Leita í fréttum mbl.is

Guð forði mér frá umhyggjustjórnmálum

Ég hef verið að skoða hug minn til atburða undangenginna daga sem hafa hreyft við mér svo ég noti nú ekki sterkari lýsingarorð.

Borgarahreyfingin stendur mér nærri hjarta, hún spratt upp úr búsáhaldabyltingunni þó hún eigi fráleitt eignarrétt á henni, enda fólk úr öllum flokkum sem stóð þar í allan vetur.

Ég stend með Þráni Bertelssyni þó ég þekki hann lítið sem ekki neitt.

Þ.e. ég þekki hann sem rithöfund og mann með djúpan skilning á lífinu og síðast en ekki síst þá er hann með húmor fyrir sjálfum sér og hann hefur ekki látið sig muna um að skrifa opinskátt um sjálfan sig í bókunum sínum.

Eflaust er ÞB ekkert alltaf til lags.  Sem betur fer.  Svoleiðis fólk er leiðinlegt og það er hægt að fá það til að gera allan andskotann bara til að fá að vera með.

Fólkið sem tekur ekki afstöðu og bíður álengdar í átökum lífsins á heldur ekki upp á pallborðið hjá mér.

Það misbýður réttlætiskennd minni þegar farið er fram gegn fólki eins og þessi kasúldna þremenningaklíka hefur gert sig seka um gagnvart ÞB.

Og af hverju er ég að skrifa um þetta aftur?

Jú, í Fréttablaðinu í morgun lætur Birgitta Jónsdóttir hafa eftir sér þá skoðun að henni finnist umhyggja Margrétar Tryggvadóttur í rógsbréfinu til Katrínar Snæhólm sem "bjarnaharðaðist" svo um víðan völl af "misgáningi", sé aðdáunarverð!

Ógeðslegar dylgjur um heilsu ÞB eru aðdáunarverðar.  Umhyggjan lætur ekki að sér hæða.

Birgitta Jónsdóttir er formaður þingflokks Borgarahreyfingarinnar.  ALLS þingsflokksins ímynda ég mér.

Í staðinn fyrir að hafa í sér þor og dug til að harma þessar bréfaskriftir Margrétar, jafnvel skrifa þær á ólguna í flokknum til að halda andlitinu, þá gengst hún upp í því siðleysi að dást að umhyggju vinkonu sinnar fyrir Þráni.

Eftir undangegna daga hefur orðið "umhyggja" fengið svo ógeðslega merkingu í mínum huga að ég held ég taki mér það ekki í munn ef ég mögulega kemst hjá því.

Að minnsta kosti vona ég að umhyggjustjórnmál Borgarahreyfingarinnar líði sem fyrst undir lok.

Borgarahreyfingin er á síðustu metrunum, í öndunarvél nánast og öll umhyggja í heiminum fær því ekki breytt.

Það er sprottinn á atgervisflótti úr borgarahreyfingunni, svo ég gerist nú hátíðleg. 

Umhyggjustjórnmál BH munu þó hrjá þjóðina næstu fjögur árin ef engin kraftaverk gerast sem ekki er mikið útlit fyrir.

Á þremur mánuðum hefur tær orka búsáhaldabyltingarinnar sem myndbirtist í BH úldnað að því marki að nú liggur ýldulyktina yfir Alþingishúsið sem aldrei fyrr.

Lilja Skaftadóttir birtir í dag ljóð Páls J. Árdal á heimasíðu sinni og ég tek það til handagagns.

Páll hefur hreinlega verið skyggn og séð fram í tímann, þó líklegra sé að hann hafi verið naskur á mannlegt eðli.

Ráðið

Ef ætlarðu' að svívirða saklausan mann,

þá segðu' aldrei ákveðnar skammir um hann,

en láttu það svona í veðrinu vaka,

þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

 

En biðji þig einhver að sanna þá sök,

þá segðu, að til séu nægileg rök,

en náungans bresti þú helst viljir hylja,

það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.

 

Og gakktu nú svona frá manni til manns,

uns mannorð er drepið og virðingin hans,

og hann er í lyginnar helgreipar seldur

og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.

 

En þegar svo allir hann elta og smá

með ánægju getur þú dregið þig frá,

og láttu þá helst eins og verja hann viljir,

þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

 

Og segðu: "Hann brotlegur sannlega er,

en syndugir aumingja menn erum vér,

því umburðarlyndið við seka oss sæmir.

En sekt þessa vesalings faðirinn dæmir."

 

Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,

með hangandi munnvikum varpaðu önd,

og skotraðu augum að upphimins ranni,

sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

 

Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,

ég held þínum vilja þá fáir þú náð,

og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður.

En - máske að þú hafir kunnað þau áður!

Höfundur: Páll J. Árdal

 


mbl.is Nýr formaður Borgarahreyfingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Vel að orði komist og ljóðið er frábært og lýsir "verknaði" Margrétar þingmanns svo vel..

Sigrún Jónsdóttir, 15.8.2009 kl. 11:35

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Þetta ljóð Páls hentar vel sem grafskriftarorð yfir Borgarahreyfingunni.

hilmar jónsson, 15.8.2009 kl. 11:40

3 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Mér er frekar óljúft að svara þessu því ég met Jenný mikils og vona að hún taki mína afstöðu ekki persónulega.

Ég hef ekki verið hérna til að verja þremenninga Borgarahreyfingarinnar (eins og ég hef séð fleygt fram einhversstaðar á blogginu) né heldur að setja út á Þráinn. Það hefur verið misklíð og úlfúð lengi í flokknum og allir aðilar átt sinn þátt. Svona misklíð ætti að vinna úr innan flokks en ekki á bloggi og í fjölmiðlum. Þráinn virðist vinna betur í gegnum fjölmiðla þó því mér skilst að hann hafi ekki lengi viljað ræða við þingflokkin á öðrum nótum og ásakað þau opinberlega um eitt og annað.

En svo birtist þetta bréf og bréfritari dæmdur án dóms og laga um að vilja manninum illt og vera að reyna að drepa niður mannorð hans. Þó svo nú hafi komið fram að það var komið að máli við hana fyrst og hún bar það svo upp við vinkonu sína - en bréfið fór óvart víðara en það átti að gera. Þá er hrópað illska, mannorðsmorð og hvaðeina.

Hefur einhver sannanir þess að það hafi verið illvilji þarna á bakvið? Auðvitað hefði MT betur lyft upp símtólinu frekar en að viðra þessar áhyggjur sínar í bréfi - en hún gerði það ekki. En það sem allir voru þá þegar komnir í hár saman þá er þetta kjörið tækifæri til að nota þetta til hins ýtrasta og láta öllum illum látum. Ef allt hefði leikið í lyndi þá hefði enginn spáð í þetta bréf!

Það er þetta sem fer fyrir brjóstið á mér. Einhliða dómharka á máli sem mörgum finnst vera klaufaleg mistök. Og dómharkan og lætin eru að eyðileggja annars gott framtak BH. Og það finnst mér slæmt.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 15.8.2009 kl. 11:48

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég ræði þetta ekki frekar Lísa, öll orð í heiminum megna að gera þennan gjörning annað en það sem hann er.  Tilraun til að koma andstæðingi frá með því að láta eins og hann geti verið haldinn alvarlegum heilasjúkdómi.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.8.2009 kl. 11:52

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vinnur Þráinn betur í gegnum fjölmiðla?

Halló, maðurinn talar ekki við fjölmiðla.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.8.2009 kl. 11:53

6 identicon

Lísa: Engar sannanir eru fyrir hendi, en það er víst svo gaman að ásaka. Þá líður fólki eins og það sé fullkomnara en annað, og fær þessa notalegu réttlætis-tilfinningu í magann, fölsk þó hún gæti vel verið.

Jenný: Þú ert voða sniðug, en sjálfumglaða herferð þín gegn Borgarahreyfingunni segir meira um þig en þau.

Neptúnus Hirt (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 12:08

7 Smámynd: hilmar  jónsson

Lísa: Þú talar um gott framtak BH.

Vissulega var stofnun BH á sínum tíma gott framtak og gaf fyrirheit um að loksins væri kominn fram "flokkur" sem ætlaði sér að vera í beintengingu við almenning og fara óhefðbundnar leiðir þar sem raddir fólksins í landinu og lýðræði yrði í hávegum haft. En því miður. Hópurinn innan flokks hefur verið ósamstíga, gætt hefur ótrúlegs hroka hjá forystufólkinu, rætið og fjandsamlegt andrúmsloft hefur verið áberandi hjá sumum flokksmönnum, og loks tekur steininn úr með því einelti sem nú hefur birst hefur gagnvart einum flokksmanni.

Það gengur ekki að líkja BH við það sem lagt var upp með í upphafi, veruleikinn er því miður allt annar í dag.

hilmar jónsson, 15.8.2009 kl. 12:11

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég læt mér á sama standa um innanflokksátök Borgarahreyfingarinnar og þekki ekki þær persónur sem koma við sögu nema hvað við Þráinn erum málkunnugir. En mér finnst þetta athyglisvert dæmi um það hvað fordómar gegn geðsjúkdómum eru bráðlifandi. Ég hef fjallað um þetta á minni bloggsíðu. Frá þessu fordómalegu sjónarmiði sem ég skoða málið - en ekki út frá pólitísku sjónarmiði-skiptir það engu máli hvort þær vangaveltur sem koma fram um geðheilsu Þráins koma fram í einkabréfi eða opinberlega. Það er hugarfarið, þær augljósu áhyggjur yfir því að þunglyndi Þráins verði til pólitískra vandræða, því samstarf í stjórnmálaflokki er nú einu sinni pólitískt og sú hugsun, það vantraust sem í því felst á sjálfstæðu vitsmunalífi þess manns sem á að valda vandræðum í flokknum, er kemur fram í því að hann hljóti nú bara að vera með alzheimer, sjúkdóm sem rænir þig ekki bara vitinu heldur tekur allt frá þér.  Þetta minnir mig á atriði í skáldsögu eftir Dostajevskí þar sem smáborgari einn segir um konu sem fór sínar eigin leiðir: Hún er bara geðveik - sko í læknisfræðilegum skilningi. Sem sagt alvöru brjáluð en ekki bara í óeiginlegri merkingu. Þetta er sagt til þess að dæma vikomandi úr leik. Ekki þurfi lengur að taka neitt mark á honum. Fordómar eiga sér uppsrettu í einstaklingum en eru auðvitað mótaðir af samfélaginu líka í ýmis konar víxlverkun. Fordómar koma einmitt best  fram í lokuðum hópum þar sem menn halda að engir aðrir heyri til. Það sem mér hefur fundist einna sorglegast í umræðunni um þetta mál á blogginu er hvað menn eru sljóir fyrir þessari fordómahlið, menn eru bara í þessum pólitíski átökum en þetta klassíksa atriði um áhrifamátt fordóma skýst framhjá þeim. Fjanfskapur og hatur er önnur hlið fordóma. Í athugasemd sem ég hef lesið á tveimur bloggum segir maður nokkur að hann voni að Þráinn fari í meiðyrðamál því þá verði hann a fara bæði í alzheimerpróf og geðrannsókn og muni örugglega tapa málinu. Þetta er að gerast á Íslandi á 21. öld. Svona vinna einmitt fordómarnir. Settu geðveikisstimpil á einhvern og menn ætlast til að hann verði að hafa fyrir því að sanna hann af sér. Og menn hlakka yfir því! Þingmenn Borgarahreyfingarinar eru áreiðanlega ekki verri með fordóma gegn geðheilsu en aðrir en dæmi þeirra sýnir vel það sem ég var að fjalla um í bloggfærslunni: Það er svo grunnt á fordómum í þessum efnum að það er gripið til þeirra þegar það er talið vera sterkt vopn. Það að bríglsa mönnum um geðveiki er talið hrífa - og það hrífur eins og athugasemdin um að Þráinn verði að sanna þetta af sér sýnir.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.8.2009 kl. 12:22

9 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Þetta ljóð hefur Bergþóra Árnadóttir, móðir Birgittu, gert ódauðlegt með undurfallegu lagi sem ég finn því miður ekki á youtube.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 15.8.2009 kl. 12:32

10 identicon

Talar ekki við fjölmiðla Jenný? Undanfarinn mánuði talaði hann ekkert við flokksfélaga sína, einungis baktalað þau í gegnum fjölmiðla. Hvernig eiga þau að vinna í smáflokki þegar einn meðlimurinn fer í fílu og neitar að tala við þau? Neitar að upplýsa þau um það sem er að gerast í þeim nefndum sem hann situr fyrir þeirra hönd? Fer í fjölmiðla með stóryrði og móðganir? Þráinn hætti í framsókn því allir aðrir voru ómerkilegir. Hann hætti í xO því allir voru ómögulegir. Honum hefur tekist að skemma borgarahreyfinguna með þvermóðskunni og fílunni hjá sér. Honum er enginn vorkun.

Már (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 12:36

11 Smámynd: Heiða B. Heiðars

vá hvað kommentið hans Sigurðar Þórs segir allt sem segja þarf

Heiða B. Heiðars, 15.8.2009 kl. 12:49

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég ætla ekki að diskútera þetta mál meir.

Það má vera ljóst hvað mér finnst.

Flest ykkar sem eruð mér ósammála hafið látið það koma fram áður.

Þessi færsla er bara amenið á eftir efninu.

Þangað til næsta brigslpartý hefst þá get ég ekki lofað því að ég rífi til lyklaborðsins.

Takk Sigurður, þú nærð að koma þessu til skila sem er að meiða mig inn í hjarta.

Þetta er sorglega rétt hjá þér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.8.2009 kl. 12:49

13 identicon

Greinilega ganga þremenningarnir út frá því að allt sé heimilt í stríði, ást og pólítík. Vel má vera að Þráinn hafi meitt með því að segja verk þremenninganna svik við stefnu borgarahreyfingar. En í stað þess að taka á því og svara málefni af festu, er ráðist að persónu hans og meintri geðheilsu.

Þessi klaufalega árás sýnir svo augljóslega að upphrópanir og köll eins og "Þetta er ógeðslegt, frú forseti" eru innistæðulaust gjálfur fólks sem hefur enga sómakennd og ber ekki virðingu fyrir flokksbróður, þótt andstæðingur sé. Spurning hvað þau meini þegar þau segja "hæstvirtur þingmaður".

Réttlæting á tölvusendingum sem misfórust sýna síðan hve orrahríðin hefur gert þingmennina fátæka á siðferði. Ég mun ekki geta lesið eða hlustað á neitt sem þremenningarnir segja í framtíðinni nema með miklum fyrirvara.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 15:09

14 identicon

Margrét á að ganga út. Hún gerði alvarleg mistök, sem ekki eru sæmandi þingmanni. Borgarahreyfingin getur ekki varið svona gjörðir, ef hún hyggst standa undir þeim merkjum, er hún hóf á loft fyrir síðustu kosningar. Þ.e.a.s. að vinna gegn spillingu og valdagræðgi.

Margrét verður að víkja.

Kolbrún Bára (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 16:36

15 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Þetta ljóð Páls Árdals er sígild áminning, sem ekki veitir af á okkar síðustu og verstu...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 15.8.2009 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 2987322

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband