Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Horfi á skrásettningu sögunnar í beinni

Einn afdrifaríkasti þingfundur sögunnar er að hefjast klukkan níu eða eftir þrjár mínútur.

Klukkan tíu verður atkvæðagreiðsla.

Ég ætla að sitja þar til yfir líkur yfir sjónvarpinu, sjá, heyra og meðtaka.

Þingfundur hefst með því að formenn flokka flytja stutt ávörp.

Sem þeir hafa auðvitað legið yfir enda mun hvert orð verða í sögubókum framtíðarinnar.

Spennan liggur í því að heyra hvernig lýðskrumarar þingsins greiða atkvæði.

Og þeir sem eiga Icesave með öllum þeim óverra sem á okkur dynur.

Þá á ég við Sjálfstæðisflokk og Framsókn.  Einkabankaflokkana.

Jább, komin með kaffið í hönd.

Nú skal horft á söguna skrásetta.


mbl.is Þingfundur hefst klukkan 9
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrabarn Sjálfstæðisflokks og sá pelsklæddi úr Framsókn

Stundum ætti ég að hafa vit á að lesa ekki blöðin.

Lifa bara sæl í minni heimatilbúnu paradís þar sem ég tel mér trú um að manneskjan sé í eðli sínu alveg þokkalega dísent.

Bandaríkjamenn - þessir mannvinir sem hafa verið með nefið ofan í hvers manns koppi svo lengi sem menn muna voru að sleppa 16 ára ungling úr Guantánamóbúðunum.

Hann var 12 ára - já 12 ára þegar þeir lokuðu hann inni í þessum viðurstyggilegu fangabúðum sem gera öðrum alræmdum fangelsum víða um heim skömm til.

Árið 2002 settu þeir barnið í búðirnar af því að þeir grunuðu hann um að hafa sært tvo bandaríska hermenn og túlk þeirra með því að kasta handsprengju að bíl sem þeir voru í.

Dómaranum þóttu sönnunargögnin geng þessu blessuðu barni ekki dómtæk og lýsti þeirri skoðun sinni að málareksturinn gegn honum væri hneykslanlegur.

Hver ætlar að bæta drengnum upp þessa vist í helvíti s.l. 7 ár?

Það virðist vera allt í lagi að fara með "óvini" Bandaríkjanna eins og kvikfénað og heimurinn horfir framhjá því.

Ef hinn vestræni heimur sem telur sig svo þróaðan í mannréttindamálum hefði beitt þrýstingi strax og þessar fangabúðir voru opnaðar þá hefðu Kanarnir kannski hugsað sig um tvisvar áður en þeir fylltu búrin af fólki, vel flestu blásaklausu af öðru en því að vera af ákveðnu þjóðerni og trú.

Í staðinn þá gengur þessar þjóðir til liðs við hina guðs útvöldu og leyfðu þeim að lenda fangaflugvélum sínum að vild á flugvöllum sínum.

Eins og við Íslendingar sem erum (vorum?) að kafna úr undirlægjuhætti þegar Kaninn er annars vegar.

dóri og davíð

Svo fórum við í stríð með þeim líka en þjóðinni verður víst ekki kennt um það.

Þar voru undrabarn Sjálfstæðisflokksins og Selamaðurinn (með vísan í hans forljótu yfirhöfn)í aðalhlutverki.

Það gerir mig brjálaða að hugsa til þessarar meðferðar á 12 ára barni.

Ofan á allt hitt sem fyrrverandi stjórnvöld í BNA hafa á samviskunni.

Hefur engum dottið í hug að stefna USA fyrir mannréttindadómstólinn?

Búski og félagar eiga svo sannarlega jafn mikið erindi þar á sakmannabekk og þeir sumir sem þegar hafa vermt hann.


mbl.is Unglingi sleppt úr Guantánamóbúðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spörum

Íslendingar hafa sagt sig úr NASCO (Norður-Atlandshafs laxverndunarstofnunni).

Gott.

Ekki að ég hafi ekki tröllatrú á öllu alþjóðlegu samstarfi þjóða en núna er kreppa, við höfum ekki efni á svona fíneríi.

Segjum okkur úr sem flestum grúppum á meðan við vinnum okkur upp úr leðjunni.

Svo má spara allskyns hégóma í opinberum rekstri.

Bílar, bílastyrkir, utanlandsferðir með mökum, Saga klass og fleira slíkt.

Út með það.

Höldum áfram að leggja til samhjálparinnar í fátækum (fátækari) löndum heims.

Þar má ekki skera niður.


mbl.is Íslendingar hætta í NASCO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viskuþurrð og vitflótti

Það þarf svo sem enga rannsókn til að segja okkur að orðstír Íslands sé í frjálsu falli.  Það sér hvert barn.

Ég held að það líði laangur tími þar til íslenska þjóðarsálin getur leyft sér að horfa stolt framan í heiminn.

Ekki að við almenningur höfum eitthvað til saka unnið, síður en svo en bankadólgarnir og stjórnvöld lögðu landið og fólkið undir í græðgi sinni og oflæti.

Svo er það þetta með fólksflóttann.

Spekilekann margumtalaða.

Ég þoli ekki þetta orð "spekileki" þó það megi að sjálfsögðu nota það í rapp og rím.

Speki er ágætt íslenskt orð.

Spekingur er flott.  Ég t.d. er spekingur mikill en það vita bara allt of fáir að því. Mig vantar almannatengil.

Leki er orð sem á ekki upp á mitt pallborð (pallborð?  Hvað er að?).

Það er nefnilega þannig á Íslandi í dag að leki í meiningunni að koma nauðsynlegum upplýsingum út til fólks er farið að fá á sig leiðinda blæ.

Reyndar ættu persónur og lekendur að fá fálkaorðuna þá fyrst yrði hún þó einhvers virði.

Leki stendur líka fyrir að blotna í fæturna í mínum haus.

Vatnsleiki er vondur.

Manni verður kalt og þarf að byrja að ausa.

Hvað get ég gert að því þó orð fái svona merkingar í hausnum á mér?

Nei, ég reyki ekki kannabis, er svona klikkuð á eigin safa.

Hafiði aldrei orðið fyrir því að íbúðin er farin á flot og parketið festist við lappirnar á ykkur þegar þig stígið alsaklaus fram úr rúminu á morgnana?

Ekki?  Þá hafið þið ekki lifað.

Þess vegna vil ég skipta út spekilekanum og nota í staðinn viskuþurrð eða vitflótta.

Út með spekilekann.

Svo er heldur alls ekkert víst að viskubrunnarnir fari úr landi.

Kannski bara hvítflibbaglæpamenn.

Bjartsýn?

Jább, ég heldi nú það börnin mín á galeiðunni.

Og í dag er haustið formlegt á þessari síðu.

Blogga á morgun um frábæru Sveppabókina sem var að koma út.

Allir út að týna.


mbl.is Vörumerkið Ísland stórskaddað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klippa út í pappa takk

Mig vantar ofurmanneskju til að klippa þýðingu fyrirvanna út í pappa fyrir mig.

Hvað þýða þeir á íslensku?

Hvað þýða þeir fyrir skuldastöðu þjóðarbússins.

Hvað skulda barnabörnin mín mikið á mann núna?

Mig vantar að skilja svo ég geti tekið afstöðu fyrir sjálfa mig.

Það er léttir að málið skuli afgreitt úr nefnd.

Kannski að maður nái áttum þegar umræður fara af stað í þinginu eftir helgi.

En eitt er víst að þetta Icesave-mál er jafn leiðinlegt og það er erfitt.

Hvar ætli Björgólfsbandið sé að spila í kvöld?

Monte Carlo?

Frussssssssssssssssss

Annars er mér illt í hárinu.

Eru hárverkir nokkuð einkenni svínaflensu?

Cry me a river.


mbl.is Fagnar víðtækri samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki láta mig éta skóna mína

Nú hefur Jóhanna skrifað grein til varnar Íslendingum. 

Hún birtis um kl. 18,00 á vef Financial Times.

Gott hjá Jóku.

En nú bíð ég eftir að allir gleðigjafar netheima komi og fagni ógurlega.

Þessir sem kvartað hafa yfir að Jóhanna og íslensk stjórnvöld hafi ekki staðið sig í þeim málum.

Sem ég er reyndar alveg sammála um.

Stjórnvöld hafa látið eins og það þyrfti ekki að lyfta litlafingri okkur til varnar hvað þá að kynna málstaðinn.

En ég er samt alveg viss um að nú verður bloggað þannig að undan svíði.

"Betra er seint en aldrei".

"Of seint of seint of seint".

"Of seint í rassinn gripið".

Og áfram og áfram.

Gaman aðessu.

Ég skal snæða alla mína skó ef þetta verður ekki raunin.

En gott að Jóhanna draup niður penna.

Það var alveg kominn tími til.

Ekki láta mig éta skóna mína samt.


mbl.is Jóhanna á vef Financial Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki séns að ég mæti

Ég byrjaði daginn á að baka mér óvinsældir.

Ég ætla að halda því áfram.

Samtökin Indefence hafa boðað til samstöðufundar á Austurvelli klukkan 17 í dag til að leggja áherslu á þá kröfu að gerður verði sanngjarn Icesave-samningur sem þjóðin geti staðið við.

Gott mál svo langt sem það nær.

En og það þarf alltaf að vera þetta EN...

Sjálfstæðisflokkurinn sendi út bréf til flokksmanna með hvatningu um að mæta.

Hafandi fylgst með íhaldinu frá því ég fékk kosningarétt fyrir hryllilega löngu síðan þá fyllist ég samstundis tortryggni þegar þeir hvetja til fundahalda.

Í vetur voru mótmælendur, lýður og skríll og ekki fólkið í landinu eins og frægt er orðið.

Þá létu Sjálfstæðismenn ekki sjá sig, höfðu skömm á skrílnum úti í kuldanum.

Núna vilja þeir mæta á staðinn og fá sem flesta með sér.

Það er nægjanleg ástæða fyrir mig að halda mig fjarri.

Svo eru skemmtiatriðin sem boðuð eru örvæntingarfull tilraun til að fá fólk til að mæta.

Hallærisleg gulrót með tilliti til að þetta er enginn skemmtiatburður heldur gráalvarlegt mál.

Reyndar hafa Sjálfstæðismenn alltaf fengið góða mætingu út á grill (ómæ) og skemmtiatriði.

Nei, íhaldið verður að vera án mín að þessu sinni.

Eins og þeir hafa reyndar ávalt verið.

En þið ykkar sem mætið.  Góða skemmtun, mér skilst það verði mikið um dýrðir.

Úje.


mbl.is Samstöðufundur vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helvítis fokking fokk

Ég vil ekki halda því fram að íslensk stjórnvöld sem sátu hér þegar allt hrundi séu hálfvitar.

Af því ég er vel upp alin og svo er tilhugsunin um að slík hafi mögulega verið raunin algjörlega óbærileg.

En óneitanlega hvarflar það manni aftur og aftur svona í retrospektívi.

Var það kannski kaldastríðsgenið í Sjálfstæðisflokknum sem fékk þá til að segja Njet við Rússana þegar þeir buðu okkur 4 milljarða evra lán í október s.l.?

Geir Haarde alveg: Njet thank you - við erum í Nató og þið eruð vondir menn í Rússkí?

Eða var það afneitun á alvarleika ástandsins?

Eða það sem mér þykir líklegast að íhaldið hafi trúað því og treyst að hinn vestræni heimur kæmi og bjargaði okkur prontó af því við erum svo mikil krútt og eigum Íslendingasögurnar og næturnar eru svo miklu bjartari hér en annars staðar á sumrin?

Hvað skal halda?

Eða er við svo miklu að búast af manni sem lyfti ekki síma til að spyrja um hvers vegna á okkur voru sett hryðjuverkalög?

Þegar við urðum Osama Bin Laden í fjárhagslegu tilliti?

Maður sem segir "Mayby I should have" aðspurður um hvers vegna hann hringdi ekki og tékkaði á málinu?

Meiri spurningarnar í mér.

Er það nema von - ég skil ekki afturenda í þessu rugli öllu saman.

Hvernig læt ég, AGS reddar okkur.

Alveg eins og hann er búinn að gera frá því hann kom að málinu.

Helvítis fokking fokk.

 


mbl.is „Íslendingar vildu ekki lán frá Rússum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramaköst þingmanns

Fyrirgefið en ég loka eyrunum þegar Þór Saari fer á kostum í notkun lýsingarorða.

"Það er verið að leysa þetta mál með hefðbundnum pólitískum ofbeldisaðferðum" segir Þór og á þá við Icesave offkors.

Sko, alveg frá því að þingmaðurinn ráfaði um með trékubbinn úr húsinu á Álftanesi í heilögu dramakasti þá flokkaði heilinn á mér hann undir "lýðskrumarar" og þar verður hann þar til annað kemur í ljós í félagsskap manna eins og Sigmundar Davíðs og fleiri hrópenda. 

Með kubbinn í fanginu setti þingmaðurinn niður sína næstsíðustu kartöflu í mínum garði.

Þegar hann svo snéri frá yfirlýstri stefnu BH varðandi ESB-aðildarviðræður, en hreyfingin lýsti því yfir fyrir kosningar að þjóðin ætti að fá að ákveða sjálf hvort gengið yrði í sambandið, þá fauk hans síðasta kartafla með arfa og öllu.

Þess vegna ímynda ég mér að þegar Þór Saari hrópar um ofbeldi þá eigi hann við að það sé pressa á alþingismönnum vegna Icesave-samningsins. 

Það er ábyggilega rétt.

En þetta stóra mál verður að afgreiða og þá helst af ábyrgð sem nær til samvinnu allra flokka.

Einelti og ofbeldi!

Afsakið á meðan ég treð ávöxtum í eyrun.


mbl.is Hefðbundið pólitískt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af bankadólgum og klækjastjórnmálum

Fátt hefur truflað mig meira undanfarna mánuði en Icesave.

Já, ég veit ekkert sérstaklega frumlegt, allir hugsandi menn og konur eru að ganga í gengum samskonar frústrasjónir.

Ég hef myndað mér skoðun svo oft að ég hef ekki tölu á því lengur.

Þetta gengur ekki svona, þetta gerir mann lasinn.

Samsæriskenningin um að andstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sé eins grimmileg og raun ber vitni sé tilkomin vegna þess að þeir vilja allt til vinna til að sprengja stjórnina og komast að völdum til að fela sannleikann sem nú virðist vera á leiðinni í dagsljósið, eins og rannsóknarnefnd þingsins hefur boðað þann 1. nóvember n.k., er farin að virka trúverðug í mínum huga.

Enginn, hvorki InDefence eða aðrir sem um málið fjalla og vilja fella samningana, hafa komið með raunhæfan valkost.

Engan skotheldan að minnsta kosti.

Icesave eða ekki Icesave er ekki valmöguleiki - við verðum að standa skil á ákveðnum hluta þessa klúðurs.

Ég má ekki til þess hugsa að gömlu spillingarflokkarnir komist aftur til valda.

Ég er hræddari við þann möguleika en en kreppuna og er þá mikið sagt.

Þá myndi Eva Joly fjúka, það er eins víst og það kemur nýr dagur á morgun.

Ég ætla rétt að vona að alþingismenn komi sér niður á þverpólitíska lausn á þessu máli og það sem fyrst.

En að ég trúi upphrópunum og lýðskrumi Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs er af og frá.

Ég gæti gubbað yfir skinheilagheitunum þegar Bjarni talar fjálglega um hagsmuni almennings. 

Fyrirgefið á meðan ég garga mig hása.

En fólk er fljótt að gleyma.

Eins og t.d. því að það voru þessir flokkar sem sérhönnuðu aðstæður fyrir bankadólgana til að ræna íslenska þjóð bæði fjármunum og æru.

Þeir mega ekki koma nálægt stjórn landsins næstu áratugi.

Helst aldrei en ég er ekki ofurbjartsýn svo ég gef mér að þeim verði lóðsað í valdastóla af minnislausum almenningi að einhverjum tíma liðnum.

Fjandinn sjálfur.


mbl.is Boða samstöðufund á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jenný Anna Baldursdóttir
Jenný Anna Baldursdóttir

Bara eins og ég kem fyrir af skepnunni.  Er með róttæka vinstri slagsíðu, með fagurgrænu ívafi ásamt femínískum töktum þegar við á.  Ég bít ekki.  Eða bít ég?  Það fer tvennum sögum af því. 

jennfo.baldursdttir@gmail.com

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 2985719

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband