Leita í fréttum mbl.is

Hvernig hóruhús verður bænahús

Ég er alltaf að hallast meir og meir að svartsýni, hvað varðar manneskjuna og góðmennsku hennar, eða réttara sagt skorti á henni.

Þegar ég kom á bloggið í febrúarlok s.l. var ég nokkuð glöð með mína barnatrú og hafði verið svo lengi sem ég man.  En trúin sú fór fyrir lítið.  Ég er orðin bullandi efasemdarmanneskja eftir að hafa fengið of stóran skammt af bloggfærslum trúarnöttara sem básúna út mannfyrirlitningu og hatri á öllu því sem þeir TELJA að sé Guði ekki þóknanlegt. 

Ég nenni ekki að taka þessa umræðu frá grunni, en ég verð að játa á mig algjöran sofandahátt, því  ég hélt að "gangan gegn myrkrinu" núna um helgina væri ganga gegn þunglyndi, þangað til að ég fór að lesa önnur blogg.

Þá komst ég líka að því að forsvarsmaður göngunnar hafði kallað samkynhneigða sora og að hann rak til skamms tíma hóruhús þar sem nú er bænahús og misnotaði þar konur í neyð.  Ég ætla ekki einu sinni að tjá mig um þetta frekar en bendi ykkur á að lesa hérna.

Auðvitað efast ég ekki um mannkærleika meirihluta þeirra sem gengu þessa "myrkragöngu" og ég trúi bara nokkuð sterkt á möguleika fólks til að taka sig á.  En þarna finnst mér sinnaskiptin ekki trúverðug. 

Það er einhver holhljómur í öllu þessu trúarofstæki sem birst hefur í bloggheimum, svo ég tali nú ekki um þjóðkirkjufyrirbærið sem gerir það að verkum að ég, eins og fleiri, er orðin algjörlega afhuga því sem heitir kristin trú í þeim skilningi sem hinir "rétttrúuðu" leggja í hugtakið.

Stendur ekki í vinnulýsingabókinni biblíu, að fólki skuli ekki dæma, svo það verði ekki dæmt?

Ég hélt það.

En ég hef aldrei tekið meirapróf í trúnni, hún býr innra með mér og ég tek aftur það sem ég sagði í upphafi.  Ég held að flestar mannverur búi yfir endalausum kærleika, það fer bara svo asskoti mikið fyrir PR-mönnum Guðs á jörðinni, og hér í bloggheimum hafa þeir oft hátt.

Amen.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Heyr, heyr!

Púkinn, 12.11.2007 kl. 18:09

2 Smámynd: Bara Steini

Þetta tek ég undir. Furðulegt að sjá þá ráðast og rífa niður allt í kringum sig... Einhvur undarleg sjálfseyðingarhvöt í gangi þar... Takk fyrir Oss.

Bara Steini, 12.11.2007 kl. 18:17

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Það sem einkennir almenning er að hann þorir ekki að setja trúfélögum mörk, fólk hræðist að fá til baka á sig: "trúir þú ekki?". Þetta snýst ekki um það, trú fólks er mjög persónubundinn og sama með hvaða hætti fólk iðkar sína trú (eða ekki) á það rétt til að setja þessi mörk. Þar er ég sterklega með í huga kröfu trúfélaga til aukinnar kristinfræðikennslu í skólum. Yfirlýsing þess efnis var hluti af Bænagöngunni án þess að það hefði verið auglýst sérstaklega. Þar stendur þjóðkirkjan framarlega í flokki og almenningur þorir ekki að segja stopp.

Kristjana Bjarnadóttir, 12.11.2007 kl. 18:21

4 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég verð að viðurkenna að ég set stórt spurningarmerki við mann sem fer að boða trú, ný komin úr fangelsi eftir morð og ný búin að reka vændishús og ný orðin edrú! Ég veit ekki hvaða þekkingu hann hefur á kristindóminum, hvort að hann hafi viðað að sér þekkingu og þá hvar. Eða hvort að um er að ræða mann sem að tekur það upp hjá sér á eigin spýtur að boða án þess að hafa nokkurn grunn til þess. Biblían er hættuleg í höndunum á fólki sem að kann ekki að fara með hana og hefur ekki lært að lesa hana í þar til gerðu námi. Þess vegna sem betur fer höfum við guðfræðideildina og fimm ára grundvallar menntun sem undirbúning undir prestsskap þó að misvel takist til!

hér blogga margir um kristni og kristna trú, berja sér á brjóst og segjast hafa sannleikann! Mér sárnar það að fólk móti sér skoðanir á trúnni út frá þeim sem að hæst hafa í skoðunum gegn fólki!

Ég er kristin, ég starfa í kirkjunni og legg stund á Guðfræði, ég myndi aldrei segja helminginn af mörgu sem að kemur hér fram gegn ákveðnum hópi í samfélaginu inni á þessu bloggi. Trú mín grundvallast ekki á því, hún grundvallast á hjartanu og kærleika og elsku til náungans og á því að ég kem fram við fólk eins og ég vil að sé komið fram við mig. Það nægir mér!

Ekki dæma alla trúaða út frá fáum hópi sem hefur hátt því hæst bylur í tómri tunnu !

Annars góð færsla, ég er bara þannig að ég verð að tjá mig þegar kemur að kirkju og trú! Mér er svo mikið í mun að fólk sjái að það eru ekki allir kristnir eins og við erum svo misjöfn og mörg! það eru ótal margar kirkjudeildir og allar hafa sína túlkun. Kannski að það sé ástæðan fyrir því að ég blogga, til að fólk sjái að við tölum ekki öll sömu röddu. Hér eru frábærir bloggarar sem að blogga á vegum kirkjunnar til dæmis eins og Baldur Kristjánsson, Svo er einn guðfræðingur hér sem að bloggar svo skemmtilega og er kristin en það er Jóhanna Magg og fleiri og fleiri. Ég er ekki að segja að mín skoðun sé sú eina rétta en hún er viðbót í litrófið!

Kannski þurfum við að hafa hærra ég veit það ekki, en við erum hér og sýnum annað sjónarhorn!

Takk fyrir færslu og afsakaðu málæðið !

Sunna Dóra Möller, 12.11.2007 kl. 18:24

5 Smámynd: Bara Steini

Það er svo satt Sunna, fólk gerir stundum þau mistök að trúa á þann sem afbakar trúna í stað þess að einfaldlega að trúa á trúna...

Bara Steini, 12.11.2007 kl. 18:28

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ágæt pæling Jenný. Furðulegt að þeir sem eru hvað trúaðastir hafa sig minnst í frammi og eru besta fólk. Þeir sem þykjast vera trúaðir eru oft kompúlsif karakterar og hafa sjúklega þörf á að stjórna og dominera, hvort sem er í gegnum sitt starf, við nánustu eða í gegnum apparat eins og trú.

Ólafur Þórðarson, 12.11.2007 kl. 18:43

7 Smámynd: Ingigerður Friðgeirsdóttir

Takk fyrir góða grein Jenný. Hér á landi hafa kristnir áður farið í svona göngu saman þá var hún kölluð Jesú gangan og var ef mig minnir rétt gengið fyrir alla í heiminum sem eitthvað áttu erfitt. Þeir sem stóðu að þeirri göngu voru íslenska þjóðkirkjan og önnur trúfélög á Íslandi.

Sunna ég er alveg sammála þér að öllu leiti nema einu, ég tel mig kristna og les Biblíuna mikið ég er ekki með guðfræðipróf úr háskóla en tel mig alveg geta lesið þessa bók og skilið hana. Í mínum huga á kristin trú að snúast um kærleika og elsku til náungans. Þessi umræða sem hefur verið hér á blogginu finnst mér svolítið skrítin maður lemur ekki náungan með Biblíunni. 

Bestu kveðjur Ingigerður. 

Ingigerður Friðgeirsdóttir, 12.11.2007 kl. 18:55

8 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég var að meina þegar kemur að því að kenna hana öðrum. Allir geta lesið, það er erfiðara að fræða ! Það er svo vandasamt, trúðu mér það er ekki auðvelt hlutverk og við sem gerum það verðum að vera vel undir það búin og búin að ná okkur í þá menntun sem að þarf!

 Ég er sammála þér með það um hvað trúin snýst! Trúin snýst um kærleika og elsku til náungans.

bkv.sunna

Sunna Dóra Möller, 12.11.2007 kl. 18:58

9 identicon

Það getur verið mögnuð tilfinning að tilheyra einhverju sem er stærra en maður sjálfur, og hvað gæti verið stærra en vilji almáttugs Guðs sem var svo elskulegur að skrifa niður á blað allt sem við þurfum að gera til að fá að vera memm?

 Fólk sem hefur misst fótana í lífinu eða er með minnimáttarkennd af einni eða annarri ástæðu fellur auðvitað kolflatt fyrir þessari hugmynd. "Hey, hommar eru þá ekki bara ógeðslegir og skrítnir eftir allt saman, þeir eru verri en ég af því að Guð segir það!" - þetta er réttlæting veiklunda og illa gefinna einstaklinga á eigin röklausu fóbíum og "insecurities" svo ég sletti í lokin.

Ég vorkenni þeim á ákveðinn hátt en þeir fara að fyrirgera rétti sínum á að vera í friði þegar þeir breiða út hatursfullan áróður gegn öðrum. 

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 18:58

10 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Þú ert aðeins yfirvegaðri en ég.... :) Góður pistill

Heiða B. Heiðars, 12.11.2007 kl. 18:58

11 Smámynd: Ingi Geir Hreinsson

Fólk sem kann sannleikann, án gagna, er alltaf hættulegt. Biblían er heilagur sannleikur fyrir suma, en nýjasta túlkunin sýnir tækifærin til að sveigja ritið að pólitískum tilgangi.

Ég er engan veginn hlutlaus og ætti kannski að segja sem minnst, en mér ofbjóða yfirlýsingar öfgatrúarfólks, sem er til hér á landi rétt eins og í mið-austurlöndum.

Ingi Geir Hreinsson, 12.11.2007 kl. 19:08

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Jenný ég er rosalega ánægð með þessi skrif hjá þér.  Ég hef verið að lesa nokkur ofstækis komment hér og þar, en tók ákvörðun fyrir helgi að gera ekki meira af því.  Ég hef ákveðna trú og vil ekki láta eyðileggja hana og finnst ég ekki þurfa að hlusta eða lesa þetta sem er í gangi hér.  Ég tek algjörlega undir þín skrif, frábærlega ritað, og mér finnst að þú hafir náð að skrifa mig frá frekari athugasemdum mínum við þessi trúmál.  Kærleikurinn blívur. 

Ásdís Sigurðardóttir, 12.11.2007 kl. 19:59

13 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ójá, maður skelfist hörkuna og hrokann hjá ansi mörgum trúarnöttara moggabloggurum. Kærleikurinn og umburðarlyndið og fyrirgefningin, sem eru jú það fallegasta í kristinni trú (þetta get ég sko alveg viðurkennt þó ég sé ekki trúuð sjálf) eru víðsfjarri. Sé guð til get ég einhvern veginn ekki ímyndað mér að hann/hún/það horfi á þetta lið mildum augum. Það sem þið gerið einum minna minnstu bræðra, munið þið...?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 12.11.2007 kl. 20:03

14 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Sammála. Kvitt.

Bjarndís Helena Mitchell, 12.11.2007 kl. 20:11

15 identicon

Ég tek undir með Ásdísi, er afskaplega ánægð með að þú skulir ræða þetta hér á blogginu. Ég var svo græn að halda að þetta ofstæki sem þú lýsir væri bara til staðar hjá örfáum hræðum í Krossinum, en komst að öðru þegar ég fór að skoða mig um hér í bloggheimum.

Ég tek undir með Sunnu Dóru að það er vont að gefa fólki sem haldið er mannfyrirlitningu og hefur í raun algjörlega tapað kærleikselementinu í trúnni það vald yfir sér að maður verði fráhverfur þeirri trú sem maður hefur haft frá barnæsku.

