Leita í fréttum mbl.is

Martröð framundan!

hræðsla 

Sumir hlutir, hversu vitlausir sem þeir virðast vera þegar maður heyrir þá fyrst, hafa tilhneigingu til að verða það sem kallað er eðlilegir ef þeir fá að grassera nógu lengi.

Ég man að það var ekki bara ég sem fór á samskeytunum þegar það var fyrst bannað að reykja í millilandaflugi.

Ég sem var á þeim tíma orðin skíthrædd við að fljúga hélt að ég yrði ekki eldri.

Og það var ekki bara ég sem var stórhneyksluð á þessu mannréttindabroti.  Ónei.

Ég man að ég sat stíf og beið eftir að fá að kveikja mér í strax eftir flugtak.

Hékk á rettunni á milli landa algjörlega viss um að ég myndi húrra niður í sjóinn þá og þegar.

Harðákveðin í að deyja reykjandi og vel í glasi.

Eftir að stelpurnar mínar fæddust og ég varð eldri því hræddari varð ég að fljúga.

Hrædd um að gera börnin mín móðurlaus.

Ég tók gífurleg dramaköst þegar ég þurfti að bregða mér af bæ (lesist í flugvél sem kom nokkuð oft fyrir vegna þeirra starfa sem ég hafði með höndum) og í hvert skipti hágrét ég, faðmaði þær, skrifaði erfðarskrá, líftryggði mig og fór að heiman með ekka, lét þær lofa mér að verða góðar stúlkur og mömmu sinni til sóma og gekk frá því við föður þeirra að giftast konu sem elskaði börn.  Mín börn. (okokok, einhvern veginn svona).

Þegar sígóið var svo rifið af mér ofan á yfirvofandi dauðdaga minn sem ég hafði ásamkað mér sjálfviljug með því að fara í flugferðalag þá hrundi taugakerfið gjörsamlega.

Ég hellti í mig á barnum en það þýddi ekkert ég var ómótækileg fyrir deyfingu.

Skelfingu lostin og þurr í munni hríslaðist ég upp í vindlahylkið sem svo geystist upp í háloftin.

Hvernig var svipurinn á flugfreyjunum?

Voru þær áhyggjufullar, var þetta skelfingarhrukka á milli augnanna á þessari stóru og vígalegu?

Um hvað voru þær að tala sín á milli?  Var bros þeirra frá eyra til eyra uppgerðin ein og á bak við atvinnuandlitið var kona að tryllast úr ótta vegna yfirvofandi hraps?

Og ég fabúleraði og tryllti sjálfa mig út í hreinustu geðveiki.

Á yfirborðinu var ég kúl.  Svo kúl að ég haggaðist ekki.   Las bók í þykjustunni nú eða fjandans flugblaðið.

Af því að nú er yfirvofandi önnur geðveiki í flugheiminum þá skuluð þið taka vel eftir standandi konu í millilandafluginu þegar það verður orðið hipp, kúl og eðlilegt að selja í stæði.

Hún kemur til með að standa í dragtinnim, á sínum háu hælum að því er virðist algjörlega áhyggjulaus, upp á endann í vélinni.

Lesandi bækling um flugöryggi.

Verið góð við hana.

Hún er nefnilega að tryllast úr hræðslu.

Ajö.


mbl.is Ókeypis flug fyrir standandi farþega?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Geðveik færsla - viss um að margir þekkja sig í henni:)

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 7.7.2009 kl. 12:05

2 identicon

 ég fæ svipað kast í flugtaki.Sérstaklega innanlands en er mun skárri í stóru flugvélunum.Mesta áfallið er samt að lesa bæklinginn með öllu "ódýra"dótinu sem er reynt að pranga inná mann í flugi.Það er ekki svo ódýrt lengur eða samlokurnar sem maður kaupir.Bara vatn kaffi og skeini frítt í flugvél.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 12:22

3 Smámynd: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir

Vildi ekki lenda í törbúlens standandi í Bóíng rellu. Forstjóri Ryanair vísar í lestir en ég hef engar lestir tekið sem eru viðkvæmar fyrir veðurfari. Efast um að þetta verði samþykkt, þó ekki væri nema vegna öryggisatriða.

Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 7.7.2009 kl. 12:42

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Krúttlegur pistill.  Velti því líka fyrir mér þegar ég sá fyrirsögninga (nennti ekki að lesa fréttina) hvernig þessir standandi farþegar ættu að strappa sig fyrir flugtak og lendingu!  Hangandi í loftinu í handjárnum líklega!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 7.7.2009 kl. 13:55

5 Smámynd: Dúa

....giftast konu sem elskaði börn - þú drepur mig

Annars svínvirkar það að einhver flughræddari en maður sjálfur sé nálægt. Þegar ég fór til Tenerife einhvern tíma og var búin að þylja æðruleysisbænina aftur á bak og áfram, bryðja róandi, og grafa neglurnar í armana á sætinu og reyna að missa meðvitund í flugtaki....þá tók ég eftir konu hinum megin á ganginu sem hristist, grét og skalf og var að gera öndunaræfingar með flugfreyjunni. Þá gat ég beint athyglinni að þessari hysterísku konu og hnussað yfir óhemjuganginum í henni. Piff, kommon slaka á dramanu

Dúa, 7.7.2009 kl. 14:55

6 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

He, he, góð...

Sjálfur er ég drulluflughræddur þó ég þurfi oft að fljúga.

Verst þykir mér þegar búið er stappa í mann stálinu, segja manni hvað flug sé öruggur ferðamáti, hvað hlutfalsslega fáir deyja í flugslysum o.sv.fr. og maður er að verða nokkuð sáttur við flugferðina... þá er bent á björgunarvesti undir sætum, súrefnisgrímur í lofti og ítrekað að maður sitji nú með beltin spennt. Einmitt þá gerir maður sér grein fyri því að maður þetta er stórshættulegt.

Emil Örn Kristjánsson, 7.7.2009 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband