Leita í fréttum mbl.is

Á fylleríi í Hagkaupum

Ég var að velta fyrir mér (ó)möguleikunum í sambandi við baráttumálið hans Sigurðs Kára og Co í þinginu, að fá búsið í búðirnar.  Í Kastljósi tók Sigurður Kári fram að það væri auðvitað ekki verið að breyta þessu fyrir þá sem "gerðust sekir" um ofneyslu áfengis, heldur hina sem gæta hófs.  Þetta fannst mér soldið merkilegur punktur hjá þingmanninum, því ég hef alltaf haldið að ríkið væri bara fyrir alkóhólista. Döh!

Nú, þetta skiptir ekki máli fyrir mig, svona prívat og pers. hvar áfengi er selt, þar sem ég er búin með minn kvóta fyrir löngu og ef Guð lofar, mun ég storma fram hjá áfengishillum lífsins, einn dag í einu, til eilífðarnóns, en ég var að velta fyrir mér hvernig þetta fyrirkomulag gæti orðið í framkvæmd fyrir þá sem kaupa þessa vöru.

Þegar ég fer í Hagkaup, næ ég mér yfirleitt í eitthvað að drekka, með smá sykri í og hef það með mér á meðan ég rúlla mér í gegnum búðina, vegna sykursýkinnar sem ég er með og af fenginni reynslu veit ég að ég er ekki glæsileg, hálf hangandi ofan í innkaupavagninn, slefandi og ranghvolfandi í mér augunum, í bullandi sykurfalli.

Nú, ef kona úr Gjörningahverfinu vill tjilla í gegnum Hagkaup, þegar hún kaupir inn fyrir helgina, þá nær hún sér í eina rauðvín (getur ekkert verið athugavert við það, það er svo EÐLILEGT að vín fáist í matvörubúðum) og sýpur á og hrindir vöruflokkum í hrönnum ofan í vagninn sinn (ok, ég skil, Jóhannes í Bónus veit að þetta er verslunarörvandi vara.  Á Jóhannes Sigurð Kára?).  Þegar hún er komin í hreinlætisvörudeildina er hún farin að syngja "Áfram veginn" og hún hefur gerst ruddaleg mjög og árásargjörn, enda komin vel ofan í flösku númer tvö og ekkertbúinaðborðasíðanímorgun.  Hún rífur stólpakjaft í biðröðinni en NB það er kominn sérstakur kassi fyrir fólk undir áhrifum.  Þar móðgar hún mann og annan sér til skemmtunar á meðan hún bíður eftir afgreiðslu.  Vörunni er skellt í poka og konunni síðan hent út með pokum og alles, beint út á bílastæði.

Þessi kona, úr Gjörningahverfinu, hefur e.t.v. átt við áfengisvandamál að stríða, en það hefur ekki reynt á það fyrr en nú, en eftir að "búsinn í búðina frumvarpið" var afgreitt frá Alþingi,  gargar próblemið, á hana, upp í opið fésið á henni, í hvert skipti sem hún verslar inn til heimilisins.

Þökk sé helvítis frumvarpinu hans Sigurðar Kára.

Og nú er ég komin með alvarlegar áhyggjur af þessari þykjustukonu sem ég bjó til.

Ætli hún endi ekki bara á Vogi?

Ég vona það.

Og mikið vona ég að búsið í búðirnar nái ekki fram að ganga.

Það er svo mikil tímaskekkja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Enn og aftur tekst þér að skrifa frábæra og skemmtilega grein þó svo að vandamálið sé háalvarlegt . Ég vil EKKI SJÁ helv. vínið í kjörbúðir, þessir stuttbuxnastrákar hafa bara ekkert vit í þessu máli. Vínbúir eiga að vera sérbúðir og hana nú. Verð brjál. ef það breytist.

Ásdís Sigurðardóttir, 16.10.2007 kl. 20:55

2 Smámynd: Ragnheiður

Shit ! Segi það með þér...þessi vesalings þykjustukona þín...þú verður að koma með aðra færslu um hana, ég fer alveg í kerfi yfir þessu. Keyrði hún full í burtu ? Lenti hún á Vogi ? Lamdi kallinn hennar hana þegar löggan kom með hana heim ? Á hún börn ?

Ragnheiður , 16.10.2007 kl. 21:02

3 Smámynd: Dísa Dóra

Góð færsla og ég er þér alveg sammála um að vínið á ekki heima í hillum matvöruverslana.  Mjög gott að hafa þetta svona hér og ég er jafn sátt við það og ég var við systembolaget í Svíþjóð

Dísa Dóra, 16.10.2007 kl. 21:14

4 Smámynd: Vendetta

Auðvitað á vín og bjór heima á hillum kjörbúðanna. Samt er stærsta vandamálið í dag ekki það að það er aðeins selt í ríkinu, heldur það að áfengisgjaldið er allt of hátt. Að ríkið sé með einokun á vín- og bjórsölu er tímaskekkja og forræðishyggja.

Hvers vegna eigum við, sem drekkum í hófi, að líða fyrir það að sumir aðrir eru með drykkjusýki. Af hverju á það að bitna á okkur, ef þurrir alkar geti ekki staðizt mátið, þegar þeir fara framhjá bjórdós. Á að fara með þetta lið eins og smábörn með bleyju og á þar af leiðandi að  koma við okkur hin af fyrirlitningu?

Vín og bjór er matvara. Þess vegna vona ég að tillagan um frjálsa sölu nái fram að ganga, sama hvað Ögmundur rembist og hamast við staurinn.

P.S. Og nei, ég er ekki íhaldsgaur í stuttbuxum.

Vendetta, 16.10.2007 kl. 21:30

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Nei Vendetta, þú ert ekki íhaldsgaur í stuttbuxum, en þú ert maður með grímu og án nafns.  Leiðinlegt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 21:36

6 Smámynd: Þröstur Unnar

Frábær saga Jenný, en verð að vera sammála Vendetta.

Þröstur Unnar, 16.10.2007 kl. 21:41

7 Smámynd: Ragnheiður

Ég er með ákveðið ofnæmi og verð að taka ákveðið verkjalyf en sem betur fer ekki rosalega oft. Þetta lyf er misnotað af fíklum þannig að ég þarf að fá lyfseðil. Gott og vel....

Áfengisneysla annarra kemur mér við þó ég kjósi að drekka ekki sjálf. Það er mikið þjóðhagslegt tjón árlega vegna vandamála tengdum drykkju. Ég þarf að greiða það í mínum sköttum eins og þið. Það er ekki verið að tala um að hamla aðgengi að víni, aðgengi nú er fínt. Opið 6 daga vikunnar og svona. Það þarf ekki að troða þessari vöru allsstaðar.

Það verður aldrei samstaða í þjóðfélaginu um þetta. Það verða alltaf skiptar skoðanir. Mín skoðun er að vín á ekki að vera í matvörubúðum, það má fyrir mér vera þar sem það er nú. Ef einokunin er að fara með menn á taugum þá má bara selja Jóa í Bónus Átvr keðjuna í heild sinni og málið leyst.

Ragnheiður , 16.10.2007 kl. 21:53

8 Smámynd: Guðný GG

Æi kommon Þröstur og Vendetta þið eruð örugglega karlmenn sem nennið ekki að gera ykkur sérferð í ÁTVR eftir að hafa verið í útlöndum þar sem allt áfengið er í 1. hillunni um leið og labbað er inn í búðina.

 Jenný frábær færsla eins og allar aðrar en ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég vil ekki sjá þetta í matvöruverslunum.Sé ekkert að þessu eins og það er í dag .Þetta er mjög einfalt ..ef þig langar í brennivín þá ferðu í spes búð fyrir það ,svipað eins og ef þig langar í íþróttaskó í maraþon-hlaupið þá ferðu í spes búð fyrir þá.Það fæst ekki alltaf allt í sömu búðinni  urrrrr... 

Guðný GG, 16.10.2007 kl. 21:55

9 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Já ég vil að ríkið haldi áfram að selja vín í sérbúðum, það er svo góð þjónusta og mikið úrval, er hrædd um að það væri ekki í boði í stórverslunum.

Ester Sveinbjarnardóttir, 16.10.2007 kl. 22:10

10 Smámynd: Fiðrildi

Nákvæmlega . . . áfengi er ekki matvara.  Það er vímugjafi og á ekki heima í venjulegum matvöruverslunum.  Það hefur ekkert með það að gera að vera hlífa einhverjum sjúklingum við því . . . það myndi t.d. gera unglingum enn auðveldari aðgang að því.  Eru virkilega ekki þarfari mál að kljást við fyrir þessa yfirstéttar-gaura hvort sem þeir tilheyra íhaldinu eða ekki . . . eru þetta oftast einhverjir uppar sem láta rigna upp í nasirnar á sér.

Fiðrildi, 16.10.2007 kl. 22:14

11 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hahahaha aumingja konan. Ég sé hana ljóslifandi fyrir mér hangandi ruglandi og bullandi á innkaupakerrunni.

Ég get ekki alveg sagt með góðri samvisku að ég vilji ekki vín í matvöruverslanir. Ég get heldur ekki sagt með góðri samvisku að ég vilji vín í matvöruverslanir. Ég persónulega væri assgoti mikið til í að geta kippt með mér eins og einni rauðvín í Nóatúni um leið og ég kaupi sunnudagssteikina.. en svo er það hin hliðin... Æi þú veist hvað ég meina. En ég vil líka fara að geta keypt nikotín tyggjóið mitt í Nóatúni. halló.. ætlar enginn að taka á því máli?

Jóna Á. Gísladóttir, 16.10.2007 kl. 22:17

12 Smámynd: Þröstur Unnar

Já Arna, voru þetta ekki yfirstéttar-gaurar líka sem nauðguðu Bjórfrumvarpinu í gegn um Alþingi, á meðan við hrærðum saman Pilsner og Vodka á Gauki á Söng og kölluðum Bjórlíki? Það var einu sinni BANNAÐ að drekka bjór á Íslandi, remember?

Þröstur Unnar, 16.10.2007 kl. 22:23

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Við erum sammála stelpur.  Arna, mér finnst þetta vera svona Armaníverkefni (gæluverkefni) einhverra dúdda sem eru ekki í tengslum við raunveruleika venjulegs fólks.

Jóna: Örgla hentugt að geta kippt með sér einni en það drepur þig ekki að fara í næstu dyr og ná í búsið. Við tökum tyggjóið næst.  Vona að Sigurður Kári og félagar hætti að reykja, þá kemur það.

Þröstur: Af því að bjórinn var leyfður, á þá allt sem hefur með áfengi að gera að leyfast átómatískt?  Þvílík rök.

Ragga: Rétt hjá þér, við þurfum lyfseðla fyrir flestum lyfjum, á ekki að selja bara róandi og svefnpillur í Nóatúni líka.  Allavega hlýtur að þurfa að ríkja taumlaust frelsi alla leið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 22:35

14 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Hér er ég algjörlega sammála þér Jenný, ég vil ekki sjá vín í matvörubúðum og mér persónulega finnst ekkert mál að koma við í ríkinu ef að ég þarf á því að halda! Þetta er algjört dekurfrumvarp.....er ekkert alvarlegra en þetta í gangi í þessu samfélagi.....!

Annars þarf að hjálpa þessari konu í færslunni, ég er í meðvirkniskasti !!

Sunna Dóra Möller, 16.10.2007 kl. 22:44

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég ætla að hafa kjéddluna Víngerði í gjörgæslu og mun birta fréttir af örlögum hennar og ævintýrum (post-Hagkaup)fljótlega.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 22:47

16 Smámynd: Ragnheiður

vit fyrir öðrum kæra Jenný, maður má ekki hafa nema ríkisskoðanir á sínu eigins bloggi. Fékk einmitt slettur í dag vegna þess að mér fannst eitthvað ekki fyndið. Ég veit ekkert hvort ég get höndlað áfengi, hef ekki gáð að því. Samt tek ég mér lögvarða rétt að hafa skoðun á þessu, ég vil ekki áfengi í matarbúðir.

Ég ítreka að það er ekki að skella á bannáraástand, ríkið verður opið og mjög víða er áfengisverslun staðsett í eða við stórar matvöruverslanir.

En jæja Jenný mín, það hefur þó enginn bent á að þú sért illa gefin eins og húmorslausa ég fékk að "heyra" í dag.

Ragnheiður , 16.10.2007 kl. 22:55

17 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe Ragga, ég átti eimitt eftir að tékka á þessu með "illa gefna stöffið", hvaða mannvitsbrekka var þar á ferð.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 22:59

18 Smámynd: Ragnheiður

það er nú það, það er í rasismi eða ?

Ragnheiður , 16.10.2007 kl. 23:10

19 identicon

Ég hef engan áhuga á að fá brennivín í matvörubúðir og er eiginlega alveg sama. Nei reyndar ekki. Vín í vínbúðir þar sem 20 ára og eldri afgreiða það. ( er það annars ekki þannig? )Veit ósköp lítið um þetta mál en ef þið viljið vita um brugg gæti ég sagt meira.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 23:15

20 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þú gleymdir einu í þessari flottu sögu þinni, Jenný , og það er afgreiðslufólkið-  beibíinu sem  afgreiddi hana? Hvernig fór það að? Flestir krakkarnir sem  eru á kassanum í stórmörkuðunum virðast ekki vera komin á þann aldur að þau megi  kaupa áfengi ? mega þau þá selja það?

María Kristjánsdóttir, 16.10.2007 kl. 23:16

21 identicon

Mér finnst þessi þingmenn sem standa fyrir þessu frumvarpi vitlausir og ábyrgðarlausir. Ég vona bara að þeir sitji líka uppi með það verkefni að finna alla milljarðana sem þessi lög ef þau verða samþykkt munu kosta heilbrigðiskerfið eftir svona 10-15 ár. Arrggg - þvílík skammsýni.   Sorrý - mín er bara soltið sona pissed - 

Smjúts til þín

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 23:37

22 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

María: Mér hugkvæmdist ekki einu sinni vandamálið með agúbörnin á kössum stórmarkaðanna.  Það verður kannski ráðið sérstakt starfsfólk á mannsæmandi launum til að afgreiða lúxusvarninginn.  Kæmi mér ekki á óvart. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 23:47

23 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ragga:  Búin að lesa kjéddlinguna.  Sumir eiga bágt.

Anna: Skil þig, skil þig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 23:47

24 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það eru tvö ypsilon í rasisti Ragga mín. Ég er svo sein að fatta.  Þorrí.  Hehe

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.10.2007 kl. 23:48

25 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Hef aldrei heyrt neinn kvarta yfir slæmu aðgengi að áfengi síðan ég var 16 ára og erfitt var fyrir okkur jafnaldrana að útvega okkur vín.

Ekkert bús í búðir!

Einar Ben Þorsteinsson, 17.10.2007 kl. 00:06

26 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Mér finnst alltaf jafn fyndið þegar fólk segir: "......í hrönnum.........."

lovjú

Hrönn Sigurðardóttir, 17.10.2007 kl. 00:25

27 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hrönn biðst afsökunar í hrönnum.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 00:40

28 identicon

eigum við hófdrykkjumennirnir að miða við þitt vandamál?? ef þú getur ekki farið í bónus að versla án þess að kaupa þér bús þá eigum við ekki að geta það. villt sjálfsagt banna áfenga drykki hér á Íslandi. leyfðu okkur hófdrykkjumönnunum að kaupa okkar bús á auðveldan hátt án afskipta ykkar alcaholista sem ráða ekki við sína drykkju

blautur (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 00:53

29 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Blautur:  Ertu blautur í höfðinu?  Skoðun mín á þessu máli hefur ekkert með minn akahólisma að gera.  Þú ert væntanlega læs.  Mín vegna má alkahól vera selt á pósthúsinu, það truflar mig ekki nokkurn hlut.

Og vertu svo kurteis.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 00:57

30 Smámynd: Ragnheiður

blautur ? Hm spes,afar spes..ég hefði náttlega notað allt annað lýsingarorð.

Er það annars ekki svoleiðis í sveitinni að búsið kemur með póstinum ? Lýsi annars algerri fáfræði á þessu sviði -sko utanbæjar..

ARG er að bíða eftir fréttum af óléttínunni minni,held að hún hafi ætlað að láta kíkja á sig

Ragnheiður , 17.10.2007 kl. 01:18

31 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Mér finnst það ætti að leggja þetta frumvarp þeirra félaganna til hliðar eins og skot, ég vil frekar sjá þá eyða tímanum í að fjalla um alvöru vandamálin í þjóðfélaginu okkar

Jónína Dúadóttir, 17.10.2007 kl. 07:43

32 identicon

Ja sko kellu... margur heldur mig sig.... Nei, segi nú bara sona!!

Jónsi (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 07:49

33 Smámynd: Daði Einarsson

Hvað er það sem gerir það svo merkilegt að selja áfengi? Hvað er svona sérstakt við Ísland og nokkur önnur Norðurlönd að við getum ekki höndlað það að fara út í búð og kaupa áfengi án þess að verða okkur sjálfum til skaða? Erum við svona vanþroskuð ennþá? Auðvitað er fólk - og of mikið af því - sem höndlar áfengi illa. Við þurfum að aðstoða það við að ná tökum á sinni neyslu, en hefur núverandi áfengisstefna skilað minni áfengisneyslu?

Hvernig er málum háttað víða um Evrópu? Þar sem ég hef verið þá get ég ekki séð að það sé vandamál. T.d. hér í Lúx er áfengi - ekki bara léttvín og bjór - selt í matvöruverslunum og ég man ekki eftir að það hafi verið einhver vandamál.

Auðvitað verða einhverjir sem munu ekki getað höndlað aukið aðgengi að áfengi, en það á ekki að vera ástæða fyrir því að við hin getum ekki skroppið út í næstu matvörubúð til að hafa rauðvín með steikinni. Stærsta vandamálið yrði líklega að úrvalið yrði ekki eins mikið, enda þegar ég bjó á Íslandi þá fannst mér úrvalið - sérstaklega í léttvínum - vera mjög gott hjá ríkinu. Jafnvel betra en í sumum matvöruverslunum hér úti í Lúx.

Daði Einarsson, 17.10.2007 kl. 08:04

34 Smámynd: Hans Jörgen Hansen

ég er á þeirri skoðun að ef við ætlum að banna sölu á áfengi í verslunum vegna þess þjóðfélagskostnaðar og vandamála sem skapast þá ættum við einnig að koma öllu tóbaki í ríkissölu þar sem sjúkrakostaður rakin til reykinda er ótrúlegur. Og svo er náttúriega líka bara hægt að taka þetta algerlega af dagskrá fyrst þetta er svona hættulegt og kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið, finnst það tvöfalt í roðinu að ætla banna smásölu á áfengi í verslunum því það er meira hættulegt heldur en að ríkið sjái um sölunna. 

Hans Jörgen Hansen, 17.10.2007 kl. 10:15

35 Smámynd: Báran

Huh! Hann talar um "þau" sem gæta hófs! Ég get svosem stimplað mig inn í þann hóp.  Flest okkar sem erum í þeim hópi þekkjum alkóhólisma af eigin raun einhvers staðar í stórfjölskyldunni.  "Við (þá) flest erum á móti því að gefa þetta frjálst, eins og Ragnheiður segir, aðgengið að því er fínt,fyrir þá sem vilja ná sér í það.  Af hverju ekki að kalla þetta réttu nafni!  Frumvarpið er lagt fram til að einkavinafélagið geti nú grætt á þessu líka!!! Að breiða yfir ágirndina með því að kalla það að nú eigi "ekkialkarnir" að fá að versla sér rauðvínið um leið og kjötfarsið,kannski með börnin í eftirdragi, og þá spyr ég....ef sígarettur eiga að vera undir borði, löglegt fíkniefni bæðevei, af hverju á þá að leyfa búsinu að fljóta?   Svo hélt ég að það væri bannað að auglýsa áfengi? Mér finndist það ansi áberandi auglýsing að sjá úrvalið af áfenginu við hliðina á pepsimaxinu!!!

Grrrr....Nú komstu mér á flug....

knús

Báran, 17.10.2007 kl. 10:31

36 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það vantaði einn punkt í umræðuna í gær.  En hann er sá, að um leið og þetta verður gefið frjálst, þá minnkar um leið framboðið á tegundum.  Ég mun ekki geta valið um hvaða rauðvín ég fæ mér, því þá verður bara til sölu það sem er vinsælast.  Menn fara ekki að hafa til sölu eitthvað sem fáir kaupa ..... eða hvað ?

Ég er á móti þessari þróun, finnst bara allt í lagi að hafa áfengisútsölur ríkisins.  Og hver ætlar að garantera að verðlagið lækki.  Hefur mönnum tekist svo vel upp með að lækka matvöruverð ? Ónei, það er bara ekki hægt að stjórna verðlagi, þegar mönnum hefur verið gefnar frjálsar hendur.  Og halda menn virkilega í einfeldni sinni að það verði meiri samkeppni á rauðvíni heldur en á gulrótum eða eggjum ?

Þetta er bara rugl. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.10.2007 kl. 10:40

37 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gleymdi að kommentera á konungarminn sem þú er búin að skapa, nú verður að leyfa okkur að fylgjast með hvað verður um hana, og hvernig henni gengur að forðast rauðvínshillurnar í Hagkaup

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.10.2007 kl. 10:41

38 Smámynd: Rúnar Ingi Guðjónsson

ég man þegar það var bannað að opna sjónvarpsstöð.

ég man þegar það var bannað að opna útvarpsstöð

ég man þegar það var bannað að kaupa bjór

ég man þegar það var bannað að framleiða rafmagn og selja það

ég man þegar það var bannað að framleiða osta

ég man þegar það var bannað að selja mjólk í matvörubúðum

ég man þegar það var bannað að kaupa mikinn gjaldeyri

ég man þegar það var bannað kaupa hamborgara á skírdag

og er nú bara 37 ; )

Er ísland betra eða verra í dag en fyrir 20 árum?

Rúnar Ingi Guðjónsson, 17.10.2007 kl. 11:10

39 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Rúnar Ingi: Mikið rétt hjá þér, framfarir eru nauðsynlegar. 

Þið öll:  Fyrir mér er þetta mál einfalt.  Íslensk þjóðarsál drekkur illa.  Það eru alltof mörg vandamál tengd áfengi á Íslandi, til þess að við getum látið að við séum menningarlega flott í drykkjunni, eins og suðlægari þjóðir geta státað af.

Fyrir utan fjárhagslegt tap á öllum stigum þjóðfélagsins vegna ofdrykkju þá má minna á mannslífin sem tapast og nægir þá að benda á stúta undir stýri sem fyrirkoma sjálfum sér og öðrum, vegna áfengisdrykkju.  Þetta er bara hluti af vandamálinu.

Drykkja er mikil meðal unglinga og eykst stöðugt.  Það er alvarlegt vandamál.

Vegna þessara ástæðna er ég á móti áfengi í búðum.  Það er ekki flóknara en það.  Ég hef ekkert á móti því að hafa áfengi í SJOPPUM, þegar við sem þjóð förum betur með áfengi.

En þangað til... Æ dónt þeink só.

Og þetta hefur ekkert með minn alkahólisma að gera, enn einu sinni.  Ég er ekki hrædd um að ég missi mig úr drykkjugirnd ef ég geng fram á áfengishillur í verslunum.  Þannig fúnkera hlutirnir ekki.

Get real.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 11:21

40 identicon

Ég hef hingað til verið hlynntur þeirri hugmynd að hafa áfengi til sölu í verslunum. Til að bæta aðgengið. Já! Bæta aðgengið. Margir vildu fegnir geta skotist í 10-11, seint að kvöldi, til að ná sér í bjórkippu eða rauðvínsbokku.

Það sem Ásthildur bendir á er þó vert athugunar og mjög gild rök, að mínu mati, gegn breyttu fyrirkomulagi. Þá myndi hið breytta fyrirkomulag ekki vera til hagsbóta fyrir þá sem tala fyrir frumvarpinu, sem áhugafólk um hófdrykkju og vínmenningu. Þeir vildu væntanlega geta valið úr eðalvínunum, í stað þess að geta kannski einungis valið milli Bónusbjórs, Bónushvítvíns og Bónusrauðvíns.

Brjánn Guðjónsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 11:24

41 identicon

Mér þykir þessi umræða allt of alhæfinga- og öfgakennd.

Ég hef ferðast víða og á flestum stöðum er selt áfengi í matvörubúðum. Ekki hef ég orðið vör við vandamál af þeim sökum, kannski séð örfáa heimilislausa sem sjást líka hér heima þó svo að "aðgengið" sé takmarkað.

Ég er hlynt því að fá léttvín og bjór í matvörubúðir. Það býður neytendum upp á t.d. samkeppni í verði og síðan yrði að öllu leyti meiri sérhæfing. Þó svo að úrvalið sé gott í nokkrum verslunum Á.T.V.R. þá er það ekki svo í öllum búðum því yfirleitt þarf maður að keyra upp í Kringlu eða Heiðrúnu til þess að fá almennilegt úrval.

Það er hægt að gefa sölu á áfengi frjálsa án þess að allt fari í belg og biðu. Strangt eftirlit með söluaðilum (og stöðum) er t.d. góð byrjun.

Í sambandi við kostnað í heilbrigðiskerfinu þá minnir mig að það sé meiri kostnaður við reykingafólkið heldur en fylliraftana, og tóbakið er  jú selt í búðum.

Það hefur líka alltaf verið vitað að Íslendingar kunni ekki að drekka þar sem þeir (í mjög mörgum tilfellum) virðast drekka áfengi bara til að finna á sér, verða fullir. Það er kominn tími til að sporna við þessari drykkjuþróun og drekka til þess að njóta, annars er bara hægt að sleppa því. Lítum til dæmis á nágranna okkar í Danmörku. Þar er sala áfengis frjáls, fólk má versla áfengi og tóbak 16 ára og fara inn á skemmtilstaði 18 ára. Fólk elst upp í kringum áfengi og lærir að umgangast það á skynsaman hátt. "Það læra börn sem fyrir þeim er haft." 

Helena (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 11:26

42 Smámynd: Ásgerður

Er svo sammála þér Jenný,,,hló mig máttlausa við lesturinn,,,sé alveg fyrir mér konuna úr Gjörníngahverfinu tjilla í gegnum Hagkaup

Og þetta hefur ekkert með alkoholísta að gera,,,,það einfaldlega þjónar engum tilgangi að selja bjór og vín í matvöruverslunum.

Ásgerður , 17.10.2007 kl. 11:31

43 identicon

Mér finnst vanta einn punkt um þetta frumvarp.  Ef sala létt víns og bjórs verður leyfður í almennum verslunum þá bíst ég við að stuldur og rírnun verði meiri.  Annað sem þarf að taka tillit til og það er öryggi starfsfólks í svokölluðum klukkubúðum en þar eru oftast krakkar undir lögaldri að vinna.  

Ég er því alfarið á móti þessum gjörningi sem sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir þó að fleiri aðilar úr fleiri flokkum komi að þessu núna.  Þeir sjá bara ofsjónum yfir að ríkið fái þennann gróða og vilja skara hann að sinni könnu.

magnusg (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 11:31

44 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæl Jenny Anna, þú ert frábær bloggari, nú veit ég ekki hvað þú starfar, en mæli með að þú gerist rithöfundur eða leikritaskáld.  Sá þína tilbúnu konu ljóslifandi fyrir mér. Bjó í Kaupmannahöfn um tíma þar sem vín er í matvöruverslunum.  Að hafa vín í matvöruverslunum hafði fælingamátt á mig, að hafa alla þessa stóru vínrekka fyrir framan mig um leið og ég keypti mjólkina virkaði illa á mig.  Ég er mikil rauðvínskona en keypti aldrei vín í matvöruverslun er ég bjó þar.  Kannski er ég stórskrítin en þannig virkaði þetta á mig. 

kkv.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 17.10.2007 kl. 11:47

45 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæl aftur, mér skilst að heildsalar séu ekkert hrifnir af því að áfengi fari í stórmarkaðina. Þeir hræðast það að stórmarkaðir fari að flytja inn vín í svokölluðum Beljum þar sem þú færð mikið fyrir lítið.  Eitt er víst að verðið mun lækka.  Nikótyggjó vil ég fá í allar matvöruverslanir, því verðið á þeirri vöru er allt of hátt.  Það er dýrara að tyggja enn að reykja.

kkv.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 17.10.2007 kl. 11:55

46 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ásgerður Jóna: Þakka þér kærlega hlý orð í minn garð

Mér sýnist þegar ég lít yfir kommentin hérna, þá séu flestar konur á móti þessari mögulegu breytingu á áfengisútsölu.  Getur verið að konur eigi auðveldara með að hugsa hlutina í víðtækara samhengi?  Þ.e. að þær leggja ekki til grundvallar það sem hentar þeim prívat og persónulega, heldur sjái stóru myndina?  One wonders.

Annars hafa flestir eitthvað til síns máls.  Auðvitað.  En nú er að bíða og sjá hvað gerist á alþingi.

Núverandi heilbrigðisráðherra var flutningsmaður þessa frumvarps, á síðasta þingi og jafnvel oftar.  Þetta er í 5. sinn sem þetta mál er lagt fyrir Alþingi.  Hann er ekki aðili að málinu núna.  Af hverju ekki?  Jú auðvitað færi ekki vel á því að heilbrigðisráðherra væri aðili að þessu máli, þar sem peningarnir sem fara í heilbrigðiskerfið vegna afleiðinga áfengisdrykkju eru feitir.

Og einhver talaði um reykingar og kostnað við þær.  Ég hélt að það væri verið að takmarka þær að svo miklu leyti að maður megi eiga von á fangelsisvist ef maður hagar sér ekki.

Ég er farin í smókpásu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 12:12

47 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Sér áfengisverslanir með úrvali svo miklu að engin kemst yfir að skoða né smakka er það ekki eitthvað fyrir landann? Smá horn í kjörbúð getur ekki verið áhugaverður kostur. Við viljum hafa mikið af öllu til að velja úr. Annars finnst mér áfengisverslanirnar vera staðsettar í blómabúðum, sjoppum og hreinsunum hér og þar um landið. Hvað er málið? Opnunartíminn? 
Bý sjálf við matvöruverslanir með áfengisdeildum en versla mitt vín sjaldan þar, því ég vil frekar fara þar sem úrvalið er meira en ég hef yfirsýn yfir. Ég held að það sé mitt íslenska gen  

Jamm...  og þar með hef ég tjáð mig

Guðrún Þorleifs, 17.10.2007 kl. 13:04

48 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já einmitt þessi punktur um úrval.  Þannig verður þetta bara, því miður.  Á.T.V.R: hefur komið til móts við fólk með því aðhafa opið til kl. 7 á föstudögum og á laugardögum líka.  Þannig að aðgengið er bara alveg fullnægjandi.  Það er því óþarfi að nota það sem afsökun til að setja þetta inn í marvöruverslanir.  Og af hverju heldur fólk að vínið muni lækka ? ég er á því að það muni hækka. 

Hitt er svo annað mál, að það þarf að leysa vanda matsölustaða, þeir eiga að fá að kaupa vínið á lægra verði, til að selja á matsölustöðum, svo þeir séu samkeppnishæfari fyrir ferðamennsku. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.10.2007 kl. 13:35

49 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála Ásthildur  með ferðamennskuna og verð á víni, bæði á börum og veitingahúsum.  Miðað við hversu ódýrt áfengi er í innkaupum þá er þetta fáránlegt og ber (ó)hróður Íslands í þessum málum víða um heim.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 14:11

50 identicon

Áfengi er selt í verzlunum hér á landi. Hér er líka svipað fyrirkomulag og í flestum ríkjum Bandaríkjanna, þ.e. sérstakar áfengisverzlanir. Aðgengið er fínt, og frumvarpið lengir ekki opnunartíma fyrir áfengissölu að neinu ráði.

Mér líst ekkert á þetta frumvarp af þeirri ofureinföldu ástæðu að ávinningurinn er nánast enginn, og flest rök benda til að vandinn muni aukast við þetta. Það eitt skiptir máli. Hagur þjóðarinnar, ekki einstaklinga. Félagsvandi, heilsuvandi, vandi varðandi ofbeldi og glæpi og vinnutap. Þessir hlutir kosta skattgreiðendur gríðarlegt fjármagn.

Fólk hér hefur minnst á að það hafi verið erlendis og ekki orðið vart við "einhvern vanda". Vandinn er líka ekkert borinn út á torg! Hér á landi er frekar opin umræða um áfengisvandann miðað við flestar þjóðir en samt sjáum við bara glitta í toppinn á ísjakanum hérna. Þetta fólk sem "ekki varð vart við neinn vanda" erlendis, fór það inná heimili fólks? Inn á sjúkrastofnanir? Talaði það við börnin í samfélaginu? Eða við félagsþjónustuna? Það að rölta um stræti borga erlendis gerir mann ekki hæfan til að meta einhvern þjóðfélagsvanda þar! Sérstaklega þegar það er hluti af eðli vandans að fela hann!

Þegar svona frumvarpi er fleygt fram finnst mér það vera lágmark að koma á sama tíma með raunhæfar og öflugar tillögur um aukið fjármagn í forvarnir, meðferðir og félagsleg úrræði. Að öðrum kosti er verknaðurinn mjög óábyrgur og flutningsaðilum til minnkunnar.

Páll Geir Bjarnason (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 14:53

51 Smámynd: Daði Einarsson

Páll, ég veit ekki til hvers þú ert að vísa en ég held að mörg okkar sem höfum reynslu af því að búa árum saman erlendis vitum hvað við erum að tala. Hér í Lúx er eins auðvelt að ná í áfengi og að kaupa mjólk - ekki bara bjór og léttvín. Undirliggjandi vandi sem kemur upp og hefur verið bent á m.a. af Jenný er að Íslendingar kunna einfaldlega ekki að drekka. Víða í Evrópu - t.d. hér í Lúx - er örugglega drukkið meira áfengismagn á hverju ári, en neyslan er jafnari og magn þegar áfengi er drukkið er minna en á Íslandi. Meginspurningin er kannski ef að núverandi áfengisstefna hafi skilað einhverjum árangri. Það er erfitt að sjá þrátt fyrir gott starf fjölmargra aðila á liðnum árum og áratugum. Hefur ekki nálgun yfirvalda verið röng eða eru Íslendingar svo aftarlega á merinni varðandi drykkjumenningu að okkur sé ekki treystandi til að hafa gott aðgengi að víni og bjór.

Hættan er auðvitað að það dragi úr framboði á mismunandi tegundum en að vísu er hér í Lúx mjög gott framboð. Í einum stórmarkaði hér í Lúx er áfengishluti verslunarinnar nógu stór til að sumar matvöruverslanir heima kæmust líklega fyrir í því rými.

Daði Einarsson, 17.10.2007 kl. 16:13

52 identicon

Daði, í mínum huga og þeirra sem vinna að meðferðarmálum snýst áfengisvandi um einmitt þessa neyzlu sem þú ert að lýsa í Lux. Þ.e. drekka meira magn yfir lengri tíma. Þar kemur einmitt upp langvarandi heilbrigðisvandi. Menn tala um t.d. um lönd eins og Spán, Frakkland og Ítalíu þar sem aðgengi er mikið, dagdrykkja viðurkennd og "vínmenning" mikil. Það sem mér finnst undarlegt er að í þessu sambandi er aldrei minnst á það að í þessum 3ur löndum er hæsta hlutfall dauðsfalla af völdum skorpulifurs í heimi!!! Af hverju ætli það sé? Hefurðu gert samanburð á tilfellum skorpulifurs á Íslandi og Lúx? Það að sumir einstaklingar missi sig í drykkju öðru hvoru um helgar er ekkert endilega aðal heilbrigðisvandinn, heldur þetta langvarandi "sull" alla daga. Aukið aðgengi hefur þegar sýnt sínar vondu hliðar. Með tilkomu bjórsins, fjölgun útsölustaða og lengri opnunartíma hefur komið í ljós að eldra fólk í daglegu áfengissulli hefur í gríðarlega auknum mæli leitað sér aðstoðar vegna áfengisnotkunnar. 

 Ég hvet fólk til að skoða raunverulegar tölur á víðum grundvelli áður en það myndar sér skoðun á þessu máli. Það hangir gríðarlega margt á þessari spítu.

Páll Geir Bjarnason (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 18:10

53 identicon

Áfengi er helvíti,afhverju ætli Sigurður Kári hafi eitt sinn misst teinið?Jú hann hafði fengið sér einum sopa of mikið (staðreind.)

Jensen (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 18:14

54 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ekki tilviljun að í þessum löndum hefur fólk yfirleitt ekki magapínu heldur heitir það: Æ, mér er svo illt í lifrinni...

Þrátt fyrir það vildi ég nú samt frekar hafa vínmenningu Ítala og Frakka hér, þrátt fyrir skorpulifrina, þar sér nefnilega eiginlega aldrei vín á fólki. Mér finnast helgarköstin með fylgjandi heimilisofbeldi og öðru talsvert mikið verri.

Annars tek ég undir með Ásthildi í sambandi við úrvalið, held líka að verð á góðum vínum myndi snarhækka. Lími hér inn komment sem ég setti hjá Stefáni Páls:

Ég er líka á móti þessu, en af allt annarri ástæðu. Sem vínspekúlantar erum við ansi hrædd um að úrval stórminnki og verð hækki, nema kannski á Lite og bandarískum Bud/álíka viðbjóði og Blush Zinfandel og vondu rauðvíni í kössum, slíkt mun fara á tilboð í Bónus, mögulega eitthvað heldur skárra í Nóatúni. Álagning er lág í Vínbúðum og það hefur enginn talað um að lækka skattinn á áfenginu, sá er auðvitað langstærsti pósturinn í verðinu.

Mögulega yrði úrval stöðugra og líklega kæmu til sérverslanir fyrir sælkera. En þá er svo sem ekkert betur af stað farið en heima setið, ef smekkur þinn fer eitthvað aðeins út fyrir massann þarftu hvort sem er að fara í sérbúð til að kaupa rauðvínið þitt.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 17.10.2007 kl. 20:13

55 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég verð að vera ósammála þér Jenný. Hef sjálf búið í nokkrum löndum þar sem áfengi er selt í matvöruverslunum og finnst það fínt fyrirkomulag.

Til dæmis í Bretlandi var og er áfengi selt í stórmörkuðum. Þó var úrvalið síst verra en hér heima, verðið betra og það voru líka til sérstakar áfengisverslanir (einkareknar) þar sem fólk gat farið ef úrvalið í stórmarkaðnum dugði ekki.

Þar sem ég bjó í Bandaríkjunum var léttara áfengi selt í matvöruverslunum og svo voru til áfengisverslanir þar sem létt og sterkt áfengi var selt. Úrvalið var fínt, verðið gott og drykkjan skárri en hér heima.

Það gilda engin önnur lögmál um Íslendinga en aðrar þjóðir. Við getum höndlað sölu áfengis í matvöruverslunum rétt eins og aðrir.

Svala Jónsdóttir, 17.10.2007 kl. 20:52

56 identicon

Virkilega gaman að kíkja hér inn þar sem málefnaleg umræða fær að ráða för, já og margir segja sitt álit.

 Við Íslendingar getum verið svo miklar smásálir.  Svo langt á eftir öðrum ríkjum sem þó hafa reynslu og kunnáttu á málum.    Að halda því fram að heildin eigi að lúta fyrir fólki með vímuefnavandamál er að sjálfsögðu ekki rétt leið að málunum.  Ég hef ferðast út um allan heim og í all flestum löndum er vín og bjór selt í matvöruverslunum.  Sem er hið bests mál.   Það var tekist á með það að leyfa bjór á Íslandi á sínum tíma.  Í mörg ár lágu bjór-frumvörp á alþingi um að bjórinn skildi leyfður.  En það var ekki fyrr en árið 1989 (þið afsakið mig ef ég fer ekki rétt með ártal) fékkst leyfi til að halda á bjór í okkar ágæti landi.  Einstaklega þröngsýnt og hallærislegt sem það nú er.  En önnur lönd í Skandinavíu hafa árhundruða sögu á bruggun bjórs og bjórmenningu.

Jú auðvitað er SJÁLFSAGT að leyfa sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum landsins. 

Kreddur og þröngsýni á ekki við hvað það varðar.

Karl E Pálmason (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 21:26

57 Smámynd: Sævar Einarsson

Mig langar alveg hrikalega mikið í bjór núna eftir að hafa lesið þetta ! skammist ykkar ! ég hefði getað svalað þessari löngun ef þetta væri selt í matvöruverslun, en sem betur fer er það ekki hægt, ég gæti slysast til að kaupa mér 1 kippu og misst mig í drykkju og þurft að tilkynna mig veikan til vinnu á morgun, fjúkket ... svakalega er ég feginn að  ríkið hafi einkaleyfi á að selja vín og stjórnað því klukkan hvað ég get nálgast vínið í seinasta lagi, einokun, best í heimi ...

Sævar Einarsson, 17.10.2007 kl. 22:01

58 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Langar alveg hrikalega mikið í bjór núna segirðu sævarinn.  Hehe, ertu ekki bara alki?  Segi svona

Þú hangir bara á hurðinn á ríkinu í fyrró, þegar þeir opna.

Karl: Þú skrifar: "Við Íslendingar getum verið svo miklar smásálir.  Svo langt á eftir öðrum ríkjum sem þó hafa reynslu og kunnáttu á málum."  Við erum langt á eftir ansi mörgum ríkjum í drykkjuvenjum, svo við byrjum á byrjuninni.  Ef þjóðarsálin væri ekki meðferðarhæf eftir helgarfyllerí væri kannski hægt að fara að ræða "menningarlega nálgun" við eldvatnið. Get a live.

Svala: Þú skrifar: "Það gilda engin önnur lögmál um Íslendinga en aðrar þjóðir. Við getum höndlað sölu áfengis í matvöruverslunum rétt eins og aðrir" Var mikið um hernaðarástand um helgar, sérsveitarúrköll, alvarlegt ofbeldi, eignaspjöll, stútadrykkju og onandonandon?

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 22:18

59 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hildigunnur: Ég hefði ekki getað sagt þetta betur sjálf.  Takk fyrir þetta innlegg.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 22:19

60 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Svala vantar inni í hjá mér, "þar sem þú bjóst í USA"

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.10.2007 kl. 22:20

61 identicon

Afhverju breyttu Finnar aftur,þeir leyfðu sölu léttvíns og bjórs í matvörubúðum,,en það gekk allt til baka ALLT fór til helvítis í svokallaðri drykkjumenningu þar.Síðan hvenær er það menning að sjá ölvað og ruglað fólk.?Það kallast menning að rækta heilbrigði.

Jensen (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 22:39

62 identicon

Átvr ættu að vera lagt niður átvr er ekkert nema leifar af kommunisma, áfengisskattar minnkaðir eða fjarlægðir algjörlega, allt vín í búðir plús lækkun áfengisaldurs í 18 ár (er 20 ára).

Er það ég eða er jenny með rasisma gegn Íslendingum að álita að við getum ekki höndlað áfengi eins og ubermench í þýskalandi og Frakklandi . Sami gamli kommasöngurinn er hættur að virka sem betur fer 

Alexander Kr Gustafsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 22:39

63 identicon

Sævarinn, því miður hefðir þú ekki geta keypt þér neitt þó frumvarpið væri komið í gegn því þar er kveðið á um að sala verði ekki leyfð eftir kl. 20:00. Þú skrifar komment þitt kl. 22:01.

 Þetta er meginatriðið. Ávinningurinn er enginn. opnunartímar breytast ekkert, það eina sem breytist er að þeir sem eiga verzlanakeðjurnar græða meiri pening og áfengi verður sýnilegra fyrir æsku landsins. Ríkið verður síðan gagnrýnt fyrir að vera í samkeppni við frjálsan markað. Fyrir utan að neyzlan eykst auðvitað, eins og í öllum öðrum löndum sem þetta hefur verið gert.

Svala, ég veit ekki hvar þú bjóst í Bandaríkjunum en ég bjó í Colorado um tíma og þar er áfengi ekki selt neins staðar nema í  Vínverzlunum. Bjór undir 3,2% fékkst í sumum bensínstöðum. Stærsta verzlunarmiðstöð Bandaríkjanna, Wal Mart, sem selur allt frá hjólbörðum og vinnupöllum til tyggjópakka og gleraugna selur ekki áfengi. Svona er þetta mjög víða og mörgum þjóðum og ríkjum dettur ekki í hug að breyta þessu vegna þess að þar er tekið mark á reynslu annarra. 

Það er ótrúlegt að heyra endalaust hamrað á því að andstæðingar frumvarpsins séu að tala fyrir hönd alkóhólista. Að verið sé að svipta meirihlutann einhverju ímynduðu frelsi fyrir nokkra veika einstaklinga. Alkóhólistar drekka hvort sem er, sama hvað klukkan er og sama hvar áfengi fæst. Þetta snýst ekki um að einhverjir gætu slysast til að detta í það. Þetta snýst um þann almenna heilbrigðisvanda sem áfengisneyzla er. Afleiðingar áfengisneyzlu eru miklu meiri og víðtækari en hinn almenna neytanda grunar. Svo er þetta auðvitað á skjön við allt sem Lýðheilsustöð og heilbrigðisyfirvöld hafa um málið að segja. Það er engin tilviljun að heilbrigðisráðherra sem hefur verið flutningsmaður frumvarpsins 4 sinnum í röð dregur sig í hlé og þegir þunnu hljóði núna. Allt við þetta frumvarp er ófaglegt. Það er ekki leitað álits hjá fagaðilum í meðferðarmálum, félagsmálum og heilbrigðismálum. Eins er ekki tekið mark á borðliggjandi tölum frá öðrum ríkjum, skotheldum, vísindalegum könnunum og rannsóknum sem allar segja bara eitt. Slæmt, slæmt, slæmt...

Kári, það er ekki verið að afnemma bann á neinu núna. Öll þessi vara er leyfð í landinu og seld í verzlunum út um allt land. Að banna bjór en leyfa sterkt og léttvín er þversagnarkennt og erfitt að rökstyðja. Bjórinn var leyfður og settur í áfengisbúðir. Þessu tvennu má ekki líkja saman því það er ábyrgðarleysi að taka svona hættulega vöru sem ógnar lýðheilsu og setja á stall fyrir framan börn og unglinga við hliðina á matvöru. Viðhorfið þróast til þess að þau halda að um sé að ræða hættulausa matvöru.

Þetta verður endalaus rökræða. Það er erfitt að eiga við þá áfengisdýrkun sem á sér stað í þessu landi og mörgum öðrum. Meðan slík áfengisdýrkun á sér stað verður þetta hitamál því líkja má þessu við trúarbrögð. Mér finnst að þeir sem berjast sem harðast fyrir þessu frumvarpi og verður heitt í hamsi við að ræða það ættu að skoða aðeins eigið verðmætamat. Kannski skoða líka eigin neyzlu. Reikna t.d. út hversu mikið magn það drekkur á ári... ;) 

Páll Geir Bjarnason (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 22:43

64 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

endurtek, ruslið mun lækka en góðu vínin hækka. Það er bókað. Álagning á áfengi í Vínbúðum fer eftir áfengismagni ekki eftirspurn og sem unnandi góðra vína finnst mér það tótal snilld. Það mun breytast í sérverslunum, sem sjá sér hag í að selja vínsnobburum háu verði.

Svala, vínin sem við bóndi minn kaupum eru nær alls staðar í heiminum dýrari en hér. Það er staðreynd.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 17.10.2007 kl. 22:57

65 identicon

Ég hef búið í Bandaríkjunum í tæp 7 ár, annars vegar í Kaliforníufylki þar sem má selja allt áfengi í matvöruverslunum og hins vegar í Washingtonfylki þar sem aðeins má selja létt áfengi og bjór. Mér finnst það vissulega þægilegt að geta keypt mitt áfengi á sama tíma og matinn og á eflaust eftir að sakna þeirra þæginda í einhvern tíma, en ég held að það eigi eftir að venjast fljótt að fara aftur í ríkið.  

Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvort ég drekk meira magn núna en ég gerði áður, eða hvort neyslan hefur bara breyst með aldrinum. Að minnsta kosti "dett ég ekki oft í'ða" en fæ mér oft rauðvín eða bjór með matnum.

 Mér finnst samt ekki mikill munur á því að selja tóbak í matvöruverslun (ekki er það matvara) og að selja áfengi.

Varðandi heilsufarsvandann, þá held ég að í mínu tilfelli sé það frekar fita og sykur sem mun drepa mig heldur en áfengi.

Ég á eiginlega erfitt með að gera það upp við mig hvort það eigi að leyfa frjálsa áfengissölu. Það hefur allt sína kosti og galla. Mér fannst hins vegar gott að lesa hvað allir höfðu að segja, svona til að reyna að sjá allar hliðar málsins.

Ég þakka skemmtilegt blogg.

Sólveig Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 04:51

66 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

fleeehhh! Sáuð þið fréttina um JúróSjopperBjórinn. Sagði ég ekki? :o :o :O Ruslasían er dottin út, nú byrjar það ódrekkandi að fást.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.10.2007 kl. 10:50

67 identicon

Nöldrari, vá hvað þú ert takmarkaður í málflutningi. Ef þú sæir þér fært að lesa kommentin hérna sæirðu að þetta snýst ekkert um róna og unglinga. Þetta snýst ekkert um fylleríið í bænum um helgar. Þetta snýst um landlægan heilbrigðisvanda sem hlýst af áfengisneyzlu. Þetta snýst um vímuefni sem á ekki að flokka sem neyzluvöru í frjálsri verzlun. Þetta snýst um að gefa nokkrum aðilum allan hagnað af áfengissölunni í landinu. Í guðanna bænum hlífðu okkur við þessari sítuggnu þvælu að þetta sé forræðishyggja vegna nokkurra ofdrykkjumanna. Kommon, wake up and smell the beer.

Páll Geir Bjarnason (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 01:07

68 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Gott innlegg Páll Geir.

Nöldrari: Ég ætla ekki að byrja á að svara þér, því ég er upptekin næstu vikuna. Hehe.  Við erum ekki að tala sama mál.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.10.2007 kl. 10:11

69 identicon

Því fleiri boð og bönn sem liggja á fíkniefnum eða vímuefnum gera þau þeim mun eftirsóknarverðari fyrir unglinga. Hef séð nokkrar góðar greinar þar sem er sýnt að með hverju boðinu og banninu þá verður fíkniefnið vinsælla, fólk fer frekar í felur með neyslu og fleiri vandamál skapast. Það er ekki til betri markaðsetning á fíknefnum fyrir börn og unglinga en að setja boð og bönn. Fræðsla er skilar miklu meira og reyndar það eina sem virkar að mínu mati.

T.d. í Hollandi eru færri unglingar sem byrja að nota kannabis en annarstaðar á vesturlöndum þrátt fyrir að aðgengi að vímuefninu sé hvergi meira en þar.

Bjöggi (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 16:04

70 identicon

Reyndar er vímuefnaneysla heimamanna með minnsta móti. Það eru aðalega útlendingar sem koma þangað til að misnota efnin.

Bjöggi (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 16:06

71 identicon

Reyndar finnst mér nauyðsinlegt fyrir greinar eins og ferðaþjónsutu sem er að skila hvað mestum gjaldeyristekjum okkar í dag að gera áfengissölu opnari. Veit að erlendum gestum þykir þetta fyrirkomulag fáránlegt. 

Útlendingar kaupa sér ekki áfengi á Íslandi af því það er erfitt að nálgast það og það er dýrt. Veitingarhús gætu kannski farið að selja útlendingum flösku með matnum. Reyndar tel ég þjóðhagslega hagkvæmt að gera áfengissölu opnari og frjálsari. Ofurtú á boð og bönn kemur manni ekki neitt.  

Bjöggi (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 16:09

72 Smámynd: Halla Rut

Kæra Jenný. Ég er ekki sammála þér í þetta sinn. Þetta er ein af þessum breytingum sem allir eru hræddir við. Flest fólk er hrætt við breytingar og nýbreytni. Það eru svo margir hlutir í dag sem einu sinni voru bannaðir og finnst okkur það spaugilegt í dag.

Í fréttum í kvöld var talað um að 40% ófrískra kvenna væru of feitar og um helmingur ófrískra kvenna fitnaði meira en eðlilegt þykir á meðgöngu. Eigum við ekki að setja einhver lög á þær. Lög sem minkar aðgengi þeirra að mat. Þær greinilega ráða ekki við sig. Þetta stofnar ekki bara þeim í hættu heldur ófæddum börnum þeirra líka. 

Fyrirhyggja gengur aldrei upp. 

Halla Rut , 19.10.2007 kl. 19:07

73 Smámynd: Halla Rut

P.S. Við erum orðin ferðamannaþjóð og við verðum að taka mið að því. Verð á áfengir verður að lækka.

Halla Rut , 19.10.2007 kl. 19:08

74 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það verður ekki spornað við þessu, þótt ég telji það miður. Það þarf þó í byrjun að setja ströng skilyrði fyrir þessu. Noregur og Svíþjóð eru með stranga og forræðisbundna áfengislögjöf og gífurlegt okur á áfengi. Samt hafa þeir leyft sölu víns og öls í búðum í áratugi.  Í Noregi man ég að lokað var fyrir söluna kl. 18. þótt verslunin væri opin lengur.

Varðandi áfengisverð, þá er það léleg réttlæting að hátt áfengisverð dragi úr neyslu, allavega ekki hjá ölkum, sem klífa fjöll fyrir einn pela.  Hins vegar mættu þjónustuaðilar í veitinga og ferðamannabransanum líta í eigin rann með 100-200% álagningu sína.  Græðgi þeirra og okur, stendur þeim mest fyrir þrifum held ég.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.10.2007 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 2986901

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband