Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: lygasögur

SPEGILLINN TALAR

Mér hefur verið ráðlagt að brosa í spegilinn á morgnanna, jafnvel bjóða mér góðan daginn og svoleiðis, þið skiljið.  Þetta geri ég yfirleitt á hverjum morgni, þ.e. brosi flóttalega til sjálfrar mín, svona frosnu brosi en er alveg í rusli vegna þess að ég er svo full af einhverjum kjánahrolli.

Í morgun vaknaði ég fyrir allar aldir.  Ég fór beint í morgunverkin, þvoði mér í framan og burstaði tennur og dreif mig svo í brosstandið með hálfum huga, eftir að hafa tvítjékkað á svalalæsingunni, útidyrahurðinni og fjórlæst baðherberginu.

Mér brá þegar ég horfði í spegilinn.  Það var ekki af undrun og aðdáun á sjálfri mér þótt ótrúlegt megi virðast.  Spegilmyndin horfði á mig úrillum augun og sagði:

SP: Ekki flott á okkur hárið nú frekar en endranær.  Eitthvað heyrt talað um hárgreiðslustofur?

Ég: HA?

SP: Þetta ástand er nú ekki til að brosa yfir, sérðu gráu hárin hérna fremst, t.d. hér (hönd á spegilmynd beinir frekjufingri að örfínum gráum geislum við topp).  Hvernig eigum vér að brosa þegar ástandið er svona?

Ég: (Enn í áfalli) Haaa?

SP: Vér nennum ekki þessum brosleik fyrr en eftirfarandi ábendingar hafa verið lagaðar:

a) hár klippt

b) hár litað og strípað

c) augabrúnir plokkaðar

d) Lýtaaðgerð framin á augnumgjörð

Þangað til verður beitt dagsektum.

Æmstillsjeiking!

 


ÁHYGGJUM AFLÉTT

1

Ég var að lesa Moggann eins og venjulega og datt niður á meðfylgjandi frétt.  Húsbandið á stórafmæli eftir nokkur ár og ef hann lafir hérna megin grafar á þeim tímapunkti, sem er alls ekki víst þar sem hann er enn í nikótíninu, þá ætla ég að slá upp veislu.  Ég hef að sjálfsögðu verið að plana viðkomandi teiti undanfarin ár, enda þarf ég góðan tíma í svona fyrirkomulag eins og afmæli í fjölskyldunni.  Ég er að hugsa um að halda  veisluna á Kínamúrnum (er í samkomulagsviðræðum við þarlend stjórnvöld um að loka múrfjandanum í þessa fáu daga sem veislan stendur yfir), vera með dýr í útrýmingarhættu á matseðlinum, ekki eitthvað almúgasnakk sem hægt er að kaupa úti í búð, og þjón á mann enda gestirnir ekki margir (eitthvað um 10.000), bara nánustu vinir og kunningjar.  Veislan hefur verið að taka á sig heildarmynd undanfarið, en ég hef alveg verið lens með hvað ég ætti að bjóða upp á í formi skemmtiatriða.  Nú er það vandamál úr sögunni.  Stóns eru í miklu uppáhaldi hér við hirðina en ég hélt að þeir væru dýrir.  Sko villidýrir.  En það er ekki græðginni fyrir að fara hjá hetjunum mínum.  Þeir taka ekki nema 331 milljón fyrir einkagigg.  Ég er búin að leggja skilaboð fyrir Mick Jagger og hið glæsilegasta mannflak, sjálfan Keith og býð nú spennt eftir svari.  Ég vona að þeir séu lausir, part úr kvöldi, dagana 26. 27. 28. 29. apríl 2010.  331 milljón x4, tertubiti í heimilisbókhaldinu.

Nei ekki að ræða það, ykkur er ekki boðið.  Bara nánustu vinum og vandamönnum.

Úje.


mbl.is Fengu 331 milljón fyrir að spila í einkaveislu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MIKIÐ SKELFING ER ÉG FEGIN..

1

..að hér skuli fólk ekki líflátið af dómstóli götunnar.  Bara svona nærri því.

Ætli mannorðsmorð sé hin nútíma aftökuaðferð?

Ég, hugsi-


mbl.is Hundurinn Lúkas á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SUMARLIÐI SLÆR FAST....

2

..á lyklaborð lífsins þegar hann sýður saman stjörnuspá Steingeitarinnar fyrir nýbyrjaðan sólarhring.  Nýyrðasmíðin er þessum bjána stöðugt hugleikinn eins og sjá má hér fyrir neðan:

"Steingeit: Hví að sætta sig við að vera stöðugt hálfóánægður? Ný andleg mynd hressir upp á ástarlífið. Vertu bjartsýnn, ástvinur vill allt fyrir þig gera."

Ég segi það; hví að vera stöðugt hálfóánægður þegar maður getur allt eins verið algjörleg óáægður?  Maður á aldrei að láta bjóða sér hálfvelgjuna í lífinu.  Það er allt eða ekkert.

Sumarliði á von á heimsókn,

Ég í brynju með alvæpni.


ÞEIR, ÞEIR, HVERJIR ERU ÞEIR?

1 
Ég hef eiginlega gefist upp á sumarstarfsmanninum sem skemmtir sér við að gera villur út um allt blað þessa dagana.  Er t.d. hætt að kippa mér upp við þótt hann rugli saman fréttum, gerist sekur um slagvillur og þýði texta eins og örvita maður.  Stjörnuspáin hefur verið mér tilefni til stöðugrar undrunar og gekk svo langt að það leið ekki dagur án þess ég skellti inn færslu um ótrúlega geðveikislega orðaðar (og þýddar spár fyrir steingeitina en ég hafði ekki taugkerfi í að athuga fleiri en mína eigin) spár.  Ég hef enga trú á svona stjörnuspám bara svo það sé á hreinu, les þær mér til gamans.
Núna reynir viðkomandi starfsmaður að draga mig með sér inn í heim paranojunnar.  Sjáið:
"SteingeitSteingeit: Stærsta áskorun lífs þíns er að sannfæra þig um að þú sért sá sem þeir halda að þú sért. Og ef þeir halda það, sagðir þú þeim það einhvern tímann sjálfur."
Ég er að missa það.  OMG hverjir eru þeir?
Muhahahahahahaha

MUNIÐ ÞIÐ EFTIR...

1

..því um daginn, þegar fréttir komu í Mogganum um að rannsóknir hefðu sýnt að elsta barnið væri gáfaðra en þau yngri? Hélt það.

Vildi bara minna á að ég er elst.

Vá hvað ég er æðisleg.

Nananabúbú!

Flokkast undir sjálfsdýrkun.


SKÚBB

1

Ég var í kvöldbíltúr áðan með húsbandinu og keyrði þá fram á Jodie Foster í Aðalstrætinu, ásamt tveimur börnum sínum og eldri konu.  Ég vissi ekki að hún væri hér.  Hví hefur engin sagt mér?  Ég fékk áfall, átti ekki beint von á að sjá eina af mínum uppáhaldsleikonum augliti til auglitis.

Hm... merkileg reynsla.


ÉG HÉLT AÐ ÉG MYNDI DETTA NIÐUR DAUÐ..

1

...þegar nákvæmlega svona krani, eins og á myndinni, féll í vaskinn og brennheitt vatnið sprautaðist um allt.  Mér brá svo að ég var á barmi áfalls og rétt náði að skáskjóta mér frá áður en en ég soðnaði illilega á staðnum,  þar sem ég stóð í sakleysi mínu (alltaf saklaus hún Jenny, bara mismunandi mikið).  Úff, en nú erum við búin að laga kranafjárann, sem tilheyrir nokkuð nýkeyptu fyrirkomulagi í eldhúsinu.

Nú spyr ég; hvern á ég að lögsækja?

Segi svona.  En ég á bágt er það ekki? Það verður að segjast eins og er að ég var ákaflega hætt komin.

Bestu kveðjur úr sveitnni (ofan snjólínu)

Dramadrottningin!


« Fyrri síða

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 2986898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.