Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Persónunjósnir eru mannréttindabrot

Þegar ég var að alast upp stunduðu sumir íhaldsmenn nokkuð öfluga skrásetningu hér í borg til að fylgjast með hvar kommarnir ættu heima.  Þessar upplýsingar virtust líka fyrirliggjandi hjá Ameríska sendiráðinu, amk. komust sumir að því fullkeyptu þegar þeir ætluðu að fá sér vegabréfsáritun til fyrirheitna landsins.

Stundum kom það fyrir að hús voru skráð "rauð" af misgángingi og lenti "venjulegt" fólk í því að fá ekki ferðaleyfi.

Þetta er löngu liðið, ætla ég að minnsta kosti að vona.

En mér hefur alltaf fundist stutt í að lögregluríkið sýni tennurnar.

Við munum meðferðina á Falun Gong hér um árið.  Það er ekkert venjulegt þjóðfélag sem lætur hafa sig út í að fangelsa eða hefta ferðafrelsi fólks sem aldrei hefur sýnt af sér ofbeldi.

Nú munu óeinkennisklæddir lögreglumenn vera að taka myndir af fólki á mótmælafundunum á Austurvelli.

Lögreglustjóri Stefán Eiríksson hvorki játar því né neitar eins og venja er.

Það hlýtur að vera ári hentugt að geta skýlt sér á bak við þögnina.  Þar er hægt að sýsla ýmislegt miður fallegt á bak við hana.

Það er verið að hvetja fólk til að fela andlit sitt á þessum fundum til að nást ekki á mynd hjá yfirvaldinu.

Ég segi nei, að sjálfsögðu fer almenningur ekki að haga sér eins og það að mótmæla sé eitthvað myrkraverk.

Varla geta þeir handtekið fleiri þúsund manns?

Eða hvað?

FRÉTTIN Í DV

 


Mjólkurpeningar?

Mér er kallt.  Að utan sem innan.

Ekki nema von á þessum síðustu og bestu.

En...

Í dag ætla ég að passa Hrafn Óla á meðan mamma hans fer í próf.

Ég ætla að kveikja á kertum og reyna að fá í mig jólastemmingu.

Það eru bara 26 dagar til jóla.  Ekki í lagi hvað tíminn flýgur áfram.

Svo var ég að pæla í Davíð Oddssyni.  Já mér er kalt á sálinni, ég sagði það.

Finnst engum þarna í valdabatteríinu neitt athugavert við að hann þegi yfir því í heila viku að peningarnir frá IMF séu komnir inn á reikning hjá Seðlabanka.

Það er ekki eins og þetta séu mjólkurpeningar heimilisins.  Þetta eru milljarðar.

Ég er hætt að botna í nokkrum hlut.

Þetta lagar.

 


Svo helvíti forhert

 Það eru mörg ár síðan mér hefur fundist verkalýðsforustan á Íslandi bitastæð.

Mest megins eru þessir menn venjuleg jakkaföt á háum launum og í litlum tengslum við hinn vinnandi mann sem þeir þó eru umboðsmenn fyrir.

Það er kannski ekki pólitískt rétt að gefa skít í verkalýðsforkólfana en þeir geta eiginlega sjálfum sér um kennt.

Ég tel mig eiga nokkuð auðvelt með íslenskt mál, bæði lesa það og skilja en þegar t.d. Gylfi Arnbjörnsson talar þá er það eins og að hlusta á talandi lógaryþmatöflur.  Ég sakna gömlu karlanna.

Gvendar Jaka, Sigurðar Guðnasonar (hann var nágranni minn í æsku), Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur og allra hinna kempnanna sem ég man eftir.

Reyndar finnst mér Guðmundur Bjarkarbabbi flottur karl og alveg með á nótunum.

Ögmundur er auðvitað þingmaður svo hann er ekki talinn með.

Að því sögðu þá gæti mér ekki staðið meira á sama hvað þessum ASÍ-köllum finnst.  Líka þegar ég er þeim sammála.  Þeir snerta einfaldlega ekki streng í hjartanu á mér.

Mér þykir það leiðinlegt eða þætti það leiðinlegt ef ég væri ekki svona helvíti forhert.


mbl.is Kosningar eru hættuspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullfossinn í Kaupþingi

Tvö núll fyrir Katrínu og plús í kladdann fyrir HR sem ætlar ekki að taka ræðuna hennar af heimasíðu, þrátt fyrir að einhverjir drengir sem eru samskipa Katrínu í lögfræðinni séu með ritskoðunartilburði.

Nóg um það.

En ég var að pæla í glerfossinum í anddyri Kaupþings.

Þið hafið væntanlega tekið eftir honum? 

Hann nær hátt upp í loft og vatnið rennur stöðugt á tilkomumikinn hátt.

Það eru gjarnan tekin viðtöl við stóru bomburnar í viðskiptalífinu (fyrirgefið þetta ætti að vera í fortíð ) við þennan peningafoss.

Eftir hrun halda þeir áfram að mynda við fossinn.  Þennan manngerða Gullfoss.

Mér finnst þetta minnismerki um horfna tíma um græðgina og oflætið algjör tímaskekkja.

Vinsamlegast myndið annarsstaðar í þessari höll, t.d. í salnum þar sem erlendu viðskiptin fóru fram en þar er allt tómt, hver kjaftur farinn.

Eða slökkvið að minnsta kosti á helvítis rennslinu. 

Já, ég læt ýmislegt fara í taugarnar á mér þessa dagana.

Erða nema von?


mbl.is Ræða Katrínar ekki tekin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að hafa skoðun?

Ég sá þessa frétt í gærkvöldi og varð satt best að segja steinhissa.

Ég, í barnaskap mínum og einfeldni hef alltaf tengt víðsýni og menntun saman.  Fundist eitt fylgja öðru, a.m.k. svona oftast.

En þarna fer hópur forpokaðra lögfræðinema í HR sem hefur myndað hóp til að fá ræðu Katrínar Oddsdóttur laganema frá síðasta Austurvallafundi, fjarlægða af heimasíðu skólans.

Þessi ræða Katrínar eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum og séu langt frá því að vera í nokkru samræmi við það sem kennt sé  við skólann. Þar komist hún m.a. að þeirri niðurstöðu að valdarán sé ekki brot á lögum.

Er bannað að hafa skoðun í frítíma og halda henni fram?

Er ekki málfrelsi við HR?

Ættu þessir verðandi lögfræðingar ekki að kynna sér stjórnarskrárvarin réttindi hverrar manneskju að fá að segja skoðun sína?

Ég er svo sannarlega ekki sammála öllu því sem Katrín sagði en ræðan hennar var helvíti góð.

Jésús minn hvað fólk getur tekið sjálft sig alvarlega.

Það ætti að banna það ef eitthvað er. 


mbl.is Óánægð með ræðu á heimasíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fært til bókar

Ég hélt því fram í gær að Davíð myndi ekki mæta.

Það má vel vera að hann sé lasinn eða upptekinn, ég veit ekkert um það.

En þá sjaldan að ég hitti naglann á höfuðið finnst mér að ég verði að færa það til bókar.

Það er hér með gert!


mbl.is Davíð frestar komu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fellini hvern andskotann

Birna Glitnis er að vinna hjá báðum bönkunum.  Þiggur laun frá þeim nýja en tryggð hennar er við sína gömlu vinnuveitendur.

Gætum við fengið bankastjóra sem veit fyrir hvern hann er að vinna?

Leitaðu að "litlaglitnismanninum" og komdu á hann böndum.  Það er auðvitað akútmál í stöðunni.

Annars var ég að velta fyrir mér þessu með að verða fyrir áföllum.

Ég hef lent í nokkrum, sumum stórum, um ævina.  Það er ekki góð reynsla og það vita allir sem reynt hafa.

En eftir áfallið kemur doðinn, vantrúin, maður gengur um í einhverskonar lofttæmingu og líður eins og í draumi nú eða martröð.

Á einhverjum tímapunkti eftir áfallið hefst úrvinnslan og um leið heilunin.

Manneskjunni er ekki eiginlegt að ganga um í krísu, varnarmekanisminn fer í gang við reynum að gera okkur heilbrigð að nýju.

Þess vegna hef ég verið að velta fyrir mér einu og það ekki að ástæðulausu, hvernig við fólkið á Íslandi þolum þessi stöðugu áföll.  Hvernig klárum við okkur út úr einhverju sem engan enda virðist ætla að taka?

Engin úrvinnsla getur hafist á meðan áföllin dúndrast yfir mann á hverjum degi og ég veit eins og flestir aðrir að þetta er aðeins byrjunin.

Ég held að þetta endi með ósköpum ef fram fer sem horfir.

Þess vegna bið ég ykkur andskotans kverúlantarnir ykkar, hverjir sem þið eruð að segja sannleikann, segja af ykkur þar sem það á við, hætta í feluleik og fela alþjóðasamfélaginu að hreinsa upp skítinn eftir sukkárin og setja sannleikann á borðið.

Svo við almenningur förum ekki í grafgötur með hvað gerðist og hvers vegna.

Ég persónulega þoli ekki miklu meir.

En ég læt mig auðvitað hafa það af því annað virðist ekki vera í boði.

Og hápunktur þessa súrrealíska raunveruleika er að við eigum að borga brúsann líka.

Fellini hvern andskotann?


mbl.is Segja fullyrðingar ekki eiga við Glitni sjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það grundvallaratriði svo Alþingi fái viðhaldið virðingu sinni að rannsóknarnefndin sem rannsaka á bankahrunið taki til starfa sem fyrst.

Hvaða virðingu?


Andskotinn sjálfur

Afsakið á meðan ég garga mig hása.

Ég held að tilfinningum mínum sé best lýst á eftirfarandi hátt:

Andskotans, djöfulsins spillingarlið.

Fari það í fúlan pytt, eða réttara sagt; beinustu leið í svartholið þar sem það á heima.


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kiddinn er pólitískur dúllurass

Í Frjálslynda flokknum líkt og í öðrum hægri flokki á Alþingi er bannað að fara eftir sannfæringu sinni. 

Kristinn H. er pólitísk dúlla að mínu mati.  Gamaldags og ærlegur hefur mér sýnst.  Það er ekki alltaf vinsæll eiginleiki í pólitík.

Ég er auðvitað gjörsamlega ósammála manninum og finnst ekki par huggulegt að hann skuli ekki hafa drattast til að kjósa með vantraustinu en ég virði hann fyrir að standa með skoðun sinni.  Sem nota bene sumir kollegar hans í þinginu mættu taka sér tileinka sér.

Mér var sagt fyrir löngu af vísum manni að þingmönnum bæri fyrst og síðast að fara eftir sannfæringu sinni.

Í dag kallar það á fyrirtöku í flokki að láta slík ósköp henda sig.

Kristinn Sleggja þú verður væntanlega látinn út á guð og gaddinn enda held ég að þú hafir þarna lagt félögunum kjörið tækifæri í hramma.

Svei mér þá ef ég er ekki að sannfærast betur og betur um að flokkakerfi eru til óþurftar.

Í mörgum flokkum eru kollektívar skoðanir búnar til á flokksþingum.

Hver getur undirgengist þau ósköp svo vel sé?

Já ég veit margir. 

Einn fyrir alla, allir fyrir einn.

Það er eitthvað svo "dagurinn í gær" finnst ykkur ekki?

Kiddi, þú ert boðinn velkominn í nýja stjórnmálaaflið á Íslandi.  Grasrótina.

Jájá.


mbl.is Afstaða Kristins tekin fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.