Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Matur og drykkur

KANNTU BRAUÐ AÐ BAKA?

22

Eftir að ég varð svona alvirk amma sem vil gjarnan hafa barnabörnin eins oft og ég mögulega fæ hef ég skilið nauðsyn þess að fara að smella í karakter.  Ég er búin að baka pönnukökur grimmt frá áramótum en móður minni til hrellingar, vissi hún um það, baka ég þær enn eftir uppskrift.  Bakarar með meirapróf eru stórhneykslaðir á þessu og finnst ekkert plebbalegra en að geta ekki sirkað í pönnukökudruslur og notað innsæið á magn og innihald.  Nú Jenny sem er mikið hjá ömmu sinni er búin að fá leið á að paka pönnukökur.  Hún neitaði að taka þátt s.l. sunnudag.  Skildi mig eina eftir við baksturinn.  Ég sá að fjölbreytni er nauðsynleg til að viðhalda áhuga barnsins og ákvað að skutla mér í djúpu laugina.  Pabbi hennar Jenny hann Erik Quick gaf mér sænska uppskrift móður sinnar af kanelsnúðum en sænskar uppskriftir eru ídíótprúf í dl.  Þegar ég var með stelpurnar mínar litlar í Svíþjóð bakaði ég brauð og kanelsnúða.  Lengra hef ég ekki komist í bökunarheiminum.  Tertur og kökur stráfalla af skelfingu reyni ég að baka þær.  Ég hef klúðrað Betty Crocker (get svarið það) gleymdi að bæta í vatninu sem er náttulega bara hégómi og algjör óþarfi en það varð til þess að Betty skítféll.

Nú í dag hélt ég generalprufu á kanelbollubakstri með fullu rennsli, til að vera til í slaginn þegar við Jenny bökum um helgina.

14 dl. hveiti 1..2...3...4...7..8..4..sjitt síminn hringdi.  Hveiti aftur ofan í pokann og byrjað upp á nýtt.  Eins og ég er vel af Guði gerð þá þurfti ég samt að endurtaka þetta þrisvar sinnum áður en ég gat einbeitt mér að talningu.

1 dl. sykur og 1 tsk. salt út í hveitið og þessu blandað saman.  Þetta gekk svona líka glimrandi.  Algjört sökksess.  Jess.

5 dl. mjólk og 150 gr. smjörlíki (brætt) haft ca. 37C°heitt (ekki spyrja mig að því hvernig ég fann út úr hitadæminu það er of flókið) og 1 pakka af geri skutlað út í.  Svo stendur að vekja eigi gerið þegar það sé komið út í vökvann.  Vaknaðu gerfjári, vaknaðu garga ég ofan í skálina.  Síðan geng ég út frá því sem vísu að gerið sé vaknað og klárt í slaginn.  Úje það gengur eftir.

Deigið flott og látið hefast í 40 mín. kanelsnúðar gerðir og aftur látið hefast í 15 mín.  Snúðar bakaðir.  Þeir eru flottastir og bragðgóðir með afbrigðum.

Niðurstaða: Generalprufa ásættanleg.  Frumsýning á kanelbollubakstri verður haldinn með Jenny Unu Errriksdótturrr sem hægri hönd bakara um næst komandi helgi.

029

Adjö mina vännerDevil


MEGAPIRRAÐUR BLOGGARI..

32

...er ég búin að vera í dag. Arg.  Allt er búið að vera í steik á blogginu.  Stundum hefur ekki verið hægt að ná í myndir en það lagast inn á milli.  Það sem hefur verið að ergja mig mest er að ég er búin að missa heila tvo meistaralega skrifaða pistla (hm hógværðin að drepa mig) út í cypertómið því ekki var hægt að vista alveg sama hvernig ég snéri mér og svo allt í einu bara búmm-pang pistlar horfnir.  Þegar ég var að kommenta hjá bloggvinum mínum gat ég það ekki stundum og það sem ég skrifaði hvarf líka út í cyperheiminn.  Ef þið sem lesið þetta hafið lent í svipuðu endilega segið mér það hér á kommentakerfinu.

Úff hvað ég er búin að vera örg!


REYKJAVÍK BRENNUR

Rosalega er þetta sorglegt að horfa á eldinn í miðborginni.  Gömlu húsin sem hafa verið þarna svo lengi sem ég man öll að brenna til kaldra kola.  Ég get ekki horft á eyðilegginguna, þetta verður að hafa sinn gang.  Fyrst var það Nýj-Bíó,  núna Kaffi Ópera, Rosenberg og gamli Haraldur Níelson.  Ég ætla rétt að vona að eldurinn berist ekki í Hressó líka. Úff.. hryllilegur dagur.


NOSTALGIA

22

Sá þessa mynd af Sanasol flösku á einhverri bloggsíðu og fór samstundis aftur á bak í tíma og fór að velta fyrir mér hversu ljúfar minningarnar úr bernsku minni eru.  Þær er hægt að framkalla með bragði og lykt t.d.  Sanasol var mér gefið sem barni vegna þess að lýsi fékkst ekki ofan í mig vegna ættgengar klígjugirni.  Bragðið var af vítamínum og appelsínum og mér fannst það nammi.  Kornflexið, sömu tegundar og ég borða í dag, var unaðsgott.  Haltukjafti brjóstsykurinn rauður með hindberjabragði úje, erfitt að toppa. Þetta var foreldravænt sælgæti þar sem það þaggaði niður í manni í smá stund.  Kúlurnar í fánalitunum (þjóðerniskúlur?) hjá Möggu á horninu bráðnuðu á tungunni.  Magga sem alltaf afgreiddi í peysufötunum og hafði aldrei heyrt minnst á þjónustulund henti í okkur, fussandi og sveiandi því sem við báðum um.  Við krakkarnir höfðum heldur ekki hugmynd um fyrirbrigðið þjónustulund þannig að við héldum Möggu í bisniss.

Lyktin úr Gamla- Tjarnar- og Trípolíbíó er einstök í minningunni.  Hátíðleg, spennandi og ekki eins í neinu þessara bíóa.  Hef aldrei fundið þessa lykt fyrr né síðar.  Lyktin af blóðberginu í móanum bak við hús hjá mömmu og pabba, lyktin af nýslegnu grasi á sumrin og af vínarbrauðsendunum sem við fengum í bakaríi Jóns Símonarsonar, ef við komum nógu snemma, kemur næstum því út á mér tárunum. Rifsberjabragðið, undantekningarlítið stolin ber úr görðum vesturbæjar, ó svo ljúft....´

Kannski væri gaman ef hægt væri að bregða sér til baka í tímann bara í örskotsstund.  Sannreyna ljúfleika minninganna.  Æi nei, best að lifa með fortíðinni, vera í núinu og byggja sér mergjaða framtíð.

SíjúgæsHeart


Í BLÁUM SKUGGA

22

Jæja þá er það komið á hreint.  Jakob Frímann verður í 1. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í Suðurkjördæmi.  Ég á kannski ekki að vera hissa yfir því að Jakob skuli finna sér farveg hjá hægri flokki en það kom mér á óvart að þessi eðalkrati færi yfir til Ómars og co. Mér hefur fundist eins og það væri einhver þingmannsörvænting að hrjá Jakob.  Eins og hann gæti ekki unað sér þar sem hann væri ekki í öruggu sæti.  Auðvitað vilja allir hafa áhrif en það er hægt að hafa þau án þess að sitja á þingi.  Nú stendur Jakob, pólitískt  í bláum skugga Íslandshreyfingar.  Verði honum að góðu.

036

Íslandshreyfingin hefur á sér einhvern kverúlantablæ og ég get ekki alveg sett fingur á hvað það er sem gerir þá að svona ótrúverðugum valkost að mínu mati.  Samt er margt ágætis fólk þarna innan um og saman við.


ZERO LANDSFUNDUR EN FYLGIÐ EYKST

12

Kona hoppar nú bara hæð sína úr gleði.  Ný skoðanakönnun um fylgi flokkanna í Suðurkjördæmi sýnir að VG bæta við sig mestu fylgi frá síðustu kosningum.  VG fengi tvo þingmenn en við fengum engan í síðustu kosningum.

Ég hélt að það kæmi einhver niðursveifla næstu dagana eftir landsfundi Sf og Sjálfstæðisflokks. Það virðist ekki vera fyrir utan þessa skoðanakönnun sem birt var um helgina.  Ég óska sjálfri mér og öðrum kjósendum VG innilega til hamingju og er viss um að við verðum stóru sigurvegararnir í vor.

Jíbbískibbí


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRÁ ÖÐRUM SJÓNARHÓL

22

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur sent út á ensku nú í hálft ár og náð miklu áhorfi í Evrópu, hluta Asíu, Ástralíu og jafnvel í Ísrael.  Það er þó merkilegt að Bandaríkjamenn segja ekki markað fyrir sjónvarpsstöðina þar en forráðamenn stöðvarinnar segja að ástæðan sé af pólitískum orsökum.  Það er gott að það bætist í fjölmiðlaflóruna.  Það er ekki verra að geta séð hlutina frá fleiri en einum sjónarhól.  Flott framtak hjá Al-Jazeera.


mbl.is Mikið áhorf á Al-Jazeera í Evrópu og Asíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FATABRJÁLÆÐI

22

Mig dreymir um fataherbergi.  Án gríns.  Þrátt fyrir að vera algjörlega laus við löngun til að eignast hluti svona almennt, eins og einbýlishús, jeppa, sumarbústað, hús á Spáni, flatskjá, verðbréf  og skartgripi þá er ég haldin þeim "ljóta" galla að vera fatasjúk.  Þetta er fjölskyldusjúkdómur.  Mínar sex systur eru eins.  Við vorum ekki gamlar þegar við fórum að gera út á London.  Þá á ég við að einhverjar okkar fóru til London í vikudvöl eða svo og keyptum og keyptum og keyptum á okkur sjálfar og þær sem heima sátu.  Þrátt fyrir aukinn þroska á flestum sviðum (hm) þá situr þessi löstur eftir og dafnar eins og púkinn á fjósbitanum.  Fataskápurinn er að springa úr ofneyslu.  Þegar ég opna hann hrynja flíkurnar í fangið á mér, nær allar svartar. Jakkar, kjólar, peysur, bolir, skyrtur og pils, allt svart.  Maðurinn minn sér engan mun á fötunum mínum.  Hann sér ekki einu sinni mun á Prada og H&MW00t.

029

Einhver klæðagúrú sagði mér einhvertímann að hver einasta kona væri FATALAUS ætti hún ekki "þann litla svarta" þe svartan kjól sem hægt er að nota við flest fínni tækifæri.  Ég hef tekið manninn bókstaflega og þegar ég fór í gegnum fataskápinn minn um daginn komst ég að raun um að ég á sex brúklega "litla svarta".  tveimur hef ég ekki einu sinni haft tækifæri til að klæðast þar sem félagslífi mínu er viðbrugðið eftir að ég varð alsgáð.  Ég sé mig ekki spranga inn á AA-fundi íklædd sparikjól og háum hælum (hm) ekki þar fyrir að á slíkum samkomum er víðsýnin í hávegum höfð og enginn myndi kippa sér upp við það. 

 Dætur mínar þrjár hafa fengið fatasýkina með móðurmjólkinni.  Sýnu verst haldin er þó Maysan mín, miðbarnið sem býr í London og vinnur fyrir verslanirnar "The Arrogant Cat".  Hún keypti sér íbúð með fataherbergi!!  Það er ekki verið að láta sig dreyma neitt.  Bara framkvæmt.  Sóttin er sem sagt ekki í rénum þarna í heimsborginni og áður en hún flutti út seldi hún gestum og gangandi stóran hluta klæða sinna fyrir góða upphæð.  Hún er búin að endurnýja það allt fyrir lifandis löngu.

Helga mín var að koma frá Boston.  Hún keypti tvennar peysur handa móður sinni.  Hún veit sem er að ekkert gleður móðurhjartað meira en eitt eða tvö fataplögg þegar um veraldlega hluti er að ræða. Saran mín fer ekki út fyrir landsteinana án þess að kaupa eitthvað handa fataóðri móður sinni. Ég tek það fram að dætur mínar eru ferðaglaðar konur!!

  Það er náttúrulega skömm að því að vinstri konan og feministinn sé svona hégómagjörn.  Mytan er að við séum allar mussukerlingar í tréklossum, með svart-hvítt sjónvarp. Hehe.  Það leiðréttist hér með.


BIRTIR UPP UM SÍÐIR

029

Það er yfirlýst stefna þessarar ritsjórnar að vera glöð í sinni þrátt fyrir oft neikvæðar fréttir og aðra óáran sem aftur og aftur skella á höfði þessarar ágætu stjórnar.  Sumir dagar eru erfiðari en aðrir.  Í raun eru flestir dagar góðir en einstaka, bara einstaka dagur má falla sem fyrst í gleymskunnar dá.  Ég vaknaði örg.  Bálill reyndar sem er fremur sjaldgæft í mínu tilfelli.  Nú orðið er ég alltaf svo glöð yfir nýjum degi.  En hvað um það í morgun var ég illa pirruð um leið og ég opnaði augun.  Ég veit enn þá ekki hvers vegna en það sem af er þessum degi hef ég haft allt á hornum mér.  Ég held hins vegar, að ein af ástæðunum sé að ég hékk fram á smátímana í stað þess að fara að sofa á eðlilega snemma.  Ég fór að hugsa um fortíðina, fólk og atburði og varð æst og pirruð.  Það leiddi til þess að ég gat ekki sofnað og var andvaka lengi nætur.  Svo vakna ég svona.  Ég hef hummað fram af mér eðlileg samskipti það sem af er degi, finnst ekki að maður eiga að bjóða upp á skemmtiatriði í formi fýlu og pirrings.  Ég hef legið yfir AA-fræðunum til að reyna að koma mér í jafnvægi.  Þetta er að skila sér svona smátt og smátt.

30

Það er að bresta á með sólskini núna bæði í geðslagi og fyrir utan gluggann minn.  Þvílíkur léttir. Ég er svo fegin að hafa ekki þurft að hringja í Skattinn, Orkuveituna, Ríkisútvarpið og Tryggingastofnun ríkissins.  Mér skilst að þar sé óliðlegasta fólkið í símsvörun.  Hm... ég er heppin kona.

AbanibiabonibaWhistling


ERUM VIÐ RASISTAR?

22

Ekki vinsælt orð rasismi geri ég mér grein fyrir.  Í umræðu almennt er hann yfirleitt klæddur í feguri búning.  Fólk hefur áhyggjur af velferð útlendinga í landinu og enn meiri áhyggjur af því hvort fólk af öðrum og oft framandi uppruna sé að taka vinnu frá innfæddum og síðast en ekki síst er fólk með áhyggjur af menningunni og móðurmáli viðkomandi landsW00t.

Ég verð að segja að þessi skoðanakönnun á "hertum reglum" um landvist útlendinga slær mig verulega illa svo ekki sé nú meira sagt. Rúmlega helmingur þjóðarinnar  eða 56,2% er hlynntur því að settar verði strangari reglur um heimildir útlendinga til að setjast að á Íslandi.  Um 70% þeirra eru kjósendur Framsóknarflokksins.  Í Framsóknarflokknum eru samkvæmt þessu margir, margir rasistar.

029

Ég spyr mig hvað fólk vill herða í sambandi við reglur um útlendinga?  Halda íslendingar að svona stórum hluta að hér séu frjálslyndar reglur í sambandi við flutninga erlends fólks hingað til lands?  Ef svo er þá eru við á villigötum. Við tökum ákaflega lítin þátt í að taka hér á móti flóttamönnum.  Höfum alltaf látið nágranna okkar um þau mál.  Hér má fólk koma til að vinna.  Vill fólk hertari reglur gegn því?  Hvað með verk eins og Kárahnjúka (svei), jarðgangnagerðir og fleiri atvinnugreinar sem tæpast hefðu getað skilað af sér væri ekki fyrir þetta "óæskilega" vinnuafl.  Hvað með allar konurnar sem halda þjónustustofnunum okkar gangandi (spítölum, elliheimilum, skólum ofl.).  Eigum við að herða reglur og hleypa bara hinum Norðurlandabúunum inn í landið og kannski "dashi" af Bretum? Hvernig væri að fólk færi nú að skilgreina upp á nýtt?  Útlendingahatur (ótti) er oft skefjalaus hræðsla þeirra óupplýstu í hverju samfélagi.  Rosalega finnst mér leiðinlegt að við skulum vera svona illa upplýst hér á Íslandi okkur sé fyrirmunað að sjá hið frjóa og skemmtilega við litríkt samfélag sem kippir sér ekki upp við að vera öðru vísi og er óhrætt við fjölbreytileikann.

Yfir helmingur þjóðarinn, takk fyrir, vill hertar reglur.  Eruð þið ekki að djóka í mér?

"If it walkes like a duck, acts like a duck.... it´s probably a duckPinch


mbl.is Meirihluti hlynntur hertum reglum um landvist útlendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2988373

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.