Leita í fréttum mbl.is

Helvítis fokking fokk

Ég vil ekki halda því fram að íslensk stjórnvöld sem sátu hér þegar allt hrundi séu hálfvitar.

Af því ég er vel upp alin og svo er tilhugsunin um að slík hafi mögulega verið raunin algjörlega óbærileg.

En óneitanlega hvarflar það manni aftur og aftur svona í retrospektívi.

Var það kannski kaldastríðsgenið í Sjálfstæðisflokknum sem fékk þá til að segja Njet við Rússana þegar þeir buðu okkur 4 milljarða evra lán í október s.l.?

Geir Haarde alveg: Njet thank you - við erum í Nató og þið eruð vondir menn í Rússkí?

Eða var það afneitun á alvarleika ástandsins?

Eða það sem mér þykir líklegast að íhaldið hafi trúað því og treyst að hinn vestræni heimur kæmi og bjargaði okkur prontó af því við erum svo mikil krútt og eigum Íslendingasögurnar og næturnar eru svo miklu bjartari hér en annars staðar á sumrin?

Hvað skal halda?

Eða er við svo miklu að búast af manni sem lyfti ekki síma til að spyrja um hvers vegna á okkur voru sett hryðjuverkalög?

Þegar við urðum Osama Bin Laden í fjárhagslegu tilliti?

Maður sem segir "Mayby I should have" aðspurður um hvers vegna hann hringdi ekki og tékkaði á málinu?

Meiri spurningarnar í mér.

Er það nema von - ég skil ekki afturenda í þessu rugli öllu saman.

Hvernig læt ég, AGS reddar okkur.

Alveg eins og hann er búinn að gera frá því hann kom að málinu.

Helvítis fokking fokk.

 


mbl.is „Íslendingar vildu ekki lán frá Rússum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæ honní við erum skilin - sorry

Ég elska alla þessa nýju tækni sem við höfum aðgang að og teljum orðið sem sjálfsagðan hlut.

Kommon, í æsku minni var einn sími og ef enginn var heima þá náði maður ekki í viðkomandi.  Enginn farsími, ekkert vesen.

Sem var auðvitað bölvað vesen.

Farsímar, net og allur þessi tæknipakki gerir lífið auðveldara og skemmtilegra.

En allir hlutir hafa bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar.

Ég hef fylgst með því í kringum mig hvernig unga fólkið af netkynslóðinni notar sms til samskipta þannig að ég hef stundum misst hökuna niður á hné af undrun.

Það þykir ekkert tiltökumál að leysa hvað eina í mannlegum samskiptum með sms.

Byrja saman, hætta saman, tilkynna vondar og góðar fréttir í textaskilaboðum eða á Snjáldurskinnu.

Ég hef stundum rætt það við fólk að þetta hamli félagsfærni þeirra sem hafa tekið tæknina í þjónustu sína að því marki að venjuleg samtöl eru ekki inni í myndinni.

En...

Það fer um mig hrollur þegar ég les um að lögfræðingur Borghildar Guðmundsdóttur sendi henni smáskilaboð um niðurstöðu Hæstaréttar í máli hennar.

Er ekki lengur hægt að lyfta síma?

Lögfræðingurinn var í fríi og sagðist ekki getað talað við hana.

En ef það er hægt að skrifa skilaboð þá er hægt að hringja eitt símtal.

Það er ekki eins og hann hafi verið að tilkynna um smámál eins og að mjólkin væri búin í ísskápnum.

Er ekki hægt að gera þá kröfu til fullorðins fólks að það sýni lágmarksvirðingu í samskiptum?

Lögfræðingar t.d. eru á háum launum, hvernig væri að vinna fyrir þeim og sýna fagmennsku í starfi?

Svo ætla ég rétt að vona að Borghildur fái aðstoð við að leysa mál sitt og barnanna.

Án þess að vera rekin úr landi með börnin.

Arg.

Facebookatriðið í áramótaskaupinu er kannski ekkert svo langt frá raunveruleikanum.


mbl.is Fékk sms: Hæstiréttur staðfesti dóminn, sorry
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja-Ísland hvern andskotann?

Ofsalega getur maður verið illa áttaður og úti að aka á öllum sprungnum og með púströrið í götunni.

Fíflið ég hélt að á "Nýja-Íslandi" yrði ekki skipað pólitískt í bankaráð Seðlabanka.

Bíðum nú við, hvenær seldi ég sjálfri mér eiginlega þessar jákvæðu breytingar?

Var það eftir búsáhalda þegar ég hélt að nú myndi allt færast til betri vegar?  (Ef ég væri ekki óvirkur alki til þriggja ára og vissi algjörlega upp á mína tíu fingur að ég hef ekki verið undir áhrifum hugbreytandi efna þá myndi ég ætla að ég hafi verið dauðadrukkin þegar ég laug þessu að sjálfri mér).

Eða var það kannski fyrir kosningar þegar ég steðjaði bjartsýn á kjörstað að ég gaf mér að nú myndi allt breytast?

Æi, ég man það ekki. 

Ég verð að játa á mig ferlega einfeldni.

Því þegar ég sá þessa frétt sem gengur að lesa hér fyrir neðan þá trúði ég vart mínum eigin augum.

En þetta skrifast auðvitað á minn reikning.

Að sjálfsögðu hefur ekkert breyst hvað svona hluti varðar.

Afdankaðir pólitíkusar og aðrir flokksprelátar sitja eftir sem áður og ráða ráðum í hagsmunagæslu fyrir sína flokka í Seðlabankaráðinu.

Hvort þeir hafi hundsvit á efnahagsmálum er svo aukaatriði.

Algjört andskotans aukaatriði.

Ætlum við aldrei að læra?

Ég ætla að teygja mig í mitt persónlega kviðristukitt.


mbl.is Kosið í bankaráð Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramaköst þingmanns

Fyrirgefið en ég loka eyrunum þegar Þór Saari fer á kostum í notkun lýsingarorða.

"Það er verið að leysa þetta mál með hefðbundnum pólitískum ofbeldisaðferðum" segir Þór og á þá við Icesave offkors.

Sko, alveg frá því að þingmaðurinn ráfaði um með trékubbinn úr húsinu á Álftanesi í heilögu dramakasti þá flokkaði heilinn á mér hann undir "lýðskrumarar" og þar verður hann þar til annað kemur í ljós í félagsskap manna eins og Sigmundar Davíðs og fleiri hrópenda. 

Með kubbinn í fanginu setti þingmaðurinn niður sína næstsíðustu kartöflu í mínum garði.

Þegar hann svo snéri frá yfirlýstri stefnu BH varðandi ESB-aðildarviðræður, en hreyfingin lýsti því yfir fyrir kosningar að þjóðin ætti að fá að ákveða sjálf hvort gengið yrði í sambandið, þá fauk hans síðasta kartafla með arfa og öllu.

Þess vegna ímynda ég mér að þegar Þór Saari hrópar um ofbeldi þá eigi hann við að það sé pressa á alþingismönnum vegna Icesave-samningsins. 

Það er ábyggilega rétt.

En þetta stóra mál verður að afgreiða og þá helst af ábyrgð sem nær til samvinnu allra flokka.

Einelti og ofbeldi!

Afsakið á meðan ég treð ávöxtum í eyrun.


mbl.is Hefðbundið pólitískt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af bankadólgum og klækjastjórnmálum

Fátt hefur truflað mig meira undanfarna mánuði en Icesave.

Já, ég veit ekkert sérstaklega frumlegt, allir hugsandi menn og konur eru að ganga í gengum samskonar frústrasjónir.

Ég hef myndað mér skoðun svo oft að ég hef ekki tölu á því lengur.

Þetta gengur ekki svona, þetta gerir mann lasinn.

Samsæriskenningin um að andstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sé eins grimmileg og raun ber vitni sé tilkomin vegna þess að þeir vilja allt til vinna til að sprengja stjórnina og komast að völdum til að fela sannleikann sem nú virðist vera á leiðinni í dagsljósið, eins og rannsóknarnefnd þingsins hefur boðað þann 1. nóvember n.k., er farin að virka trúverðug í mínum huga.

Enginn, hvorki InDefence eða aðrir sem um málið fjalla og vilja fella samningana, hafa komið með raunhæfan valkost.

Engan skotheldan að minnsta kosti.

Icesave eða ekki Icesave er ekki valmöguleiki - við verðum að standa skil á ákveðnum hluta þessa klúðurs.

Ég má ekki til þess hugsa að gömlu spillingarflokkarnir komist aftur til valda.

Ég er hræddari við þann möguleika en en kreppuna og er þá mikið sagt.

Þá myndi Eva Joly fjúka, það er eins víst og það kemur nýr dagur á morgun.

Ég ætla rétt að vona að alþingismenn komi sér niður á þverpólitíska lausn á þessu máli og það sem fyrst.

En að ég trúi upphrópunum og lýðskrumi Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs er af og frá.

Ég gæti gubbað yfir skinheilagheitunum þegar Bjarni talar fjálglega um hagsmuni almennings. 

Fyrirgefið á meðan ég garga mig hása.

En fólk er fljótt að gleyma.

Eins og t.d. því að það voru þessir flokkar sem sérhönnuðu aðstæður fyrir bankadólgana til að ræna íslenska þjóð bæði fjármunum og æru.

Þeir mega ekki koma nálægt stjórn landsins næstu áratugi.

Helst aldrei en ég er ekki ofurbjartsýn svo ég gef mér að þeim verði lóðsað í valdastóla af minnislausum almenningi að einhverjum tíma liðnum.

Fjandinn sjálfur.


mbl.is Boða samstöðufund á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja línan á Íslandi - Sharíalög?

Mál þessarar konu og barnanna hennar hefur haldið fyrir mér vöku í nótt.

Allt í lagi með það, ég get alltaf sofið.

Það sem fer fyrir brjóstið á mér og það illilega er að íslenskur dómstóll skuli úrskurða börnin úr landi og móðurina í leiðinni.

Konan er Íslendingur.

Ég veit ekkert um aðdraganda málsins fyrir utan það sem hægt er að lesa í fréttum.

En þegar fólk er rekið úr landi út á guð og gaddinn og hótað með Interpól og bandarísku lögreglunni ella þá er komið að því að stinga niður fæti.

Konan á enga peninga til að reka forræðismál fyrir bandarískum dómsstólum.

Hún hefur ekki einu sinni dvalar- eða atvinnuleyfi í Bandaríkjunum en samkvæmt íslenskum dómstólum skal hún samt fara, hvað sem það kostar.

Ég vissi svo sem að við konur höfum ekki riðið feitum hesti frá viðskiptum okkar við íslenska dómstóla en þetta er kornið sem fyllir mælirinn.

Hefur engum dottið í hug svona barnanna vegna að reyna aðra og sársaukaminni leið til að ná niðurstöðu milli foreldranna.

Svo drengirnir geti notið samveru við báða foreldra án þess að það þurfi að rífa þá nauðuga frá heimili sínu til annars lands upp á von og óvon?

Hildur Helga líkir þessum gjörningi við Sharialög.

Ég er henni sammála.

Hver verður rekinn næst?

Viðtalið við Borghildi Guðmundsdóttur í Kastljósi.


mbl.is Íslenskri fjölskyldu vísað úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakklát viðkomandi lekanda

Ég er ótrúlega biluð oft á tíðum.

(Þess á milli er ég ekkert minna en friggings undrabarn bara svo við höldum því til haga).

Eins og t.d. núna þegar ég sveiflaði mér á vefinn til að lesa nýjustu fréttir.

"Kaupþingsleki hjá lögreglunni" las ég og dró samstundis þá ályktun að einhver hjá löggunni hefði lekið upplýsingunum á WikiLeak.

Ég ætla ekki að vera með neina hræsni og segjast skilja að það þurfi að rannsaka þennan leka og komast að því hver sá "seki" er einfaldlega vegna þess að hver sem lekandinn er, þá nefni ég hann í möntrum mínum af djúpu þakklæti og þó nokkurri virðingu.

Bankaleynd er nauðsynleg og í venjulegu árferði þá væru allir sammála um að það skipti öllu máli að rjúfa ekki slíka leynd.

En nú eru ekki venjulegir tímar.  Bankahrunið var manngert, þar réði ferðinni taumlaus græðgi og  botnlaust siðleysi margra manna sem höguðu sér eins og þeir ættu heiminn og skenktu því ekki þanka hvernig myndi fara ef allt myndi hrynja til grunna.

Nú stöndum við almenningur frammi fyrir því að þurfa að pikka upp nótuna.

Þess vegna fagna ég lekum úr lánabókum fyrir hrun.

Megi þeir verða sem flestir og megi löggan aldrei finna gerendurnar.

Þess óska ég hátt og í hljóði.

Og skammast mín ekki afturenda.

En aftur að upphaflegu ástæðunni fyrir þessari bloggfærslu.

Ég trúði því alveg að einhver úr löggunni hafi lekið.

Fíflið ég, af hverju ætti löggan að hafa einhver upplýsingar úr herbúðum bankana - frekar en ég sko.

Já, ég er bara að tala um almennu lögregluna.

Súmí - ég er vond kona og forstokkuð í þokkabót.


mbl.is Kaupþingsleki hjá lögreglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrollvekja

Það þarf svo sem engan vinnusálfræðing eða geðlæknir til að segja mér að Icesave-málið valdi gífurlegu þunglyndisálagi á þjóðina.

En það er ekki verra að það komi fram.

En varðandi Icesave þá hefur mig lengi grunað að andstaða gömlu valdaflokkana við málið sé vegna ótta þeirra við yfirvofandi uppljóstranir á því sem átti sér stað.

Með því að fella málið eru líkindi á að stjórnin springi.

Ég sannfærðist um þetta í gærkvöldi þegar ég sá Höskuld Þórhallsson þvertaka fyrir alla mögulega fyrirvara við samninginn.

Hann vill byrja upp á nýtt.

Svo sá ég þessa bloggfærslu hérna í gær og sá að ég er ekki sú eina sem hugsar á þennan hátt.

En ég fékk sting í hjartað þegar ég sá þetta.

Er nefnilega svo skíthrædd um að þetta sé málið.

Dásamleg tilhugsun eða þannig að fá íhald og framsókn aftur í valdastólanna.

Hrollvekjandi.

P.s. Rakst á þennan pistil Jóhanns Haukssonar á DV um málið.


mbl.is Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gó Þráinn

Ég er viss um að enginn stjórnmálamaður á Íslandi hefur fengið eins miklar skammir og Þráinn Bertelsson fær yfir sig nú um stundir.

Skammir er kannski ekki rétta orðið heldur eru þetta árásir og skítkast bæði á Eyju og Moggabloggi.

Þráinn er nefnilega í sérstakri stöðu.

Ég man ekki eftir neinum stjórnmálamanni sem hefur fengið viðlíka útreið og ÞB.

Og fyrir hvað?

Jú, fyrir að fylgja eftir stefnu þeirrar hreyfingar sem hann bauð sig fram fyrir.

Fyrir þá dæmalausu ósvífni að standa við kosningaloforðin.

Merkilegur fjandi.

Til að toppa svo þetta flippaða mál allt saman þá hafa þeir sem hæst hafa látið verið nánast búnir að innrita Þráinn í Samfylkinguna.

Af hverju?

Jú, maðurinn þekkir Össur Skarphéðinsson og er að kjafta við hann og fleiri úr Samfó í mötuneytinu.

Það hefur örugglega aldrei gerst á Íslandi áður.

Að menn séu í góðum fíling þvert á flokkslínur.

Nei, nei.

Nú hefur Þráinn tekið af allan vafa - hann er auðvitað ekki á leið úr sínum flokki.

Enda hvernig ætti fólki að detta það í hug?

Hann hefur staðið við loforð flokksins upp á punkt og prik.

Fyrr held ég að "sumir þrír" gangi í Sjálfstæðisflokkinn og það kæmi mér ekki á óvart.

Gó Þráinn.


mbl.is „Fyrr frýs í víti en ég skipti um flokk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hipp og kúl að borða hvalkjöt?

Sumir borða hvalkjöt, aðrir ekki, ég er ein af þeim sem hrylli mig við tilhugsunina um lýsiskjötið.

Ég ber samt alveg virðingu fyrir þeim sem eru á annarri skoðun.

Sumum finnst líka hipp og kúl að borða hvalkjöt.

Alveg eins og sumum finnst hipp og kúl að vera á móti hvalveiðum.

Svo eru þeir sem eru eins og ég - sem eru einfaldlega á móti hvalveiðum, af því bara.

En jafnvel þeir sem elska kjötið verður ykkur ekkert hverft við þegar þið fáið svona upplýsingar?

Halló, hefur einhver lyst á sautján ára gömlu kjöti þó úr frysti sé?

Vá hvað mér yrði óglatt hefði ég gúffað í mig hvalkjöti í fyrra hjá Úlfari.

En sem betur fer er ég blásaklaus- aldrei þessu vant.

Úff.


mbl.is Hvalkjötið dugði Úlfari í sautján ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 2987377

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.