Leita í fréttum mbl.is

Ljótasti staðurinn á jarðríki

Hún var tæpra tíu ára, stelpan sem valhoppaði heim úr skólanum, um hádegisbilið.  Þetta var upp úr miðri síðustu öld.  Heima beið amma með matinn en afi var á sjónum.

Það var vor í lofti, svona parísvor, snú-snú og sippvor, rétt handan við hornið.

Sú stutta fauk inn um dyrnar, snarstoppaði, því þar stóð ókunnugur maður, sem var að setja nýjan vask í eldhúsið.  Amma sat á sínum venjulega stað við borðið og sagði henni að koma að borða.

Maðurinn gekk brosandi að telpunni, spurði hana nafns, rétti út faðminn og þrýsti henni að sér.  Hún vissi ekki hvað það var sem gerði það að verkum að hana langaði að hlaupa langt út í buska, en  hann gerði eitthvað ljótt, nuddaði henni upp að sér og brosti allan tímann.  Svo sleppti hann telpunni, blikkaði hana, eins og þau ættu saman oggulitið leyndarmál.  Svo hleypti hann henni fram hjá sér inn í eldhús.

Öruggu veröld stúlkunnar hafði verið svipt á brott í einu vetfangi og hún hafði ekki einu sinni vit né orð til að skilgreina þetta ljóta sem hafði sest í sálina hennar og breytt vorinu í ískalt skammdegi.  Hún vissi bara að aldrei yrði neitt skemmtilegt framar.

Hún sat álút yfir matnum sínum og amma spurði hvort hún væri lasin hvort eitthvað hefði komið fyrir.? Hvernig gat hún svarað ömmu, sannleikanum samkvæmt um eitthvað sem hún vissi ekki einu sinni hvað var. Sem hún átti ekki orð yfir  Að hún væri grútskígug og ógeðsleg að utan sem innan.

Hún tók töskuna sína og fór inn í herbergi.  Áður en hún komst þangað endurtók maðurinn leikinn og hún ákvað að í herberginu skyldi hún vera þangað til hann færi burt. Hún dró rúmið sitt fyrir hurðina á hvergerginu.  Og dagurinn leið.  Hún þurfti að pissa, hún pissaði á sig.  Amma kallaði á hana og stelpan  muldraði eitthvað um að hún væri lasin.

Það kvöldaði  og maðurinn lauk verkinu og  fór.  Afi kom heim.

Við kvöldverðarborðið spurði hún afa hvort maðurinn kæmi aftur.  Ekki hélt afi það nema ef vera skyldi einhvertímann seinna þegar hann þyrfti pípulagningarmann.  Hún þráspurði, getum við ekki fengið annan svoleiðis mann?  Jú hélt afi það ætti að vera hægt, en svo merkilegt sem það var spurðu þau hvorki amma né afi, af hverju telpan lét svona. Að lokum spurði stúlkan ákveðinni röddu hvar maðurinn ætti heima.  Í Hlíðunum svaraði afi.

Sú stutta hugsaði með sér. Ef ég fer aldrei inn í Hlíðar þá kannski gerir hann mér ekkert aftur.

Og í mörg ár voru Hlíðarnar í Reykjavík, ljótasti staðurinn á jarðríki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Var ég búin að segja þér að ég elska þig?

Jóna Á. Gísladóttir, 7.2.2008 kl. 00:36

2 Smámynd: Tiger

Ó hvað maður er aumur að geta ekki verið til staðar öllum þeim sem lenda undir í lífinu. Ef bara aumingjar sem misnota yfirburði sína gagnvart þeim er minni/yngri eru - væru skorkvikyndi stutta stund fyrir fótum mér, hve mikil klessa væri þá undir skónum mínum - mér til mikillar gleði.

Sannarlega ekki falleg mynd sem máluð er í sálarangist þess er í misnotkun lendir, sama hvernig misnotkunin á sér stað eða hvers eðlis hún er. Þessi stúlka/ímynd sem þú setur hér upp á alla mína samúð og meðaumkun. Ég hef óbeit á þeim er beita aðra ofbeldi eða yfirgang af einhverju tagi.

Tiger, 7.2.2008 kl. 01:08

3 identicon

Þetta er skelfileg saga sem á alltof margar samlíkingar.
Ég bjó í laugardalnum og gömlu sundlaugarnar voru það leiksvæði sem maður stundaði mest og maður fór einu- til tvisvar sinnum á dag í sund (fór eftir veðri). Ég ólst þar upp má segja. Ég man eftir mér sem hnátu væntanlega 12  til 14 ára og minningin er að mér smeygjandi mér eins og áll á milli grunnu laugarinnar yfir í djúpu laugina undir brúna sem skildi þær að brosandi og glöð með vinkonu minni, þegar eldri maður var allt í einu mættur á svæðið og gerði sér eitthvað dælt við mig sem mér mislíkaði. Ég flýði í heita sturtubotninn sem þar var en þar var venjulega margt um manninn og manni fannst sem maður ætti að vera hultur á slíku stað innan um margmennið en viti menn, karlinn var mættur þar og allt í einu fann ég þegar karlinn kom með fingur sína við kynfæri mín undir sundbolinn  minn. Ég horfði í örvæntingu á alla sem voru í kringum mig en enginn tók eftir þessu svo ég æddi upp úr pottinum og stakk mér í djúpu laugina og gat barist upp að grynnri helmingnum sem sagt að brúarmiðjunni. Þar mætti karlinn allt í einu og reyndi að handfjatla mig og ég barðist um eins og fúría, þar til gæslumaður kom eftir brúnni og spurði hvort ekki væri allt í lagi og karlinn sagði jú, jú við erum bara að leika okkur (ég var hálfpartinn ofan í lauginni og gat engu stunið upp). Ég veit ekki hvernig ég komst upp úr og inn í búningsherbergi, en í laugina fór ég ekki aftur, ég man bara ekki eftir í hvað mörg ár liðu kannski 6 eða 7 ár. Enginn frétti af þessu allavega ekki í minni fjölskyldu. Það var ekki fyrr en ég var gift kona og með barn og þau komu svo bæði með mér í laugina (en þá var nýja laugin komin) en þetta voru ótrúlega þung skref að fara í opinbera laug aftur. 
kv
Amma í Árbænum 

amma úr Árbænum (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 01:16

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér er orða vant...

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.2.2008 kl. 01:16

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku Jenný mín,  maður verður bara svo reiður að lesa svona, og ég vona að í dag sé enginn uppalandi svona hugsunarlaus við svona viðbrögðum.  Það góða við upplýsingaflæðið í dag er að fólk er yfirleitt miklu meðvitaðra um allt það vonda í heiminum, og meira á varðbergi..... vonandi.  Knús á þig elskuleg. það hefur ekki verið auðvelt að setja þetta niður á blað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.2.2008 kl. 01:19

6 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Jenný mín....

Því miður þá þekki ég alltof margar svona sögur, frá sjálfri mér og öðrum......djöfull sem þetta rífur í sálina. 

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 7.2.2008 kl. 01:30

7 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 7.2.2008 kl. 06:18

8 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Jenný mín, opinberun þín kom tárum mínum af stað, það er svo átakanlega sárt að lesa þetta, af hverju geta ekki litlar stelpur sagt
frá, almennt var uppeldið  þröngt, engin víðsýni,
máttu yfirleitt ekkert segja,
Þetta hefur gert börn óttaslegin við að segja hlutina eins og
þeir voru. þetta hefur breyst, en langt í land enn þá.
Gæti sagt ýmislegt, en þetta er gott.
                    Kærleikskveðjur til þín.
                         Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 7.2.2008 kl. 07:40

9 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég er hálf orðlaus eftir þennan lestur, ég verð svo reið þegar ég heyri af svona framkomu við börn. Barn er eitthvað það fallegasta og saklausasta sem að er til í þessum heimi og að ræna það sakleysinu á þennan hátt er skelfilegasti glæpur sem að hægt er að fremja!

Takk fyrir þessa sögu Jenný, það hefur án efa ekki verið auðvelt að setja þessi orð á blað !

Sunna Dóra Möller, 7.2.2008 kl. 08:19

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir falleg orð.  Það skiptir sam ekki máli hvert barnið í sögunni er, við látum það liggja á milli hluta, boðskapurinn er auðvitað sá að fáir gera sér grein fyrir hversu traumatiskt það er fyrir lítið barn að lenda í svona upplifun og hafa ekki einu sinni skilning á því sem fyrir kemur og geta ekki sett það í orð.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.2.2008 kl. 08:30

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Amma úr Árbænum: Hryllilegt að lesa, hryllilegt að upplifa.  Knús á þig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.2.2008 kl. 08:31

12 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Ömurlegt að við finnum okkur knúin til þagnar yfir svona hlutum, það er umhugsunarvert. Mjög vel orðað Jenný (hver sem litla stúlkan er) og eins saga "Ömmu úr Árbænum".

Laufey Ólafsdóttir, 7.2.2008 kl. 08:46

13 Smámynd: Ragnheiður

Skelfilegt....

Ragnheiður , 7.2.2008 kl. 08:53

14 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Allt í einu snjóaði í hjarta mínu......

Hrönn Sigurðardóttir, 7.2.2008 kl. 09:07

15 identicon

Það bjó líka ljótasti kall í heimi í 101 og svo var einn í sveitinni.Þetta rífur í. Faðm,knús og klemm og allt

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 09:17

16 identicon

Þessar "sögur" spretta nú fram eins og risaeðlur úr fornöld. Sögurnar eru vondar en það góða er að fólk er varari en áður að svona sögur gerist ekki...vonandi.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 09:20

17 Smámynd: Hugarfluga

Æ, Jenný. Erfið lesning og hræðilegt til þess að vita að nokkurt barn þurfi að vera í þessum sporum.

Hugarfluga, 7.2.2008 kl. 09:47

18 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég var einu sinni í tímum í ritlist upp í háskóla og ein bekkjarsystir mín skrifaði áhrifamikla sögu um misnotkun. Hún lýsti því hvernig barnið sem hafði orðið fyrir misbeitingu tók það út á dúkkunni sinni. Ég grét yfir þessari sögu en stúlkan sem skrifaði hana líður mér aldrei úr minni. Hún er ótrúlega sterk kona sem hefur barist til sigurs í lífinu og ég dáist að henni.

Steingerður Steinarsdóttir, 7.2.2008 kl. 09:57

19 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Langar að gefa þér komment á þetta. Mér þyngir fyrir brjósti satt að segja.

Hreinlega get ekki sagt það sem ég vildi segja. Svo skelfilegt er þetta.

Bendi á það að það eru líka margir ungir drengir sem eru rændir æsku sinni, og frá þeim tekið þeirra stolt og vilji.

Hef oft hugsað um hversu kjarkaðri þið konur eru að tala um þetta. Lausn okkar strákanna er því miður oftast í þoku áfengis, eins og ég hef komið inn á oft áður á öðrum vettvangi, eða í svartholi eiturlyfja.

Þarft hjá þér Jenný að koma inn á þetta, en um leið þýtur þetta um allt æðakerfi og tilfinningaskala þeirra sem tengja við.

Það er svo stutt í hið svarta hatur og hina skýlausu reiði innra með þolendum. En lausnin liggur í að komast frá því ástandi og ná sátt. Það að horfa upp á annað fólk í sátt við allt og alla, í fölskvalausri hamingju, er svo óendanlega sárt fyrir þá sem standa utangarðs við hamingjulandið og er fast í sínum aðstæðum, sveipað þögn og einmanaleik, oft mitt í hringiðu samfélagsins. Engum er treyst og öll samskipti brotna þegar klakabrynjan ætlar að gefa sig.

Segi bara "úff" en takk samt. Ein þversögnin en þar á ferð.

Einar Örn Einarsson, 7.2.2008 kl. 10:28

20 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mikið fannst mér erfitt að lesa þetta elsku Jenný.

Kristín Katla Árnadóttir, 7.2.2008 kl. 10:40

21 Smámynd: M

Öll umræða af svo ljótum hlutum hefur opnað eyru okkar og vitund. Tel mig paranoja yfir börnum mínum, vil ekki senda þau t.d. í sveit (veit,getur gerst hvar sem er) en, eitt svona augnablik getur eyðilagt svo margt. 

Held áfram að vera paranoja sama hvað hver segir.

M, 7.2.2008 kl. 10:49

22 Smámynd: Berglind Inga

Berglind Inga, 7.2.2008 kl. 10:53

23 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir góða og málefnalega umræðu.  Ég verð að játa að hún hlýjar mér um hjartaræturnar.  Love u guys.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.2.2008 kl. 11:33

24 identicon

Það eru margar svona sögur til og flestar liggja í leynum huga þeirra sem fyrir hafa orðið. Þegar ég var sjö ára var ég að leika mér í hálfköruðu húsi þegar ungur maður, svona um tvítugt, dró mig á bak við timburstafla, tók út á sér og ætlaðist til að ég káfaði á honum. Ég varð alveg fjúkandi reið, reif mig af honum og hljóp heim. Ég sagði strax frá þessu og pabbi hringdi á lögregluna sem náði í manninn sem ég vissi hver var og hvar átti heima. Ég fann aldrei neina skömm vegna þessa atviks, ég varð bara rosalega reið. Systur mínar vilja halda því fram að það sé vegna þess að ég var oft með pabba á sjónum og var alvön því að menn pissuðu bara út fyrir borðstokkinn þannig að mér fundust tittlingar ekkert merkilegir. Mig langaði bara alls ekki að klappa þeim.

Helga Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 11:59

25 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Kökk í hálsinn, reið, sorgmædd, brjáluð..... og allur skalinn! Það sem ég er þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa kennt mér, pínkulítilli, að ég mátti arga og bíta ef einhver vogaði sér inn fyrir mitt tabú og þau myndi alltaf trúa mér.

Man eftir að arga einu sinni og bíta tvisvar. Fór svo og klagaði í mömmu og pabba og þau brugðust strax við

Heiða B. Heiðars, 7.2.2008 kl. 12:08

26 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú hefur verið heppin Heiða

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.2.2008 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.1.): 10
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2987272

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.