólki sem á erfitt með að stjórna tilfinnungum sínum og vinna úr þeim á eðlilegan máta og það fólk á bágt.  Það að halda því fram að allir sem beita ofbeldi geri það meðvitað, hjálpar þeim ekki sem eiga í erfiðleikum og vilja aðstoð við að vinna úr þeim erfiðleikum.

Hin Hliðin, 30.7.2008 kl. 12:35

14 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hin hliðin: Vann með fórnarlömbum ofbeldis til margra ára og hverju breytir að ég er það sem þú kallar "miðaldra"?  Eru minni líkur á vitneskju af einhverju tagi eftir því sem við eldumst?

Sýndu af þér málefnalegheit.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 12:39

15 Smámynd: Steinn Hafliðason

Ég get nú ekki ímyndað mér að venjulegt fólk sem beitir heimilisofbeldi geri það eftir meðvitaða ákvörðun. Ég tel að þetta sé frekar útrás fyrir tilfinningar sem viðkomandi ræður illa við og kann ekki að vinna úr.

Ég átti einu sinni gott samtal við vin minn sem var ofbeldismaður þar sem hann tjáði mér að aldrei hefði honum liðið eins illa á ævinni eins og þegar hann var búinn að berja einhvern sem honum þótti vænt um. Í dag hefur þessi maður lært að tjá tilfinningar sínar á annan máta í gegnum ofbeldi en hann þurfti til þess smá hjálp og það er algjör fjarstæða að hann hafi gert það eftir meðvitaða ákvörðun.

Ég hef líka séð börn og unglinga eyðileggja það sem það þótti vænst um af dótinu sínu í reiði sinni. Þau gerðu það yfirleitt ekki fyrir framan aðra heldur sá maður ummerkin oftast eftir á. Þetta er líka útrás fyrir tilfinningar þar sem ráðist er á það sem fólki þykir vænst um.

Ég er ekki sálfræðingur eða félagsfræðingur og kann ekki almennielga að skýra þetta fyrirbæri en ég held að ofbeldi þar sem ráðist er á það sem fólki þykir vænst um sé ekki skipulagt fyrirfram eða tekin um það meðvituð ákvörðun nema hjá afar fáum manneskjum.

Steinn Hafliðason, 30.7.2008 kl. 12:52

16 Smámynd: Dísa Dóra

Auðvitað er það ákvörðun hvort maður beitir ofbeldi eða ekki.  Hvort sem ákvörðunin er fyllilega meðvituð eða ekki þá er hún samt sem áður ákvörðun einstaklingsins.  Það hvort þú beitir ofbeldi eða ekki er fyllilega ákvörðun og á ábyrgð þess sem betir ofbeldinu.

Það að þessir einstaklingar kunni ekki að tjá tilfinningar sínar og annað sem sagt er er hins vegar afsökun fyrir gjörðinni.  Á undan gjörðum okkar kemur alltaf ákvörðun.   

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 14:26

17 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Loksins erum við sammála um eitthvað :)

Mér finnst það líka fráleitt að kenna fortíðinni um eitthvað sem þú gerir, en ég held það sé enginn að segja að það í lagi.

Ástæðan fyrir ofbeldi er dýrslegt hegðunarmynstur annarsvegar og reiði (egó) hinsvegar: þá að ofbeldismenn eru fullir af reiði og lélegu sjálfstrausti, þeim finnst þeir stöðugt þurfa að sanna sig og stöðu sína fyrir öðrum. Þetta gera þeir með því að gera lítið úr öðrum með ýmiskonar hætti, allt til þess að vera 'top-dog' eins og það er kallað, eða 'sterkara dýrið'.

Þetta er ekki mín kenning, heldur mín túlkun á því hvernig Búddismi tekur á tilverustigum: dýrshneigðar og reiði.

Viðar Freyr Guðmundsson, 30.7.2008 kl. 14:26

18 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Mér finnst mest mikilvægt að allir viti að þeir sem kunna ekki að hemja sig og nota ofbeldi eru veikir.  Það gerir þá veika engan annann.

Aumingjaskapur á hæsta stigi.  Ég sé það mjög vel núna.   

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 30.7.2008 kl. 14:39

19 Smámynd: Dísa Dóra

En Viðar búddisminn kennir okkur einnig að við berum fullkomlega ábyrgð á okkar gjörðum og að við eigum að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum.  Hver er virðingin þegar ofbeldi er beitt?

Dísa Dóra, 30.7.2008 kl. 15:06

20 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir góða umræðu öll.

Viðar: Þar kom að því að við urðum sammála.  Sko okkur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 16:47

21 Smámynd: Viðar Freyr Guðmundsson

Dísa Dóra: Það er rétt! Karma í búddisma snýst nákvæmlega um þetta, þú tekur ábyrgð á öllu sem gerist í lífi þínu, þú sættir þig við lögmálið um orsök og afleiðingu.

En æðsta takmark búddista í jarðlífinu er að hjálpa öðrum að losna undan þjáningu og til þess þarf: hugrekki, visku og samúð. 

Viðar Freyr Guðmundsson, 30.7.2008 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.