Leita í fréttum mbl.is

Við með steinhjörtun

 steinhjarta

Ég er örugglega með steinhjarta.

Ég er orðin slægvitur og útundir mig eftir að ég fór að blogga.

Ég tek kópíur af öllum fjáranum sem ég les hér.  Hef alveg tilfinninguna; best að eiga þessa færslu hér, þessa athugasemd þar, ef ég þarf að súa einhverjum nú eða sanna mál mitt.

En þetta var nú útidúr í boði hússins og að gefnu tilefni.

En aftur að þessu með steinhjartað.

Ég ætla að mótmæla á morgun.

Jafnvel þó grátkórinn sem hamast á persónu Harðar Torfasonar muni stimpla mig með innræti upp á kaldrifjaðan fjöldamorðingja eða því sem næst.

"Það er jú búið að ákveða kosningar, hvað viltu meira kjéddlingarálft?"

Miðað við að landið okkar er á hausnum, ca. tvöþúsund milljarðar í skuldir sem þjóðin þarf að borga og þeir sem kikna undan því færa pakkann áfram á börn sín og barnabörn, þá þykir mér lítið leggjast fyrir baráttuandann að eyða honum í persónulegar árásir á Hörð Torfason vegna þess að hann var ekki alveg nógu korrekt í tali.

Miðað við að 12.000 manns ganga um atvinnulausir og þeim fjölgar "as we speak".

Miðað við að fólk er að missa ofan af sér heimilin.

Miðað við að fólk á varla fyrir mat handa börnunum og það gott fólk, er rétt að byrja.

Miðað við að okkur eru allar bjargir bannaðar og enginn í öllum heiminum treystir okkur fyrir horn þá finnst mér merkilegt að öll þessi orka geti farið í að ræða hver sagði hvað um hvern.

Ég finn til með persónunni Geir Haarde og fjölskyldu hans og það geri ég inn að innstu hjartans rótum.

Sama á við um ISG og hennar fólk.

Það held ég að eigi við um alla, ekki vafi í mínum huga hvað það varðar.

En er ég til í að falla frá þeim kröfum almennings sem hefur verið kallað á á mótmælafundum og borgarafundum frá því strax eftir hrun?

Að ríkisstjórnin fari frá?

Að stjórn Seðlabanka fari frá?

Að topparnir í Fjármálaeftirlitinu fari frá?

Ó nei, ég er ekki til í það.

Ekki fyrir allt heimsins glingur.

Það má vera að ég og fleiri ætlum að hanga á þessum kröfum vegna tilfinningaleysis, og þó..

Það hefur nákvæmlega ekkert með það að gera.

Það hefur með það að gera að við erum í djúpum skít Íslendingar

Dýpri en okkur getur grunað er ég hrædd um.

Veikindi Geirs hafa ekkert með einbeittan mótmælavilja okkar að gera.

Hvað er að?

Þetta er orðinn einn alsherjar farsi.


mbl.is Sextándi mótmælafundurinn á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Það er af og frá að falla frá þessum kröfum! Þetta er það sem hefði átt að gerast STRAX!!!

Veikindi Geirs hafa nákvæmlega ekkert með þetta að gera - ekki veikindi Ingibjargar heldur, nema hvað mér finnst þau eigi að draga sig í hlé og huga að heilsunni.

Hún er dýrmæt og maður á bara eina.

Ég ætla að mæta á morgun! Ef ég væri tvöföld þá tæki ég hina með mér :)

Sjáumst!

Hrönn Sigurðardóttir, 23.1.2009 kl. 22:00

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sorrý Jenný mín, venjulega treð ég ekki mínum hugsunum inn á aðra, en í kvöld er ég svo reið.  Þess vegna tek ég mér bessaleyfi til að setja gengil inn á mína síðu.  Ég deili þessu 100% með þér. http://asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.1.2009 kl. 22:01

3 Smámynd: Sævar Helgason

Takk fyrir þetta Jenný Anna

Auðvitað mætum við öll á Austurvöll á morgun kl. 15  þó nú væri.

Ærið er tilefnið.  Liðið er allt saman ennþá í Seðlabankanum og fjármálaeftirliti. Og ríkisstjórnin situr ennþá- þó hún hugleiði að hverfa með vorinu.. en við viljum hana frá - strax...

Sævar Helgason, 23.1.2009 kl. 22:08

4 Smámynd: Einar Indriðason

Ég mæti.  Með Hagkaupspoka um handlegginn, ef ég finn ekkert annað appelsínugult.

Einar Indriðason, 23.1.2009 kl. 22:17

5 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég dröslast með mitt appelsínugula grjóthjarta á staðinn  :)

Heiða B. Heiðars, 23.1.2009 kl. 22:27

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Jenný.

Mikið sammála þér.  Skrítin lógík að stjórnin verði hæf vegna þess að Geir víki tímabundið.  Ég vissi ekki til þess að óstjórnin væri honum persónulega að kenna.  Á meðan ekkert er gert til að takast á við vanda heimila og fyrirtækja, hlýtur fólk að mótmæla og krefjast raunhæfra aðgerða.  Rúmum 90 dögum eftir hrunið, skipaði Jóhanna Sigurðardóttir nefnd, sem átti að koma með tillögur um mótvægisaðgerðir vegna atvinnuleysisins.  Segir þetta ekki allt sem segja þarf um viðbrögð þessarar stjórnar við hruninu.  Þau koma seint, illa eða aldrei.

En mikill verður Vöggur feginn.  Mætti halda að Valhöll hafi SMS-að á flokksmenn að rægja Hörð og mótmælendur.  Nýta sér veikindi Geirs til að höggva andstæðinga sína.  Fyrir utan það að kunna ekki að skammast sín yfir sekt sinni og ábyrgð, er einfeldni þess það mikil að það heldur að fólk sé að mótmæla vegna þess að Hörður segi svo, þá virðist það ekki skynja hversu illa frjálshyggjan fór með þjóðfélagið.  Tugþúsundir eru að verða gjaldþrota eða verða lífstíðar skuldaþrælar og tugþúsundir eru að lækka í launum eða verða atvinnulausir.  Á meðan axlar enginn ábyrgð og ekkert er gert til að stoppa hrunadansinn.  Og fólk á bara að halda kjafti!!!!!!!

Og svo er Hörður Torfason orðinn ljóti kallinn.                                       Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2009 kl. 22:35

7 identicon

Ég mæti á morgun, og takk fyrir þetta blogg... Get ekki verið meira sammála þér Jenný Anna !!

Sigrún Ásdísardóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 22:36

8 Smámynd: María Kristjánsdóttir

já, svo sannarlega mætum við kæra kæra Jenný.

María Kristjánsdóttir, 23.1.2009 kl. 22:52

9 identicon

Mæltu heilust manna,

Jenný Anna.

Hjörvar (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 22:57

10 identicon

Það er nú akkúrat það. Mæti á morgun.

Solveig (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 23:02

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Auðvitað mætir fólk á mótmælin - ég vona að fólk sé ekki að persónugera mannfjöldann í Herði Torfasyni. Hann er ekki mótmælin - og ekki samnefnari fyrir alla sem þarna mæta, þó hann hafi verið duglegur og allt það.

En hann komst afar illa að orði í kvöld, og ég skil að fólki skuli hafa misboðið. Skil það bara mæta vel.

Mér sýnist tímabært að fara að dreifa aðeins athyglinni og finna fleiri málsvara fyrir þennan fjölbreytta hóp sem kemur saman á Austurvelli. Til dæmis sýnist mér Hallgrímur Helgason koma vel fyrir. Vafalaust gæti það átt við um marga fleiri. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.1.2009 kl. 23:15

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Eitt er að vera misboðið Ólína, annað að ata hann auri með orðanotkun sem mætti ætla að væri dregin upp úr öskutunnunni.

En það er rétt grasrótin á að hafa margar raddir.  Þannig er það best.

Hörður hefur staðið sig vel.  

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.1.2009 kl. 23:22

13 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Þið sem standi þarna í frið og spekt eigið allan minn stuðning.  En Hörður hljóp á sig það er engin spurning. Settu á þig hlýjan trefil á morgun mér er sagt að það komi til með að blása rækilega úr öllum áttum.

Ía Jóhannsdóttir, 23.1.2009 kl. 23:31

14 Smámynd: Steingrímur Helgason

Af því að ég veit að þú nennir aldrei að leza nema móbló fréttatengdar & ég er lángaftaztur í bloggvinaröðinni vil ég minna á að ég er fallegur feidur karl í sveid, & nenni ekki alltaf að fréttablogga að ég var merkilegt nokk að ulla upp í sumt sem nokk.

Já & ég veit líka að sumt skemmtir þér, slæma kona !

Úðandi samúð á húsbandið !

Steingrímur Helgason, 23.1.2009 kl. 23:54

15 identicon

Ég er bara hjartanlega sammála, þetta er orðið æði farsakennt, og ég ætla ekki að hafa eftir allskyns ógeðfellt orðbragð ýmsra Sjálfstæðismanna á moggablogginu. Fyndið hvað þeir hneyklast yfir dónaskap Harðar, og gagnrýna hann með einn meiri skít og dónaskap. Sýnir að þeir hafa lélegan málstað að verja..

Magnús Jón Aðalsteinsson (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 00:00

16 Smámynd: Kristján Logason

Oheppilega orðað hjá Herði en PR stönt hjá Geir

Hvet ykkur til að skoða hugleiðingar mínar út frá markaðsfræði stjórnmála 

Kristján Logason, 24.1.2009 kl. 00:11

17 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Bergljót Hreinsdóttir, 24.1.2009 kl. 00:11

18 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Sæl Jenný.

Það sem er að eru þessi orð Harðar í dag:

 Orðrétt:

„Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna?“ sagði Hörður Torfason þegar hann var inntur eftir viðbrögðum Radda fólksins við tíðindum af veikindum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og tillögum um kosningar 9. maí.

Hörður undrast að Geir hafi dregið veikindin fram í dagsljósið á þessum tímapunkti. 

Jenný þú getur ekki tekið einhverja hárrétta ákvörðun um hvenar er best að trúa þjóðinni fyrir þessum veikindum, sérstaklega þegar stór hópur hefur farið miður fögrum orðum um hann.

Ég held að þú hafir ekki steinhjarta og skiljir þetta mæta vel

Getur verið að hann hafi bara alls ekki viljað sega frá þessu áfalli sínu?

Það var alls ekkert verið að finna einhverja lausn á hvernig Geir getur farið frá og þessi hugmynd kviknað svona allt í einu.

Hörður verður að gera sér grein fyrir því að hann fór svo langt yfir strikið að fólk mun aldrei líta hann sömu augum aftur, nema hann hreinlega biðjist afsökunar á þessum orðum sínum.

Líklegast verður þessi stjórn við stjórnvölin fram að kostningum í það minnsta áframhaldandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylgingin. Það er að mínu viti lang besti kosturinn sem við höfum.

S. Lúther Gestsson, 24.1.2009 kl. 00:38

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Lúther: Mér finnst of mikið gert úr þessu.  Hörður hefði getað sleppt þessu það er rétt en ég efast um að þessi læti séu réttlætanleg vegna þessa.

Og þú ERT dúlla Lúther og ég meina það.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.1.2009 kl. 00:49

20 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Lifi eldhúsáhaldabyltingin

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.1.2009 kl. 02:19

21 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Tek undir hvert einasta orð hjá þér Jenný.  Mótmælin eru rétt að byrja að virka.....og við klárum verkið.

Sigrún Jónsdóttir, 24.1.2009 kl. 02:33

22 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Já hvernig er það Jóna? Eigið þið kjellurnar ennþá nóg af pottum og pönnum?

Rosalega hafiði safnað að ykkur í gegnum árin.

Ég sæji ekki beint mína spússu samþykkja það orðalaust ef ég æddi inn í skáp og segðist ætla að skjótast með pönnu og potta niðrí miðb, þetta er heilagt drasl á þessum bæ.

S. Lúther Gestsson, 24.1.2009 kl. 02:34

23 Smámynd: Hörður B Hjartarson

Betra er steinhjarta en ekkert , ég hef ekkert , en er nírnalega sammála þér Jenný . Hlakka til að deyja , því þá verð ég . Hef kíkt tvisvar , verst ég held þeir vilji mig ekki á hvorugum staðnum . Kunna ekki gott að meta .

Hörður B Hjartarson, 24.1.2009 kl. 03:17

24 Smámynd:

Ég er sammála þér að ekki skuli rugla saman persónulegum aðstæðum stjórnmálamanna og því sem mótmæla þarf á Íslandi. Hef ekki kynnt mér það sem verið er að gagnrýna Hörð Torfason fyrir og get því ekki tjáð mig um orð hans.

, 24.1.2009 kl. 09:48

25 Smámynd: María Guðmundsdóttir

Mikid sammála eins og svo oft ádur Jenný.

Óheppilega ordad hjá Herdi, en hefur ekkert med mótmælin sjálf ad gera.

Samúd til Geirs og fjølsk.sem og Ingibjargar, thau ættu ad einbeita sér ad thvi ad ná heilsu og láta adra um pólitíkina núna.

Baráttukvedjur i mótmælin i dag,verd med i huganum

María Guðmundsdóttir, 24.1.2009 kl. 09:51

26 identicon

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort við getum nú sem þjóð hafið raunverulega uppbyggingu við hið „Nýja Ísland“. Ég held að við séum ekki tilbúin.

Við erum sár vegna þess hvernig komið er fyrir okkur sem þjóð, rúin trausti og virðingu sem tók áratugi að byggja upp.

Við erum reið vegna þess að okkur finnst við hafa verið svikin og leidd burt frá þeim grunngildum sem við teljum að eigi að ríkja í íslensku samfélagi, gildi náungakærleika, samstöðu og virðingar fyrir tilverurétti allra þjóðfélagsþegna.

Við erum örvæntingarfull vegna þess að við sjáum ekki hvernig við getum bjargað. Við vitum ekki hve stór vandinn er, eða hvernig við eigum að vinna okkur út úr honum. Okkur finnst við vera ein. Við reynum að leita aðstoðar en hún er alltaf skilyrt.

Við verðum að byrja að leita inn á við hvort okkar um sig. Spyrjum okkur lykilspurninga,

hver er ég,

hvað vil ég,

hvað er það sem skiptir mestu máli í lífinu,

hvað er það sem gerir mig hamingjusaman,

hvað er það sem fyllir mig lífsgleði, o.s.frv.

Við verðum að byrja á okkur sjálfum. Við verðum að skynja að gjörðir okkar eru aðeins birtingarmynd hugsunar, það er hún sem skiptir máli. Samfélagið er aðeins mynd af hugsunum okkar allra eins og listaverk er aðeins efnisleg umbreyting hugsunar listamannsins. Upplifun okkar á raunveruleikanum er því aðeins afleiðing af ríkjandi hugsun samfélags þess tíma.

Ef við ættlum okkar að byggja upp strax hið „Nýja Ísland“ á þeirri hugarorku sem nú leikur samfélagið verður upplag þess aðeins afleiðing af þeirri orku sem ríkir nú í samfélaginu. Þar með fáum við aðeins samfélag tortryggni, þröngsýni, öfundar; við fáum samfélag sem er byggt á neikvæðri orku. Hið „Nýja Ísland“ verður að byggjast á góðri orku sem er táknmynd þess sem við sem einstaklingar viljum að samfélagið standi fyrir.

Áður en við hefjum þessa vegferð verðum hins vegar fyrst að hjálpa þeim sem eru hvað verst settir, hvað varðar skuldir og afkomu; það verða allir að hafa björgunarhring. Þurfum að koma hjólunum aftur af stað. Þar verðum við að sýna samstöðu, óeigingjarna samstöðu.

Björn (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 10:24

27 identicon

[quote]Oheppilega orðað hjá Herði en PR stönt hjá Geir[/quote]

Hvernig getur einhver sagt að lífshættulegt krabbamein sé PR stönt?  Ég virði rétt fólks til mótmæla en sóðaleg ummæli og ofbeldi hugnast mér ekki. Hörður fór langt yfir strikið þarna og eins þegar hann hvatti til óeirðanna fyrir utan lögreglustöðina á sínum tíma.

Tryggvi (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 10:45

28 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Púkalegt að setja í sömu tilkynninguna veikindi og boðun um kosningar og að stjórnin ætli að sitja og leyfa engar spurningar sem menn gengust að vegna veikindatilkynningarinnar. Auðvitað er þetta pr gert með stæl og Hörður var fljótur að sjá í gegnum það. Það er alltaf sorglegt þegar fólk veikist og okkur ber að sýna þeim tillitssemi en það undanslkilur ekki heldur þá sem veikjast að koma vel fram. Ingibjörg og Geir eiga ekkert með að vera í áhrifamestu störfunum og þeim mikilvægustu á þessum tímum meðan þau eru ekki heil heilsu. Þess má og á þjóðin að krefjast.

Megi þeim svo báðum batna vel.  Og megi svo þessari þjóð batna undir stjórn heilsuhraustra og heiðarlegra ´leiðtoga.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.1.2009 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986829

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.