Leita í fréttum mbl.is

Hvað ef við borgum ekki?

Það var raunhæft markmið að safnast saman á Austurvelli undir merkjum Búsáhaldabyltingarinnar í haust og vetur og fara fram á afsögn ríkisstjórnar, nýjar kosningar og stjórnlagaþing.

Reyndar er hlutur Harðar Torfasonar í þeirri þróun allri stórlega vanmetin en Borgarahreyfingin hefur eignað sér byltinguna.

Það mega þeir mín vegna, en rétt má vera rétt.

En þetta er útúrdúr.

Er það að sama skapi raunhæft að mæta og berja potta og pönnur vegna Icesave?

Af því nú skrifar fólk sig gegn Icesave í þúsundum talið þá myndi ég vilja fá svar við því hvað það sama fólk vill gera í staðinn.

Reyndar er það ekki þessi ríkisstjórn sem vaknaði upp einn morgun eftir kosningar og ákvað upp úr þurru að leggja þennan óhugnanlega skuldaklafa á þjóðina, það var gert af ríkisstjórn Geirs Haarde og ISG.

Ég skal taka þátt og garga "vanhæf ríkisstjórn" ef einhver getur frætt mig um annan möguleika í stöðunni sem þessari ríkisstjórn hefur yfirsést eða gengur fram hjá vísvitandi.

Ég er svo sannarlega ósátt alla leið yfir þessu Icesave máli og finnst það blóðugt að íslenskur almenningur eigi að greiða sukkið fyrir stórþjófana.

Spurningin er einfaldlega: Hvað annað er í boði?

Höfum við aðstöðu til að neita að borga, án þess að einangrast og verða hjálparlaus hér úti í Ballarhafi?

Svari því hver sem vill og veit.


mbl.is Margir skrá sig gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Borgarahreyfingin hefur líkt og mann grunaði, fremur fáar og einsleitar hugmyndir þegar á hólminn er komið, en ætla sér greinilega að reyna að komast á stall með upphrópunum og froðusnakki. Fáránlegt ef fólk heldur að bh eigi upphafið af búsáhaldabyltingunni,

það var eins og þú segir Hörður Torfa og reyndar stór hópur úr VG.

Nei vissulega vildi maður ekki þurfa að punga þessu út fyrir afglöp SF og D. en það virðist ekki margt annað í stöðunni.

hilmar jónsson, 8.6.2009 kl. 11:33

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Komdu í Nýsköpunarstjórn og við getum þa´sparkað þessu Samfó-liði út í myrkur ESB biðstofunar að eilífu.

Mibbó

til í að rokka smá með Kommum og redda málunum.

Bjarni Kjartansson, 8.6.2009 kl. 11:40

3 Smámynd: Kolgrima

Ég veit ekki hvort eða hvað við komumst hjá að borga en ég treysti ekki íslenskum embættismönnum til að komast að bestu, hugsanlegri niðurstöðu. Við erum með útlendan seðlabankastjóra, for crying out loud. Ég ætla rétt að vona að það sé vegna þess að ekki er til þess hæfur einstaklingur í landinu en ekki vegna annarra og annarlegri ástæðna.

Hvar eru stóru, alþjóðlegu lögfræðistofurnar með reynslu og þekkingu? Mér finnst þetta leikur kattarins að músinni.

Íslenskir embættismenn, hversu klárir og velmeinandi sem þeir annars eru og hversu miklir útsmognir refir þeir kunna hugsanlega að vera, þá eiga þeir ekki sjens í lögfræðingaherveldi Breta og AGS. Hver svo sem niðurstaðan verður endanlega, vil ég að hún sé fengin með fulltingi færustu manna á alþjóða vettvangi. Við getum aldrei staðið undir þessu og þar að auki finnst mér það verulega ógnvekjandi að Bretar skuli ekki eiga neitt undir því að gott verð fáist fyrir eignir Landsbankans.

Var ekki kallað á fagmennsku á Austurvelli? Hvað breyttist?

Kolgrima, 8.6.2009 kl. 11:54

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Er ekki rétt að skoða samninginn betur áður en hann er samþykktur. Mér leist ekki á blikuna - og var ég nógu svekkt fyrir - þegar ég hlustaði á Ólaf Elíasson á Bylgjunni í morgun.

Hér er þátturinn - Ólafur Elíasson kemur inn í símaviðtal síðast í þættinum.

Hlustið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.6.2009 kl. 11:56

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það annað sem er í boði er einfaldlega að virða stjórnarskrá lýðveldisins lýðveldisins í stað þess að Alþingi ætli sér að brjóta hana undir kúgun erlendra yfirvalda. Eða hvernig heldurðu annars að eigi að fjármagna ríkisábyrgð ef á hana reynir, nema með sköttunum okkar og barnanna okkar, hugsanlega marga áratugi fram í tímann? Framkvæmdavaldinu er beinlínis bannað skv. stjórnarskrá að gefa út slíkan óútfylltan tékka!

40. gr. Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.

41. gr. Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.

77. gr. Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

Þegar Landsbankinn fór á hausinn var enginn heimild fyrir því í lögum að láta mig og þig og börnin mín borga út innstæðrunar! Þetta er alls ekkert flókið, en samt á að kúga okkur til þess. Það er aðför að efnahagslegu fullveldi lands og þjóðar.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2009 kl. 11:59

6 Smámynd: Kolgrima

Þú ert meiri snillingurinn, Lára Hanna - langaði einmitt til að benda fólki á að hlusta á þennan þátt en kann ekki að setja hann svona inn eins og þú!

Kolgrima, 8.6.2009 kl. 12:01

7 Smámynd: Einar Þór Strand

Jenný auðvitað villtu ekki gera neitt núna það eru þínir aumingar sem eru við völd og þá má ekki gera neitt. 

Þú spyrð hvað við eigum að gera og svarið er auðvelt við eigum að fara að lögum ESB um þetta og þá eru þetta ekki nema 10 - 20 milljarðar og þá er ábyrðarsjóðurinn farinn á hausinn og þar með er málið dautt en að láta þjóðina taka skellinn það er landráð og þó að Geit og Ingibjörg hafi verið búin að segja eitthvað þá er ekki þar með sagt að það þurfi að skrifa undir.  En ég lít sem þannig á að Steingrímur og Jóhanna séu ásamt þeim einstaklingum sem í ríkisstjórninni sitja ein ábyrg gangnvart Hollendingum og Bretum eftir að þetta hefur verið undirrtitað og geti þá borgað þetta úr eigin vasa alla vega hafa þú ekki umboð þjóðarinnar.

Alþingismenn Pereat!

Einar Þór Strand, 8.6.2009 kl. 12:05

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Einar Þór: Kurteisi kostar lítið.  Ég á enga "aumingja" eða hetjur neinsstaðar.  Ekki inni á Alþingi og ekki hérna heima hjá mér.

Ég mynda mér ekki skoðun eftir flokkslínum heldur.

Það getur komið sumum á óvart, sem hugsa ekki heila hugsun án þess að kíkja í stefnuskrá.

LH: Hlusta á þetta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.6.2009 kl. 12:27

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hlustaði á Ólaf og það er rétt, þetta er skelfilegt ef ASG er að beita sér í þágu Breta við að kúga okkur.

En Ólafur segir að við eigum að neita að borga og þar erum við ekki sammála, nema að einhver glóra sé í því og eitthvað annað til ráða.

Við erum í klípu, úti í horni og það er skelfilegt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.6.2009 kl. 12:38

10 Smámynd: Kolgrima

Ég treysti engum, hvorki þeim sem segja að við eigum að láta þetta yfir okkur ganga né þeim sem segja blákalt að við eigum ekki að borga.

Ég treysti alls ekki fólki sem allt þykist vita og hefur ætíð svör á reiðum höndum. Þess vegna vildi ég svo innilega að boð bandarísku lögfræðistofunnar hefði verið skoðað og hlustað á hvað þeir teldu mögulegt í stöðunni.

Mér finnst lítið jafnræði með batteríi Breta og AGS annars vegar og samninganefnd Íslendinga hins vegar. Hefði fundist öryggi í því að hafa sterkar, erlendar lögfræðistofur með reynslu og þekkingu á alþjóðasamningum með í liði. Menn sem jafnvel hafa reynslu af því að eiga við góðgerðarstofnunina AGS!

Kolgrima, 8.6.2009 kl. 12:52

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er alveg kolrugluð.  Guðjón Arnar sagði mér að í upphafi hafi hann og Steingrímur verið sammála um að best væri að höndla þetta þannig að fyrst bretar höfðu beitt okkur hryðjuverkalögum og gert okkur ófært að laga málin, hefðum við átt að segja þeim að þeir skyldu yfirtaka eignir Landsbankans í Bretlandi og þar með væri íslenska þjóðin kvitt og klár.  Láta þá sjálfa um að koma þessu í verð.  Þannig hefðum við átt að höndla þetta.  Nú er það of seint, og hvað er best í stöðunni veit ég hreinlega ekki.  Og er hætt að treysta neinum, því miður.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.6.2009 kl. 12:55

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta hefur komið fram víðar, þ.e. að AGS standi á bak við þrýstinginn eða hjálpi Bretum við að þrýsta á okkur.

Mér varð umsvifalaust hugsað til myndarinnar sem sýnd var á RÚV um daginn - The Big Sellout - og fékk ónotahroll.

En Ólafur sagði líka að margar hliðar á samningnum væru vanhugsaðar og afleiðingar hans gætu orðið mjög margvíslegar. Og að þetta hafi hvergi komið fram í fjölmiðlum. T.d. lækkun á lánshæfismati ríkisins.

Við erum svo sannarlega í klípu, almenningur í þessu landi.

Svo kemur Sigurjón Árnason í hádegisfréttir RÚV í dag og segir að Icesave verði ekki fjárhagslegur baggi á þjóðinni. Hlustið á Sigurjón hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.6.2009 kl. 13:19

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir linkinn LH.  Sigurjón má halda kjafti.  Fyrirgefið orðbragðið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.6.2009 kl. 13:44

14 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Óttin og reiðin heldur áfram að reka fólk inn í svartnættið.

Lh, það er misskilningur hjá listamanninum að þessi samningur hafi einvher áhrif á lánshæfismat, að minnsta kosti ekki fyrr en að uppgjöri á að koma 2016. Ég held svo að það sé mikill misskilningur sem fram kemur hér ofar hjá GÁ, þessi lánsskuldbinding eða ábyrgð varðar ekki meir við stjórnarskrána frekar en til dæmis ábyrgð ríkisins og reykjavíkurborgar á lánum vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunnar. En sannarlega er þetta sem sú gjörð umdeilanleg, ekki skal dregin fjöður yfir það.Og LH, Sigurjón var einungis að enduróma það sem Björgólfur Guðmundsson fullyrti í Kastljósviðtalinu langa við Sigmar fyrir nokkrummánuðum, að eignirnar væru svo miklar að þær dekkuðu innlánin og rumlega það!

Spurningunni þinni Jenný er svo ósvarað og kannski ekki skrýtið, því samingsgjörðin virðist meir og meir hafa verið skásta lausnin. Hins vegar er algjörlega ótímabært og ekki rétt raunar að tönnlast sífelt á að við séum bundin á skuldaklafa og munum þurfa að borga. Það er einfaldlega röng túlkun á samningnum og alls óvíst að nokkur tapi neinu nema þá breksir sparifjáreigendur, sem þegar hefur margur tapað t.d. lífeyrissparnaði út af þessu, rétt eins og gerðist hjá mörgum hér við hrun bankanna!

Um lagatæknileg atriði eða samsæriskenningar Ólafs og svosem fleiri er kastað hafa þeim fram á undan honum, segi ég hins vegar ekki orð.

Magnús Geir Guðmundsson, 8.6.2009 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 3
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 2987153

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband