Leita í fréttum mbl.is

SAMA HVORT ÞAÐ RÝKUR, RÚLLAR EÐA RENNUR

89

Þar sem ég er sjálf óvirkur alki og mér málið skylt þá hef ég verið að velta fyrir mér einu og öðru varðandi þennan fíknisjúkdóm sem er í senn líkamlegur, andlegur og félagslegur.

Á hverju ári deyr hópur fólks úr fíknisjúkdómnum alkahólisma.  Þá er ég að meina úr áfengisdrykkju og dópneyslu (ólögleg fíkniefni og læknadóp).  Örlög þessa fólks eru hroðaleg svo maður tali nú ekki um fjölskyldur sjúklingana sem sitja eftir lemstraðir.

Sumir eru heppnir, ég þeirra á meðal.  Ég komst í hendurnar á fagfólki á minni ögurstundu og er ákaflega þakklát öllu því fólki sem hjálpaði mér til bata.  Það fer um mig hrollur þegar ég hugsa til þess að fíknisjúkdómar séu "meðhöndlaðir" af trúarhópum.  Mér er sama hvað þeir heita.  Við höfum nú heldur betur fengið staðfestingu á því hvernig þau mál hafa gengið fyrir sig td. hjá Byrginu.  Ég hef ekkert á móti trúarsamtökum, bara svo það sé á hreinu.  Alkahólismi er viðurkenndur sem sjúkdómur, víðast og hefur verið meðhöndlaður sem slíkur lengi.  Þó segir mér fólk að hvergi á byggðu bóli séu til sjúkrastofnanir í líkingu við þær sem SÁÁ rekur. 

 Það er alveg fáránlegt og um leið sorgleg staðreynd að kastað skuli til höndunum við meðferð á fársjúku fólki.  Ég kom mér upp sykursýki vegna drykkju.  Er það þá ekki rökrétt  m.t.t. aðferðarfræðinnar í meðferðarúrræðum að senda mig í Hvítasunnusöfnuðinn til að fá bót á minni sykursýki. Að þeir séu svo fjári bænheitir á þeim bæ. Að þeir geti barasta rekið úr mér sykursýkina? Hvað með hjartasjúklinga td?  Mér vitanlega skammar þá enginn fyrir að koma aftur og aftur inn á hjartadeild.  Ég held ekki að nokkur geri þá kröfu til þeirra að hætta að vera alltaf að fá fyrir hjartað.  Sjúkdómur er sjúkdómur.  Einfalt mál.

Hin félagslegu einkenni alkahólisma eru áþreifanlegust að mínu mati.  Einangrun, skelfing, þunglyndi, svefnleysi og stöðug vanlíðan.  Fólk hættir að "funkera" félagslega. Skömmin er mikil og samviskan alltaf slæm.  Þar sem virkur alki er á ferð er allt í rjúkandi rústum.  Fjölskyldan í sárum.  Ég vil halda því fram að alkóhólismi sé sjúkdómur lyginnar.  Alkinn er síljúgandi.  Líka um hluti sem skipta ekki máli.  Hann er með allt niðrum sig þegar hann er orðinn mikið veikur, alltaf í vörn, alltaf síljúgandi. Sú sem hér skrifar laug hægri - vinstri.

Til að halda sér í bata og byggja á grunninum sem meðferðin gefur þarf sjúklingurinn að vera heiðarlegur við sjálfa sig og aðra.  Hann þarf að lifa reglubundnu lífi og sinna AA-fundum og fl.  Ég var á síðustu metrunum þegar ég fékk hjálp.  Það er því einna mikilvægast fyrir mig að muna hvernig fyrir mér var komið.  Á hverjum degi fer ég yfir nýja lífið mitt í smáatriðum og ég er þakklát fyrir allt sem ég hef fengið til baka.  Tryggingin mín er líka sú að fara ekki í felur með sjúkdóminn.  Það hjálpar mér líka að skrifa um hann.  Afneitunin hjá virkum alka er með ólíkindum.  Við finnum alltaf einhvern sem er verr staddur en við og notum samanburðin endalaust okkur í hag meðan við erum ekki tilbúin að leita hjálpar. 

Ég varð virkur alki á fullorðinsárum.  Í mínu tilfelli spannaði hann ekki stóran hluta æfina svo "miðað" við suma en alveg nógu lengi til að hálfdrepa mig. 

Það er sama hvort það rýkur, rúllar eða rennur, öll efni sem hafa slævandi eða örvandi áhrif á miðtaugakerfið eru no-no. Staðreyndin er nefnilega sú að það kemst ekki hnífurinn á milli þess sem sýgur kókaín upp í nefið á sér eða þeim sem fær sitt fíkniefni úr rauðvíni.  Smekkurinn á neysluefninu er ekki sá sami.  Það er eini munurinn.

SmútsjKissing


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sitt sýnist hverjum.   Hlaðgerðarkot fellur undir félagsmálaráðuneytið síðast þegar ég gáði.  Ekki heilbrigðisráðuneytið.  Merkilegt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.3.2007 kl. 17:06

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Auli en ég elska þig samt

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.3.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.