Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Heima hjá Hamlet

hippie-girl

Ég finn til samkenndar með þessum aldraða Svenson sem fannst svo stutt á milli Helsingör og Helsingborg að hann stal litlum árabát og ætlaði að róa yfir þessa 5 km. sem eru þarna á milli.

Ég var nefnilega einu sinni að flippa í Helsingör - þegar ég var hippi.  Reyndar svona helgarhippi í flottum hippafötum sem ég keypti á Strikinu og þegar ég gekk um þá hringlaði í mér vegna allra bjallnanna og hins glingursins sem ég hafði hengt utan á mig.  Ég var bæði hipp og kúl.

Og ég sagði við vinkonur mínar að við ættum að reyna synda yfir til Svíþjóðar, þetta væri svo stuttur spölur.  Mér fannst það ekki vitlaus hugmynd enda var ég 17 og hélt að ég gæti nánast flogið og það án þess að vera á hugbreytandi efnum.

En eitthvað voru undirtektirnar dræmar þannig að við fórum í sólinni upp í Krónborgarkastala, þar sem Hamlet átti að eiga heima og lágum þar og hlustuðum á "Here Comes the Sun" með Bítlunum.

4937-2

Ég man eftir tilfinningunni þar sem ég lá í sólinni og allt var svo nýtt og rétt að byrja.  Skrýtið að sum augnablik sem eru ekkert sérstakt í hinu stóra samhengi sitja samt eftir í minningunni, svo sterk og lifandi að maður getur nánast teyg sig í þau.

En hvað um það.

Það er svo önnur saga að seinna átti ég eftir að koma til Helsingjaborgar, frá Gautaborg og þá var ískuldi og snjór. 

Og mig langaði ekkert að synda yfir til Danmerkur.

Jafnvel þó Hamlet ætti heima þar.

Ég var í dragt og háum hælum, það hringlaði ekki í mér og ég var löngu hætt að vera hipp og kúl.

Sjitt hvað ég er orðin gömul.


mbl.is Reyndi að róa Eyrarsundið eftir sumbl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftökur hér og þar

Allir held ég, fyrir utan einhverja kverúlanta sem skipta ekki máli, fordæma mannréttindabrot og dauðarefsingar í Kína.  Þar er fólk tekið af lífi á færiböndum, ekkert elsku mamma þar.  Við ætlum samt á Ólímpíuleikana, mótmælum meðferðinni á fólki en erum ekki til í að lýsa vanþóknun okkar þannig að það svíði á eigin skinni.

Og í Bandaríkjunum,  hjá þessari vinaþjóð okkar, talsmönnum frelsis og mannréttinda, þjóðinni sem er með heilu hópana af hreingerningarmönnum sem fara og taka til í annarra görðum, er líka  verið að taka fólk af lífi.  Og í dag ætla þeir að myrða fanga sem verður sá fyrsti eftir að starfsreglum um banvænar sprautur var breytt.  Flórída ríður á vaðið.

Bandaríkjamenn pynta líka fanga í nafni frelsisins, þeir gera það bara fyrir utan eigin lögsögu og í nafni frelsis og lýðræðis.

Í mínum huga er enginn munur á kúk eða skít.  Það eina sem skilur þessar stóru þjóðir að er að Kínverjarnir taka fleiri af lífi í einu, hugmyndafræðin er sú saman.

Þú skalt gjalda fyrir með lífi þínu.

Hvernig stendur á að það er ekki verið að slá á puttana á Ameríkumönnum?

Af hverju halda Evrópuþjóðir kjafti yfir aftökunum og pyntingunum þar?  Eða gera amk. ekki stórmál úr því.

Ætli það sé af sömu orsök og við erum í eilífar kynningarsleikum við Kínverja.  Peningar?

Ef ég mætti ráða þá færi ekki kjaftur héðan á vegum Íslands til þátttöku á Ólímpíuleikunum.

Með því erum við að leggja blessun okkar yfir morðin og mannréttindabrotin.

Og svo má bretta upp ermar og taka land fyrir land.

Ég myndi sofa betur á nóttunni.

En þið?

 


mbl.is Óskar eftir gálgafresti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk, takk, takk, kæri ráðherra

Dýralæknirinn knái veit að í kreppunni þarf að grípa til róttækra aðgerða í efnahagsmálum.

Hann hefur því gert ráðstafanir sem koma munu almúganum til góða.  Þarna er mikil kjarabót á ferðinni.

Allir vita að verð á áfengi er að sliga íslensk heimili.

Svo ég tali ekki um vörur eins og Bing og Gröndal styttur, Channel 5 og þriðju kynslóða farsíma.

Við eigum fjármálaráðherra sem skynjar ógnina sem steðjar að heimilunum í landinu nú þegar fjöldauppsagnir, verðbólga og önnur óáran bankar upp á.

Takk Árni minn.  Takk kærlega.

Ég er klökk.

 


mbl.is Meira góss og meira vín tollfrjálst með nýrri reglugerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvítis hámark hamingjunnar

camping

Nú ríða þeir yfir hver af öðrum íslensku fyllerísdagarnir víða um landið.

Hamingjudagar, Bíladagar, Humardagar (hátíð), Þjóðhátíðardagar, og hvað þetta heitir allt saman. 

Fyrir utan Fiskidaginn mikla á Dalvík, þar sem fólk borðar aðallega sér til skemmtunar þá eru þetta martraðardagar og sviðsetningar fyrir fyllerí.

Það hlýtur að vera séríslenskt fyrirbrigði, án þess að ég viti það, að fullorðnir og börn safnist saman til að höndla hamingjuna sem oftast er keypt í ríkinu og kemur í fljótandi formi.

Ég efast ekki um að stór hluti fólks, vonandi fjölskyldufólk, fer með því hugarfari að eiga góðar stundir úti í náttúrunni og ladídadída.

En hvernig væri að fullorðnast? Maður fer ekki í afneituninni með börnin sín í tjald á svona samkomur.  Það er ekki raunhæft að búast við eðlilegum samverustundum fólks við þær aðstæður.  Það hefur reyndar aldrei verið þannig nema að það sé hátíð á vegum bindindismanna eða SÁÁ.

Þegar ég ferðist um landið með stelpurnar mínar litlar, og ég gerði töluvert af því, þá forðaðist ég svona uppákomur eins og heitan eldinn.  Mig langaði ekki baun að kynna þær fyrir íslenskri fylleríis tjaldmenningu og ræna þær í leiðinni gleðinni sem felst í því að ferðast um landið.

Það er lágmarks sjarmerandi að horfa á fólk á öllum aldri vaðandi um í sumarnóttunni, röflandi, dettandi, ælandi og berjandi.  En fyrir marga er þetta fjandans hámark hamingjunnar.

Ég held að fjölskyldufólk ætti að forðast alla "dagana" sem eru framundan á þessu sumri.  Þ.e. ef það vill ekki taka þátt í ruglinu og bjóða börnunum sínum upp á þá andlegu vanlíðan sem fest í því að horfa á fullorðið fólk á öllum aldri í annarlegu ástandi gera sig að fíflum.


mbl.is „Óhamingja“ á Hólmavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvítis frekjan í múgnum

Stundum tek ég upplýsta ákvörðun um að hlægja í staðinn fyrir að grenja.  Fer betur með húðina sko, saltvatn er eitur á andlit.

Geir Haarde var í toppsætinu hjá mér eftir að hann skammaði Sindra hjá Markaðsfréttum um daginn fyrir dónaskap og hroka.

En núna er kominn nýr vinningshafi, þ.e. Össur og aðstoðarmaður hans deila með sér efsta sætinu.

Sjá hér.

Fyrirgef oss Hr. iðnaðarráðherra að við skulum vera að blanda okkur inn í þín einkamál á skrifstofunni.  Helvítis frekjan í almenningi og einkum og sér í lagi þessum blaðaljósmyndara sem ætlaði að mynda undirskriftarathöfnina vegna Álversins á Bakka og leyfa okkur sótsvörtum að fylgjast með.

Ekki það að ég skilji ekki fullkomlega að Össur skammist sín fyrir að halda á pennanum í þessum gjörningi, það myndi ég líka gera.

En af því það er svo hipp og kúl, svo eðlilegt og sjálfsagt að bæta einu eldspúandi álskrímsli við hina dásamlegu málmframleiðslu á þessu landi þá hefði ég haldið að hann myndi breiða úr sér iðnaðarráðherrann.

Kannski er hann bara svona feiminn!

Svo svakalega feimin og lítillátur.

Það er þá af sem áður var.

Hm?


Aðstoðarkona með attitjúd

 e107e4072187d0e62515b45af4e50a69

Ég er orðin þreytt á þessum lestri á milli línanna hvað varðar ástandið í borginni.  Mig fýsir að vita hvaða rugl er í gangi þarna.  Aðstoðarkona Ólafs að hætta og gefur engar skýringar á því.´

Mér finnst eins og okkur borgarbúum komi við hvað þetta lið er að gera.  Eru þau öll að flippa út?

Tekið af visi.is

"Ólöf Guðný Valdimarsdóttir mun láta af störfum sem aðstoðarmaður Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra á næstunni, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Ólöf Guðný varð aðstoðarmaður þegar Ólafur tók við í janúar á þessu ári. Samkvæmt samkomulagi meirihlutans í Reykjavík situr hann sem borgarstjóri til mars á næsta ári, en þá tekur Hanna Birna Krist­jáns­dóttir við.

Ólöf Guðný vildi hvorki staðfesta né neita þegar blaðamaður náði tali af henni. „Ég var í vinnunni í dag og verð í vinnunni á morgun, meira hef ég ekki um það að segja."- kóp"

Ólöf Guðný bara með attitjúd þegar hún er spurð eðlilegra spurninga.  Ég sver það ég er hætt að skilja upp né niður.

 P.s. Get ekki stillt mig um að birta þessa mynd af Ólafi með listakonunni sem hann hefur fengið til að skemmta okkur á Menningarnótt.  Ég nappaði henni hjá honum Herði á eyjunni.


Ofdekraðir andskotar

Ég hef heita samúð með launafólki, enda rennur mér blóðið til skyldunnar.

Ég styð það í hverri þeirri baráttu sem það fer í til að fá leiðréttingu á kjörum sínum.

Verkfallsrétturinn er mikilvægur, stundum eru yfirvofandi verkföll það eina sem bítur á viðsemjendur.

En nú er mér andskotinn hafi það, nóg boðið.

Hvaða skæruhernaður er í gangi hjá flugumferðarstjórum?

Þessir hálaunamenn eru á leiðinni í verkföll (já mörg) til að knýja fram kauphækkanir.

Rosa dúlllulegt hjá þessum hópi að taka til þessara vopna þegar verið er að segja upp fólki í hundraðatali út um víðan völl. 

Ég trúi því tæpast að þeir eigi stuðning vísan meðal almennings sem undirbýr sig fyrir atvinnuleysi, dýrtíð og verðbólgu.

Flugumferðarstjórar koma mér að þessu sinni fyrir augu sem ofdekraðir andskotar og þeir þekkja greinilega ekki sinn vitjunartíma.

Fyrirgefið á meðan ég garga mig hása.


mbl.is Hafa ferðaþjónustuna í hendi sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of margir? - Jesús minn á pallinum!

Er heimurinn eins og við þekkjum hann að verða minni eitt?

Hvað varð um eðlilega kröfu atvinnurekanda svona almennt um að launþegarnir séu edrú í vinnunni?

Sorrí, ég á ekki að vera svona fljót á mér, það var lengi til siðs að drekka í vinnunni.  Var ritari hjá Aðalvertökum uppi á velli hérna í denn, og þar voru margir fullir í vinnunni, þó þeim væri stranglega bannað það.  Reyndar veit ég ekki til þess að neinn úr þeim hópi væri atvinnuflugmaður í hjáverkunum.  Sjúhúkkit.

En þegar frétt um að það sé hópur af flugmönnum að fljúga fullir þá missi ég trúna á sans nútímans fyrir því hvað skuli  vera rétt og hvað ekki, þegar fyrirsögnin er "Of margir fljúga fullir".  Halló!  Hemjið ykkur á afslappelsinu kæru blaðamenn.

Sko þetta eru 50 flugmenn á Indlandi sem eru kyrrsettir árlega eftir að hafa  flogið farþegaflugvélum undir áhrifum..  Skelfileg tilhugsun.  Algjörlega martraðarkennd fyrir flughræðslumanneskju eins og mig.

Samkvæmt fyrirsögninni þá eru 50 of margir.  Eru þá 10 of fáir?  Hvað er ásættanleg tala á flugmönnum sem fljúga í glasi?

Og það leiðir mig að því sem ég kæri mig ekkert um að hugsa um.  Hversu margir fljúga fullir í þeim vélum sem ég flýg með?  Mér dettur ekki í hug að þetta sé eitthvað sérindverskt vandamál.

Ég legg til að það verði ráðinn flugumferðarlögga sem verður með testkitt í flugstjórnarklefanum þannig að maður eygi möguleika á að drepast úr einhverju öðru en flugslysi.

En áður en einhver fer á límingunum þá eru okkar flugmenn reyndar flottastir í heimi.

Eiginlega OF flottir ef það er hægt.

Og örugglega allir bláedrú.Whistling

Það er ekki grín að þessu gerandi.

Góða ferð þið sem eruð á leiðinni út í lönd.Halo


Eltisvín og sumarstarfsmenn með sólsting

Hvað er að gerast í kollektívum þankagangi á Mogganum í dag?

Ég vona að það sé fremur sólstingur en inntaka kemískra efna.Halo

Sumarstarfsmennirnir eru ekki með heilli há á þessum mánudegi.  Logi sem logar í Rússlandi til minningar um fallna hermenn heitir í dag "eldsvoði". Og nú er vegið að saklausri konu í USA.

Konan Anniston fer til Englands að hitta kæróann og Mogginn segir að hún sé að ELTA manninn.

Ef húsband fer á undan mér út í bíl þegar við ætlum eitthvað saman og ég kem í kjölfarið þá mun ég samkvæmt þessu vera að ELTA hann.

Ég get ekki lifað með því.  Ég elti ekki karlmenn og allra síst þá fjölmörgu sem ég hef gengið upp að altarinu með.  Þeir gætu farið að halda að ég væri heit fyrir þeim.  Má bara ekki gerast.  Friggings dísaster, hreint út sagt.

En hún Greta systir mín elti mig svo sannarlega hérna í denn.  Hún var svo kallað eltisvín krakkinn.  Hún er tveimur árum yngri en ég og hún hafði gefið dauðann og djöfulinn í að hleypa mér ekki spönn frá rassi nema að koma með.  Og ef ég var á leiðinni eitthvað með vinkonunum þá kom hún eins og þruma úr heiðskíru og sagði einbeitt á svip (og tóninn gaf fyrirheit um að það þýddi ekki einu sinni að reyna að múta henni): "Ég ætla að elta".

Það fór ekkert á milli mála hvað það þýddi.

Reyndar átti þessi sama Greta eftir að læsa sígaretturnar mínar inni í bíl uppi í Heiðmörk þegar ég var úlli.  Hún læsti líka lyklana inni í bílnum í leiðinni. þannig að systir hans pabba varð að fara á puttanum í bæinn til að ná í aukasett.

Sú saga átti eftir að verða blóðug og dramatísk og gera það að verkum að ég hef verið í stöðugum meðferðum hjá sálfræðingum síðan.W00t  En sú históría kemur seinna, með æviminningunum sko.

Það sem systur manns gera ekki til að halda manni réttu megin við hegðunarstrikið.

Ó ég elska þig mín kæra sys.Heart

Úje


mbl.is Aniston eltir kærastann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur aðall er ekki til

Ég var alin upp af ömmu minni og hún lagði mér ýmsar lífsreglur sem enn þann dag í dag eru í góðu gildi.

Hún lagði mikið á sig hún amma til að gera mér ljóst að fólk væri alls staðar eins, upp á gott og vont.

Hún innrætti mér töluverða andúð á tilgerð og snobbi og síðan þá hafa allar vegtyllur heimsins aldrei sagt mér neitt um fólk eða gert það merkilegra í mínum augum.

Í leiðinni og kannski óvart, ég veit það ekki, kom hún í veg fyrir að ég gæti litið með lotningu til kóngafólks, ráðamanna og annarra yfirvalda.  Sem þýðir einfaldlega að ég fell ekki svo glatt í stafi vegna starfsheita og meðfæddra forréttinda.

Við Íslendingar erum venjulegt fólk.  Komnir af bændum og sjómönnum.  Þannig er það og mér finnst að við ættum að gangast meira upp í að vera við sjálf.

Ég sé enga þörf á því t.d. að ráðherra þurfi fleiri milljón króna glæsivagn undir bóndskan rassinn á sér.  Hann getur ekið um á bíl, sem við fólkið borgum, allt í lagi með það og hann má meira að segja hafa bílstjóra af því það er einfaldlega praktískt af því að viðkomandi getur ekki staðið í að leggja bílnum í hálftíma á meðan Kóngurinn frá Krít bíður eftir honum í Tjarnargötubúðstaðnum.

Og þar er komin ástæðan fyrir þessari færslu.

Þeir eru að breyta reglum um ráðherrabíla í Danmörku.  Gott hjá þeim og til hamingju með það bara.

En af því að nú er kreppa þá finnst mér tilvalið að byrja að spara út um allt.

Líka í "litlu" hlutunum.

Jóhanna Sigurðardóttir, er að mér skilst, eini ráðherrann sem skipti yfir í ódýrari bíl eftir að hún tók við embætti.

Nú legg ég til að hinir ráðherrarnir skipti yfir í venjulega fólksbíla í staðinn fyrir að keyra um á fleiri milljóna glæsikerrum á þessum tímum samdráttar og kreppu. 

Að ganga á undan með góðu fordæmi.  Mikið asskoti myndi ég virða það við þá.

Við erum eins og ég sagði áðan, öll af sama meiði, öll jafn merkileg, nú eða ómerkileg og einfaldara getur það ekki verið.

Svo erum við öll meira og minna skyld líka ef marka má Íslendingabók.

Horfumst í augu við það.  Við erum þrjúhundruð þúsund stykki af fólki sem hefur verið á geggjuðu eyðslufylleríi (reyndar ekki öll en þjóðarsálin klárlega) og nú er kominn tími á aðhald.

Hér hafa allir verið aldir upp á sama hangikjötinu og sömu soðningunni.

Hér er enginn íslenskur aðall.  Jafnvel þó fólk langi ógeðslega mikið til að tilheyra einum slíkum.

Muna það.

Ég tek strætó, ekki spurning.

 


mbl.is Reglum um ráðherrabíla breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband