Leita í fréttum mbl.is

Nú er mér nóg boðið

Samkvæmt lögum ber öllum sem verða varir við að illa sé farið með börn, þau vanrækt eða beitt ofbeldi af einhverju tagi, að láta barnaverndaryfirvöld vita.  Það er hin borgaralega skylda og nær til allra, nágranna, ættingja og svo auðvitað yfirvalda af öllu tagi.

Flott að hafa góð lög en andskotans mínus að enginn eða fáir láta sér það til hugar koma að fara eftir þeim.

Mín reynsla (sem er þó nokkur í þessum málum) er að virðing fólks fyrir foreldraréttinum er meiri en virðing fyrir mannréttindum barnanna.  Fólk er feimið við að skipta sér af.

Í þessu ljóta máli sem hér er að koma í ljós hlýtur ábyrgðaleysi umhverfisins að hrópa í himininn.

Þessi börn hljóta að hafa verið í skóla.

Það eru áverkar eftir eggvopn á einu barnanna.

Ofbeldið er ekki ný tilkomið, af hverju hefur enginn komið þessum blessuðu börnum til bjargar?

Eða voru það barnaverndaryfirvöld sem brugðust þar til núna?

Ég vil ekki hafa það að ofbeldi á börnum þrífist á Íslandi.

Ég vil ekki hafa það að foreldri geti gert líf barnanna sinna að helvíti árum saman í friði og ró.

Á dögunum var dómur felldur fyrir norðan þar sem dómarinn sá ekki að rassskellingar og annað ofbeldi væri saknæmt eða hættulegt.

Er í lagi að beita pínulitlu ofbeldi?  Hvenær verður það of mikið?

Á meðan að líkamlegt ofbeldi er leyfileg leið í mannlegum samskiptum, skyldi þá einhvern undra að hlutirnir gangi svona langt.

Þessi frétt hefur sirkabát gert mig óða úr reiði.

Að þetta skuli geta þrifist.

Fjandinn sjálfur bara.


mbl.is Grunur um hrottalegt líkamlegt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

þetta er bara alveg hræðilega sorglegt.

Linda litla, 19.9.2008 kl. 09:04

2 Smámynd: Gulli litli

Svei og svei..

Gulli litli, 19.9.2008 kl. 09:13

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Mér varð hreinlega illt þegar ég frétti þetta í gær. Aumingja blesuð börnin!

Ía Jóhannsdóttir, 19.9.2008 kl. 09:15

4 Smámynd: Jónína Dúadóttir

... og hann er ekki í haldi lögreglu !!!!!! Ég hef skipt mér af og fengið skammir frá foreldrum og aðstandendum... Einu sinni var mér hótað svo suddalega að ég þurfti lögregluvernd í nokkra daga... Mér er alveg sama, ég verð einfaldlega brjáluð þegar fullorðið fólk níðist á börnum...

Jónína Dúadóttir, 19.9.2008 kl. 09:27

5 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég segi eins og ein hér fyrir ofan, mér varð alveg illt þegar ég sá þessa frétt og að hugsa sér að einhver sé svo skemmdur að hann geti skemmt sér við að nota barnið sitt sem hnífaskotskífu er mér alveg hulið. Ég vona að þessi blessuð börn mundi komast yfir þetta en þetta eru sár sem verða á sálinni allt lífið, það er sorglegra en tárum tekur !

Sunna Dóra Möller, 19.9.2008 kl. 09:32

6 identicon

Þekki ekki dóminn sem þú talar um.En hitt virðist viðbjóður.Það er skylda okar samkvæmt LÖGUM að tilkynna um ofbeldi erð GRUN um ofbeldi gagnvart börnum.Furðulegt að gera ekkert.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 10:09

7 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Það er ekki bara þannig að við eigum að skipta okkur af.... Okkur ber lagaleg skylda til þess. Og nú vildi ég gjarnan sjá þau lög gerð að einhverju áþreyfanlegu með því að beita þeim. Það er ekki séns að enginn hafi haft hugmynd um að það var ekki í lagi með þessi börn

Heiða B. Heiðars, 19.9.2008 kl. 10:22

8 Smámynd: M

Hræðilegt til þess að hugsa að þetta eigi sér stað, en því miður.

p.s. finnst síðan þín orðin flott  

M, 19.9.2008 kl. 10:25

9 identicon

Gleymum nú ekki að þetta sé þegar komið inn á borð yfirvalda. Væntanlega hefur einhver haft afskipti af þessu, væntanlega er það þess vegna sem þetta var upplýst.

Svo er hitt, að yfirvöld almennt eru svo bregðul. Þau eiga það til að áreita fólk sem engin ástæða er til að áreita, en sleppa svo þeim sem fara illa með börnin sín. Þetta er svipað með lögregluna, hún getur sóað endalausum tíma í að áreita fullkomlega saklausa borgara, en svo þegar eitthvað raunverulega bjátar á, þá er svo mikið að gera hjá þeim.

Ég veit samt ekki hvort það sé við hæfi að kenna einhverjum öðrum um en honum sjálfum í þessu tiltekna dæmi. Eins og ég segi, væntanlega er þetta komið inn á borð yfirvalda einmitt því að einhver skipti sér af.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 10:35

10 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Algjör vibbi, .. orð fá að vísu ekki lýst þeim tilfinningum sem upp koma þegar maður fréttir af svona ómennsku. Við þurfum öll að opna skilningarvitin þegar um svona er að ræða.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 19.9.2008 kl. 11:07

11 Smámynd: Didda

Mannskepnan er grimm, hvað fer eiginlega í gegnum hausinn á svona hrottum ???

Börnin eiga alla mína vorkunn þetta er skelfilegt.

Didda, 19.9.2008 kl. 11:41

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir umræðuna.  Það sem ég óttast mest núna er að hún detti niður þegar nýjar fréttir taka við.

Það er gjörsamlega óþolandi að þessi mál skuli ekki vera í almennilegu standi.

Svo var það ný frétt fyrir mér að einungis börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi fái notið Barnahúss.  Af hverju í ósköpunum er þessi aðstaða ekki nýtt fyrir öll börn sem verða fyrir ofbeldi.

Þarf að flokka allan andskotann?

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.9.2008 kl. 13:12

13 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Málið er samt að það er erfiðara að tilkynna en ætti að vera. 

Við fyrstu tilkynningu er sent bréf til lögheimilis barnsins þess efnis að barnaverndunarstofnun hafi fengið tilkynningu um að ekki sé allt sé eins og það á að vera.  Það lítur augaleið að það geti bitnað illa á barninu sjálfu.  Þetta þarf að breytast.  Öryggi barnsins verður að koma fyrst.

Ég myndi vilja sjá trúnaðarmann barna í öllum skólum, svona vin sem börn geta leitað til án þess að eiga hættu á að öllu verði splundrað upp á heimili þess og farið verði í málið með hagsmun barnsins fyrst og fremst.   Barnið hlyti leiðsögn og aðstoð meðan mál þess sé rannsakað. Það er ekki hægt að bjóða börnum upp á, að það fái þá tilfinningu að það beri ábyrgð með því að segja frá því sem er að gerast heima hjá því.

Eins þarf að setja meiri fjármagn í barnaverndunarráð, svo hægt sé að manna öll þau starf sem þarf að mann og sinna öllum þeim tilkynningum sem inn koma.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 19.9.2008 kl. 13:30

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er því miður miklu miklu algengara en nokkurt ykkar grunar.  Þetta veit ég því faðir minn starfaði í athvarfi í Austurbæjarskólanum og kom sjálfur upp um ýmis hrottaleg tilvik sem spönnuðu frá vanrækslu til nauðgana og skipulagðra pyntinga. Venjulega komst þetta upp fyrir hreina tilviljun af því að pabbi var svo duglegur að heimsækja börnin. Þetta var ekki inni í starfslýsingu né fékk hann laun fyrir þetta.  Í mörgum af hroðalegustu tilfellunum voru mæður gerendur og í einu tilfelli var barnungur drengur leigður út til barnaníðinga.  Svei og aftur svei!

Sigurður Þórðarson, 19.9.2008 kl. 13:52

15 Smámynd: Laufey B Waage

Já þetta er skelfilegt. Í mínum huga er ekkert til sem heitir réttindi foreldra. Foreldrar hafa skyldur gagnvart sínum börnum, en ekki réttindi (hvort sem þeir búa með börnunum sínum eða ekki). Það eru börnin sem eiga hins vegar rétt á umhyggju, vernd og ýmsu fleiru frá sínum foreldrum. Það færi betur ef fleiri tækju mark á því. 

Laufey B Waage, 19.9.2008 kl. 14:03

16 Smámynd: Sigurður Þórðarson

100% sammála þér Laufey.

Mig grunar að gerendurnir séu oftast forfallnir í neyslu vímuefna og geðveikir, kannski bæði. Annars veit ég þetta ekki.

Sigurður Þórðarson, 19.9.2008 kl. 15:20

17 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég held að maður fari flatt á því að áætla að það sé einkum fólk í neyslu sem beitir börn ofbeldi.

Það er svona álíka grunnt áætlað og þegar maður gefur sér að það séu bara ljótir gamlir karlar sem misnoti börn.

Málið er að ofbeldi er beitt af "venjulegu" fólki sem tilsýndar lítur út og hagar sér eins og annað fólk.

Á meðan við horfum fram hjá því kemst hellingur að fólki upp með óskapnaðinn.

Takk fyrir þitt fróðlega innlegg Björn Heimir.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.9.2008 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband