Leita í fréttum mbl.is

UNDIR DÖNSKU OKI

22

Ég var að fletta í gegnum Öldina okkar, þá gömlu góðu sem spannar tímabilið frá 1801-1860.  Sumt er broslegt annað sorglegt en danska kúgunin er alls staðar ráðandi í lífi hverrar manneskju.  Rosalegir aukvisar vorum við undir danskri stjórn.  Kúguð, niðurlægð og fátæk eins og kirkjurottur.  Það ætti að minna okkur á að standa sjálfstæð í báðar lappir en eiga aðrar þjóðir að vinum á jafnréttisgrundvelli. Ekki hengja okkur á neinn.  Ég rakst á "Auglýsingu" frá Fr. Trampe frá 1809.  Ég dembi henni hér,  með upphaflegri stafsetningu.

"Hans konuglegu hátign hefir þann 9da sept. og 30ta ockt. 1807 þóknast hid streingiligasta ad banna alla höndlun og samblendi við Stóra-bretlands þegna ámeðan strídið vid ena ensku þjód varir.  Sérhvör rétt þeinkiandi skynsamur þegn undir enni dönsku stjórn mætti og finna hve straffsvredt það væri að hafa nockur vinfeingis mök við födurlandsins fiandmenn; einkum vonar mig, ad endurminning þeirra mörgu stóru og ógleymanlegu velgjörda er Danmerkur og Noregs konúngar sífeldt hafa auðsýnt Íslandi muni láta þann þákna vakandi vera hjá sérhvörium Íslendinga.  Ad líkindum mun brádum géfast raun á þessu; því ekert er líklegra en ad eya vor, endur og sinnum medan á strídi þessu stendur, verdi heimsókt af enskum skipum.  Alþýdann áminnist því, í slíkum tilfellum náqvæmlega að taka sér vara fyrir, frá sinni hálfu ad hafa nockurt samblendi vid fólkid á þeim ensku skipum; en ef nockur, móti von minni, brýtur ádurnefnd Konungsins og skynseminnar bodord, gétur hann ecki hjá því komist, að sök verdi höfdud móti hönnum og hann dæmdur frá lífinu.

Ísland Stipst-skrifstofa þann 13. júnii 1809"

Þarna er bara höfuðið af ef einhver býður Englendingum góðan daginn, eða því sem næst.  Þeir kölluðu ekki allt ömmu sína Danirnir á þessum tíma.  Ég las líka um ungan dreng sem settur var í hlekki ævilangt fyrir að stela sér fjórum fiskum til matar.  Það óhugnalega er að það er ekki svo rosalega langt síðan þetta var.

Smá sýnishorn úr íslenskum raunveruleika anno 1809

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það háðulegasta var þó að Íslandssagan hefur ævinlega farið háðulegum orðum um Jörund Hundadagakóng sem á þessum tíma var eina ljósglætan.

Það minnir óneitanlega á þá kjósendur hálfhrundra sjávarplássa sem styðja dyggast flokkana sem rændu þá lífsbjörginni og fara háðulegum orðum um þann eina flokk sem hefur krafist þess að þeim verði færður til baka sá réttur.

Ég held að sá 200 ára þankagangur sem þú undrast svo mjög, lifi enn góðu lífi á Íslandi.

Árni Gunnarsson, 4.5.2007 kl. 23:59

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Jörundur var á undan sinni samtíð og væri nær að stytta af Jörund stæði fyrir framan stjórnarráðið frekar en styttan af Krissa kóng.

Þessi lesning minnir á hrollvekju drauminn, um inngöngu í Evrópusambandið.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.5.2007 kl. 06:35

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þú verður að athuga það Jenný að þegar þjóðir eru í stríði eins og Danir (þar með taldir Íslendingar) við Englendinga þá er eðlilegt að æðsti embættismaður Íslands sendi út auglýsingu um að Íslendingar eigi ekki að aðstoða Englendinga ótilneyddir.

Það er hinsvegar rétt að eftirfarandi klausa er hin hlálegasta

 ,,ad endurminning þeirra mörgu stóru og ógleymanlegu velgjörda er Danmerkur og Noregs konúngar sífeldt hafa auðsýnt Íslandi muni láta þann þákna vakandi vera hjá sérhvörium Íslendinga"

Held að Trampe hefði frekar átt að höfða til þegnskyldunnar en endurminninga fólks um vegjörðir Danakonunga í Íslands garð.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 5.5.2007 kl. 08:44

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jesús minn GR hélstu að ég hefði ekki skilning á því að tilkynning þess efnis yrði sett upp?  Svei mér þá mér líður eins og ég sé 10 ára.   Já þetta er hið hlálegasta og ma þessi klausa sem þú setur inn er hreint unaðsleg.  Takk fyrir innlitið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.5.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband