Leita í fréttum mbl.is

SVO SORGLEGT

 

Það er svo erfitt að lesa svona fréttir.  Þessi maður, sem er götumaður, alkahólisti og greindur með krabbamein, hefur í engin hús að venda en maðurinn neitar meðferð við sjúkdómnum.  Dætur hans telja að kerfið hafi brugðist honum. 

Það er erfitt að mynda sér skoðun á þessu.  Það eru miklir fordómar í samfélaginu gagnvart sjúkdómnum alkóhólisma.  Mikið hefur þó breyst.  Ég verð a.m.k. ekki vör við annað en jákvæð viðbrögð í þau skipti sem ég nefni minn sjúkdóm til sögunnar.  En.. ég er edrú. 

Ég er ekki alveg tilbúin, eftir lestur þessarar fréttar, að skrifa upp á að kerfið hafi brugðist manninum.  Kerfið er alltaf klikkandi á fólki, það er rétt, bæði fólki með félagslega sjúkdóma eins og geðraskanir og alkóhólisma annars vegar og einnig hina líkamlegu, áþreifanlegu sjúkdóma hins vegar. En þarna virðist mér skorta upp á þáttöku mannsins til að hægt sé að veita hjálpina.

Ef við erum með sjúkdóm verðum við að taka ábyrgð á honum, a.m.k. á einhverju stigi málsins.  Við verðum að þiggja þá aðstoð sem býðst.  Þessi vesalings maður virðist ekki vilja gera það.  Vonandi ber hann gæfu til þess og ég vona svo sannarlega að hann fái bót meina sinna, bæði á krabbameini og alkahólisma.

Ég sendi honum og fjölskyldu hans baráttukveðjur.

Allt byrjar þetta í eigin ranni og endar þar líka.

 


mbl.is Kerfið hefur afskrifað pabba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Algjörlega sammála!

Sunna Dóra Möller, 24.7.2007 kl. 11:27

2 Smámynd: Ragnheiður

Já ég las þetta áðan líka og er sammála þér með að ef maðurinn vill ekki þá gerist ekkert. Svo er hitt sem ég var að pæla í, dæturnar virðast sjálfar ekki vilja hýsa þann gamla ? Ég veit sko nákvæmlega hvernig maður í þessarri stöðu er á heimili. Náskyldur mér var einn af frægari rónum borgarinnar...

Ragnheiður , 24.7.2007 kl. 11:36

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er svo sorglegt.  Ég verð miður mín stundum, yfir örlögum fólks, sérstaklega aðstandenda.  Ég er oftast sammála þeim sem benda á ófullkomleika kerfisins og skorti á úrræðum en staðreyndin er sú að við erum með færustu lækna á byggðu bóli í áfengislækningum og fá lönd geta státað af öðru eins.  Það skal ekki vanmeta.  Ég tala af reynslu og er ævarandi þakklát fyrir mína lífgjöf.  Ég á náinn aðstandenda sem hefur barist við krabbamein af miklu hugrekki og elju og þessi ættingi minn getur ekki nógsamlega þakkað alla þá hjálp og viðhorf sem boðið er upp á í meðferð krabbameinssjúkra, fyrir nú utan læknisfræðlega færni sem er til staðar.

Það fýkur líka smá í mig fyrir hönd þessa fólks sem hefur bjargað mannslífum með skilningi, samkennd og stuðningi við okkur sem þurfum á þjónustunni að halda.  Ég vil ekki að það sé vanmetið.

Við einfaldlega verðum að vilja hjálpina ef hún á að koma að gagni.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2007 kl. 11:47

4 Smámynd: Ragnheiður

100% rétt hjá þér. Fínn pistill þó hann sé bara kommenta pistill.

Ragnheiður , 24.7.2007 kl. 11:51

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bíddu nú: "fínn pistill þó hann sé bara kommentapistill"?  Hvað áttu við, ég skil ekki.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2007 kl. 11:59

6 identicon

Ég bara benda á svar annari dótturinni við öðru bloggi hérna. 

 

Ég er önnur dóttirin sem viðtalið er við og ég vil bara benda á að tilgangurinn með þessu viðtali er bæði að sýna fólki á að ekki er alltaf hægt að benda á að gistiskýlið sé lausn, þar sem það er svo mikil aðsókn í það. Og hvað á þetta fólk þá að gera? Bara sofa á götunni?

Eins finnst mér það bara sjálfsögð mannréttindi að fólk fái að hafa þak yfir höfuðið þó að það fari ekki í meðferð. Til dæmis fyrir föður minn þá er hann bara allt of langt leiddur til að hann eigi einhvern möguleika á að meðferð myndi hjálpa honum. Að senda hann í meðferð væri einungis að eyða skattpeningum almennings, er það það sem fólk vill?

Eina sem við viljum er að hann hafi einhvern stað til að geta verið á. Eins og er líka bent á í greininni þá er gistiskýlið einungis opið frá kl. 17 á sumrin og á hann þá bara að vafra um á götunni. Við erum að halda í vonina að hann muni komast að á nýja heimilið á Njálsgötu.

Þetta er náttúrulega mjög erfitt fyrir aðstandendur og maður er að farast á taugum við þetta, maður veit aldrei hvernig næsti dagur verður? Maður er að reyna að hjálpa honum og láta hann t.d. vera hjá sér yfir nótt ef hann á í enginn önnur hús að venda en þetta er ekki hægt endalaust. Maður er ekki í aðstöðu til að taka hann alveg inn á heimilið manns.

Karen Linda V Einarsdóttir, 24.7.2007 kl. 11:23

Sigrún (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 11:59

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já.... það er erfitt að aðstoða fólk sem hefur afskrifað kerfið......

Það hlýtur að vera erfitt að vera í þessari aðstöðu. Sem betur fer get ég ekki gert mér það í hugarlund. En ein og þú bendir á Jenný þá er fólkið sem veitir aðstoðina oft stórlega vanmetið og jafnvel kennt um ef sá sem aðstoðina á að fá er ekki tilbúinn að þiggja hana......

Mér sýnist kerfið ekki vera að bregðast hér

Hrönn Sigurðardóttir, 24.7.2007 kl. 12:06

8 Smámynd: Hallfríður Jóna Jónsdóttir

Sæl Jenny

Ég er svo hjartanlega sammála því sem þú segir.

Hvorki kerfið né aðstandendur eru að bregðast þegar viðkomandi vill ekki þyggja þá hjálp sem rétt er fram.  Eins er það alveg rétt að þjónusta og læknismeðferðir fyrir alkahólista eru í sérflokki hér á landi. Sama má segja um lækna og hjúkrunarfólkið á sjúkrahúsunum. 

Ég þekki nokkra einstaklinga sem hafa farið í meðferð "fyrir" fjölskylduna, en það hefur aldrei enst. Viljinn verður að koma innanfrá. Baráttuandinn sömuleiðis, sama hvaða  sjúkdóm er um að ræða.

Auðvitað er erfitt fyrir dætur þessa umrædda manns að horfa á þjáningar hans og geta lítð aðhafst.  En okkur er ekki alltaf ætlað að ráða.  Vonandi kemur bara eitthvað gott út úr umræðunni um málið. 

Hallfríður Jóna Jónsdóttir, 24.7.2007 kl. 12:11

9 Smámynd: Karen Linda V Einarsdóttir

Ég er önnur dóttirinn og ég hef alveg viljað og er þessa stundina að hýsa hann, þegar hann kemst ekki að á gistiskýlið en ég er aftur á móti ekki í aðstöðu til að taka hann að mér.  Er bæði með  ung börn og mann og hvorki aðstöðu né taugar að taka manní drykkju in á heimilið allan sólarhringinn, þó maður reyni að hjálpa honum með því að vera nótt og nótt.

Við viljum bara einhvern stað sem hann geti verið á. Og ef fólk getur ekki né vill fara í meðferð er þá bara allt í lagi að það deyji drottni sínum út á götu.

Hann er verða 63 ára, komin með beinfrumuæxli og það langt leiddur að alkohólisma að hann á aldrei eftir að geta náð sér upp úr þessu.  Og af því að hann vill ekki fara í meðferð er þá bara hægt að segja að hann vilji enga hjálp og verði bara þess vegna að vera á götunni. 

Eitt í sambandi við þetta heilbrigðiskerfi, þá hefur t.d upplýsingar um veru föður okkar á spítalanum í vor, þar sem hann var í nokkrar vikur og sjúkdómurinn uppgötvaðist ekkert borist til heimilislæknisins og niðurstöður úr rannsóknum ekki heldur. Mér finnst kerfið ekki vera að standa sig þar, sérstaklega með tilliti til þess að þetta er sjúkdómur sem þarf að fylgjast með.

Karen Linda V Einarsdóttir, 24.7.2007 kl. 12:13

10 identicon

Þetta er til háborinnar skammar þetta mál. Hálf þjóðin gat staðið upp fyrir "Hundi" en svo eru svona mál látin afskiptalaus. Hneiksli.

Ég þekki til alkaholisma  mjög vel, enda aðstandandi til margra ára. Ég veit að fordómar eru íllviðráðanlegir í svona tilfellum. En hins vegar hélt ég að velferðarkerfið okkar væri svo gott, að þegar fólk lendir í svona stöðu að það sé tekið á því strax. En nei, aldeilis ekki.  Þess vegna tek ég ofan fyrir Hlaðgerðarkoti. En þar virðist vera næg samkennd til þess að glíma við svona erfiðar stöður sem upp koma.

Ég vona bara að maðurinn fái uppreisnaræru og fái þá hjálp sem hann á skilið.  Það á engin manneskja það skilið að vera skilið eftir úti í kuldanum þegar svona er komið, og reyndar aldrei.  En það er bara mín skoðun.  

Guðrún B. (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 12:23

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Til Karenar Lindu,

Ég finn sárlega til með þér og systur þinni.  Það er sorglegra en tárum taki þessi aðstaða sem þið eruð í.  Ég trúi ekki að nokkur ætlist til þess að þú eða systir þín takið pabba ykkar inn á heimilið enda ekki hægt að bjóða öðrum fjölskyldumeðlimum upp á það.  Þetta er bara sorglegt.

Ég ítreka þá ósk mína að úr rætist fyrir pabba ykkar.  Ég trúi því að það sé alltaf von.  Það er vont að afskrifa vonina. 

Baráttukveðjur

Guðrún B.  Á Hlaðgerðarkoti (án þess að ég þekki til þar) held ég að vilji sjúklingsins til hjálpar hljóti að verða að vera inni í myndinni.  Ef ég hef skilið það rétt þá er Hlaðgerðarkot meðferðarstofnun en ekki gistiskýli eða áfangaheimili.

Nú er nýtt heimili fyrir heimilislausa að opna á Njálsgötunni.  Kannski er það svarið í þessu máli.  Hver veit.

Ég held að allir vilji sjá lausn í þessu sorglega máli.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2007 kl. 12:33

12 identicon

En hvað með krabbameinið hjá honum? Skýrlurnar hans sem áttu að fara til heimilislækrinn hafa ekki skilað sér til hans, er það bara ekki allt í lagi líka af því hann er bara fyllibytta og aumingji?Segjum svo að hann færi í meðferð þá er hann svo illa farinn, þá er ég að meina að meðtaka þetta meðferða prógram að  hugsuninn hjá honum er orðin svo brengluð að hann hefðið ekkert gagn af henni,hjá honum er fortíðinn miklu meira í hugsun hans og tali en nútíðin.Svona verður þessi sjúkdómur þegar hann er komin á lokastig, en það vita bara þeir sem þekkja þetta af eigin raun. 

Sigrún (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 12:37

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sigrún, ég var á lokastigi sjúkdómsins án þess að ég fari nánar út í það hér.  Auðvitað er það ólíðandi að mikilvægir pappírar fari ekki réttar boðleiðir og það á ekki að gerast.  Ég vil ekki trúa því að það hafi gerst vegna þess að maðurinn sé götumaður.  Það er ljótt ef satt er.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2007 kl. 12:45

14 identicon

Já Jenný, það getur verið, ég bara veit um tilfelli þar sem maður sem var heimilslaus gat þar fengið athvarf og, fólkið var svo yndislegt við hann í alla staði.  Ég held meira að segja að hann sé edrú í dag.  Ég er ekki viss um það að allir alkar fari inn í meðferð vegna þess að þeir vilja það, heldur vegna þess að þeir verða að gera það. Oft á tíðum, miðað við það sem ég hef heyrt, breytist svo afstaða þeirra þegar runnið er almennilega af þeim og hlutirnir skýrast. 

En ég er ekki alkaholisti þannig að ég get svosem ekki sett mig inn í það. En ég er aðstandandi og ég veit að oft eru alki og aðstandandi sitthvor hliðin á sama peningnum.  

Ég vona bara að það finnist lausn á þessu. Og það sem fyrst.  

Guðrún B. (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 12:47

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála Guðrún B.  Ég held að allir eigi það sameiginlegt að vilja sjá lausn á þessu máli.

Það er líka vandfjallað um svona mál þar sem persónurnar koma fram undir nafni og ekki vill maður særa fólk.

Ég þakka umræðuna hér á minni síðu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2007 kl. 12:50

16 identicon

Gott hjá þér Jenný að vekja athygli á þessu máli.  Tveir þumlar upp fyrir þér

Guðrún B. (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 12:54

17 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Mikilvægir pappírar geta alltaf misfarist því miður. Ég held að það gerist ekki bara fyrir það að hann sé götumaður.

Marta B Helgadóttir, 24.7.2007 kl. 12:54

18 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Já, Jenný, við auðvitað bloggum um þetta, enda velferð allra ofarlega í okkar huga eins og fleirri. Lausnin er vandfundin en maður vonar þó að eitthvað gott geti gerst.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.7.2007 kl. 13:06

19 Smámynd: Ragnheiður

"

Eitt í sambandi við þetta heilbrigðiskerfi, þá hefur t.d upplýsingar um veru föður okkar á spítalanum í vor, þar sem hann var í nokkrar vikur og sjúkdómurinn uppgötvaðist ekkert borist til heimilislæknisins og niðurstöður úr rannsóknum ekki heldur. Mér finnst kerfið ekki vera að standa sig þar, sérstaklega með tilliti til þess að þetta er sjúkdómur sem þarf að fylgjast með. "

Auðvitað áttu þessar upplýsingar að fara rétta boðleið,það er ekki spurning um annað. Hvers vegna þær gerðu það ekki er ekki gott að segja. Varla vegna þess að hann er útigangsmaður ? Já ég skal ekki segja,ég lenti í afar andstyggilegri reynslu hjá þessu heilbrigðisbatteríi fyrir ári síðan og trúi eiginlega orðið hverju sem er upp á suma lækna.

Við skulum vona að úr rætist fyrir manninum, það er bara svo erfitt að hjálpa þegar viðkomandi vill ekki hjálpina. Hann kannski kemst inn á Njálsgötuheimilið ?

Það er rosalega erfitt að vera aðstandandi og vera löngu orðinn úrræðalaus..Bestu óskir til ykkar systra, það var gott að reka mannskapinn (lesist mig )aðeins niður út fílabeinsturninum . Auðvitað er ekkert hægt að taka hann inn á heimili ykkar, það dettur manni bara í hug í asnaskap. Ég ætti nú að vita betur..

Ragnheiður , 24.7.2007 kl. 14:09

20 Smámynd: Ragnheiður

Jenný kommentapistill er pistill sem er í kommentum en ekki á aðalsíðunni. Skiljú ?

Ragnheiður , 24.7.2007 kl. 14:25

21 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Þetta mál er sorglegra en tárum taki.  Er sjálf hjúkka, og hef barist fyrir hönd minna skjólstæðinga árum saman, við óskiljanlega þungt og erfitt heilbrigðiskerfi.  Jafnvel fengið að heyra að vera djö...frekja og alltaf með leiðindi, þegar mér fannst ganga arfaseint að fá tíma í rannsóknir fyrir fárveikt fólk, að fá út úr rannsóknum, að koma fólki í meðferð eða endurhæfingu o.s.f.r!  Og svo "týndust" kannski niðurstöðurnar eða umsóknarpappírar, og varð að endurtaka allt rannsóknarferlið eða sækja um upp á nýtt.  Aaaarrrrgh!  Getur gert hvern hjúkrunarfræðing gráhærðan að lenda í þessu.  En alltaf tókst þetta samt með þrotlausri vinnu, símhringingum, skipulagningu og góðri samvinnu við samstarfsfólk og skjólstæðinginn.  Og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni.  Ef skjólstæðingur minn "vildi" ekki í einhverja rannsókn, eða einhverja meðferð, gat ég eða samstarfsfólk ekki neytt hann í slíkt.  Hann hafði sinn sterka rétt til að hafna aðstoðinni er honum stóð til boða, og kveðja okkur með kurt og pí!  Var hans val, hversu veikur sem hann var.  Horfði á eftir mörgum ungum einstaklingnum, sem neitaði aðstoð vegna vímuefnaneyslu sinnar, aftur út á götuna.  Stakk mann í hjartað, en maður mátti ekkert aðhafast.  Horfði eftir fárveikum átröskunarsjúklingum hverfa sjálfum sér og ástvinum sínum, því þeir "vildu ekki"!  Og manni sveið ofan í hjartarætur, en mátti ekkert aðhafast.  Því held ég að hér sé það ef til vill spurning um, að til séu húsnæðisúrræði fyrir þessa einstaklinga, sem "ekki vilja"!  Þar sem að þeim er hlúð, án þess að nokkurri meðferð sé troðið upp á þá, og þeir eigi sér skjól.  En það kostar allt peninga, og þau fáu skjólshús sem eru til í dag, eru fjárvana og yfirfull.  Nýji félagsmálaráðherrann þyrfti kannski að skoða þessi mál, og kippa í liðinn.

Sigríður Sigurðardóttir, 24.7.2007 kl. 15:47

22 identicon

Það virðist einhver miskilingur gangi í sambandi við meðferðina, hann hefur ekki neita neinni krabbameinsmeðferð.Þær systurnar eru að tala um áfengismeðferð sem hann ekki vill né getur.

Sigrún Theresa (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 19:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband