Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ertu að segja að ég sé feit?

Ég eyddi stórum hluta ævi minnar í megrun.

Og þegar ég skrifa þetta þá virkar það gargandi fáránlegt vegna þess að fyrir utan bústímablilið (áður en ég fór í meðferð) þegar ég safnaði utan á mig dyrkkjulopa þá hef ég tæpast nokkurn tíma verið feit.

En þetta er að ganga í fjölskyldunni, við systurnar höfum verið með sjúklegan áhuga á kílóum, eða vorum lengi vel.

Allt var prófað.  Svelti, hvítvíns- og eggjakúrinn, Scarsdale, prins- og kókkúrinn.  Ég fékk ofboðsleg kikk út úr því að sauma ærlega að sjálfri mér.

Og fituhugsunin var alltaf til staðar.

Er ég feit í þessu, er rassinn á mér stór í þessum buxum, en maginn, en lærin, en, en, en?

Og svo komu yfirlýsingarnar þegar ég fékk fitumóral á leiðinni á ball. "Rosalega næs systur eitthvað að draga mig spikfeita með ykkur á ball!" varð að fleygri setningu í systrahópnum.

Hilma systir fór í öll föt ættarinnar áður en hún gat fundið út í hverju hún var MINNST feit í.  Það varð til þess að við komumst á ballið til þess eins að hitta fólk fyrir utan þegar hleypt var út, eða nánast.

Og dætur mínar erfðu áhugan. 

Maysan kom heim og spurði Söru hvort kexið væri búið.

Saran (bálill) ertu að segja að ég sé feit?W00t

Og svo voru það megrunarpillurnar sem ég grenjaði út úr heimilislækninum þegar ég bjó í Keflavík um árið.  Mirapront hétu þær.  Ég pilluætan tók einni meir en ráðlagður skammtur var (eða fleiri), svaf ekki, fékk sár á tunguna og allskonar.   Pillurnar voru læknaspítt.  Jájá.

En ég var aldrei ánægð,  því mér leið feitt.

Og ég gekk fram hjá spegli og gargaði upp; djöfull er ég ógeðslega feit.

Nú horfi ég stundum á gamlar myndir af grannri stúlku sem fannst hún feit og það hafði ekkert með kílóatölu að gera.

Og ég er alveg viss um að konur fara frekar í megrunarlyf en karlar.  Skilaboðin um hungurlúkkið eru skýr, alveg frá því að við erum smástelpur.

Farin í megrun.. sorrí meina sólbað.


mbl.is Fleiri konur en karlar nota megrunarlyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varamenn með skapahár

Ókí, Nasa búin að fatta hvers vegna Norðurljósin bregða á leik.

Gott mál.

En ég heyrði af geimfara sem staðfastlega heldur því fram að geimverur séu til og að þessar upplýsingar séu stjórnvöldum í USA löngu ljósar.

Ég vissi að geimverur voru til um leið og ég sá þessa mynd.

 

 

 

Ég veit að maður á ekki að gera grín að útliti fólks, flestir ráða engu um hvernig guð leggur til gjafirnar, en þessi púkkar upp á sköpunarverkið með tilfæringum, væntanlega úr lærinu á sér og ég tel mér fullkomlega leyfilegt að æla, ef þið vilduð gjöra svo vel að bíða rétt á meðan.

Ég lagði það á mig að horfa á þennan þátt (Britain´s next top model) til að berja konuna augum og ég gat ekki fylgst með neinu nema vörunum á henni sem lifðu sjálfstæðu lífi og voru á leiðinni eitthvað í hvert skipti sem hún opnaði munninn. 

Svo var hún tæfuleg í dómum sínum, frekar köld og andstyggileg í stíl við varirnar.

Annars las ég um konu sem fór í varadjobb og byggingarefnið var tekið úr svæðinu nálægt Gunnu litlu.  Eftir nokkrar vikur fóru að vaxa skapahár úr vörunum.  Þetta er ekki flökkusaga heldur beinharður sannleikur.  Sá viðtal við konuna á sænskri sjónvarpsstöð og þátturinn hét því skemmtilega nafni Torg Hégómans (Fåfängans torg).

Ég vona að viðkomandi hafi tekið hintinu frá almættinu.

Ég hef hingað til ekki séð varaverk sem lítur út fyrir að vera annað en það er.  Sjálfstæðar varir sem passa ekki andlitinu.

Sjáið eina af mínum uppáhaldsleikkonum, hana Goldie Hawn.  Hún er varamanneskja eins og Huggy og fleiri fagrar konur.

Ég vil ekki vera varamaður, ég vil vera úrvalskona.

Og hafðið þið það aularnir ykkar.

Bloggað af Leifsgötu, á hundleiðinlega lappann hans Einars míns.

En það viðrar vel til mótmæla.

Kettlingurinn Núll var að gera mig brjálaða í nótt með því að leika sér að hárinu á mér.

En þessi mjallahvíti hnoðri er ungviði og mér er nokkuð hlýtt til þeirrar kategóríu og þess vegna lifir hún og er í góðu yfirlæti.


mbl.is NASA uppgötvar hvers vegna norðurljósin dansa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misdýr mannslíf

Í annað skiptið á stuttum tíma, svona tiltölulega, fer minn heittelskaði á vídeóleiguna til að leigja eitthvað sem vert er á að horfa.  Ég er hrifnust af lögfræðimyndum eða kjaftamyndum eins og sumir vilja kalla þær..  Í fyrra skiptið kom hann með leikna heimildarmynd (kólumbíska) sem fjallar um hvernig unglingar eru nörruð til að gleypa hylki af eiturlyfjum (fleiri tugi) og smygla þeim til Bandaríkjanna.  Ég var ekkert sérstaklega upprifin, langaði ekki í raunveruleikatékk en var öllu fróðari um ljótan heiminn eftir að hafa horft á myndina.

Og í kvöld rauk minn af stað.  Ég beið vongóð.  Vonaði bara að hann kæmi ekki með stríðsmynd eða Sound of Music.  Lengra náðu mínar kröfur ekki.

Spennumynd sagði maðurinn.  Ók.  hljómaði vel og við byrjuðum að horfa.

"Shaking hands with the devil" heitir þessi heimildarmynd sem fjallar um mann sem endurlifir þjóðarmorðin í Rúanda, en hann er Kanadamaður og var í  SÞ.

Beisiklí þá stungu vesturlandabúar af og maðurinn horfði upp á fól friðargæslu drepið í hundruðum þúsunda, brytjað niður, konur, börn, menn, allir, án þess að hann fengi rönd við reist.

Ég er þakklát manninum mínum fyrir að hafa óvart leigt þessa mynd.

Það eru ekki svo mörg ár síðan þetta gerðist, eða 1994, heimurinn hafði ekki áhuga, var að horfa á réttarhöldin yfir OJ Simpson.

Það er eins og mig minni að ég hafi heyrt að það sama sé að gerast í Darfúr.

 Fáir taka eftir,ekkert hefur breyst.

Afríka má eitthvað svo missa sig.

Og svo fer maður á Moggann og sér að Brad Pitt er alveg bálillur yfir að einhver hafi náð myndum af hans dýrmætu familíu.  Það rýrir sölugildi myndanna sem hann ætlar að láta að taka sjálfur.

Að vísu til að gefa til góðgerðarstarfsemi og það er gott og ég er ekki að gera lítið úr því.

En það verður svo hjákátlegt í samanburði.

Ég hvet ykkur til að gefa ykkur stund til að horfa á þessa mynd.

Annars allt í sómanum á Leifsgötunni.

Kötturinn Núll biður að heilsa.


mbl.is Brad Pitt hótar lögsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldisdómar enn á útsölu

hammer1 

Nú fara dómarnir að detta inn aftur eftir réttarhlé.

Það er með ólíkindum hversu íhaldssamir íslenskir dómstólar eru þegar kemur að því að fella dóma yfir þeim sem beita maka sinn núverandi og fyrrverandi, ofbeldi. 

Þessi málaflokkur virðist alltaf vera á tilboðspallinum.

Þessi andskotans ofbeldismaður fékk 8 mánaða fangelsi, þar af 6 skilorðsbundið fyrir að ráðast ítrekað á fyrrverandi sambýliskonu sína og tvö börnin hennar.

Ofbeldið fólst m.a. í tveimur fingurbrotum, hálstaki, hnefahögg í andlit og árás á dóttur konunnar sem reyndi að koma móður sinni til hjálpar. (Fleiri en eitt tilvik) Hva?  Tertubiti.

Annars stingur þessi dómur svo sem ekki neitt sérstaklega í augum, þetta er gengið á líkamsmeiðingum og andlegu ofbeldi á Íslandi í dag.

Sátt?

Nei, svo sannarlega ekki.

Þegar að ofbeldi gegn konum og börnum er annars vegar, þá eru dómstólarnir ekki að senda út þau skilaboð að það sé alvarlegt mál.

Andskotinn snarpstyggur.

Dómur í heild sinni.


mbl.is Réðist á konu og börn hennar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli algjör sveppur

 egg

Ég er að pakka niður hérna á milli hverfa.

Margt sem þarf að taka með.

Við vitum ekki með Bördí, hann er svo viðkvæmur og undarlegur fuglinn sá,  held að hann færi yfir um við flutningana.  Þannig að ég kem til með að vera hérna heima hluta úr degi og þá get ég auðvitað bloggað sem aldrei fyrr.Devil (Ég verð selskapsdama fugls.  Það er rétt ég á ekkert líf).

En.. Svo er það forsetinn.  Hér varði ég manninn þar til ég var að niðurlotum komin, og svo fær maður heldur betur að kyngja því hráu.

Mér fannst og finnst reyndar enn að Dorrit og hann megi eiga alla þá vini sem þau kjósa í heiminum, þar með talda Mörtu Stewart.  Mér finnst það algjörlega þeirra einkamál hverjum þau fara með út að borða.  En nú er Ólafur að setja niður sína síðustu kartöflu í mínum garði ef þetta er satt, sem ég efast reyndar ekki um.

Hin ástæðan fyrir brottrekstur úr mínum kartöflugarði er að Óli er að fara á Ólympíuleikana að snobbast og derra sig með morðingjunum í Kína.

Reyndar fær enginn íslenskur stjórnmálamaður að athafna sig í mínum matjurtagarði sem þangað fer og sendir mannréttindabaráttu í heiminum fokkmerki.  Étið þið úldna skötu bjánarnir ykkar.

Og svo eru það húsráðin.

Ég veit hvernig maður fær páskagul egg upp úr pottinum.  Bara skella ystu lögunum af gulum lauk með í pottinn.  Ég stóð á öndinni í mörg ár út af þessu undri sem finnsk vinkona mín kenndi mér.

Já og að setja brauðsneið í púðursykurspokann þegar sykurinn er orðinn glerharður.  Voila og daginn eftir er sykur sem nýr (en þið verðið að henda brauðinu, það verður allt undarlegt eitthvað.  Dem).

En hvernig hef ég farið að án þess að fatta þann vinnusparnað sem felst í því að skera sveppi og jarðaber í eggjaskerara?  Vá, veit umheimurinn þetta og ég bara svíf um í ingnoransínunni?

Farin á Leif.


Þjófar og annað skítapakk

Ég er að flytja að heiman, bara sí svona.  Svona geta hlutirnir gerst.

Matarboðið sem ég var með fór nú ekki alveg eins og ætlað var.

Elsta dóttirin og sú yngsta ásamt fjölskyldum voru að koma í mat. (Týnda miðbarnið ásamt barnabarni og manni enn í London).

Helga Björk, Björn og Jökull mættu á svæðið.

Leifsgötufjölskyldan hringdi í ofboði.  Það var brotist inn í bílinn þeirra rétt á meðan þau brugðu sér inn að gera börnin klár fyrir boðið.

Veskinu hennar Söru var stolið og já bílinn var læstur og hún brá sér inn augnablik.  Hliðarrúðan á bílnum möskuð.

Og þau eru að fara í hálfsmánaðarferð til Svíþjóðar í nótt.  Skemmtilegt að lenda í svona.

Það er nokkurn veginn vitað hverjir voru að verki.  Það skiptir ekki máli, tilfinningin að láta skemma og eyðileggja fyrir sér er vond.

Þannig að nú flytjum við húsband okkur á Leifsgötuna. Og gætum óðalsins næstu tvær vikunnar.

Matarboðið var haldið án fórnarlambanna en af því við erum svo frábær hérna í upphæðum, þá fórum við með allan matseðilinn á Leifsgötuna og gáfum þessum elskum að borða.

Jenný Una sagði:  Amma, nú getir ég ekki sofað mjög lengi hjá ykkur.  Ég ætla að sofa hjá farmor och farfar.

Og svo sagði hún bless.

Litli tækifærissinninn.

Og ég mun blogga af vettvangi á morgun.

Úr glæpagötunni, og sumir mega vara sig.Devil

P.s. Flokkar maður innbrot og sollis undir "viðskipti og fjármál"?Halo

 


Svo dúllulega sjálfhverft

woman-computer-heart 

Ég er að fara að halda matarboð í kvöld og ég hef alveg nóg að gera.  Nóg til þess að vera ekki að blogga eins og mófó.  En sumir dagar eru bara bloggdagar í æðra veldi.  Það renna inn ástæður fyrir skrifum. 

Ég skrifaði um húmorsleysi áðan varðandi auglýsingu Iceland Express og ég skil ekki hvað er að verða með húmorinn okkar Íslendinga fyrir sjálfum okkur.  Ég er nefnilega á því að það sé einfaldlega ekki hægt að komast í gegnum lífið án sjálfsíróníu hæfilegs húmors fyrir hlutunum í kringum okkur.

Ég fór svo að undirbúa í eldhúsinu eins og sú eðalhúsmóðir sem ég er.

Þetta varð svo til þess að ég engdist úr hlátri alla leið upp á nýtt.  Er verið að hafa mann að fífli?

Þegar Guðjón Bergmann, sá væni maður, skrifaði tilkynninguna um að hann væri ekki á leiðinni út í lönd, fannst mér það alveg hryllilega krúttlegt og auðvitað smá hallærislegt. 

Ég gat að sjálfsögðu ekki sleppt tækifærinu og bloggaði um yfirlýsinguna eins og hún kom mér fyrir sjónir.  Sjá hér.

Ég neita því hins vegar að hafa verið að ráðast með illkvittni að Guðjóni en ég hef ekki lesið nein önnur blogg um þetta svo ég muni.  Það má því vel vera að fólk hafi verið eitthvað vont við karlinn, en ég sé ekkert að því að við gerum smá grín að hvort öðru í lífinu.

Ætli maður hafi ekki fengið sinn skammt og vel það og það sem meira er að í mínu tilfelli hef ég gert mig að fífli oftar en ég hef tölu á. 

En Guðjóni er ekki hlátur í hug.  Leiðinlegt.

Yfirlýsingin var svo dúllulega sjálfhverf eitthvað.

Písandpahappíness mæmen.

 


Alvarlegt líf

Ég er ekki hrifin af Iceland Express flugfélaginu.  Einfaldlega vegna þess að reynsla mín af þeim er ekkert sérstök.  En hvað um það, þeir geta alltaf bætt sig.

En húmorinn í blaðinu þeirra finnst mér frábær.  Enda er það Íri sem semur textann.

Borg Flóttans, Keflavík, fær mig til að brosa allan hringinn.

Manni í Reykjanesbæ finnst húmornum alvarlega misbeitt. 

Kannski er þetta alveg á grensunni, ég veit það ekki, en ég veit að mér þætti ekki verra að versla við fyrirtæki sem kæmi mér til að hlægja.

Svona erum við misjöfn.

Lára Ómars kynningarfulltrúi telur að svona kaldhæðinn húmor eigi jafnvel ekki við í svona blaði.

Ég er því ekki sammála, frekar en Reykjanesmanninum sem finnst að þeir sem vinni að landkynningu eigi að taka starf sitt alvarlega.

Ég er í kasti eftir að hafa fengið smá innsýn í innihaldið.

Borg Flóttans (eða please get me out of hear) Keflavík.

City of Near (Borgarnes)

City of Bear (Vík í Mýrdal)

City of Tears (Akureyri, og sagt óhjákvæmilegt að bresta í grát þegar þangað sé komið því „ef enn hefur ekkert slæmt gerst ertu ekki að taka þessa hringferð nógu alvarlega").

Ómæ, ég held ég endurskoði viðhorf mitt til þessa kaldhæðna flugfélags og gefi þeim séns.

Þeir eru krútt.

 


mbl.is Saklaust grín eða ferðamannafæla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölleikahús Rigor Mortis

fire_meaney

Það er bara eitt í þessu lífi sem við getum algjörlega haft á tæru en það er sú staðreynd að við endum öll lífið með sama hætti, við deyjum.  Vá hvað mannkynið á margt sameiginlegt!

Ég hef stundum hugsað út í þetta með að deyja og svo iðnaðinn í kringum það.

Við verðum rosalega mikilvæg fyrir nokkur fyrirtæki í líkgreininni þegar við geispum.  Sorglegt.

Líkkistusalar eru þeir einu sem fyrirsjáanlega munu ávallt búa við atvinnuöryggi, ekkert í sjónmáli sem bendir á samdrátt í þeirri grein.Devil

Afgangurinn af manni verður mældur, kista valin sem kostar eins og meðal einbýlishús, jafnvel þó þú ætlir að kveikja í henni.  Dýr sprek og allt það.

Svo eru það blómin, meiköppið á hylkinu, kistulagning, prestur og skemmtiatriði, húsnæði fyrir erfisdrykkju og allur pakkinn.

Svo er verið að tala um að fermingarveislur kosti peninga.  Er erfisdrykkja ekki dálítið síðbúið partí fyrir hönd þess sem dó?  Mér finnst gáfulegra að halda veislur meðan maður er enn á meðal oss til að taka þátt í þeim.

Mig langar ekki til að láta eftirlifendur, sem mér er tiltölulega hlýtt til, punga út stórum fjárhæðum til að koma mér í gagnið í fæðupýramídanum. 

Ekki vil ég leggja inn á bók fyrir útförinni.  Mér finnst það ógeðslega morbid.  Peningar eiga að notast til að lifa af ekki til að deyja fyrir.

Ég vil láta taka af mér afganginn, brenna hann í einföldum og endurvinnanlegum umbúðum.  Vil ekki að heilum skógarlundi sé fórnað af tilfeninu. 

Mér hugnast sú tilhugsun að hverfa í reyk.

Síðan getur fólk haldið áfram að lifa lífinu sem best það getur, án sorgar og eftirsjár en væntanlega með mig sem góða minningu í hjartanu.

En ef væntanleg lík fara að vera með kröfur um að deyja á ódýran og einfaldan hátt, á eftir að hvína í Fjölleikahúsi Rigor Mortis, og ég sé það ekki gerast.

Þannig að ég gefst upp.  Bissnessinn verður að lifa. 

Þó við gerum það ekki.

Og svo má ekki gleyma minningargreinunum.  Þeir sem hafa eitthvað fallegt við mann að segja, ættu að lufsast til að drífa í því á meðan maður heyrir, sér, finnur og gleðst.  Annars eru líkurnar á að þú talir fyrir daufum eyrum í Mogganum.

 


mbl.is Líkhúsdvölin á við nótt á hóteli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskringla felldi mig

DSC_0183stor 

Suma daga ætti að meitla í stein.  Hreinlega vegna þess að þeir eru ógleymanlegir fyrir margra hluta sakir.

Dagurinn í dag er svoleiðis dagur.  Ekki í almanakískum skilningi, engin afmæli eða stórviðburðir, ónei, heldur lagði kvikindið sig svona.

Ég fékk tiltektarkast upp úr hádeginu og þegar ég fer af stað þá gerast hlutir.

Ég þvoði og skúraði og þvoði meira, blóðbunan stóð beinlínis aftan úr mér.

Og ég geng hraustlega til verks.  Ég missti bók ofan á stóran glervasa sem stendur á gólfinu (Gusla systir mín gaf mér hann og mér þykir því vænt um þennan fyrrverandi skrautmun).  Vasi fór í þúsund mola.

Og ég ryksjó, eins og beygingarsnillingurinn á einu dagblaðanna myndi orða það.  Hún er ein af þeim sem drekkur mörg köff á dag og úðar í sig hóp af súkkulöðum.  Sjitt hvað ég erfiðaði.

Svo tók ég stóru mottuna sem þekur góðan hluta stofugólfsins og snéri henni við.  Til þess þurfti ég að færa þungt stofuborðið og ryksuga undir mottunni.  Ég snéri svo mottuhelvítinu, bisaði borðinu á sinn stað til þess eins að komast að því að fíflið ég hafði snúið þessum risableðli í heilan hring.  Ergo: Allt á sama stað.  Ég endurtók aðgerð og var ekki að segja mjög fallega hluti á meðan.

Annars þarf ég að fara í bókahillurnar.  Þori því tæpast því ég fékk Heimskringlu í hausinn þarna fyrir jólin sem endaði í því að ég féll í bindindinu.  Löppin lagaðist ekki og ég fékk vöðvaslakandi og það endaði á 12 daga pillufylleríi.  Ég gæti sagt að Heimskringla hafi fellt mig í edrúmennskunni (hún felldi mig í gólfið svo mikið er víst), en það væri ekki satt.  Ég féll af því ég var ekki í nógu góðum málum.

En af því ég er svo frábær alki þá húrraðist ég strax inn á Vog.

Hvað er það með mig og bækur?

Úje og upp með húmorinn börnin góð.  Það verður ekki á allt kosið alltaf.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.