Leita í fréttum mbl.is

Í pilsi á hátíðum

Allt sem gerist er konum að kenna á einn eða annan hátt segja sumir.  Þessir sumir fá af og til brilljant hugmyndir að þeim finnst.

Eins og að banna pínupils í þágu umferðaröryggis. 

Langsótt?  Neibb, ekki í Úganda.

Sú staðreynd að land hefur siðferðis- og velsemdarmálaráðherra segir sína sögu.

Aumingja Úganda, ég hélt að þeirra vandamál væru meiri og stærri.

En..

Smá nostalgía hérna.

Á 17. júní 1966 nánar til tekið kl. níu fyrir hádegi tók ég afdrifaríka ákvörðun.

Ég gerðist svo gróf að klæða mig í síðbuxur og hettupeysu úr Karnabæ og fara ofan í bæ í klæðunum.  Vinkonan klæddi sig líka í buxur og það er óhætt að segja að við hefðum vakið viðbrögð og þau ekki jákvæð.

Það er  undarlegt til þess að hugsa að annar hver maður/kona sem við mættum hafi frussað, skammast og hneykslast á þessari stóru synd.  Þetta gerðist ekki í byrjun síðustu aldar, ónei.  En ég er að segja satt.  Það dundi á okkur óhroðinn frá fullorðnu fólki.

Ég tek það fram að ég efldist við mótlætið og hef síðan sleitulaust haldið áfram að vera sjálfri mér trú, þó það hafi mistekist oftar en ekki, og láta ekki neyða mig til hlýðni við borgaralegar reglur sem meika engan sens.

Stúlkur áttu að vera í pilsum á hátíðisdögum.

Í 12 ára bekk í Meló fór ég í Matreiðslu.  Í helvítis handavinnunni hafði ég saumað rauðköflóttu svuntuna og kappann um hausinn og það var skylda að klæðast þessu og mæta í pilsi.  Það vita allir að það er ekki hægt að læra að elda mat og haga sér í eldhúsi öðruvísi en með nælonsokkaklædda leggi.

Það þarf vart að taka fram að drengir þess tíma voru ekki í matreiðslu.  Þeir voru í fótbolta og módelasmíði ímynda ég mér.

Ó, æ, ó, hvað ég tók út fyrir pilsaskylduna.  Ég var gelgja, ég fór ekki úr mínum sjóliðabuxum fyrr en ég skreið undir sæng.  Það var minn einkennisbúningur og jafn nauðsynlegur til vellíðunnar á sálinni og maskarafjandinn frá House of Westmore og Innoxa dagkremið.

Það hefur alltaf í gegnum tíðina verið reynt að halda konum niðri með því að hafa fötin óþægileg.

Þungir kjólar, reimaðir þannig að konur gátu ekki andað, þykk pils milljón undirkjólar og allur sá pakki.

Kínverjar voru ekki feimnir, þeir lemstruðu fætur kvenna og þær komust ekki lönd né strönd vegna stöðugra kvala í opnum tábrotum.  Konur með eðlilega fætur þóttu óheflaðar og lítt föngulegar.

Þú hleypur heldur ekki langt í síðum fimmlaga pilsum úr ull eða hvað?

Þetta var einu sinni en áfram heldur leikurinn.

Pínupils eru nefnilega ógeðslega þægilegur klæðnaður ef hann er notaður við leggings.

Konur í Úganda, hlaupið, hlaupið áður en þið verðið settar í kyrtla.


mbl.is Vill banna pínupils í Úganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Heheheh man eftir þessum matreiðslutímum svo kom maður heim þá daga sem maður var í bökunardeildinni með eitthvað glerhart í poka þvílíkt ánægð með sjálfa sig. 

Heldur þú að það fari að lægja eitthvað svo ég nenni út úr húsi?

Ía Jóhannsdóttir, 18.9.2008 kl. 12:32

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég var líka fljót að henda pilsum og kjólum um leið og ég komst upp með það

Jónína Dúadóttir, 18.9.2008 kl. 12:35

3 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Breytingar hafa ýmislegt í farteskinu - en breytingin á síðunni er flott, ég elska þennan lit en ég var líka sátt við hinn, þennan obba lítið lilla!

Æi þetta átti að fylgja færslunni á undan - en ég er ekkert inni í þessu Uganda máli veit bara að vesturlenskar konur sveipa um pilsslæðum eða klæðum áður en þær stíga út úr bíl inn í verslanamiðstöðvar að virðingu við hefðina sem er að láta ekki sjást í fætur.

Það er þannig víða í Afríku.

Edda Agnarsdóttir, 18.9.2008 kl. 13:02

4 identicon

Ofurskutla!

kær kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 13:26

5 identicon

Dásamleg færsla.Ég man enn þegar ég keypti mín fyrstu jakkaföt.JAKKAFÖT takið eftir EKKI DRAGT .Í Karnabæ að sjálfsögðu

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 13:40

6 Smámynd: Þröstur Unnar

Karnabær! Jiiiiii hvað þið eruð aldnar.

Pínupils rokka í roki.

Þröstur Unnar, 18.9.2008 kl. 13:42

7 identicon

Mér verður nú bara hugsað til gamla brandarans um nunnurnar tvær :

Einu sinni voru tvær nunnur á gangi í gegnum skóginn.

Önnur þeirra gekk undir viðurnefninu Systir Stærðfræði (SS), En hin var kunn undir viðurnefninu Systir Rökrétt (SR).

Það var farið að dimma og þær áttu ennþá langt eftir á áfangastað.

SS: Hefurðu veitt því athygli að síðustu 38 og hálfa mínútu hefur okkur verið veitt eftirför af einhverjum manni? Ég velti því fyrir mér hvað hann ætli sér.

SR: Það liggur ljóst fyrir að hann ætlar sér að gera okkur eitthvað.

SS: Almáttugur minn! á þessum tímapunkti mun hann ná okkur innan 15 mínútna hið minnsta! Hvað getum við gert?

SR: Það eina rökrétta í stöðunni er auðvitað að labba hraðar.

Stuttu síðar:

SS: Það er ekki að ganga upp.

SR: Auðvitað er það ekki að ganga upp. Maðurinn gerði það eina rökrétta í stöðunni. Hann fór líka að labba hraðar.

SS: Hvað eigum við þá að gera? Á þessari stundu mun hann ná okkur innan einnar mínútu.

SR: Það eina rökrétta í stöðunni fyrir okkur er að fara sitt í hvora áttina. Þú ferð þessa leið og ég tek hina leiðina. Þá getur hann ekki elt okkur báðar.

Því næst ákvað maðurinn að elta Systur Rökréttu. Systir Stærðfræði komst á áfangastað heilu á höldnu en hafði áhyggjur af því hvernig Systur Rökrétt hefði reitt af. Eftir nokkra mæðu kemur Systir Rökrétt loks á áfangastað.

SS: Systir Rökrétt ! Guði sé lof að þú sért komin! Hvað gerðist?

SR : Þar sem maðurinn gat eðlilega ekki elt okkur báðar, þá valdi hann þann möguleika að elta mig.

SS: Já, Já! En hvað gerðist svo?

SR: Nú ég reyndi að hlaupa eins hratt og ég gat, en þá fór hann einnig að hlaupa eins hratt og hann mögulega gat.

SS: Og?

SR: Það eina rökrétta gerðist á þessum tímapunkti. Hann náði mér.

SS: Guð minn góður! Og hvað gerðir þú?

SR: Það eina rökrétta sem ég gat gert og gerði.. Ég lyfti pilsi mínu upp.

SS: Oh, vesalings Systir! Hvað gerði maðurinn?

SR: Það eina rökrétta fyrir hann í stöðunni. Hann gyrti niður um sig.

SS: Æii, nei!! Hvað gerðist svo?

SR : Liggur það ekki í augum uppi, Systir? Nunna með pilsið upp um sig hleypur hraðar en maður með buxurnar á hælunum.

Verð að taka undir með þér Jenný; hlaupið, hlaupið hraðar......

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 13:44

8 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég féll í matreiðslu.

Helga Magnúsdóttir, 18.9.2008 kl. 13:55

9 Smámynd: Linda litla

Mikið er ég heppin að hafa ekki verið fædd þá, ég þoli ekki að vera í pilsum. Ætli ég sé ekki svona ókvenleg.....

Linda litla, 18.9.2008 kl. 14:45

10 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég hef aldrei gengið í pínupilsi...hef ekki fæturna í það. Síðar, svartar buxur eru minn einkennisklæðnaður.....dóttur minni til mikils ama og hún spyr reglulega af hverju ég sé aldrei í kjól eða pilsi  ...það bara yrði ekki smart !

Tek undir hlaupaáskorunina til kvennanna í Úganda.....alveg eins og hratt og mögulegt er .... 

Sunna Dóra Möller, 18.9.2008 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband