Leita í fréttum mbl.is

Að blogga nafnlaust!

Ég er hugsi.  Hm... var að horfa á fína umfjöllun í Íslandi í dag og nafnlausa bloggara.  Og hinsegin líka reyndar.

Ljótu athugasemdirnar sem koma undir nafni þekki ég vel, bæði í mínu kommentakerfi og annars staðar.  Samt vil ég ekki loka fyrir óskráða bloggara, því margir sem eru ekki með Moggablogg koma oft með skemmtileg innlegg í umræðuna.

En, það er ekki eins og maður sé stráheilagur svo sem, undir nafni og allt.  Það er ágætt að fá svona áminningu í formi umræðu.

Á að blogga nafnlaust?  Það er erfið spurning.  Sumir kjósa að blogga nafnlaust og eru engan að meiða, hafa bara sínar ástæður fyrir nafnleysinu.  Ef Mogginn myndi t.d. banna nafnleysingja, þá hyrfi fullt af fínum bloggurum.

En svo eru það þeir sem í skjóli nafnleysis láta vaða á síðunum sínum, í kommentakerfum og þeir vita sem er, þrátt fyrir að hægt sé að rekja ip-tölur þá er það ekkert í hendi.  Ég held að það þurfi dómsúrskurð.

Hm.. hvað finnst fólki?

Með og á móti, komasho.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Guðmundsdóttir

Finnst ad fólk verdi ad ráda thvi hvort thad bloggi nafnlaust..en skitakomment i SKJÓLI nafnleyndar fíla ég ekki  og thad á annara manna sídum. Ef madur er ad vidra skodanir sinar á annara manna bloggi thá finnst mér lágmarks kurteisi ad gera thad undir nafni.

Eigdu góda viku   

María Guðmundsdóttir, 21.4.2008 kl. 19:47

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég hef oft gagnrýnt nafnleysingjana og storkað þeim, en aftur á móti þótti mér þessi umfjöllun Íslands í dag skrítin. Það sem vitnað var í DockorE fannst mér tiltölulega saklaust og í mesta lagi harðorður dómur um frammistöðu hans sem prestur. Það vottaði ekki fyrir meiðyrðum í því sem vitnað var í og birt á skjánum.

Alls ekki kom í ljós í umfjölluninni hvort DoctorE ætti einhver ummæli um séra Svavar Alfreð sem laut að einhverri meintri kynhneigð. Var það DoctorE?  

Friðrik Þór Guðmundsson, 21.4.2008 kl. 19:50

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hef ekki aðra skoðun en þá að fólk verur að fá að ráða hvernig það kemur fram, ef ég vil ekki lesa hjá viðkomandi þá bara geri ég það ekki og ég þarf ekki að vera með kommentaskítkast á aðra, fæ ekkert út úr því.  En kurteisi er ávallt af hinu góða.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2008 kl. 19:57

4 Smámynd: Rebbý

auðvitað á að leyfa okkur að tjá okkur í nafnleyndinni en skil samt að það sé erfitt að eiga við þá sem ekki kunna sig og geta komið fram með skoðanir án skítkasts

Rebbý, 21.4.2008 kl. 20:05

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mér fyndist fúlt ef lokað yrði á alla nafnlausa bloggara, margir eru stórfínir og hafa eflaust sínar ástæður fyrir nafnleyndinni. Mér finnst oft gaman að DoctorE og hef séð skemmtilegar færslur eftir Svavar þótt ég lesi þessa tvo ekki nógu reglulega. Veit ekki hver var með þessar hrikalegu ásakanir á hendur Svavari, sem komu fram í fréttinni, það var alla vega ekki DoctorE.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 21.4.2008 kl. 20:06

6 Smámynd: Gulli litli

Sýnum umburðarlyndi!

Gulli litli, 21.4.2008 kl. 20:07

7 Smámynd: AK-72

Ég er á því að nafnleysið skipti ekki máli á meðan maður reynir að vera málefnalegur í skrifum sínum svona almennt séð og innihaldið skipti mestu máli en ekki hver er á bak við það. Ég kaus t.d. það að vera nafnlaus í heiti bloggsins út af ýmsum ástæðum þó nokkrir bloggvinir mínir viti alveg deili á mér. Ég er reyndar ekki heldur viss þessa daganna um að ég viji endilega birta skrif mín undir nafni því þar sem ég hef veirð að taka málstað innflytjenda og múslima í umræðu, þá eru ýmsir svo hefituðugir og hatursfullir að síminn gæti ekki þagnað á næturnar miðað við t.d. hvatningu sömu aðila um aðkast í garð Salmanns Tamini fyrir það eitt að vera sáttur við að bloggi Skúla Skúlasonar hafi verið réttilega notað að mínu mati

Ég skil röksemd fólks um að það vilji vita deili á þeim sem gagnrýnir það en það á ekki að vera aðalatríðið heldur innnihald ibloggs og athugasemda. Það verður því aldrei annað en útúrsnúningur eða að menn hafi einhvern vondan málstað að verja, ef fólk tekur ekki málefnalegri gagnrýni heldur notfærir sér nafnleysi gagnrýnanda til að segja að hann sé ekki marktækur eða fjarlægir athugasemdir.

Rámar reyndar í að ég hafi fyrir einhverju síðan skrifað blogg um þessa afstöðu mína vegna  þessarar umræðu sem fer regulega um bloggheima líkt og umræður um vonsku innflytjenda og múslima. 

AK-72, 21.4.2008 kl. 20:13

8 Smámynd: Hundshausinn

Í raun er engin[n] nafnlaus á bloggsíðunum. Í fyrsta lagi gefa flestir upp eigið nafn, í öðru lagi vísbendingu um hverjir þeir eru, í þriðja lagi er að því er virðist augljóst nafn hreinn tilbúningur og í sjötta lagi er ekkert einfaldara en að rekja "nafnið" til ákveðinnar tölvu á ákveðnum stað. Kunnáttan felst einfaldlega í að slá inn tiltekna slóð á Netinu, sem er öllum opin og aðgengileg. Þar má sjá nafnið og heimilsfangið - volla, ef áhugi er fyrir hendi. Að öllum líkindum er viðkomandi auk þess í símaskránni, ja.is. Að telja þörf á að verja rándýrum tíma fjölmiðlis um "nafnleynd bloggara", verður að teljast hæpin fjárfesting.... 

Hundshausinn, 21.4.2008 kl. 20:15

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hef ekkert á móti nafnlausum bloggurum svo fremi þeir komi fram af heiðarleika.  Skítkast er óþolandi og þá er gott að geta lokað á viðkomandi.  Segja fólki einfaldlega að vera úti.

Verð að viðurkenna að ég samþykki ekki alltaf nýja bloggvini, jafnvel þó þeir skrifi undir fullu nafni.  Sérstaklega ekki þá sem eru að byrja að blogga.  Vil fylgjast aðeins með síðu viðkomandi áður en ég samþykki eða hafna.  

Ía Jóhannsdóttir, 21.4.2008 kl. 20:41

10 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Ég fékk skilaboð á gestabókina á síðu sem ég hef haldið úti,en þessum skilaboðum fylgdi lestur sem var á gráu svæði að vera ærumiðandi þó sumir segi hann sannleika en viðkomandi skrifari var kærður og fékk dóm þriggja ára skilorðs dóm í tvö ár.

Guðjón H Finnbogason, 21.4.2008 kl. 21:05

11 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég er á móti bönnum! Þau leiða alltaf af sér eitthvað annað og verra en upphaflega var bannað......

Mér er nokk sama þó fólk bloggi nafnlaust. Ég sé það fljótlega á skrifum fólks hvort ég nenni að lesa það eður ei!

Hrönn Sigurðardóttir, 21.4.2008 kl. 21:20

12 Smámynd: Þröstur Unnar

Jebb. Sammála Hrönn.

Þröstur Unnar, 21.4.2008 kl. 21:31

13 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Líka sammála Hrönn.

Jónína Dúadóttir, 21.4.2008 kl. 21:35

14 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Eitt í þessari umræðu í Íslandi í dag var sú staðreynd að ef einhver fer inn á þína/mína síðu og gerir athugasemdir við bloggið þitt/mitt að þá er sá sem á síðuna ábyrgur fyrir skrifunum þar inni. Með það í huga þarf viðkomandi bloggari að vera á vaktinni stanslaust eða að loka fyrir athugasemdir. Ef ég væri í þeirri stöðu að þurfa að taka út skrif af blogginu mínu ja við skulum segja nær daglega vegna athugasemda sem mér finnast ekki standast þau mörk sem snúa að mér persónulega og öðrum jafnvel, ærumeiðandi, þá væri betra að loka fyrir athugasemdir.

Edda Agnarsdóttir, 21.4.2008 kl. 21:50

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Frábærar umræður hérna.

Ég hef aldrei lesið prestinn nema á hundavaði, veit ekkert hver hefur verið að níða af honum skóinn.

En það er örugglega rannsóknarefni fyrir fólk sem hefur áhuga á skítkasti í athugasemdakerfum að lesa athugasemdir hjá mér sem beinast að persónu minni, þegar ég skrifa um ákveðin málefni.

Ég ítreka að ég vil ekki láta banna að fólk bloggi nafnlaust, á marga svoleiðis uppáhalds.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.4.2008 kl. 21:57

16 identicon

Sko sagt að hann sé ásakaður um barnagirnd og svo vaðið í mitt blogg án frekari útskýringa, sýndur texti frá mér algerlega óviðkomandi barnagirnd.
Ég hef skrifað um marga barnaperrapresta en ekki minnist ég þess að hafa sagt Svavar vera einn slíkan.

Mér fannst þetta allt saman mjög svo aulalegt, þarna sat Svavar og lýsti yfir einhverri allsherjar kínverskri öryggisneteftirlitssveit eða eitthvað álíka.
Næsta sem gerist er líklega að allir verða að ganga með ljósaskilti á hausnum með nafni og kennitölu, og jafnvel trúfélagi svo hægt sé að vita hvaða lögum hver og einn eigi að fara eftir.
Við sjáum jafnvel prestslöggur með sírenukrossa/blah á gangi um bæinn með heiðingja detektor
It could happen ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 21:57

17 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hallgerður hér er ekkert umburðarlyndi fyrir skítkösturum, en það er auðvitað hart ef þeir sem af einhverjum ástæðum blogga nafnlaust og engan meiða, geta það jafnvel ekki vegna klikkhausana.

Ég veit ekki nógu mikið um DoktorE til að vera dómbær á hvort hann gengur of langt (sorrí DE, er oftast á hröðum flótta undan trúarbloggum (og trúleysis) þó ég bloggi um það sjálf.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.4.2008 kl. 22:17

18 Smámynd: Linda litla

Ég blogga og er með mynd og nafn og meira að segja milu meiri upplýsingar um mig s.s. hvar ég bý, nöfn barnanna, heimili þeirra... ýmilslegt fl. er búin að blogga í einhver 5-6 ár og hef aldrei bloggað' undir nafnleynd. Samt sem áður er mér sama hvort að fólk bloggi undir nafnleynd eður ei, það er þeirra að velja. Finnst reyndar meira um að ef að fólk er að setja út á eitthvað hjá manni, skammast í manni eða segja mann fífl eða fávita kommenti/bloggi undir nafnleynd.

Það er frjálst á mínu bloggi hverjir kommenta, allir mega það og ég tek ekkert út, við höfum öll rétt á að hafa skoðun hvort sem við heitum eitthvað eða ekki.

Linda litla, 21.4.2008 kl. 22:22

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hallgerður: Sá ekki fyrra kommentið þitt.  Ég hef líka orðið fyrir ljótum árásum undir nafni, þannig að það er svo sem engin trygging.  Svona ógeð eins og þú ert að segja frá, eiga auðvitað að vera á Hveravöllum.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.4.2008 kl. 22:28

20 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þeir sem kommenta með skítköstum lýsa oft sjálfum sér bezt - finnst mér! Um að gera að láta þau komment standa!

Hrönn Sigurðardóttir, 21.4.2008 kl. 22:29

21 Smámynd: Þröstur Unnar

Hveravöllum.  Ekki til í dæminu, allt upptekið þar.

Sammála Hrönn.

Þröstur Unnar, 21.4.2008 kl. 22:39

22 identicon

Mér finnst ekkert að því að blogga nafnlaust svo lengi sem það er ekki niðrandi eða særandi. Mengella var nú þarna í kvöld, og mér finnst þetta nú bara vera feiminn strákur sem skýlir sér á bak við netið.  Blogg Mengellu var nú oft vel yfir mörkunum.

En við eigum ekki að þurfa að ritskoða allt sem fer a netið, fólk á bara að haga sér og hana nú.

Guðrún B. (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 22:51

23 Smámynd: Garún

Mér finnst gaman að fólk þekki mig...Ég heiti réttu nafni Guðrún Daníelsdóttir, kölluð Garún og er stolt afþví að þú ert bloggvinur minn. 

Takk fyrir að segjast hafa saknað mín.....

Garún, 21.4.2008 kl. 23:03

24 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég hef tekið eftir því undanfarið eftir að ég fór að tengja bloggið mitt við fréttir og fleirri nafnlausir að koma inn á bloggið fyrir vikið að, það sem þeir sem tjá sig ekki undir mynd og nafni eru miklu harkalegri í orðum sínum og hleypidómum en hinir venjulegu bloggarar. Ég hef nú samt aldrei strokað neinn út hingað til því mér finnst orð þeirra yfirleitt dæma sig sjálf og kemur það á daginn að síðar meir þegar þriðja auga horfir að þeir sem tjá sig ekki undir mynd og nafni eru sér oftst til skammar. 

NOTA BENE... Mér finnst margir nefnilega mjög skemmtilegir og jákvæðir sem tjá sig EKKI undir nafni. 

Brynjar Jóhannsson, 21.4.2008 kl. 23:07

25 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er á móti boðum & bönnum, einhverri Vinstri Grænni Vænni beturvitandi forræðishyggju, netlögguhugmynd nafna, & á einhverja ágæta nafnleysíngja af bloggvinum, enda hef bloggað um þetta sjálfur.

Í kvöld var nú bara einn alvöru bloggari í viðtali & eitt vorkunnarver ósjálfundirstandandi einræðu smáblóm.

Jafnmikið & mér leiðist sífellt einelti þessarar DoctorE persónu í garð allra okkar kristilega trúaðra, & virði nú frekar séra Svavar & hans bloggfærslur, þá amast ég ekkert við nafnleysi hans eða bloggmali, & virði rétt hans til blogga á meðan út fyrir lagarammann sé ekki stigið.

Blogg snýst nefnilega um að þora að koma fram með sínar skoðanir & geta tekið umræðum um þær, með eða á móti, innan einhverra velsæmismarka.  Ef yfir þau er stigið, eru tæki & tól til að takmarka aðgang að sínu athugasemdarkerfi, & í versta falli, þá er nafnleysíngjinn aldrei nafnlaus ef í hart fer.

Meiri skræfur en þeir nafnlausu, eru nefnilega þeir sem að þykjast blogga en loka fyrir athugasemdir um sína einu réttu skoðun á sinni einvirku heimasíðu sem að þeir kalla bloggerí, af því að þeirra framsetníng þarf ekki athugasemda við, því hún er alltaf rétt.

Steingrímur Helgason, 21.4.2008 kl. 23:09

26 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Garún: Ég saknaði þín auðvitað sárlega

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.4.2008 kl. 23:46

27 Smámynd: Heiða  Þórðar

Veistu Dúfan mín; hef sáralitla, ogguponsu sem enga skoðun á þessu eða þannig.

Heimsæki bara mitt lið og búið. Allir undir nafni og mynd.

Heiða Þórðar, 21.4.2008 kl. 23:49

28 Smámynd: Bara Steini

Sorry... ég Heiti Bara Steini... Vona að ég sleppi fyrir horn...En nafnlausir blogga oftar en ekki snilldarlega þanninig að ég læt það ekki hafa áhrif á mig...

Bara Steini, 22.4.2008 kl. 00:03

29 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Mér persónulega finnst verst að fá athugasemdir sem eru ekki tengd neinu bloggi. Maður les svo mikið úr blogfærslum hjá fólki. Nafn segir mér nákvæmlega ekkert, það gæti verið lygi eða gælunafn, plús ég þekki ekkert alla á íslandi með nafni. Nafn fyrir mér er ekkert örðu vísi en nickname.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 22.4.2008 kl. 00:09

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nafn eða nafnleysi skiptir ekki  máli fyrir mér.  En það liggja nokkrar ástæður fyrir því að fólk vill dyljast, ein er að bæði atvinnurekendur og stjórnvöld, sum hver þola ekki að fá gagnrýni,þó þetta eigi að vera lýðræðisríki, þá erum við oft á tíðum ekkert betri en Kínverjar, þegar allt kemur til alls.  Ég þekki fólk sem hefur misst vinnuna vegna þess að það hefur sagt eitthvað, eða tekið þátt í stjórnmálavafstri sem var ráðamönnum ekki að skapi.  Ég veit líka að atvinnurekendur hafa hótað fólki ef það fer af hinni mjóu braut.  Svo það er skiljanlegt ef fólki vill tjá sig um erfið mál, að það vilji gera það undir nafnleysi.  Hitt er svo önnur Ella, þegar fólk beinlínis er í feluleik til að ata annað fólk auri, og fá útrás í persónulegu skítkasti út og suður.  En í líkum tilvikum, þá slettist mest á það fólk sjálft sem þannig hagar sér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.4.2008 kl. 00:42

31 Smámynd: Karl Ólafsson

Einu skiptin sem ég freistast til að setja inn athugasemdir á blogg annarra undir dulnefnum er ef ég er að tjá mig um efni sem ganga nærri mér persónulega. Ég hef ekki farið út í að opna mikið inn á mín einkamál undir nafni.

Doktorinn getur verið beittur og skemmtilegur penni, en hann á það því miður til að missa sig. Heittrúaðri mann er vart að finna í bloggheimum, nema ef vera skyldu Zeriaph, Mofí og Jón Valur. Doktorinn er í flokki með þeim hvað varðar trúarsannfæringu, þó ekki sé hann í sama trúfélagi og neinn þeirra. Sannfæring hans fyrir trú sinni er engu minni og sannfæring hans um skaðsemi allra annarra trúarbragða nálgast vænisýki.

Ég hef Doktorinn grunaðan um að nota annað nafngreint blogg. Sá nafngreindi bloggari skrifaði nefnilega fyrir nokkrum vikum athugasemd inn á færslu hjá Doktornum, eins og um væri að ræða hans eigið blogg. Ef maður ber saman færslur þess manns og Doktorsins, þá er stílbragð þeirra ekki ósvipað, boðskapurinn og sannfæringin nákvæmlega sú sama, en heiftin oft á tíðum meiri og meira látið vaða á súðum hjá Doktornum. Það er eins og hann sleppi fram af sér beislinu nafnlaus, eins og því miður of mörgum hættir til að gera hér í bloggheimum. En það er hans mál.

Ég hef ekki átt mikil samskipti við Doktorinn. Ég hef ekki nennt að standa í þrasi við hann frekar en ég mundi nenna að standa í þrasi um trúmál við hina þrjá sem ég taldi upp. En eitt sinn fékk ég hann í heimsókn til mín. Það var þegar ég setti inn færslu með titlinum "Guð er til". Nokkuð örugg tálbeita fyrir Doktorinn að setja inn slíkan titil, þó ekki hafi það verið ætlun mín, enda erum við Doktorinn ekki mjög ósammála um það atriði hvort persónugerður Guð (sá Guð sem lýst er í Biblíunni og boðaður er af kirkjunni) sé til eða ekki. Hins vegar náði Doktorinn því miður alls ekki 'pointinu' í færslunni.

Bottom line, það er engin ástæða til að loka fyrir nafnlaus blogg. Blogghöfundar eru á skrá og það á að vera hægt að ná til þeirra ef á þarf að halda. Óskráða athugasemdaritara er erfiðara að finna, en þó ekki ómögulegt. Þeir sem stunda persónuníð og skítkast með óskráðum athugasemdaskrifum inni á síðum bloggara eru oftar en ekki frekar daprir einstaklingar sem afhjúpa aðeins eigin heimsku með skrifum sínum. Ósköp eðlilegt að slíkt fólk vilji ekki koma fram undir réttu nafni. Að sjálfsögðu gildir þetta ekki um alla óskráða, sem betur fer.

Karl Ólafsson, 22.4.2008 kl. 00:48

32 Smámynd: krossgata

Auðvitað á ekki að loka fyrir gælunafnablogg(ara).  Það myndi þýða að það yrði lokað fyrir mig.    Ég sem er alltaf svo skemmtileg og indæl í alla staði, þegar ég er ekki í bloggletikasti.  Það er fullt af skemmtilegu, skynsömu fólki í báðum flokkum - því miður líka eitthvað af bloggsóðum í báðum flokkum líka.

krossgata, 22.4.2008 kl. 00:53

33 Smámynd: Þarfagreinir

Þetta er einfalt mál. Fólk ber ábyrgð á því sem það skrifar - sama undir hvaða nafni þar er skrifað. Orðin eiga að standa fyrir sínu, og eiga ekki að þurfa að láta langa ættartölu og skónúmer fylgja með til að ljá þeim meira vægi.

Níð og órökstudd rætni í garð nafngreindra persóna er eitt af því sem á aldrei að líðast - og vissulega grasserar slíkt betur í skjóli dulnefna, en þetta er nokkuð sem verður aldrei hægt að loka algjörlega fyrir, ekki frekar en annað ljótt á netinu - ekki einu sinni með netsíum a la Kína. Besta leiðin er auðvitað að stjórnendur síðna síi út þau skrif þykja sem fara yfir strikið - eins og gert hefur verið hér á Moggablogginu, og þar eru meira að segja ekki þeir sem skrifa undir sínu rétta nafni undanþegnir.

Punkturinn er alla vega að dulnefnin eru alls ekki rót vandans. Og já, þetta heita dulnefni/gælunöfn - ekki nafnleysi. Alvöru nafnleysi er þegar ekkert nafn eða persóna fylgir skrifunum. Mínum skrifum fylgir til að mynda nafn og persóna. Hvað með það þó það sé ekki sama nafn og ég er skráður undir í Þjóðskrá? Breytir einhverju að vita það? Nei, það breytir engu, nema fyrir þeim sem mig þekkja persónulega.

Annars 'gafst ég upp' á því að viðhalda algjöru dulnefni hér á Moggablogginu, enda kúltúrinn hér þannig að fólk skrifar frekar undir nafni, og hann virði ég. Hinir allra forvitnustu geta því smellt á 'Höfundarboxið' á síðu minni og svalað forvitninni.

Þarfagreinir, 22.4.2008 kl. 01:12

34 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Ég er soddan "danskur" í hugsunarhætti að ég er á móti boðum og bönnum. En mér finnst að fólk eigi að hafa það hugfast, að orðum fylgir ábyrgð, og ef til kastanna kemur, þá á fólk að geta staðið við það sem það sagði og kastaði fram í nafnleysi. Ef þú ert að setja fram þínar skoðanir, hvort sem er undir nafni eða nafnlaust, þá átt þú að vera nógu mikil manneskja til að geta staðið með þeirri skoðun þótt þú verðir afhjúpuð/afhjúpaður. Og það held ég að flestir nafnlausir bloggarar gætu ef þeir vildu, a.m.k. þeir sem ég hef nennt að eyða tíma mínum á. Verð þó að játa, að ég hef ekki nennt að lesa DoktorE, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki áhuga á þeim málefnum sem hann skrifar um - en gott mál að hann geti tjáð sig um þau engu að síður, með nafni eða án. I don´t give a shit....

Lilja G. Bolladóttir, 22.4.2008 kl. 01:30

35 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Æji þessi umræða er orðin frekar þreytt... eins og það er sama hvaðan gott kemur þá á það sama við um skítinn og fólk er orðið svo "Sue Him" þenkjandi að það hálfa væri nóg.

Önnur hver blaðagrein sem maður les er ómerkt og maður er hreint ekkert spurður að því hvort maður sé sammála innihaldinu. Og nú segir einhver "það er nú ábyrgðarmaður á blöðunum"...  en ég veit ekki betur en ef að einhver kærir sig um það að fara að hugsa eins og þeir í ameríkuhreppi þá megi komast að því hvaðan  sent er.

Svo mætti fólk bara fara að velta sér af naglanum til tilbreytingar. Fari pistlar einhverra í mínar fínustu... þá einfaldlega hætti ég að lesa þá. Og ef svo ólíklega vildi til að einhver færi að vera með eitthvað skítkast hjá mér, saklausum sveitadrengnum, þá er líka hægt að blokkera viðkomandi og svo framvegis.

En ef þetta veldur einhverjum hugarangri yfirleitt... ja þá er ekki mikið annað að á því heimilinu

Kv. Steini

Þorsteinn Gunnarsson, 22.4.2008 kl. 02:01

36 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Mikið af tali um "nafnleysingja" er fordómahjal og hræðsla við eithvað sem menn vita ekki hvað er. Nafnleysi skiptir engu máli og á að vera í sjálfsvald sett. Það er innihaldið sem máli skiptir og ... viðbrögðin við annara skrifum!

Ólafur Þórðarson, 22.4.2008 kl. 02:07

37 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Engin boð og bönn takk.

Hólmdís Hjartardóttir, 22.4.2008 kl. 02:17

38 Smámynd: Tiger

Æi, ég veit nú ekki. Ég blogga nafnlaust svo ef það á að gera einhverja alvöru í því að loka á nafnlaust blogg, þá verð ég víst að hverfa - þó mér þætti það mikið leitt.

Ég veit að mjög margir eru óalanlegir nafnlausir sem og undir nafni - en nafnlausir eru alls ekki allra verstir - heldur þeir óinnskráðu tel ég. En það er svo sem skiljanlegt að hinir sem blogga undir nafni kjósi að útmá nafnleysinu - en svo mikið satt hjá þér að hérna eru samt mjög margir góðir bloggarar sem eru nafnlausir - og ekki útilokað að margir þeirra hverfi. Takk fyrir mig ljúfust og eigðu yndislegan dag á morgun...

Tiger, 22.4.2008 kl. 02:59

39 identicon

Sæl Jenny.

Ég var alltof fljótur á mér núna á öðru bloggi að segja Blákallt að ég vildi enga Nafnleysingja en---------------eftir að ég las Athugasemdina hér á síðunni frá henni Ásthildi Þórðardóttur frá Ísafirði, þetta með atvinnuöryggi eitt og annað sem er því tengt( því miður er sú kúgun til staðar það er vitað)þá skil ég marga sem skrifa nafnlaust. og alltaf er og mun vera svatur sauður þar,  En ég held og vona að Bloggheimar nafnlausra  sem og hjá nafnupplýstum bloggurum eftirá að hyggja  KOMI  Bloggheimar  betri undan þessari miklu umræðu um hvað má og ekki má. Takk fyrir og góðar stundir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 04:17

40 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Hey, hey, hey, hó, hó, hó, góðan dag! Hér er allt fjörið. Missti af þessari umræðu í sjónvarpinu. Sjálf hef ég nú pirrað mig á nafnlausum bloggurum, en auðvitað er það sorglegt ef að fólk getur ekki skrifað undir nafni án þess t.d. að eiga það á hættu að missa vinnu fyrir skoðanir sínar.  Á ,,nafnlausa" bloggvini og meðan þeir eru kjút og sætir og segja já við öllu sem ég segi eða þannig, hehe.. þá er alltílagi með þá.  ... Það eru auðvitað bölvaðir bloggdólgarnir sem allir eru þreyttir á! 

Það má þá líkja okkur sem gefum upp nafn, andlit og segjum frá persónulegum högum við sitjandi endur - en þeim við veiðimenn í felulitabúningum, með haglabyssuna sína.  Ójafn leikur.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.4.2008 kl. 06:47

41 identicon

Karl: Ég er ekki trúaður, trúi ekki á neitt, ég bendi bara á staðreyndir málsins.
Ef trúaðir hafa virkilegar áhyggjur þá eiga þeir að taka til hjá sjálfum sér, þeir skaffa mér allt efnið sem ég set upp; Án þeirra hef ég ekkert að segja um þá.
Ég hef ekki bloggað undir neinu öðru nafni

DoctorE (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 07:34

42 Smámynd: Loopman

Ég er bloggvinur DoctorE og stoltur af því, ég hef þá skoðun að menn mega tjá sig á blogginu. Það er eitt það aumingjalegasta sem ég veit um þegar hysterískir menn og hysterískar konur stíga fram á bloggvöllinn og heimta ritskoðun. "Það á að banna nafnlausa", "það eru aumingjar sem ekki koma fram undir nafni", "Ritskoðun, ritskoðun".

Til þessa fólks mæli ég með að þið hittist á lækjartorgi þar sem þið brennið bækur og brennið dúkkur sem tákna nafnleysingja.

Það er einmitt það sem kristnir hafa gert í árhundruð, að berja niður skoðani og menntun til að halda fólki fáfróðu og auðstjórnanlegum hópsálum. 

Skítkast. Hvað er það? Er það ekki persónulegt hvað fólk skilur sem skítkast, hér virðist það vera hlutir sem nöldrandi húsmæður í vesturbænum og íhaldssamir framsóknarmenn utan af landi eru ekki sammála. Mér finnst það ekki vera skítkast að gagnrýna trú. En þegar fólk heimtar lokun á bloggsíðum eins og í tilfelli Skúla (þar sem þeir sem lokuðu þjást á Islamofóbíu) og þegar verið er að kalla eftir lokun á bloggi DoctorE heimtar hluti eins og þessa, þá er málið orðið alvarlegt.

Það gengur ekki í nútímasafélagi að stjórna umræðu eins og moggabloggarar margir hverjir hafa heimtað. Það er algert grundavallarbrog á þeirri heimsmynd sem við flest sem eitthvað vit höfum í kollinum lifum eftir. Sem er nefnilega FRELSI.

Auðvitað gengur ekki að segja hvað sem er, menn verða að gæta hófs á tímum. En ef menn gæta þess ekki þá kemur eðli bloggsins í ljós. Blogg er opið, gagnvirk umræða þar sem menn geta svarað fyrir sig. Það er öllum frjálst að kalla mig eða doctorE bjána, blogggungur og hvað sem ykkur dettur í hug. Mitt svar er að rétta fram hina kinnina eins og sannkristnum manni sæmir. Ef ekki, þá rétti ég ykkur fingurinn. Eitthvað sem ég get alveg gert úti á götu undir nafni, hvort sem er. Hér má svara fyrir sig, ekki heimta hengingar á almannafæri á okkur nafnleysingjunum.

Skammist ykkar... þið takið það til ykkar sem eiga.

Loopman, 22.4.2008 kl. 09:19

43 Smámynd: Jonni

Þetta er ekki svona einfalt eins og virðist. Rétturinn til þess að tjá sig undir nafnleysi er einn af grundvallaréttindum í okkar lýðræðissamfélagi. Vera má að þetta skapi mikið rusl í athugasemdakerfi manna hér á blogginu en það eitt réttlætir ekki að þessi réttindi séu afnumin. Hér eftirfarandi er stutt tilvitnun í norskan prófessor í fjölmiðlasiðfræði, Magne Lindholm (fyrir þá sem kunna norsku);

Retten til anonyme ytringer var en av de store demokratiske nyvinningene i grunnloven fra 1814. Bakgrunnen for anonymitetsretten er at hvem som helst skal kunne varsle om kritikkverdige forhold uten at det fører til represalier. Men det betyr ikke at det er fritt fram for å si hva som helst. Den som kommer med usanne beskyldninger kan fortsatt straffes i ettertid. Hvordan kan man få til det når ytringen er anonym? Jo, ved at redaktøren overtar ansvaret for det som blir sagt. Det er fordi redaktørene gjør dette de har rett til å verne sine kilder. Dette prinsippet håndheves også av menneskerettighetsdomstolen i Strasbourg, som har utvidet pressens ytringsfrihet. Men denne friheten forutsetter at pressen utøver etikk og kildekritikk på et profesjonelt nivå.

Takið eftir að hér kemur ábyrgð ritstjórans inn í myndina og ég myndi túlka þetta þannig að sé bloggað undir nafnleysi beri morgunblaðið, eða eigandi/ritstjóri bloggsíðunnar ábyrgð á því sem þar stendur. Öfugt myndi ég telja að sé bloggað undir nafni sé rithöfundurinn sjálfur ábyrgur og ekki morgunblaðið/gestgjafi bloggsins.

Einnig er það mikilvægt atriði að forsenda nafnleysis er sú að ritstjóri hafi persónuupplýsingar um höfund þannig að hægt sé að sækja menn til saka fyrir meiðyrði oþh.

MBK Jón Gunnar Ákason

Jonni, 22.4.2008 kl. 10:18

44 Smámynd: Karl Ólafsson

Doktor E: "Ég er ekki trúaður, trúi ekki á neitt, ég bendi bara á staðreyndir málsins."

Ég held því fram að þú sért strangtrúaður trúleysingi. Þú trúir því að Guð sé ekki til. Er það ekki trú út af fyrir sig? (Og ekki misskilja mig, ég er ekkert ósammála þér hvað það varðar)

Það er hins vegar það einkenni sem þú átt sammerkt með þeim 'trúarnötturum' eins og þú hefur stundum kallað þá félagana sem ég tiltók hér að ofan, að það vantar stundum upp á umburðarlyndið fyrir því að það þurfa ekkert allir að vera sammála þinni skynjun á þeim efnisheimi sem við búum í.

Karl Ólafsson, 22.4.2008 kl. 10:53

45 identicon

Ég hef bloggað nafnlaust á blogspot.com í fjöldamörg ár og aldrei nein vandamál með það. Hvað er eiginlega málið?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 11:32

46 identicon

H.T: Það sem er í gangi er íslenska smáborgaradæmið og sveitasíminn.

DoctorE (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 16:07

47 Smámynd: Ari Björn Sigurðsson

karl Ólafsson: 

"Ég held því fram að þú sért strangtrúaður trúleysingi. Þú trúir því að Guð sé ekki til. Er það ekki trú út af fyrir sig?"

Finnst þér þetta vera gáfuleg röksemdafærsla?

Er það trú að trúa ekki á guð?

Er það hobbí að safna ekki frímerkjum? 

Pældu aðeins í því hvað felst í orðunum "að trúa á", þú hlýtur að sjá hvað þetta er vitlaust hjá þér.

Ari Björn Sigurðsson, 22.4.2008 kl. 16:54

48 Smámynd: Karl Ólafsson

Ari: Ég hef reyndar aldrei sagst vera mjög gáfaður í röksemdarfærslum.

En það er með þetta eins og annað að með því að klippa út búta má  búa til samhengi sem er öðruvísi en það sem af stað var farið með. Hvað er órökrétt að nota sagnorðið 'að trúa' um það að trúa því að Guð sé ekki til? Ég sé ekki samhengið í sambandi við frímerkin. Ef maður safnar ekki frímerkjum, þá hugsar maður ekki mikið um frímerki, nema til þess að nota þau til að senda frá sér bréf. Doktorinn hugsar hins vegar all mikið um Guð fyrir mann sem trúir ekki á að hann sé yfirhöfuð til.

Ef maður safnar ekki frímerkjum berst maður ekki endilega með kjafti og klóm gegn þeim sem það gera en um það snýst kannski fyrst og fremst mín athugasemd til Doktorsins. Sem sagt, það atriði að sannfæring Dokorsins er slík að málflutningur hans ber æði mikinn keim af málflutningi 'trúarnöttaranna', sem hann kallar svo.

Og enn bendi ég á að ég er ekkert ósammála hans sannfæringu um það að Guð sé ekki til eins og trúarrit lýsa honum. Mér finnst eins og honum að hugmyndin um alsjáandi alltumlykjandi Guð sem fylgist með okkur úti í geimnum sé galin og standist ekki rök. En guð (pun intended) forðí mér frá því að reyna að sannfæra aðra um að þeirra hugmyndir um þetta mál séu eitthvað galnari en mínar.

Fyrirgefðu átroðninginn hér Jenný, ég hefði auðvitað frekar átt að eiga þennan orðastað um þennan vinkil á hans eigin bloggi eða mínu.

Karl Ólafsson, 22.4.2008 kl. 19:32

49 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er í fínu Karl, ég hef sko ekkert á móti svona umræðum hér.

En ég er sammála því að trúleysi er oft á ofsatrúarbasis.  Ekkert að þeirri röksemdafærslu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.4.2008 kl. 20:05

50 Smámynd: Karl Ólafsson

Jón Frímann, ég átta mig ekkert betur á því, þó þú segir mér að svo sé, að trúleysi sé ekki trú. Ég er ekkert viss um að þú hafir skillið þann punkt sem ég var að reyna að koma á framfæri, en það er allt í lagi, ég missi ekki svefn yfir því. Við þurfum sem betur fer ekkert að vera sammála og við þurfum ekkert að skilja sjónarmið hvors annars. Það er hins vegar til bóta ef við getum virt skoðanir hvors annars.

Um ritskoðun ætla ég hins vegar ekkert að deila. Ég hef mína skoðun á því og aðrir hafa aðra skoðun. Ritskoðun á ekki að líðast, en það er heldur engum til stækkunar að missa sig í persónuníð og skítkasti. Við það tapar viðkomandi að mínu mati málstað sínum, sama hversu góður hann annars er. Það er svo hins vegar (og á að vera) mat þess sem fyrir níði verður, hvort hann leitar réttar síns, eða ekki.

Ég er alveg sammála því að nafnleysi er í fínu lagi, en frelsi manna til að segja hvað sem er endar við persónu náungans. Á sama hátt og þú vilt að nafnlausir þurfi ekki að líða ofsóknir vegna skoðana sinna hlýtur þú að vera sammála því að nafngreindir eiga ekki að þurfa að líða ofsóknir af hálfu nafnlausra eða annarra. Slíkar ofsóknir eru engu betri, sama hver málstaðurinn er.

Annars átti ég eftir að biðja Doktorinn afsökunar á að hafa haft hann fyrir rangri 'sök' að blogga annars staðar undir nafni. Mér þótti bara skondið að sjá einhverju sinni bloggara svara athugasemd þriðja aðila eins og hann hefði eitthvað yfir bloggi Doktorsins að segja.

Ekki meira um það og býst ég við að ég láti hér með kyrrt liggja.

Karl Ólafsson, 22.4.2008 kl. 21:53

51 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég heiti Leó Löve, en skráði mig undir nafni og kennitölu manns utí í bæ. nú get ég delerað í hans 'nafni'

Brjánn Guðjónsson, 22.4.2008 kl. 22:13

52 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hver er nafnlaus og hver ekki?

Brjánn Guðjónsson, 22.4.2008 kl. 22:13

53 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Nafnleyndin verður að fá að vera, en kannski að skerpa aðeins á reglunum og hafa þær fyrir augunum einhversstaðar til hliðar á skjánum, til að minna fólk á.

Skýra verður hvað geti flokkast sem persónuníð og hvað teljist vera gagnrýni á kynþátt eða trúarhópa. Það virðist vera nokkuð óljóst og sitt sýnist hverjum.

Bryndís Böðvarsdóttir, 23.4.2008 kl. 12:13

54 identicon

Hvers vegna er þetta svona mikið spurgsmál hér á landi? Ég hef bloggað nafnlaust í nokkur ár á blogspot og ennþá hefur enginn kvartað. Mér sýnist þetta væl undan nafnleysingjum vera undarlegur kokteill af sveitamennsku, trúarbrjálæði, nornaveiðum og viðkvæmni. Ég hef aldrei heyrt neinn kvarta undan því að á borgarbókasafninu séu bækur sem eru skrifaðar undir dulnefni.

Ég veit! Bönnum Erró, Sjón, "hulduhljómsveitina" stuðmenn, víkverja hjá mogganum, og bara alla sem tjá sig með nokkrum hætti undir dulnefni,

Nafnlaus (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986841

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband