Leita í fréttum mbl.is

AMMA MEGATÖFFARI

22

Á morgun er fæðingardagur langömmu minnar, Helgu Óladóttur, sem fæddist 22. apríl, 1879 við Reyðarfjörð.  Ég ólst upp hjá þessari ömmu minni og hún er sú kona sem mótað hefur mig hvað mest og ég hef haft að fyrirmynd umfram aðra.  Amma var komin hátt á áttræðisaldur þegar ég kom til hennar og Óla frænda en hann var elsti sonur hennar og þau héldu saman heimili.  Amma var yndisleg kona, hrein og bein, alls ekki allra en þegar börn áttu í hlut var hjarta hennar meyrt og hún var okkur öllum undur góð.  Hún ól upp sín eigin börn, sum barnabörnin bjuggu hjá henni í lengri eða skemmri tíma og svo ég að lokum.

Amma Helga hafði upplifað stórkostlega hluti.  Hún var "live" mannkynssaga.  Hún sá þegar rafmagninu var veitt á Seyðisfjörð,  var með þegar útvarpinu, símanum og öðrum stórkostlegum uppfinningum var hleypt af stokkunum. Hún var á Alþingishátíðinni á Þingvöllum, var heilan dag á leiðinni þangað (var endurtekið með umferðastíflunni miklu 1994) í kerru og var að öllu leyti í hringiðu atburðanna. 

Amma Helga hafði þurft að hafa fyrir lífinu.  Hún var sett til "vandalausra" 9 ára gömul þegar pabbi hennar dó og heimilið var leyst upp.  Hún var ein af þessum fátæku alþýðukonum sem létu ekkert stöðva sig þegar kom að börnunum hennar og hún og afi minn Jón Jónson frá Vogum héldu úti heilli verstöð að Skálum á Langanesi þar sem hún eldaði, þreif, þvoði og gerði allt það sem kona gerði á þessum árum og meira til.

Föðuramma mín Jenny Andea Jónsdóttir (jabb þaðan kemur nafnið) var yngsta dóttir hennar. Amma Helga átti sex börn.  Þau voru öll flott úr garði gerð, flest sjálfmenntuð og spennandi karakterar. Frú Helga var megatöffari.  Hún sagði mér að hún hefði gjarnan viljað vera sjómaður og geta silgt um höfin og séð framandi lönd.  Í staðinn gerði hún aðra tilfallandi hluti fyrir utan að vera með stórt heimili.  Hún lék með leikfélaginu á Seyðisfirði og hún tók á móti börnum þegar þess þurfti og var sálusorgari allra þeirra kvenna sem um sárt áttu að binda.  Hún var verndari allra þeirra sem minna máttu sín og var eðalkrati í hjarta sínu.  

Hún var hvöss, hreinskilin, stundum óþægilega hreinskilin og vei þeim sem hölluðu orði að "skjólstæðingum" hennar.  Hún var kona sem gustaði af. Hún vissi símanúmerið í Glaubæ og í Æskulýðsráðinu þegar ég var farin að stelast þangað og lét pabba hringja og láta kalla mig upp!! Barnið skyldi ekki í sollinn. Við fengum kanasjónvarpið þegar ég var tíu ára og krúttið hún amma sat í stofudyrunum, eins langt frá sjónvarpinu og hún mögulega gat, með sólgleraugu og horfði á elskuna hann "Lárens Velk" og hann "Litla Djó" í Bónansa og var guðdómlega fyndin og bara krútt. Þetta er nú að fá leikhúsið heim í stofu fannst henni.  Hún blótaði ekki fyrir framan börn en notaði "prímotans átjándinn" í staðinn en hún hélt því fram að þetta væri góð og gegn formæling austan af fjörðum.

Þessi kona var þungamiðjan í lífi mínu þar til hún lést 93 ára gömul.  Kærleiksríkari konu hef ég ekki enn rekist á.  Í dag er hún sterk í huga mér.  Hún framkallar bara góða hluti og hún gaf mér yndislega bernsku sem ég bý að enn í dag. Smútsj á þig ömmukrútt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fallegt innlegg.  Hún hefur verið hetja og engill hún amma þín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.4.2007 kl. 11:47

2 Smámynd: Ósk Sigurðardóttir

Skemmtilegur og fallegur pistill hjá þér. Þú hefur verið mjög heppin að kynnast henni ömmu þinni.

Ein sem elskar gamalt fólk ;) 

Ósk Sigurðardóttir, 21.4.2007 kl. 15:49

3 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

 Fallegar minningar um góða konu.

Kristín Katla Árnadóttir, 21.4.2007 kl. 15:54

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Til hamingju með dag langömmu þinnar á morgun. Hún hefur verið yndislegur karakter. Ég þekki það af eigin reynslu að alast upp hjá ömmu og vera svo heppin að hafa í gegnum hana fengið innsýn á hvernig var að alast upp í torfbæ og lifa án rennandi vatns og rafmagns. Þetta er sú kynslóð sem sennilega upplifði róttækustu tækniframfarir sem nokkur kynslóð mun upplifa. Það er okkar að sjá til þess að ekkert gleymist.

Jóna Á. Gísladóttir, 21.4.2007 kl. 16:05

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ég man ágætlega eftir henni Jenný mín. Hún var ótrúlega meðvituð um nútímann, röggsöm  og í minningunni ströng. Til hamingju með ömmu. Hugsa sér hvað hún hefur verið fullorðin þegar hún var að ala þig upp? Komin yfir sjötugt þegar þú fæddist, skildi þetta vera til í dag?

Edda Agnarsdóttir, 21.4.2007 kl. 16:10

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Já ég man Edda hvernig hún lét hehe.  Ömmudúllan.  Takk þið öll.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.4.2007 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 2987256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband