Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

AÐ VERA FÓRNARLAMB OG MÆÐAST Í MÖRGU I

77

Ég hef verið að lesa að nýju Alkemistann eftir Paul Cotelho, sem mér finnst vera ágætis bók.  Ég las hana fyrir nokkrum árum og í dag tók ég mér hana aftur í hönd.  Á fyrstu síðunni er að finna tilvitnun úr Biblíunni sem er eitt af mínum uppáhalds gullkornum í þeirri merkilegu bók.  Það hljóðar svona:

"Er þeir voru á ferð, kom hann inn í þorp nokkurt.  En kona ein að nafni Marta tók á móti honum í hús sitt.  Og hún átti systur, er hét María, hún settist við fætur Drottins og hlýddi á orð hans.  En Marta var önnum kafin við mikla þjónustu.  Og hún gekk til hans og mælti: -Herra, hirðir þú ekki um það, að systir mín lætur mig eina ganga um beina?  Seg þú henni að hjálpa mér.  En Drottinn svaraði og sagði við hana:

-Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt.

María hefur valið góða hlutann, hann skal ekki verða tekinn frá henni."

Þarna útspilar sig ein af frumútgáfunum fórnarlambsheilkennisins í bókmenntasögunni sem ég man eftir.  Marta, Marta, sem mæðist í mörgu.  Fórnarlambshlutverkið er eitur í mínum beinum og ég hef séð það myndbirtast í sjálfri mér, í fjölskyldunni og vinkonum í gegnum árin.  Mér hefur fundist við konur oft snöggar að detta í þetta hlutverk.  Kannski af því við vorum svo lengi valdalausar. Að vera fórnarlamb er ákveðin stjórnun.  Ég var ómeðvituð um að ég væri sérfræðingur í fórnarlambsgeiranum langt fram eftir aldri.  Maður var að gera og græja meðan fórnarlambsblóðbunan stóð aftanúr manni.

Að vera fórnarlamb er hræðilegt hlutverk.   Fórnarlambið er algjörlega varnarlaust.  Það hefur ekkert að segja um eigið líf og á endanum gleymir maður því að það er til val.  Val til að geta haft áhrif á aðstæður sínar en vera ekki eins og sektarlambið sem leitt er hljóðlaust til slátrunar. Orðið hetja er mikið notað í dag.  Það er notað um fólk sem ratar í ýmiskonar raunir og lifir þær af.  Mér finnst fórnarlambsbragur á þessu orði.  Við lendum í aðstæðum og við lifum þær af og ef okkur tekst að ná tilfinningalegri fjarlægð á aðstæðurnar og jafnvel að hjálpa öðrum í sömu sporum, þá erum við að gera okkur sjálfum gott og öðrum í leiðinni.  Það er að lifa af með reisn.  Hetjur eru samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs: Kappi, hraustmenni, afreksmaður.

Meira seinna. Takk fyrir mig.

                                                                    


AF BLÓMUM, SÆTINDUM OG KVEIKTUM ELDUM

345

Ég er orðin svo húsleg að ég bar áhyggjur mínar um það efni upp við húsbandið og velti því upp hvort ég endaði ekki bara sem matartæknir einhvers staðar með ekkert líf (sko ég ekki matartæknar almennt séð) ef fram heldur sem horfir.  Honum fannst þetta ekki áhyggjuefni og sagði mér að njóta þess á meðan á því stæði.  Einn með rosalega trú á úthaldsemi sinnar heittelskuðu ofan í pottavélum og ofnföstum mótum.

Eins og sést á myndinni af mér hér að ofan, í mínum nýja páskakjól (Wink), þá bakaði ég pönnukökur og Dúa Dásamlega, vinkona mín neitar nú að trúa því að ég hafi tekið mér pönnukökupönnu í hönd.  Ég hef ekki eingöngu bakað pönnukökur í dag,  heldur s.l. tvær helgar líka. Jenny finnst skemmtilegt að baka pönnukökur og þá gerum við það.  Einfalt mál og ansi skemmtilegt þegar maður kemst upp á lagið.  Húsbandið segir raunar að ég sé eina konan sem hann hefur hitt sem bakar pönnukökur eftir uppskrift (dl. sænsk ef þið hafið áhuga, namminamm þunnar og krispý).

876

Frumburður minn hún Helga Björk kom hér með Jökulinn sinn og hafði með sér tertu með kaffinu (veit að það er ekki á vísan að róa með mömmuna þegar kemur að bakkelsi).  Ég fékk líka þessar fínu páskaliljur að gjöf frá þeim líka.  Ég hef aldrei, alla mína hunds- og kattartíð verið eins mikið í svuntu, lagandi kaffi, leggjandi á borð og allskonar eins og s.l. sex mánuði eftir ég hætti að vera völt á fótunum. Ég er sem sagt stoltur eigandi hóps af páskaliljum.  Konan með svuntuna er heppin.

467

Páskaeggjum erfingja- og erfierfingja hefur öllum verið komið til skila.  Nú geta páskar hafist og nú verður gert eitthvað dúndrandi siðspillt og úrkynjað á Föstudaginn langa.  Eins og t.d. farið eitthvað út úr húsi, sagðir brandarar, þjóðsöngurinn sunginn á Lækjartorgi (ég komst ekki í kór 9 ára gömul þannig að þetta verður púra lögbrot) og ég þekki konu sem ætlar að brenna svuntur og pottaleppa í ofnföstum mótum úti í Gróttu á morgun kl. 14,00. Segisonna en sjáumst þá.

 


EKKI MATSEÐILL

006

Ég skammast mín fyrir að vera matvönd.  Ég er líka klígjugjörn með afbrigðum.  Hef það úr föðurættinni.  Ég er fædd upp úr miðri síðustu öld.  Það var ekki mikið um mat þá sem gladdi bragðlaukana. Steiktur fiskur, kjötbollur, smásteik, læri og hryggur og lágmarks grænmeti.  Rjúpur á jólum og þar með er fíneríið upp talið.  Mér tókst að vera matvönd þá en hef síðan náð að tileinka mér allskonar nýjungar.  Samt er bannlistinn enn í fullu gildi.  Sumt get ég ekki borðað.

  Ólívur eru efstar á no-no listanum.  Ólivur voru í tísku hérna á bernskuárum hinnar einu og sönnu kaffihúsamenningar.  Enginn var maður með mönnum nema hann úðaði í sig ólívum. Ég á meira að segja tvær vinkonur sem neyddu í sig ólívunum af því þeim fannst það svo menningarlegt og bera vott um þróað bragðskyn.  Ég hef reynt og reynt að koma mér upp ólívusmekk en án árangurs. Ég játa mig sigraða í ólívumálinu alræmda.

Saltfiskur í öllum stærðum, gerðum og eldunaraðferðum.  Ég tel saltfisk eiga að vera dýrafóður, er ábyggilega hollur og góður en bragðverri en sá ljóti sjálfur.  Það skiptir engu máli hvort hann er klæddur í Prada eða Channel, uppruninn leynir sé ekki.Sick. Mínir bragðlaukar fara í víðtækt fár ef ég læt viðkomandi fisk inn fyrir varir mínar.

Pasta er ekki matur að mínum dómi.  Margir jafnaldrar mínir eru mér sammála.  Mér finnst ég vera að borða soðið hveiti sem er ekki einu sinni vel dulbúið.  Pasta var ekki á borðum þegar ég var krakki en það var heldur ekki nær allur sá matur sem ég borða í dag.  Hef aldrei komist upp á lag með pasta en verð þó að játa að ég hef fengið góða pastarétti hjá dætrum mínum og vinkonum.  Held áfram að forðast það og læt pastasnillingana um eldamennskuna.

Avokadó minnir mig á smjör sem farið er að þrána.  Merkilegt með bragðskynið þegar það sendir manni svona undarleg skilaboð.  Eins og þetta er girnilegur ávöxtur.  Margreynt við hann en án árangurs.

Ég gæti talið lengi enn.  Hugleiðing þessi kom til vegna uppskrifta sem ég var að lesa í morgunn og þar voru ólívur eins og krækiber í helvíti og eyðilögðu fyrir mér hvern möguleikann á öðruvísi páskamat á eftir öðrum.

Um páskana ætla ég að hafa td.:

Andabringur, innanlærislambavöðva, kalkúnaskip og sænskar kjötbollur (hehe var í IKEA og keypti þær handa henni Jenny sem gistir hjá okkur í nótt).  Í matnum verða engar ólívur, ekker advokadó og NADA pasta.

Bon apitit

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2988373

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.