Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

LÁI MUMMA HVER SEM VILL

22

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að erfitt sé að heita nöfnum eins og til dæmis Guðmundur, Jón, Guðrún, Sigríður og þh.  Mummi í Götusmiðjunni hefur heldur betur fengið að finna fyrir því.  Fjáröflun Götusmiðjunnar fyrir jólin fór í vaskinn út af Byrgismálinu.  Menn mega ekki heita Guðmundur og vera vel hærðir án þess að þeim sé líkt við Guðmund í Byrginu.  Mörgum finnst þessi meðferðarmál svo ómerkileg að þeir hafa ekki haft fyrir því að kanna hver er hvað og hvernig staðið er að hinum ólíku meðferðarúrræðum. 

Ég fagna því að Götusmiðjan hafi nú loksins fengið almennilegt og varanlegt húsnæði.  Mummi og hans fólk vinna gott starf með unga fíkniefnaneytendur.  Mummi ætlar að skipta um nafn á Efri-Brú.  Hann vill sem sagt ekki verða "Guðmundur í Byrginu" og lái honum hver sem vill.  Hann ætlar sennilega að skíra Efri-Brú nafni úr Ásatrú.  Nafnið Ásgarður kemur sterklega til greina.

Til hamingju Mummi og Götusmiðjufólk.


mbl.is Efri-Brú fær nýtt nafn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SVONA GERUM VIÐ

22

Ég var að endurraða og þurrka af í bókaskápunum mínum í gærkvöldi.  Ég gekk fram á ýmsar bækur sem ég hafði ekki séð lengi.  Sú merkilegasta var þó lítil og snjáð bók frá árinu 1934 "Bökun í heimahúsum" eftir Helgu Sigurðardóttur sem er höfundur hinnar víðfrægu bókar "Matur og drykkur". Það er bæði fróðlegt og jafnframt sprenghlægilegt að skoða svona gamlar bækur.  Mikið rosalega hafa konur þurft að hafa fyrir lífinu á þessum árum.  Í kaflanum "Ýmsar leiðbeiningar tendur t.d.:

"Margir hyggja, að fyrirhafnarminna og ódýrara sé að kaupa allt brauð í brauðbúðum.  vera má, að áhyggjum og ýmsum öruðleikum sé létt af húsmæðrum á þann hátt.  En ef því verður við komið, er hentugra, kostnaðarminna og skemmtilegra að baka heima, auk þess er heimagert brauð miklu betra, ef bakstur og tilbúingur lánast vel".

Helga kemur með hagnýtar upplýsingar:

"Hveiti: Það er nauðsynlegt hverri húsmóður, að nota gott hveiti.  Mér hefir reynzt amerísk hveiti bezt.  Ekki má geyma hveitið á votum eða rökum stað.... Er það háttur fljótfærinna og óreglusamra húsmæðra, að mæla af handahófi.  En slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra"

Bókin er skrifuð til kvenna sem er auðvitað ekki undarlegt á þessum tíma.  Það er samt óneitanlega broslegt á stundum.  Þetta með fljótfærnu og óreglusömu húsmæðurnar hitti mig beint í solar plexus, ég átti það til að mæla af handahófi og er því ein af þeim sem Helga skrifar um hér í ásökunartón.  Ég gríp niður í ráðleggingar Helgu:

"Að þeyta rjóma: Gæta ber þess, að rjóminn sé kaldur og þykkur.  Er hann látinn í vel þurrt og hreint ílát og þeyttur, þangað til hann er svo þykkur, að hann drjúpi ekki af þeytaranum.  Gæta þarf þess að þeyta hann ekki of mikið, því að þá aðskilst hann og verður að áfum og smöri."

Hér er svo sem ekkert merkilegt og öðruvísi á ferðinni annað en það að Helga hnykkir á með að ítlátið skuli vera vel hreint.  Ég veit ekki hvernig hreinlæti var háttað á þessum tíma en ráðleggingar um hrein ílát, hægri-vinstri eru eins og rauður þráður í gegnum þessa skemmtilegu bók.

Og áfram.  Helga er praktísk húsmóðir.  Hún býr til sitt eigið stöff:

"Lyftiduft: 200 gr. vínsteinsduft (kremor tartan) 100 gr. natron, 15 gr. hartarsalt, 15 gr. hrísmjöl.  Allt er þetta sáldað 5-6 sinnum.  Geymt í glasi með glertappa (ekki í blikkíláti). Ger þetta er ódýrara og betra en það sem keypt er í búðum".

Vei þeirri húsmóður sem sem hefur keypt notað ger úti í búð.  Ég er orðlaus.  Er virkilega hægt að búa til sitt eigið ger? 

Bara svo þið vitið það kæru "húsmæður" hvað við höfum það gott. Árið 1934 þurfti virkilega að hafa fyrir hlutunum.  Helga þessi mæta kona sem hefur bjargað mörgum eldhúsfrömuðinum með bókinni sinni Matur og drykkur ásamt þessari kökubók hér, skrifar í blíðum móðurlegum tón með smá uppeldislegu ívafi.  Hún minnir okkur á þá nauðsynlegu staðreynd að skortur á hreinlæti og galgopaháttur verði ekki liðinn í hinu hefðbundna íslenska eldhúsi.


EIKINN ALLTAF FLOTTASTUR!

22

Mér finnst spjallþátturinn sænski mikið skemmtilegri en Júróvisjón útsendingin.  Þessi fyrsti þáttur í ár var þar engin undantekning.  Eikinn stóð sig vel eins og vanalega í spjallinu og stigagjöfinni.  Myndbandið var flott þrátt fyrir að rauða hárið lýsti með fjarveru sinni.  Svo fékk drengurinn fullt hús stiga.  Ekki dapurt það.  Ég er ekki sérstakur aðdáandi söngvakeppninnar.  Þau lög sem þrælað var í gegn í kvöld voru flest alveg hroðaleg.  Einhverjar melódíur með þjóðlagaívafi viðkomandi lands.  Ég fékk aumingjahroll í 80% tilfella.  Stjarna kvöldsins var norski "kommentarinn" sem fyrir utan að vera hrifin af Íslenska laginu, var að ég held ekki hrifin af neinu öðru lagi.  Vel pirraður náungi en skemmtileg týpa.

23

Nú er að bíða næsta föstudags.  Svona bara til að það sé á hreinu.  Ísland burstar þetta.


HINIR EINU SÖNNU UMBOÐSMENN GUÐS?

22

Mikið rosalega finnst mér það skiljanlegt að prestarnir í Digraneskirkju vilji ekki ferma eitthvað untansafnaðarlið úr tam Fríkirkjunni.  Ég meina, að hin eina sanna trú er í þjóðkirkjunni.  Það vita allir. Aðrir söfnuðir eru að sjálfsögðu ekki Guði þóknanlegir.  Hvernig veit ég það?  Jú prestar þjóðkirkjunnar eru umboðsmenn Guðs á jörðinni.  Þeir hafa marg oft sagt það þó ekki með þessum orðum kannski.  Svo lítilþægir þjónar Guðs.  Núna hafa þeir sent fermingarbarninu sem þeir neituðu að ferma, opibert afsökunarbréf.  Svo stórmannlegt af þeim.

Án gríns.  Afhverju er fólk í þessari ríkisreknu þjóðkirkju?  Það fyrirbrigði er svo ósjarmerandi sem frekast getur verið.  Þjóðkirkjan er svona álíka spennandi og annað opinbert batterí sem er Tollstjóraembættið.  Enginn vill vera þar en þar eru allir skyldugir að vera með.W00t

23 


mbl.is Prestar Digraneskirkju útskýra afstöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AÐ BROSA Í GEGNUM TÁRIN

23

Ég tók þá "upplýstu" ákvörðun að horfa á útsendinguna á Skjá 1 í gærkvöldi frá úrslitakvöldi í "fegurðar"samkeppni um ungfrú Reykjavík.  Ég er á móti fegurðarsamkeppnum.  Ég hef ekki horft á svona sýningu í fjölda ára og ég missti ekki vitið úr hamingju og stolti þegar Hófí og Linda voru valdar ungfrú Heimur hér fyrir margt löngu.  En hvað um það ég horfði sem sagt á "keppnina" í gær og reyndi að gera það með opnum huga. Hvernig hægt er að keppa í fegurð er mér fyrirmunað að sjá eða skilja.

26

Stúlkurnar voru allar fallegar.  Ég get ekki sundurgreint þær og hvað þá munað hver er hvað.  Þær voru dökkhærðar og ljóshærðar.  Ein var rauðhærð.  Eftir greiðslur og meikupp voru þær eins og tvíburar.  Í þetta sinn var ekki reynt að halda á lofti að ekki væri nóg að vera fallegur heldur skipti persónuleikinn miklu máli líka.  Það hlýtur að vera þokkalega erfitt fyrir áhorfendur að dæma persónuleika út frá tískusýningu, baðfatasýningu, ballkjóla- og dansatriði.  Upphafsatriðið var sorglegt.  Stúlkurnar voru með klút fyrir augum (gegnsæan að vísu), í rifnum fötum sem voru af svo skornum skammti (fötin) að þau huldu bara það allra heilagasta.  Ég og húsbandið vorum sammála um að þarna væri klámtískan lifandi komin.  Alla vega bein skírskotun í hana.

Ég er afskaplega stolt af dætrum mínum sem eru hver annari fallegri og yndislegri.  Ég hefði orðið miður mín hefðu þær endað í fegurðarsamkeppni.  Ég ætla ekki út í feminiska hugmyndafræði um fegurðarsamkeppnir.  Ég veit bara að það er svo niðurlægjandi fyrir þessar stúlkur að vera presenteraðar eins og sýningargripir á markaði.  Þetta yfirborðskennda mat á konum (og körlum líka skilst mér) ættu að heyra sögunni til Lætin úti í sal minntu á uppboð á gripasýningu.  Flaut, görg, ýlfur og fíflagangur.´

Ungfrú Reykjavík var að sjálfsögðu gullfalleg stúlka, eins og þær allar reyndar.  Hún fékk ekki grátkast og hélt ró sinni í öllum látunum.  Ég hins vegar sat eftir með tárin í augunum og það var ekki af gleði.


..ÞEGAR BLAÐAMENNIRNIR KOMA!

23

Þegar ég var krakki voru útvarpsleikritin á laugardagskvöldum toppurinn á tilverunni.  Framhaldsleikritin voru mögnuðust.  Ég man eftir leikritinu "Hulin augu" ekki svo mikið eftir efnisþræðinum reyndar, heldur spennunni, óttanum og martröðunum sem ég fékk nánast alltaf í kjölfarið.  Ég klikkaði samt aldrei á þessu leikriti.  Það var svo gaman að vera hræddur.  "Lorna Doon" var líka skemmtilegt framhaldsleikrit sem ekki mátti missa af.  "Kringum jörðina á 80 dögum" var geysispennandi eins og allir vita.

Svo voru það hin hefðbundnu leikrit sem voru alltaf einu sinni í viku.  Þau voru skemmtileg.  Ég man ekki eftir einu einasta leikriti sem mér fannst ekki gaman að.  Sennilega stæðust sum þeirra ekki tímans tönn, það veit ég ekki, en ég naut þeirra allavega.

Eitt leikrit sem ég man ekki eftir en lokaorð þess eru jafn skýr í minni mínu og það sem ég gerði í hádeginu í dag.  Þetta leikrit gekk út á að einhverjir tveir gaurar voru að reyna að meikaða í músik, minnir mig.  Þeir náðu áfanga sínum og leikritið endar á launfyndnustu setningu sem ég hef heyrt bæði fyrr og síðar.  Þessi setning hefur fengið vængi bæði í minni familíu og meðal vinanna.   Gaurarnir sitja þarna sem sagt og eru að fara að halda blaðamannafund.  Þeir eru að kíkja á klukkuna og rabba saman um ekki neitt.  Annar þeirra segir skyndilega.  "Árni það eru tvær mínútur í að pressan komi til að sjá okkur.  Skrepptu út í sjoppu og keyptu vindla.  VIÐ SKULUM VERA REYKJANDI ÞEGAR BLAÐAMENNIRNIR KOMA!"

Tjaldið fellur......


VÍGVÖLLUR Í ÞVOTTAHÚSINU

23

Úff ég er búin á því.  Langar að fara að heiman einhvert þar sem ég get ekki átt á hættu að mæta könguló sem starir á mig hatursaugum.  Muhahahaha!  Ég var í þvottahúsinu áðan, sem er ekki í frásögur færandi undir venjulegum kringumstæðum.  Þarna hugsa ég mikið þegar ég er að sýsla, finnst gott að vera þar í rólegheitunum með sjálfri mér og finnst EKKI leiðinlegt að brjóta saman þvott.  Algjör hugarleikfimi í gangi og góður fílingur.  Nú, þar sem ég stend þarna í kjallaranum (allir gluggar lokaðir) geng ég fram á hlussu könguló sem var bæði stór og loðin.  Hún stóð þarna og glápti á mig með fyrirlitningu.  Ég byrjaði á að hoppa inn í þvottavélina (mynd tekin af hjálparmanni á neðri hæðinniWink) en eftir að hafa dúsað þar í dálítinn tíma vissi ég að þar gat ég ekki hangið símalaus von úr viti.  Ef ég þekki fólkið mitt rétt hefði verið auglýst eftir mér á mánudag eða þriðjudag í fyrsta lagiPinch.

Þar sem ég er að fikra mig út úr þvottavélinni og stari á kvikindið til að vera viss um að ég nái að stökkva ef hún ákveði að ráðast á mig (og þarna er blóðþrýstingurinn kominn upp úr öllu valdi, hjartað í hálsi og ég að niðurlotum komin vegna skelfingar og áfalls) kemur vinur minn af neðri hæðinni gangandi í rólegheitunum. 

Hann: Er ekki allt í lagi góða?

Ég: Neiiiiiii sérðu kvikindið á gólfinu maður.  Lófastór könguló!

Hann: Nei hvaða vitleysa þetta er örlítið kvikindi og gerir engum mein, hvernig getur þú verið hrædd við svona smádýr þú ert sko miklu stærri en hún og sterkari ef út í það er farið. (Hann hnussar fyrirlitlega).

Ég: (hugsa með ískaldri reiði til karlynsins sem alltaf heldur að stærð og styrkur skipti máli).  Hún getur verið eitruð og svo er hún ógeðsleg og það er verst.  Hún étur örugglega fugla.  Dreptana fyrir mig, gerðu það.

Hann: Allt í einu orðinn verndari köngulóarbyggðar í kjallaranum.  Nei ég drep ekki köngulær það veit á hamfarir.

Ég: (hamfarirnar eru nú þegar algjörlega borðliggjandi í mínu tilfelli) HENTU HENNI ÞÁ ÚT GERÐU EITTHVAÐ MAÐUR (nú er ég farin að öskra).

Hann: Bíddu hérna góða ég ætla að ná mér í græjur. 

Hann labbar rólega, mjög rólega af stað og ég hendist inn í þvottavélina til öryggis á meðan.  Eftir þrjá klukkutíma (ca) kemur hann aftur í hægðum sínum með fægiskóflu og pappír og beygir sig niður að kvikindinu sem ekki hefur hreyft sig úr stað allan tímann.

Hann: Þetta er ekki könguló!

Ég: (ekki í stuði fyrir skordýrafyrirlestur) Mér er nákvæmlega sama hvað kvikindið heitir.  Taktu það bara. (ég er farin að gráta af ógeði og hræðslu).

Hann:  Þetta er nú bara rykló úr þurrkaranum, meiriekkisens móðursýkin í þér kona.

Ég laut höfði þar sem ég sat í vélinni.  Ennþá hrædd (er líka hrædd við svona rykrottur). Smeygði mér út og stökk inn hjá mér.  Er enn í sjokki.  Þetta hefði getað verið könguló og hún hefði getað drepið mig eða farið í eyrað á mér.  Þá sæti ég ekki hér.  Ég væri á geðdeildinni. Ég er ekki enn laus við þá tilfinningu að könguló þessi eigi eftir að koma aftanað mér og hefna sín.  Karlinn hefur verið að ljúga þessu með rykrottuna. OMGW00t

21


AF MÉR, KEITH OG MOGGANUM

22Hér erum ég, Keith og Moggaritstjórinn að teygja okkur í stjörnurnar.

Vinkonur mínar og eðalbloggararnir Dúa Dásamlega og Ibba Sig. byrjuðu daginn á að leggja líf mitt í rúst með því að tilkynna mér að einn af pistlunum mínum væri í Mogganum í dag.  Ekki misskilja mig ég hef ekkert á móti því að bloggið mitt sé lesið af sem flestum.  Þeir sem halda því fram að þeir bloggi BARA fyrir sig ættu að skrifa dagbók og hafa hana læsta.  Bloggið er þeirrar náttúru að það slysast inn á það fólk til að lesa.  Nú en hvað um það.  Mér var tilkynnt af þessum vinkonum mínum að fíflapistillinn minn um Keith Richards væri í Mogganum í dag.  Ég sem skrifa um allan fjárann, bæði í gamni og alvöru,  um pólitík og kvenfrelsi, fátækt og innflytjendamál og þessi pistill er valinn til birtingar.  Er ekki í lagi heima hjá fólki?  Mogginn prentar ekki broskarla og í pistlinum stendur "Keith var þá hættur í heróíni og "kominn yfir í kókaín og önnur heilbrigðari efniW00t". Skelfingarkarlinn er ekki með í Mogganum.  Hvað ætli vinir mínir hjá SÁÁ haldi ef þeir lesa Moggann sem ég veit náttúrulega ekkert um.  Kona bara á því að Kókaín sé í heilbrigðu deildinni. Hm...

Myndin af mér er víst ekki til að hrópa húrra fyrir.  Konu er ekki sama um útlitið.  Ég þori ekki að kíkja á Moggann.  Ég panta mér tíma hjá listrænum ljósmyndara sem er með meirapróf á "fótósjopp" strax í dag. Nú verður kona að blogga á hástemmdu nótunum alltaf, láta ekki eins og fíbbbl, hætta notkun broskarla og haga sér eins og verðandi Nóbelsverðlaunahafa sæmirCool.  Í dag mun ég ganga með hauspoka.

22


AÐ ÆTLA AÐ HÆTTA AÐ REYKJA

3443

Ég hef tekið stórvægilega ákvörðun.  Hinn óforskammaði, umhverfispestunarfrömuður og sígarettugötuhornabuxnavasahengilmæna eins og einn kennari hér forðum kallaði okkur unglinga sem vorum að fikta við reykingar ætlar að drepa í þ. 26. apríl n.k. (skráist hér svo ég geti ekki logið mig út úr þessu og frestað aðgerðum um 1 ár).  Ég er búin að reykja í alveg svakalega mörg ár.  Reyktjaldið hefur byrgt mér sýn svo lengi að þessi ósiður er orðinn jafn stór hluti af mér og hendurnar,  sem hamast núna á lyklaborðinu. Einu sinni, aðeins einu sinni hef ég í alvörunni hætt að reykja.  Ég var komin með einhverja stíflu í æð og varð að leggjast inn á spítala.  Ég varð skelfingu lostin og húrraði mér á Reykjalund og drap í.  Ég var sígóedrú í þrjá mánuði og ef ég hefði ekki verið þarna með sjálfri mér og upplifað það hefði ég sagt mig ljúga því.  Húsbandið hætti svo eftir að ég féll og hann tók þetta með annari í 1-1/2 ár meðan ég var á svölunum og púaði mínar sígarettur.

Það var svona álíka frelsistilfinning að hætta að reykja (þó mér hafi heldur betur skrikað fótur) eins og þegar ég fór í meðferð og varð edrú (rosalegar fíknir hjá mér, út um allt baraBlush).  Nú þurfti ég/húsband ekki að hendast út í sjoppu fyrir lokun með tunguna lafandi af mæði eða hósta og hósta stundum þegar illa stóð á.  Húðin breyttist, líðanin lagaðist ótrúlega fljótt.  Ég ofmetnaðist.  Hætti að hlusta á ráðleggingar og hélt að ég myndi aldrei aftur fá mér sígarettu.  Hvílíkur og annar eins hroki.  Það var eins gott að ég tók ekki edrúmennskuna mína með þessu hugarfari.

Þarna á reyklausa tímabilinu þá notaði ég mikið af nikótínlyfjum til að byrja með.  Ég minnkaði þau síðan smátt og smátt en hélt eftir nefúðanum sem gaf svo mikið kikk í byrjun að ég fékk nikótínsjokk og nánast flattist út á vegginn og hárið á mér sagði sig úr lögum við mig, þe stóð sjálft upprétt á hausnum á mér.  Þetta jafnaði sig svo.

Núna ætla ég að fara á nefúðan (hehe).  Það tilkynnist hér með að á afmælisdegi húsbandsins mun ég vera á fyrsta reyklausa deginum í nýja lífinu mínu.  Hverju á ég að hætta næst? Að borða kjöt?  Aldrei í lífinu.

SíjúgæsHeart

 


HÉR MEÐ SEGI ÉG MIG ÚR HÚSFÉLAGINU..

268

..vegna þess að í dag sá ég Stuart littla með henni Jenny minni og þar var Hús-læknirinn í hlutverki pabba Stuarts og Gina Davis í hlutverki móðurinnar.  Gina er annars ekki til umfjöllunar hér.  Hún er bara flott.  Ég missti reyndar smá lyst á Húsa þegar hann keypti sér konu um daginn.  Fannst hann fyrirlitlegur plebbi.  Þetta þýðir ekki að ég muni ekki horfa á karlinn en ég mun gera það hlægjandi, ekki drekka í mig hvert orð sem handritahöfundarnir láta hann gelta yfir samstarfsfólk sitt (hef reyndar sagt áður að Húsi gefi mér enga sexappíl-strauma).  Í dag fór maðurinn yfir strikið.  Hann er svo væminn í myndinni Oggu-Stuart að ég varð græn í framan.Sick Myndin er þar að auki með íslensku tali og það er eins og Húsið hvísli.  Hann er algjörlega skaplaus luðra og geðdeyfa.  Hann er velúrmaður, töffluhetja og artus phlebius orginale.  Ég ráðlegg ykkur vinkonur mínar í Húsfélaginu að skoða ykkar gang.  Við gætum tam stofnað félag um Guðna Ágústsson, bakað fyrir hann vöfflur, mokað úr fjósi og svona hluti sem halda honum frá kosningabaráttunni.  En hann hefur bara verið í tveim þáttum í sjónvarpi nú á s.l. tveim dögum.  Án gamans, voðalegt landbúnaðarfyrirkomulag er þetta á karlinum.

Segi mig hér með úr Hús-félaginu.  Maðurinn er lufsa.  Þið megið eiga hann og Hrönnsla nú eru læknisfræðilegar umræður úr sögunni hjá mér og því reikna ég með að hann geti staðið lengur við hjá þér í staðinn.

SíjúgæsHeart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband