Leita í fréttum mbl.is

Það meiðir mig

Það meiðir mig margt þessa dagana.

Það meiðir mig að ég ásamt öðru venjulegu fólki skulum þurfa að lifa við óvissu upp á hvern einasta dag.

Það meiðir mig að sitja í djúpum skít vegna einhvers sem ég hef ekkert haft með að gera.

Það meiðir mig að framtíð barnabarnanna minna lítur út fyrir að verða strembin vegna þess að þau hafa blásaklaus verið sett í vonlausa stöðu vegna græðgi sumra og doða og ábyrgðarleysis annarra.

Þeirra sem áttu að vernda hagsmuni þessarar þjóðar.  Það er blettur sem seint hverfur.

Það meiðir mig að treysta ekki kjafti í þessari ríkisstjórn.

Það meiðir mig að það skuli endalaust bætt í hörmungarnar. 

Eitt er að vera skuldugur upp fyrir haus annað er að vera neyddur til að standa með sama höfuð undir hendinni og dæmast til undirlægju án þess að geta nokkuð að gert.

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill ekki breska hervernd.

Ég er hætt að botna í nokkrum sköpuðum hlut lengur.  ISG er töff stjórnmálamaður og ég hef lengi litið upp til hennar því hún hefur gert kvennasöguna áhrifaríkari en ella.

Þess vegna skil ég ekki þegar hún lætur það í hendur Breta hvort þeir komi hingað með helvítis hertólin sín í jólamánuðinum til að "vernda" okkur.  Þeir eiga að ákveða það.

Bretar hafa nú þegar í hendi sér hvort við fáum lán frá alþjóðasamfélaginu og þeir ætla að sjá til þess að svo verði ekki nema að uppfylltum afarkostum sem munu koma Íslandi endanlega á hausinn.

Nú hafa þeir í hendi sér hvort þeir komi og berji endanlega niður sjálfsmynd þessarar þjóðar.

Svo getur Össur Skarphéðinsson býsnast yfir því að hann kyssi ekki á vönd kvalaranna.

Hann gerir það nefnilega samt með því að sitja sem fastast og láta Bretana koma eða ekki koma, allt eftir því hvort þeim þóknast.

Þvílík andskotans þjónkun.

Ég skammast mín niður í hrúgu.

Og það meiðir mig.


mbl.is Kyssir ekki á vönd kvalaranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Berja niður sjálfsmynd þjóðarinnar - það eru réttu orðin um þetta. Við erum komin 100 ár aftur í tímann í þessu tilliti. Eða hvað - hefur sjálfsmyndin kannski aldrei orðið verri? 1908 vorum við þó ekki vænd um þjófnað af nágrannaþjóðunum - réttilega, því miður. Það er að segja þeir sem hafa látið mest á sér bera og þjóðin er dæmd af.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 14:26

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Að fá breskan her hingað fyllir mælinn.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 14:28

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Það er sama hvert litið er. Það er hver höndin uppi á móti annarri. Það verður að fara að gera eitthvað í því að koma þessari ríkisstjórn og seðlabankabandíttunum burt.

Helga Magnúsdóttir, 13.11.2008 kl. 14:33

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Maður hringdi inn á Bylgjuna í gær og sagði að sér liði eins og lambi á leið til slátrunar.

Við verðum að hætta að tala um að gera eitthvað...MÆTUM a.m.k 50.000 á Austurvöll á laugardaginn og sýnum með fjöldasamstöðu að okkur er fúlasta alvara með að vilja SPILLINGARLIÐIÐ BURT!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 13.11.2008 kl. 15:13

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Við báðum þó ekki Bretana að koma hingað 10. maí, 1940 . Þá voru terroristalögin ekki einu sinn til - við litum á þá sem vinaþjóð og vorum fegin að fá þá en ekki Þjóðverja, eftir því sem manni skilst.

Í dag setja Bretar á okkur terroristastimpil og við BIÐJUM þá að koma hingað og vernda okkur - eru ráðamenn ekki með réttu ráði - nei, augljóslega eru þeir með röngu ráði og ættu að fara frá.

Athyglisvert viðtal við Önnu Agnarsdóttur, prófessor í sagnfræði við H.Í, í fréttatíma rúv 12. nóvember, um samskipti Breta og Íslendinga um aldir.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 15:25

6 identicon

Ég vona bara að virkilega margir verði í mótmælunum á laugardaginn, ég kemst ekki en verð þar í huganum!! Mér líður líka svona svipað og þú skrifar!! Hrikalegt.

alva (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 15:36

7 Smámynd: Þröstur Unnar

Fá sér magnyl kona góð.

Þröstur Unnar, 13.11.2008 kl. 15:39

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hjördís, ég sé að þú ert með hlutina á tæru. 

Vilt þú kannski taka að þér formennsku í framboði bloggara?

Þú átt alveg greinilega heima í ræðustól á Alþingi, það fer varla fram hjá neinum sem les það sem þú skrifar.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 15:52

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Fúlt þegar fólk trúir öllu úr fréttunum....efast svo innilega að einhver sem grýtti eggjum í alþingi sé að lesa hér enda snérust mótmælin um allt aðra hluti.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 13.11.2008 kl. 15:59

10 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

Jenný ég er þér svo 100 % sammála

Anna Margrét Bragadóttir, 13.11.2008 kl. 16:22

11 Smámynd: Huld S. Ringsted

Þetta er nákvæmlega eins og mér líður í dag. Undirlægjuhátturinn hjá ráðamönnum gagnvart Bretum er orðinn svo skelfilegur að ég skammast mín orðið meira fyrir það heldur en allt það sem á undan er gengið

Huld S. Ringsted, 13.11.2008 kl. 17:30

12 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Finnst ég vera stödd í furðuveröld Kafka þessa dagana. 

Ía Jóhannsdóttir, 13.11.2008 kl. 17:49

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Vont að hafa enga stjórn á neinu!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.11.2008 kl. 18:03

14 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Samkvæmt einhverri könnun sem ég heyrði frá í dag eru 40% Íslendinga tilbúnir að flytja af landi brott núna!

Ekki beint geðslegt - en ég skil það en það er víst ekki nóg að skilja!

Við erum þjóð á þrotum og í raun heimilislaus, eigum ekkert, og verðum ekkert næstu 10 - 20 árin vegna orðspors.

Því miður er ekki hægt að vera bjartsýnn á þjóðskipulagið okkar, það eina sem yljar er að við lifum og gætum fundið út úr þessum ósóma með meiri virkni á álitið bæði hér og erlendis með því að skipta öllu út. Stjórnum frá A - Ö. Kjósum fólk til að stýra landinu sem er að berjast í bökkum með fjölskyldur sínar, þar liggja ræturnar að góðum lausnum.

Burt með spillingu!

Edda Agnarsdóttir, 13.11.2008 kl. 18:44

15 identicon

Ekki ein um að skammast þín.Íhaldið er búið að missa 2 félaga í viðbót og fleiri eru á útleið.Eitt af því sem ég get gert til að mótmæla ástandinu og því hvernig tekið er á þessum málum

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 19:26

16 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Evrópusambandið fer auðvitað ekki að rugga bátnum með því að leyfa að löggjöf hennar sé dregin í efa fyrir dómstólum. Þetta hefði maður átt að geta sagt sér frá upphafi - en Geir og Solla þekkja sjálfsagt ennþá minna til þar innan dyra en ég.

Horfið á þetta.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 19:34

17 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég átti auðvitað við löggjöf þess

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 19:35

18 Smámynd: Laufey B Waage

Mér er ekki nokkur leið að skilja þetta. Það er þverpólitísk samstaða um að fá þá ekki (bretana með heræfingarnar)!!!

Ég segi fyrir mig; þó svo að við þyrftum ekki að borga allar þessar milljónir fyrir að fá þá, - og þó svo að bretar væru ekki yfirlýstir "óvinir" okkar um þessar mundir, - þá væri ég samt á móti svona heræfingum. Og er þá mikið sagt!!

Laufey B Waage, 13.11.2008 kl. 20:30

19 Smámynd:

Jenný - þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. Hvaða undirlægjuháttur er þetta í ISG og GHH? Eru forsprakkar Bretlands ekki búnir að trampa nóg á okkur? Við þurfum ekkert að láta líta eftir loftrými okkar. Burt með NATO og Bretakvikindin.

, 13.11.2008 kl. 22:00

20 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Dagný, veistu ekki að bráðum fáum við evrópskt vegabréf? Þá skiptir smotterí eins og sjálfstæði og þjóðarstolt ekki legnur máli.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 22:21

21 identicon


Mætum öll á Austurvöll á laugardaginn og mótmælum verklagi þessa fólks.

Valsól (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.