Eftir að hafa horft á Jesus Camp og myndina í sjónvarpinu í gær sé ég að við getum líklega ekki vænst þess að vera svo heppin að sleppa við svona ofstæki hér á þessu skeri. Það þrífst í flestum trúarbrögðum, alls staðar í heiminum. Þess vegna er líklega best að gefa því sem minnst vald yfir sér. Líklega verður það best gert með því að leiða það sem mest hjá sér.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 21:03

16 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

HHmmmmm. Ég ætla byrja á því að taka það fram að ég er ekki innan þjóðkirkju og hef ekki verið síðustu 25 ár. Þarafleiðandi er ekkert af mínum börnum skírð ( inntaka í þjóðkirkju) eða fermd.  Ég hins vegar ber fulla virðingu fyrir því fólki sem kýs að tilheyra henni, eða hvaða trúfélagi sem er.

Þó sá sem talin er vera í forsvari fyrir göngunni hafi látið út úr sér ósmekklega hluti dettur mér ekki í hug að dæma alla sem tóku þátt í henni, sem samskonar þenkjandi einstaklinga. Ég veit ekki betur en að Páll Óskar hafi ætlað að troða upp á tónleikunum en ekki getað vegna forfalla. Margir tóku þátt í göngunni á þeim forsendum að það væri verið að efla samkennd meðal fólks, og margir gengu gegn myrkrinu.

Ég sjálf á dóttir sem er samkynhneigð, og ég og húsbandið mitt erum í foreldra félagi samkynhneigðra barna, við styðjum dóttur okkar í einu og öllu, en ég á líka vini sem finnst samkynhneigð ekki vera normal ástand, og mér finnst bara allt í lagi að fólk fái að hafa þá skoðun.Ég veit, vegna þess að ég þekki þessa vini mína að skoðanir þeirra hafa ekkert með fordóma að gera, þetta er bara þeirra skoðun. Hver einasti einstaklingur á rétt á því að mynda sér skoðanir um hvað sem er, en ef einhver samþykkir ekki allt sem talið er vera rétt á hverjum tíma er viðkomandi úthrópaður sem fordómafullur og óviðbjargandi trúarofstækis einstaklingur.  Ég á líka vini sem tilheyra allskyns trúarhópum og mér finnst það líka í lagi. 

Einingu á meðal manna er einungis hægt að ná, með því að hafa umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra. Mannvonsku á hins vegar ekki að líða, hvar svo sem hún kann að finnast.. og trúið mér hún finnst alstaðar.

En í guðanna bænum ekki taka því þannig að ég sé að mæla þeim bót sem segja samkynhneigð vera synd eða öfuguggahátt, það er ekki það sem ég meina, heldur finnst mörgum þetta vera rangt vegna þess hvernig við erum sköpuð, þið vitið líkamlega, getum einungis eignast afkvæmi með gagnstæðu kyni, þetta er að mínu mati  einungis skoðun, en hefur í sjálfu sér ekkert með fordóma að gera. 

Ég hef líka þekkt marga einstaklinga sem hafa haldið að þeir væru samkynhneygðir en svo fóru þeir í áfengis og vímuefna meðferð og viti menn... engin samkynhneygð.  

Margir tala um, að trú og  trúar upplifun sé neikvæð, ég er heldur ekki sammála því. Ég hef séð fleiri grimmdar og mannvonsku verk unni af fólki sem segist ekki vera trúað, heldur en af trúuðu fólki.

Margir segjast vera trúlausir í dag, en halda samt jól! og þeirra fyrsta verk á aðventunni er að setja trúarljós gyðinga út í gluggann, sjö arma aðventuljósið Enn fleiri rjúka í kirkju og láta skíra börnin sín en vita ekki að skírn og nafngift er ekki sami hluturinn. Því í ósköpunum er fólk að láta börnin sín skírast í þjóðkirkjuna ef það svo segist ekki vera hlynnt henni? Þetta sama fólk lætur ekki sjá sig í kirkju nema í brúðkaupum og jarðarförum. WHY? 

Hins vegar ef.... fleiri lifðu eftir kenningum trúarbragðanna, hvað varðar heiðarleika, örlæti, hreinlyndi, manngæsku, umburðarlyndi og svo framvegis værum við í góðum málum.

Úpss, sorrý........missti mig aðeins Jenný mín,það var ekki meiningin að blogga hérna.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 12.11.2007 kl. 21:04

17 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk öll fyrir frábær innlegg í þessa umræðu.  Hún er nauðsynleg en það er alveg svakalega leiðinlegt að hún skuli þurfa að eiga sér stað.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.11.2007 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 2986641

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.