Leita í fréttum mbl.is

Bæjarstjórn Akureyrar í stöðugu stríði?

Ég fylgist ekki náið með bæjarmálum á Akureyri, nema reyndar þegar um þau er fjallað í fjölmiðlum og hér á blogginu.

Mér finnst reyndar að bæjarstjórinn, Sigrún Björk Jakobsdóttir, þurfi að halda uppi stöðugum vörnum fyrir vonda gjörninga.

Síðustu tveir,

Búðin sem þeir ætluðu að flytja með valdi, af því hún var fyrir þeim.  Að í gildi var lóðasamningur, virtist ekki vera mikið mál.

Hækkun foreldrahluta í greiðslum til dagmæðra.  Hvað á það að þýða að veita fríðindi og rífa þau síðan af aftur og bera við peningaleysi?  Er ekki hægt að spara annarsstaðar í bæjarmálunum?

Mér finnst vera smá valdníðslu bragur á þessu, hlutir keyrðir áfram, án tillits til hvort þeir eru löglegir og siðlausir.

Einhver? Akureyri?

Er þetta ekki nokkurn veginn svona í laginu?

Ójá.


mbl.is Ásökunum verslunareiganda mótmælt af Akureyrarbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

uuhumm, ég er víst búsett á Akureyri, en er sammála þessu með bæjarstjórann að vísu var sá fyrri eins með að keyra hluti áfram eftir behag, þetta virðist fylgja embættinu.

annars er ég eins og þú í jólagleðinni , er eins og barn allan des, starandi á jólaljós með tárvot augu, af gleði einni saman. Ég er líka fyrst af öllum til að rífa þetta helv... jóladrasl í burtu. Er reyndar hætt að haga mér eins og geðsjúk í innkaupum, þú veist, ekkert vísa-rað, get byrjað nýtt ár án peningatimburmanna, en að sama skapi eru ekki jól ef ég fæ ekki bók, svo til að tryggja það þá gefum við hjónakornin hvort öðru alltaf bók

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 30.10.2007 kl. 20:19

2 identicon

Ég er sammála þér að það er eitthvað ekki alveg að gera sig í skipulagsmálunum hér í heimabænum mínum, ekki heldur í útreikningum á fjárframlögum til þeirra sem nýta sér vistun dagmæðra EN samt langar mig að koma Sigrúnu dálítið til varnar. Ég get ekki varist því að velta fyrir mér hvort Kristján Júl eða einhver af sama kyni og hann hefði fengið sömu meðferð í fjölmiðlum og Sigrún. Það eru jú yfirleitt fleiri en bæjarstjórinn sem stjórna málum þó að bæjarstjórinn þurfi að svara fyrir þau. Af hverju spyr t.d. enginn Kristján Júl upphátt að því hvort hann, þá bæjarstjóri, hafi persónulega lofað Jóhannesi í Bónus íþróttavallarlóðinni til að byggja þar búð og hvort hann hafi haft leyfi til þess að lofa því, eða hvort hann hafi lofað því vegna þess að einhver borgaði feitt í kosningasjóði? Af hverju heyri ég þetta alls staðar í kringum mig en enginn spyr spurninganna upphátt? En nú er það Sigrún sem lendir í orrahríðinni t.d. út af því máli. Og Kristján Júl neitar að tjá sig og kemst upp með það. Og enginn fer af stað til að leita að sannleikanum. Ég segi bara svona - kannski af því að ég er kona sem finnst stundum konur dæmdar fyrir hluti sem karlar komast upp með. Arrrggg - en líka knús til þín jennslan þessi, miss you, vonast til að koma fljótt til borgar

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 20:32

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það sló mig allavega í kvöld að heyra enn eina söguna af þessum bæjarstjóra.  Og ég sagði við minn mann, sko bara kerlu, búin að gera Krístján Þór góða.  Meiri rudda sem yfirmann hef ég ekki haft fyrr, þó hann gæti líka verið sniðugur og komið vel fyrir sig orði.  Þá var hann snarvitlaus úr frekju. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.10.2007 kl. 21:02

4 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Aðeins af þessum málum því mér finnst menn grípa losaralega umfjöllun á lofti. Fyrst verslunin Síða. Verslun sem staðið hefur á bráðabirgðaleyfi í mörg ár á reit sem ætlaður var fyrir verslun og þjónustu litið bráðarbirgðahúsnæði í litlum timburskúr. Lóðinni var úthlutað fyrir 14 mánuðum síðan og þar er verið að byggja stúdentagarða fyrir Orkuháskólann .. 40 íbúðir. Eigandi Síðu gat sóttst eftir rými í þessum húsum en gerði ekki. Málið hefur verið i formlegu ferli síðan í ágúst 2006 þegar eiganda Síðu var tilkynnt um þessa úthlutun sem var í samræmi við aðalskipulag fyrir svæðið og unnið var 1998.

Það er verið að vinna í dagmæðraniðurgreiðslumálinu og engin ákvörðun liggur fyrir og ekkert búið að ákveða. Foreldrar á Akureyri hafa þurft að greiða 22.000 á mánuði fram að þessu... 34.000 í Garðabæ, 45.000 í Kópavogi og 60.000 í Reykjavík.  Fjölmiðlar hafa fjallað um málið eins og það sé afgreitt en það er rangt.

Það eru engar lóðir á Akureyrarvelli og því hefur KJúl varla getað lofað Jóhannesi í Bónus nokkru þar. Verið er að vinna að tillögum um framtíðarskipan á svæðinu og sá hópur skilar um eða eftir áramót. Akureyrarvöllur verður í notkun þangað til árið 2009 og hefa alltaf legið fyrir. Það gilda reglur um lóðaúthlutanir á Akureyri og eftir þeim er farið en ekki stundað að lofa vildavinum eða áhrifamönnum lóðum framhjá kerfinu... og stendur ekki til

Jón Ingi Cæsarsson, 30.10.2007 kl. 21:07

5 identicon

Jón Ingi: Það er fínt að fá frá þér skýrari línur í þessi mál þar sem þú ert sjálfur í skipulagsnefnd ef ég skil rétt. En varðandi íþróttavallarmálið þá gat ég ekki skilið betur í fjölmiðlum en að Jóhannes teldi að sér hefði verið lofað þessu (eða eigum við að segja nánast lofað). En þar sem þessi þráláti orðrómur er á kreiki um aðkomu Kristjáns að því máli finnst mér einfaldlega hreinlegra að hann tjái sig um málið þó að hann sé í annarri stöðu í dag. Og svo vona ég svo sannarlega að stjórnkerfið sé með þeim hætti í heimabænum mínum að þar fái ekki að þrífast spilling í lóðaúthlutunum né öðrum málum.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 21:34

6 identicon

Þetta er fyndin umræða. Að lofa Jóhannesi einhverju er eins og að segja til um íslenskt veður; það ljúga allir nema hann,(það).

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 21:48

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Og ég spyr, Anna það sem þú bloggaðir um, byggingarnar sem eru að rísa þar sem þú býrð og byrja útsýni og fleira.  Hver er ábyrgur á því og af hverju fæ ég alltaf á tilfinninguna að á Íslandi séu ekki nema örfáar landspildur, þegar við höfum ótakmarkað rými. 

Vona að það sé ekki rétt Jónína að það sé verið að lofa vildarvinum hægri vinstri, en hvað veit maður.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.10.2007 kl. 21:52

8 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Sæl .. það er ég og er formaður skipulagsnefndar. Ég sá kynningu þeirra Þyrpingarmanna á hugmyndum um Hagkaupsbúð á síðasta kjörtímabili. Þetta mál hefur ekki verið á dagskrá í skipulagsnefnd og því er þetta fyrst og fremst hugarflug að frumkvæði þeirra sjálfra. Ekki veit ég hvað KJúl hefur sagt eða gert enda skiptir það engu máli og hefur ekkert gildi því hér gilda reglur um svona hluti og allir eiga jafnan rétt að því að sækja um lóðir sem auglýstar eru til úthlutunar. Hér eiga allir að hafa sama rétt og meðan ég er í þessu verður ekki um að ræða neina fyrirgreiðslu bakvið tjöldin eða með óljósum hætti. Þegar svæðið við Hólabraut verður tilbúið og deiliskipulagt 2009 mun það verða auglýst með einhverjum hætti samkvæmt því uppleggi sem starfshópurinn sem nú vinnur að málinu leggur til.

"Leitað verður samkomulags við íþróttafélögin KA og Þór um stuðning bæjarsjóðs við uppbyggingu félagssvæða þeirra með það fyrir augum að taka Akureyrarvöll úr notkun."

Þetta er setning úr meirihlutasamkomulaginu og þessum umræddu samningum lauk núna fyrir nokkrum vikum og þá loksins ljóst að Akureyrarvöllur fer í annað. Ef þetta samkomulag hefið ekki náðst hefði völlurinn sennilega verið þarna áfram.

"Akureyrarvöllur verður tekinn undir íbúðabyggð, útivistarsvæði, verslun og þjónustu í þeim tilgangi að tengja saman núverandi miðbæ og verslunarsvæði á Gleráreyrum"

Þetta er síðan annað ákvæði úr meirihlutasamkomulaginu og þar er mörkuð gróf stefna til að vinna útfrá.. sem sagt blandað svæði sem gegnir veigamiklu hlutverki til að byggja upp heildstæðan miðbæ.

Jón Ingi Cæsarsson, 30.10.2007 kl. 21:54

9 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta er rétt hjá þér Jenný, þessi meirihluti Samfó og íhalds er einstaklega laginn við að klúðra málum. Og þetta er ekki búið. Nú skilst mér á fréttum að það eigi "bara víst" að rífa Hafnarstræti 98, sem húsafriðurnarnefnd vildi friða. Skipulaginu í miðbænum var breytt í vor til þess að hægt væri að rífa húsið. Vonandi verður samt hægt að bjarga því enda yrði það stórslys í miðbænum ef gamla Hótel Akureyri yrði rifið eins og formaður skipulagsnefndar virðist æstur í að gera. Það má svo nefna fleiri klúðurmál eins og Sómatúnsmálið sem er ekki bæjaryfirvöldum til sóma. Og auðvitað það að banna fólki á aldrinum 18-tuttuguogeitthvað að tjalda í bænum. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 30.10.2007 kl. 22:13

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mrekileg þessi niðurrifslöngun hjá íhaldinu Hlynur.  Það er svo sannarlega ekki þeim að þakka að Torfan er nú einn fallegasti hluti miðbæjarins í höfuðborginni.

Já og bannið á tjaldstæðunum var auðvitað mannréttindabrot, þó samúð mín með grátandi sjoppueigendum sé minna en engin.

Takk fyrir útskýringar Jón Ingi.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.10.2007 kl. 22:28

11 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Hlynur fjallar um mál af sanngirni og dregur fram staðreyndir málsins...en hann gleymdi að geta þess að enginn í skipulagsnefnd hefur tekið afstöðu með að halda í húsið Hafnarstræti 98. Vinstri grænir eru að vísu vanhæfir því þeir seldu sinn hluta til niðurrifs og eiga þessi í stað að fá rými í nýja húsinu...ég nefni þetta bara af því ég held að Hlynur hafi gleymt því...og ef Hlynur væri sanngjarn þá mundi hann nefna fjölda mála sem eru stærri og meiri í sniðum en þau sem hann nefnir td ... það er búið að leysa sorpmál svæðisins á 12 mánuðum og marka stefnu til framtíðar í umhverfismálum...vildi líka minna á það því Hlynur er svo mikill Vinstri grænn að hann má ekki gleyma að nefna það  en það er varla að búast við því að menn nái nefinu upp úr dægurþrasinu og sjái mál í víðu samhengi þegar þeir horfa á heiminn um naflann á sjáflum sér

Jón Ingi Cæsarsson, 30.10.2007 kl. 22:30

12 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Aðeins smá gleymska...skipulaginu var ekki breytt í vor Hlynur. Þarna hefur verið í gildi deiliskipulag frá því 1982 þar sem gert er ráð fyrir að þetta hús viki. Þegar er búið að byggja tvö hús samkvæmt þessu skipulagi... Verkalýðshöllina og Pedróhúsið og ef þú nennir að kynna þér málið er nýja húsið sem þarna er alveg í samræmi við þau tvö og fellur að því skipulagi sem þarna átti að koma...stígur með austur - vesturstefnu frá Hafnarstræti að Skipagötu. Húsið Hafnarstræti 98 er mjög illa farið og að gera það upp kostar milljónatugi og það hefur enginn vilja gera þá áratugi sem það hefur verið þarna í niðurníðslu. En sennilega kaupir Hlynur það bara og gerir upp ef ráðherra friðar því ekki viljum við hafa hús í þessu ástandi í miðbæ Akureyrar...eða hvað ? Hlynur skellir í þetta hundrað millum og fær prik hjá mér því ég hef ekkert á móti húsinu sem slíku heldur því ástandi og vanhirðu sem það hefur verið í síðustu 30 ár.

Jón Ingi Cæsarsson, 30.10.2007 kl. 22:41

13 Smámynd: Hlynur Hallsson

Já, Jón Ingi, hárrétt hjá þær að það er sem betur fer ekki allt sem íhaldið og Samfó hafa gert slæmt, skárra væri það nú! Þú færð til dæmis prik frá mér fyrir að hafa staðið þig ágætlega í sorpmálum og Akureyrarvaka var einnig til fyrirmyndar:)

Og aðeins að Hafnarstræti 98. Húsað var með á öllum tillögum sem fram komu á "Akureyri í öndvegi" og margoft hefur verið bent á að það sem helst ætti að leggja áherslu á í miðbænum er að varðveita gömul og falleg hús og koma þeim í notkun. Eins og Jenný bendir á þá var Torfunni bjargað og flestir sem betur fer ánægðir núna með það. Við höfum svo mörg dæmi um hús sem voru dæmd ónýt af félögum Jóns Inga en eru nú í fullri starfsemi eins og Bögglageymslan þar sem Friðrik V er nú og mörg hús við Hafnarstrætið. Ef ég ætti helling af pening mundi ég glaður leggja hann fram í endurgerð Hafnarstrætis 98 en fæ sennilega ekki prik hjá Jóni Inga því ég á ekki 100 millur. Ég væri hinsvegar til í að leggja það litla sem ég hef fram. Vinstri græn vildu ekki láta rífa húsið en við eigum bara 7% hlut í húsinu (en bærinn ca. 60%) og gátum því ekki staðið gegn yfirgnæfandi meirihluta.

Við Jón Ingi getum svo vonandi verið sammála um að það er ekki gott að hafa hús í vanhirðu í 30 ár og því gætum við breytt, ekki með því að rífa heldur endurbyggja. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 31.10.2007 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband